Saga þessa máls hófst 24. nóvember sl. Þann dag var danska freigátan Esbern Snare á siglingu á Gíneuflóa. Freigátan hafði verið send þangað til að annast gæslu á þessari fjölförnu siglingaleið sem hundruð skipa fara daglega, þar á meðal 30 – 40 sem sigla undir dönskum fána.
Þegar komið var undir kvöld áðurnefndan dag fékk áhöfnin á Esbern Snare veður af því að grunsamlegur bátur væri á ferð ekki langt undan. Þyrla freigátunnar var send á loft og kom fljótlega auga á bátinn. Um borð sáust átta eða níu menn og ýmis konar búnaður sem áhöfn þyrlunnar lýsti sem „verkfærakassa“ sjóræningja, vopn, stiga, kaðla og fleira slíkt. Gegnum talstöð sendi áhöfn þyrlunnar skipun til bátsverja að stansa þegar í stað. Bátsverjar sinntu því engu (síðar kom í ljós að þeir höfðu enga talstöð) og þá skaut þyrluáhöfnin á einn utanborðsmótor bátsins og eyðilagði hann.
Hraðskreiður gúmmíbátur með sérþjálfaða froskmenn innanborðs var þá lagður af stað í áttina að ókunna bátnum. Þegar báturinn frá freigátunni nálgaðist ókunna bátinn kallaði yfirmaður froskmannanna gegnum gjallarhorn. Þegar ekki barst svar var skotið viðvörunarskotum, sem svarað var með skothríð frá ókunna bátnum. Eftir stuttan skotbardaga gáfust mennirnir á ókunna bátnum upp. Þá voru þrír lifandi um borð ásamt fjórum sem fallið höfðu í bardaganum, einn til viðbótar var á sundi í sjónum.
Babb í bátinn
Margar þjóðir hafa gert sérstakt samkomulag við lönd sem liggja að Gíneuflóa um að taka við sínum ríkisborgurum hafi þeir verið handteknir utan lögsögu viðkomandi ríkis á flóanum. Einhverra hluta vegna höfðu dönsk stjórnvöld ekki gert neinn slíkan samning áður en Esben Snare var sendur.
Eftir nokkurra daga japl, jaml og fuður, var ákveðið að Esbern Snare héldi til hafnar í Gana, þar sem slasaði maðurinn færi á sjúkrahús. Yfirvöld í Gana tóku hins vegar skýrt fram í samningum að maðurinn yrði ekki þar í landi til frambúðar, og hinir fangarnir þrír og líkin fjögur yrðu áfram um borð í freigátunni.
Klúður
Danskir þingmenn gagnrýndu varnarmálaráðuneytið fyrir að hafa ekki gengið frá samningum við lönd í nágrenni Gíneuflóa um að taka við mönnum sem hugsanlega yrðu handteknir á hafi úti. Varnarmálaráðuneytið svaraði því til að þetta tiltekna atvik á Gíneuflóa væri óvenjulegt og aldrei hefði staðið til að áhöfnin á Esbern Snare handtæki sjóræningja, eða, eins og í þessu tilviki, menn sem undirbyggju sjórán.
Snúið mál
Í upphafi var ekki vitað af hvaða þjóðerni áttmenningarnir væru. Danskir blaðamenn töldu sig fljótlega vita að þeir væru frá Nígeríu. Sem síðar kom í ljós að var rétt. Sökum þess að milli Nígeríu og Danmerkur var enginn samningur um afhendingu fanga var málið snúið. Danir vildu í lengstu lög forðast að rétta yfir mönnunum í Danmörku og í umfjöllun um málið í fjölmiðlum kom fram að sjóræningjar sem Hollendingar höfðu handtekið og réttað yfir í Hollandi höfðu sótt um hæli þar í landi, og fengið. Hollendingar sitja uppi með þessa menn eins og danskur lögfræðingur komst að orði. Danir kæra sig ekki um að slíkt gerist í Danmörku.
En væri þá ekki einfaldast að senda mennina í land í Nígeríu? Málið er hinsvegar ekki svona einfalt. Dönsk stjórnvöld yrðu, í samræmi við mannréttindasáttmála, fyrst að fá fullvissu fyrir því að fangarnir fengju réttláta málsmeðferð, myndu ekki sæta pyntingum eða yrðu jafnvel teknir af lífi. Danski varnarmálaráðherrann og embættismenn ráðuneytisins klóruðu sér í kollinum dögum og vikum saman en á meðan biðu fangarnir þrír, og líkin fjögur, um borð í Esbern Snare á Gíneuflóa. Fanginn sem misst hafði fótinn dvaldi enn um sinn á sjúkrahúsi í Gana.
