Ekki hægt að skilja Panamamótmælin nema út af því fordæmi sem búsáhaldamótmælin settu
Íslendingar gátu seint kallast þjóð mótmæla fyrir efnahagshrunið 2008 en eftir það varð heldur betur kúvending í þeim málum hér á landi. Almenningur flykktist á Austurvöll til að mótmæla ástandinu eftir hrunið og síðan þá hafa þúsundir Íslendinga mótmælt við hin ýmsu tækifæri – og hafa sum mótmæli jafnvel ratað í heimsfréttirnar. Kjarninn ræddi við prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands sem rannsakað hefur fyrirbærið mótmæli.
Stóra málið og það sem ég hef áhuga á er í raun og veru hvað gerist á þessum sjaldgæfu krítísku augnablikum þegar margir ákveða á sama tíma að taka þátt í mótmælum. Það er eitthvað við þessi krítísku móment.“
Þetta segir Jón Gunnar Bernburg prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands en hann birti á dögunum grein í tímaritinu European Sociological Review um Panamalekamótmælin sem áttu sér stað þann 4. apríl 2016.
Forsaga mótmælanna er sú að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, sagði af sér sem forsætisráðherra eftir að uppljóstrað var um það í umfjöllun um Panamaskjölin að hann hefði átt félagið Wintris ásamt eiginkonu sinni. Það félag, sem skráð var til heimilis á Bresku Jómfrúareyjunum, var kröfuhafi í bú föllnu íslensku bankanna með kröfur upp á rúmlega 500 milljónir króna og var ekki tilgreint í hagsmunaskráningu Sigmundar Davíðs. Þegar Sigmundur Davíð var spurður um Wintris í sjónvarpsviðtali þann 3. apríl þá sagði hann ósatt um tilurð félagsins og tengsl sín við það.
Mikill mannfjöldi safnaðist saman á Austurvelli daginn eftir til þess að mótmæla en talið er að um 26.000 manns hafi mætt – en þetta eru án efa fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar.
Fólk býst við því að sagan endurtaki sig
Jón Gunnar segir að hann hafi haft mestan áhuga á þessum fyrsta atburði en fólk hélt þó áfram að mótmæla næstu daga og vikur. „Ég hef nefnilega áhuga á því hvernig skyndileg útbreiðsla væntinga um að stór mótmæli myndu eiga sér stað höfðu áhrif á mótmælaþátttöku almennings á þessum tímapunkti. Ef við hugsum um Panamalekann þá sjáum við að það er ýmislegt þegar við horfum á þetta sögulega sem bendir til þess að slíkar væntingar hafi breiðst út snögglega í kjölfar þessa máls.“
Hann útskýrir að almenna hugmyndin sé sú að ef eitthvað gerist sem vekur upp hneykslun yfir málefni sem áður hefur valdið fjöldamótmælum – sem sagt endurtekið hneyksli – þá geti væntingar um mikla mótmælaþátttöku breiðst út. Tvær ástæður eru fyrir því, samkvæmt Jóni Gunnari.
Í fyrsta lagi þá sé fólk skynsamt og hugsi með sér að það sem einu sinni hafi gerst sé líklegt til að gerast aftur. Fólk búist við því að sagan endurtaki sig. Bendir hann á að nokkurn árum áður hafi hrunið átt sér stað og þá hafi hneykslun um forréttindi valdið stórum mótmælum. „Það er svo margt sem minnir á þetta í þessum aðstæðum. Þannig má ætla að fólk viti að sagan endurtaki sig.“
Í öðru lagi telji fólk sem upplifir hneykslun í þessum aðstæðum að margir aðrir upplifi það sama. Fólk sé meðvitað um að aðrir upplifi sömu tilfinningar og hneykslun. „Þess vegna getum við ætlað að þessar aðstæður hafi valdið þessum væntingum. Svo höfum líka hlutlægar vísbendingar, til að mynda var greint frá því í fréttunum þennan dag að yfirvofandi væru þessi mótmæli. Það voru meira að segja fréttir af því að fjölmiðlafólk væri fljúgandi til Íslands hvaðanæva af úr Evrópu til þess að verða vitni að mótmælunum.“
Gögnin sýni einnig að lögreglan hafi farið að undirbúa sig fyrir stór mótmæli um leið og þátturinn var sýndur á RÚV. „Það eru alls konar vísbendingar um þetta.“
Öryggi í fjöldanum
Jón Gunnar útskýrir fyrirbærið mótmæli sem svo að fjöldi fólks sé óánægt með eitthvað tiltekið ástand án þess að eitthvað sérstakt gerist – en svo breytist eitthvað.
„Svo er það þetta sérstaka við ákveðin augnablik og ein kenningin sem ég hef áhuga á hér er sú að svona móment einkennist af því að skyndilega breiðast út væntingar um að margir aðrir ætli að mótmæla. Það er mögulega ein mikilvæg skýring. Það breiðist út þessi vænting að margir aðrir ætli að mótmæla. Það þarf eitthvað sameiginlegt að gerast, það þarf eitthvað að sameina fólk í þessum væntingum.“
Jón Gunnar nefnir þrjár ástæður fyrir því af hverju þetta ætti að skipta máli. Í fyrsta lagi þá hugsi fólk með sér, sérstaklega það sem styður málefnið, að nú geti mótmæli raunverulega haft áhrif. Núna skipti máli að taka þátt. Ef einungis 10 manns ætla að mæta þá skipti engu máli að taka þátt – það hafi engin áhrif.
Í öðru lagi þá hugsi fólk að það sé öryggi í fjöldanum. „Nú get ég mætt og mótmælt án þess að gera mig að fífli. Ég er ekki bara einhver sérvitringur,“ gæti einhver hugsað.
Í þriðja lagi ef einstaklingur heldur að margir ætli að mæta þá myndist félagslegur þrýstingur. Fólk upplifi það sem skyldu sína að mæta, sérstaklega ef þeir nánustu ætla að mæta.
Samspil milli væntinga og stuðnings
Varðandi þennan atburð sem Jón Gunnar rannsakaði sérstaklega, Panamalekamótmælin, þá segir hann það hafa komið í ljós í könnunum að þeir sem væntu þess að mótmælin yrðu stór voru einmitt mest líklegir til að taka þátt. „En það kom líka í ljós að það er samspil á milli væntinga og stuðnings við mótmælin.“
Hann segir að væntingar um stór mótmæli virki einstaklinga til þátttöku sem styðja stór mótmæli en virkji ekki þá sem styðja þau ekki. „Þetta er ekki sjálfvirkt ferli, væntingarnar um að mótmæli verði stór hvetji ekki alla til að mæta heldur aðeins þá sem styðja mótmælin. Að sama skapi kemur í ljós að það að styðja tiltekin mótmæli er ekki nóg til að hvetja fólk til að mæta í þau. Þú verður líka að vænta þess að margir aðrir taki þátt.“
Mikið breyttist fyrir og eftir hrun í mótmælamenningu á Íslandi en eftir búsáhaldabyltinguna var fólk mun áfjáðara í að mótmæla við fleiri tilefni. Hvernig horfir þessi breyting við þér?
Jón Gunnar segir að það sé einmitt ekki hægt að skilja Panamalekamótmælin nema út af því fordæmi sem búsáhaldamótmælin settu. „Þau er þetta fordæmi sem kveikir í þessum væntingum um að stór mótmæli séu að fara að eiga sér stað. Af því að þetta er svipað málefni, spilling og forréttindi ríka fólksins. Það er það sem hvatti fólk bæði í búsáhaldamótmælunum og í Panamalekamótmælunum.“
Allt í sögulegu samhengi
Jón Gunnar hefur einnig rannsakað búsáhaldamótmælin og bendir hann á áhugaverðar andstæður á milli mótmælanna. „Þegar hrunið varð í október 2008 þá tók það töluverðan tíma – margar vikur – fyrir mótmælahreyfingu að byggjast upp. Hún byrjaði með litlum fundum og síðan stækkuðu mótmælin. Þá verða til væntingar um að mótmælaþátttaka sé að verða mikil. Þetta var öðruvísi í Panamalekanum því þá bara einn tveir og bingó: Stærstu mótmæli Íslandssögunnar! Vegna þess að fordæmið var til í menningunni.“
Þannig hafi þróunin verið öfug í þessum tveimur mótmælum. Þau byggðust upp á mörgum vikum í búsáhaldamótmælunum en sprungu strax út í Panamalekanum og dóu svo út. „Þetta er allt í sögulegu samhengi,“ segir hann.
Jón Gunnar segir að fræðunum sé talað um „protest cycles“ eða mótmælahringrásir. „Mótmælaatburðir tengjast og það fer eftir því hvort mótmæli séu upphafið á einhverri tiltekinni hreyfingu eða í miðjunni á einhverju tímabili. Það eru ólík öfl að verki.“
Ef forréttindum og spillingu yrði skyndilega mótmælt á morgun af einhverri ástæðu þá væru þau mótmæli í þessu sama samhengi og Búsáhaldamótmælin og Panamalekamótmælin.
Aðstæður – eins og veður – hafa auðvitað áhrif
Jón Gunnar bendir á að snemma árs 2016 hafi ekki verið hægt að sjá nein merki þess að fólk ætlaði að mótmæla. „Það er svo merkilegt þegar svona gerist. Allt í einu myndast sérstakar aðstæður þar sem fólk er hneykslað yfir málefni og þá geta triggerast ákveðnar væntingar um stór mótmæli.“
En hefur veður engin áhrif á mótmæli?
„Ég held að allt sem við getum kallað aðstæður og tækifæri hafi áhrif. Það fer enginn að mótmæla í blindbyl. Oft þegar maður fer að tala um svona hluti þá er eins og maður sé að gera lítið úr málefninu en þetta er spurning um hvað virkjar þá sem styðja málefnið til að mæta í mótmæli. Vont veður klárlega dregur úr þeim og gott veður eykur líkurnar.“
Hann segir að þeim mun nær mótmælunum sem fólk býr því líklegra sé það til að mæta í þau. „Það er þessi kostnaður sem þarf að leggja til. Ef þú býrð til dæmis í Hafnarfirði þá kostar það tíma, vesen, barnapössun og allt þetta að mæta í mótmæli. Allt öðruvísi en ef þú byggir í 101. Þannig að allir svona þættir skipta máli,“ segir hann að lokum.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars