Mynd: Birgir Þór

Er tími fimm flokka stjórna eða minnihlutastjórna runninn upp?

Á hinum Norðurlöndunum eru átta til tíu flokkar á þingi og hefð er fyrir myndum ríkisstjórna margra flokka eða minnihlutastjórna sem njóta verndar annarra gegn falli. Íslenska flokkakerfið hefur þróast hratt í sömu átt síðastliðinn rúma áratug og nýjasta kosningaspá Kjarnans sýnir að erfitt yrði að mynda ríkisstjórn eftir gömlum hefðum. Eru nýir tímar fram undan í íslenskum stjórnmálum?

Það hvort Flokkur fólksins nái inn manni í komandi kosningum getur ráðið úrslitum um myndun næstu ríkisstjórnar ef styðjast á við hefðir í þeim efnum, samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar.

Fylgi Flokks fólksins mælist 4,7 prósent og því sennilegt að flokkurinn nái inn kjördæmakjörnum manni í einhverju kjördæmi. Ef flokkurinn bætir við sig nokkrum atkvæðum, og fer yfir fimm prósent þröskuldinn, þá fær hann jöfnunarmenn. Og þá, miðað við núverandi stöðu, er ríkisstjórnin fallin. Hún næði einungis 31 þingmanni út úr 47,8 prósent sameiginlegu fylgi sínu.

Ef Flokkur fólksins næði inn einum kjördæmakjörnum þingmanni en engum jöfnunarmanni myndi ríkisstjórnin rétt halda með 32 þingmenn gegn 31. Ef  Flokkur fólksins næði hins vegar ekki inn á þing myndi það þýða að stjórnarflokkarnir fengu 33 þingmenn og hefðu þriggja manna meirihluta. 

Fimm flokka þarf til án Sjálfstæðisflokks

Til að mynda ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks þyrfti alltaf fimm flokka, eða minnihlutastjórn. Þannig væri til að mynda hægt að mynda fimm flokka stjórn frá miðju til vinstri með aðkomu Framsóknarflokks, Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Sósíalistaflokks (53,7 prósent sameiginlegt fylgi), sem hefði 36 þingmenn á móti 27, ef Flokkur fólksins nær ekki inn. Slík stjórn myndi skilja Sjálfstæðisflokk, Miðflokk og Viðreisn, allt flokka sem staðsetja sig hægra megin við þá flokka sem hana myndu mynda, eftir í stjórnarandstöðu. Fordæmi eru fyrir fimm flokka stjórnum á hinum Norðurlöndunum. Sitjandi ríkisstjórn Finnlands samanstendur til að mynda af slíkum fjölda flokka. 

Niðurstöður kosningaspárinnar 6. september 2021

Sá möguleiki væri einnig fyrir hendi að t.d. þrír stærstu flokkarnir innan þessarar blokkar yrðu minnihlutastjórn með 24 þingmenn, en að Píratar og Sósíalistaflokkurinn myndu verja hana falli gegn því að fá tiltekin stefnumál sín í farveg. Eða að Sjálfstæðisflokkur og einn flokkur til myndi minnihlutastjórn, fáist aðrir tveir flokkar til að verja hana falli.

Það er fyrirkomulag sem tíðkast víða á Norðurlöndunum en minnihlutastjórnir eru við stjórnvölinn í Noregi, Svíþjóð og Danmörku sem stendur. Flokkakraðak er ekki nýtt fyrirbæri í stjórnmálum þessa helstu nágrannalanda okkar. Það eru níu flokkar á þingi í Noregi og kannanir benda til þess að sá fjöldi haldist í kosningum þar í landi um næstu helgi. Í Danmörku eru flokkarnir tíu auk þess sem fjórir þingmenn koma frá Færeyjum og Grænlandi. Í Finnlandi eru tíu flokkar á þingi, og tveir þeirra einungis með einn þingmann. Í Svíþjóð eru flokkarnir átta. 

Er kominn tími á minnihlutastjórn?

Engin hefð er þó fyrir því að mynda minnihlutastjórn í kjölfar kosninga hérlendis. Síðasta slíka stjórnin var mynduð í nokkra mánuði snemma árs 2009 þegar Samfylkingin og Vinstri græn mynduðu minnihlutastjórn fram að kosningum sem fóru fram í apríl það ár. Þeir flokkar voru með 27 þingmenn á þeim tíma en Framsóknarflokkurinn varði stjórnina falli með sína sjö þingmenn. 

