Eigið fé þeirra sjö stjórnmálaflokka sem hafa skilað inn gildum ársreikningum vegna ársins 2020 jókst um samtals 731,9 milljónir króna frá árslokum 2017 og fram að síðustu áramótum.
Einn stjórnmálaflokkur sem á fulltrúa á þingi, Píratar, á eftir að skila inn gildum ársreikningi fyrir síðasta ár. Eigið fé hans lækkaði um 8,4 milljónir króna milli áranna 2017 og 2019.
Þetta má lesa úr ársreikningum stjórnmálaflokka landsins sem skilað hefur verið inn til Ríkisendurskoðunar nýverið. Þorri tekna flokkanna allra eru framlög úr opinberum sjóðum. Í tilfelli Flokks fólksins komu 98 prósent tekna hans í fyrra úr ríkissjóði eða frá Alþingi, í tilfelli Miðflokksins var hlutfall tekna úr opinberum sjóðum tæplega 94 prósent, hjá Vinstri grænum 92 prósent og rúmlega 91 prósent tekna Viðreisnar komu úr opinberum sjóðum.
Framsóknarflokkurinn sótti 87 prósent tekna sinna á árinu 2020 í opinbera sjóði, Samfylkingin 75 prósent og Sjálfstæðisflokkurinn 66 prósent.
Fengu 286 milljónir króna á ári
Framlög til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði voru hækkuð verulega í byrjun síðasta kjörtímabils. Tillaga sex flokka sem sæti eiga á Alþingi um að hækka framlag ríkisins til stjórnmálaflokka á árinu 2018 um 127 prósent var samþykkt í fjárlögum sem voru afgreidd áður en þingi var slitið í lok desember 2017. Framlög til stjórnmálaflokka á því ári áttu að vera 286 milljónir króna en urðu 648 milljónir króna. Einungis fulltrúar Flokks fólksins og Pírata skrifuðu ekki undir tillöguna.
Hún var sett fram sem sameiginlegt erindi sem bar yfirskriftina „Nauðsynleg hækkun opinberra framlaga til stjórnmálasamtaka“. Í því var farið fram á að framlög til stjórnmálaflokka verði „leiðrétt“.
Til samanburðar má nefna að dómsmálaráðuneytið hefur sagt að kostnaður vegna alþingiskosninganna á síðasta ári [2016] hafi verið rétt tæpar 350 milljónir, og að gera mætti ráð fyrir að hann yrði svipaður í ár [2017]. Stjórnmálasamtök starfa í þágu almannahagsmuna en hafa hvergi nærri bolmagn á við helstu hagsmunasamtök. Flestir flokkar eru reknir með 0-5 starfsmönnum í dag og samtals eru 13 fastráðnir starfsmenn hjá þeim átta flokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi.
Til samanburðar má geta að Samtök atvinnulífsins eru með 30 starfsmenn, Samtök iðnaðarins 16, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi 15, ASÍ með 22 og VR 62 starfsmenn. Í þessu umhverfi er stuðningur við nýsköpun, þróun, sérfræðiþekkingu og alþjóðatengsl enginn inni í stjórnmálasamtökunum; endar ná ekki saman til að sinna grunnþörfum í rekstri stjórnmálaflokka og að uppfylla markmið laganna. Lýðræðið á Íslandi á betra skilið.“
Fá 728 milljónir króna
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að þeir níu stjórnmálaflokkar sem fengu nægjanlegt fylgi í síðustu þingkosningum til að fá úthlutað fjármunum úr ríkissjóði fá samtals 728,2 milljónir króna til að skipta á milli sín á næsta ári.
Um er að ræða þá átta flokka sem eiga fulltrúa á þingi auk Sósíalistaflokks Íslands sem hlaut nægjanlegt fylgi í síðustu kosningum til að hljóta framlag.
Það er sama upphæð og flokkarnir fengu samtals í fyrra og sama upphæð og þeir fengu í ár. Raunar gera áætlanir stjórnvalda ráð fyrir því að hún haldist óbreytt út árið 2024. Haldi það munu stjórnmálaflokkar landsins alls hafa fengið 3.641 milljónir króna úr ríkissjóði á fimm ára tímabili.
Til viðbótar við þær greiðslur er kostnaður vegna starfsmanna þingflokka greiddur af Alþingi.
Flokkum bjargað úr fjárhagslegum vandræðum
Þessi breyting kúventi fjárhagsstöðu stjórnmálaflokkanna. Fimm þeirra voru til að mynda með neikvætt eigið fé í lok árs 2017, þegar ákvörðunin um að margfalda framlagið úr opinberum sjóðum var tekin. Það þýðir að eignir þeirra hrukku ekki fyrir skuldum. Vert er þó að taka fram að tvennar þingkosningar fóru fram á árunum 2016 og 2017 vegna þess að ríkisstjórnir sprungu sökum hneykslismála. Kosningum fylgir umtalsverður viðbótarkostnaður fyrir stjórnmálaflokka og fjárhagsstaða þeirra eftir síðari kosningarnar bar þess merki.
Þannig var eigið fé Framsóknarflokksins, munurinn á eignum og skuldum hans, neikvætt um 58,5 milljónir króna í lok árs 2017. Um síðustu áramót var það enn neikvætt, en einungis um 233 þúsund krónur. Eigið fé flokksins jókst því um 87,5 milljónir króna á þremur árum.
Viðreisn, sem var formlega stofnuð 2016, var með neikvætt eigið fé upp á 8,8 milljónir króna árið 2017 en átti eigið fé upp á 21 milljón króna í lok síðasta árs. Eigið fé flokksins jókst því um 29,8 milljónir króna á tímabilinu.
Eigið fé Vinstri grænna var líka neikvætt í upphafi viðmiðunartímabilsins, alls um 18 milljónir króna. Það var hins vegar jákvætt um 114,7 milljónir króna um síðustu áramót og hafði því aukist 132,7 milljónir króna.
Sjálfstæðisflokkurinn ríkasti flokkur landsins
Miðflokkurinn, sem var stofnaður í aðdraganda kosninganna 2017, var með neikvætt eigið fé upp á 15,9 milljónir króna þegar því ári lauk. Óráðstafað eigið fé hans í lok árs 2020 var hins vegar 125,1 milljón króna og hafði aukist um 141 milljón króna.
Flokkur fólksins náði ekki inn á þing 2016 en fékk samt sem áður nægilega mörg atkvæði til að fá greiðslu úr ríkissjóði. Þegar kosið var aftur ári síðast fékk flokkurinn fjóra menn kjörna, þótt tveir yfirgæfu flokkinn rúmu ári síðar. Í lok árs 2017 var eigið fé Flokks fólksins neikvætt um 5,8 milljónir króna. Um síðustu áramót átti flokkurinn eignir umfram skuldir upp á 93,4 milljónir króna, að öllu leyti handbært fé. Eigið fé Flokks fólksins jókst því um 99,2 milljónir króna á viðmiðunartímabilinu.
Sjálfstæðisflokkurinn er langstærsti flokkur landsins á flestan máta. Hann fær mest fylgi í kosningum, á verðmætustu eignirnar, fær mest í framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum og er með langflesta félaga.
Flokkurinn átti eigið fé upp á 361,4 milljónir króna í lok árs 2017 en það var bókfært 476,2 milljónir króna um síðustu áramót. Eigið fé Sjálfstæðisflokksins hefur því aukist um 114,8 milljónir króna. Sennilega er upplausnarvirði eigna flokksins mun meira en bókfært virði þeirra, þar sem fasteignamat höfuðstöðvanna Valhallar er hærra en bókfært virði hússins. Auk þess hefur flokkurinn áform um að byggja, og selja, 47 íbúðir á lóð Valhallar.
Samfylkingin á einnig nokkrar eignir og eigið fé hennar var 76,6 milljónir króna í lok árs 2017. Það hefur síðan aukist um 126,9 milljónir króna og var 203,5 milljónir króna þegar síðasta ár var á enda runnið.