Þrír settir um borð í bát
Í liðinni viku dró til tíðinda í málefnum fanganna. Þremenningarnir sem höfðu verið um borð í Esbern Snare voru settir um borð í lítinn bát, sem tilheyrði freigátunni, skammt frá landi, utan lögsögu Nígeríu. Báturinn var búinn litlum utanborðsmótor og nægilegu eldsneyti til að sigla til lands og ennfremur var matur og vatn um borð. Áhöfnin á Esbern Snare fylgdist með bátnum þangað til hann var kominn upp undir land, við ósa Nígerfljóts. Danski dómsmálaráðherrann lagði áherslu á að fallið hefði verið frá ákæru en mennirnir hefðu ekki verið náðaðir. Tilgangurinn með að falla frá ákærunni væri að mennirnir kæmu ekki til Danmerkur.
Einfætti maðurinn til Kaupmannahafnar
Sama dag og Nígeríumennirnir þrír voru settir um borð í bát úti fyrir strönd Nígeríu var félagi þeirra, sá sem missti fótinn, fluttur með flugi til Kaupmannahafnar. Ástæða þess að maðurinn er þangað kominn er sú að hann er illa haldinn eftir fótamissinn, verður að vera á sjúkrahúsi og yfirvöld í Gana neituðu honum um dvöl þar, meðal annars vegna þess að hann er fangi Dana.
Gæsluvarðhaldskrafa
Daginn eftir komuna til Danmerkur var Nígeríumaðurinn leiddur fyrir dómara í Bæjarrétti Kaupmannahafnar. Ákæruvaldið krafðist þess að maðurinn yrði úrskurðaður í gæsluvarðhald meðan réttað verður í máli hans. Verði hann sekur fundinn getur dómurinn hljóðað upp á fimm ára fangelsi hið minnsta en mest allt að lífstíð.
Maðurinn hefur ekki verið nafngreindur en hann er 39 ára og frá Nígeríu. Hann neitaði sök en skýrði í dómsalnum frá atburðarásinni.
Hann sagði jafnframt frá því að níu menn hefðu verið um borð þegar lagt var af stað en níundi maðurinn hefði fallið, eða stokkið, fyrir borð þegar áhöfn þyrlunnar skaut viðvörunarskotum. Við vorum ekki með neina talstöð og heyrðum þess vegna ekkert í áhöfn þyrlunnar en þegar byrjað var að skjóta á bátinn hrópaði einn „þeir ætla að drepa okkur“ og þá svöruðu félagar mínir með skothríð. „Ég kann ekkert með byssu að að fara. Allt gerðist mjög hratt og skömmu síðar var hraðbáturinn frá freigátunni kominn á staðinn og þá var skipst á skotum og báturinn okkar byrjaði að sökkva. Ég stökk fyrir borð en lenti með fótinn í skrúfunni. Ég hrópaði á hjálp og mennirnir frá freigátunni björguðu mér. Svo man ég ekkert fyrr en ég vaknaði um borð í freigátunni og áttaði mig á því að búið var að taka af mér annan fótinn.“
Þegar dómari spurði hvers vegna hann hefði tekið þátt í þessari ferð svaraði maðurinn að hann væri fyrirvinna tveggja barna sinna, 12 og 16 ára, hann hefði enga fasta vinnu og maður yrði að taka því sem byðist eins og hann komst að orði. Börnin tvö dvelja nú hjá móður mannsins í Nígeríu. Þess má geta að hann talaði ensku í dómsalnum.
Verjandinn ósáttur en gæsluvarðhald úrskurðað til 1. febrúar
Birgitte Skjødt, verjandi mannsins, krafðist þess að skjólstæðingur sinn yrði látinn laus. Hann hefði ekki hleypt af skotum og stokkið fyrir borð þegar skothríðin byrjaði. „Félögum hans þremur sem verið hafa fangar um borð í Esbern Snare hefur nú verið sleppt, þetta er klárlega mismunun“ sagði Birgitte Skjødt.
Dómarinn féllst á að málið væri í alla staði mjög óvenjulegt „en okkur hér ber að fylgja dönskum lögum“. Nefndi svo að sú staðreynd að fallið hefur verið frá ákæru á hendur þremur félögum mannsins gæti hugsanlega haft áhrif á framhald málsins. Staðfesti síðan gæsluvarðhaldsúrskurðinn, sem gildir til 1. febrúar næstkomandi.
Loks má nefna að lík þeirra fjögurra manna sem féllu í átökunum við áhöfn Esbern Snare eru enn um borð í freigátunni. Samkvæmt upplýsingum frá danska flotanum hafa ekki verið teknar nánari ákvarðanir um hvað gert verður við líkin.