Auglýsing

Þeir flokkar sem eru í hægra hólfi stjórnmálanna, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Viðreisn og Miðflokkur, geta fræðilega myndað fjögurra flokka ríkisstjórn með í mesta lagi 35 þingmenn. Nái Flokkur fólksins inn færi sá fjöldi þó niður í 33.

Ólíklegt verður að teljast að þessi fjórir flokkar nái saman í ljósi þess að persónuleg samskipti ýmissa forsvarsmanna þeirra eru með þeim hætti að vart er flötur á samstarfi, auk þess sem Viðreisn hefur sett stórar kerfisbreytingar sem Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur eru mótfallnir, efst á kosningastefnu sína. Þar ber helst að nefna breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og gjaldmiðlamál. 

Þróun fylgis framboða í kosningaspánni
Kosningaspáin er unnin í aðdraganda kosninga til Alþingis 2021.
B C D F M P S V Aðrir

Þá er ótalinn sá möguleiki að sitjandi stjórnarflokkar taki einn nýjan flokk með sér í ríkisstjórn. Sá flokkur yrði ekki Samfylking, Píratar eða Sósíalistaflokkur Íslands, enda hafa þeir allir útilokað samstarf með Sjálfstæðisflokknum. Því yrði um Viðreisn (sex þingmenn) eða Miðflokk (fjóra þingmenn) að ræða. Hvort það stærðfræðidæmi myndi ganga upp í raunveruleikanum, þegar máta þyrfti stefnumál flokkanna saman og mynda starfhæfa ríkisstjórn, er svo önnur spurning.

Framsókn hressist en Vinstri græn og Píratar að dala

Litlar breytingar urðu á fylgi flokka milli kosningaspáa. Helst ber að nefna að Framsóknarflokkurinn bætti við sig 0,9 prósentustigum og mælist nú með einu prósentustigi meira fylgi en flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Þá halda Vinstri græn áfram að dala og hafa nú tapað tveimur prósentustigum frá 25. ágúst, og mælast með 11,7 prósent fylgi. Verði það niðurstaðan á komandi kjördegi mun flokkur forsætisráðherra tapa næstum þriðjungi af fylgi sínu milli kosninga. 

Píratar hafa líka verið að missa flugið og eru nú að mælast með 2,2 prósentustigi minna en þeir mældust með um miðjan síðasta mánuð, eða 10,4 prósent. Það er þó enn yfir kjörfylgi Pírata 2017. 

Þótt flokkur Ingu Sæland mælist minnstur á meðal þeirra sem eiga möguleika á að koma manni inn á þing þá getur endanlegt fylgi hans ráðið úrslitum um myndum ríkisstjórna, þrátt fyrir að Flokkur fólksins yrði ekki í þeim ríkisstjórnum.
Mynd: Bára Huld Beck

Stöðugleiki virðist vera kominn í fylgi Sósíalistaflokksins sem hefur verið á svipuðum slóðum í þremur kosningaspám í röð eftir hraða aukningu vikurnar á undan. Miðflokkurinn virðist ekkert vera að ná að hressast og hefur nú ekki mælst með yfir sjö prósent fylgi frá því um miðjan júní. Samfylkingin er við kjörfylgi, Viðreisn rúmum þremur prósentustigum yfir því og Sjálfstæðisflokkurinn um prósentustigi undir því sem sem hann fékk haustið 2017. Sá síðastnefndi er áfram sem áður langstærsti flokkur landsins með 24,3 prósent fylgi.

Auglýsing

Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni eru eftirfarandi:

  • Skoðanakönnun MMR í samstarfi við Morgunblaðið 18 - 24. ágúst (vægi 18,0 prósent)
  • Skoðanakönnun Maskínu í samstarfi við Fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis 13 – 23. ágúst (9,6 prósent)
  • Þjóðarpúls Gallup 16. ágúst-29. ágúst (vægi 35,9 prósent)
  • Skoðanakönnun MMR í samstarfi við Morgunblaðið 24 - 3. september (vægi 36,5 prósent)

Hvað er kosn­inga­spá­in?

Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.

Auglýsing

Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.

Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.

Kosn­­inga­­spálíkan Bald­­urs Héð­ins­­sonar miðar að því að setja upp­­lýs­ing­­arnar sem skoð­ana­kann­­anir veita í sam­hengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­inga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar