Mynd: Úr safni

Erlendir fjárfestar pökkuðu saman og fluttu 115 milljarða úr landi

Fjármagnsflótti hefur verið frá Íslandi síðasta hálfa árið. Þá hafa erlendir fjárfestar sem áttu hér eignir, meðal annars hlutabréf í banka, farið út með 92,6 milljarða króna umfram það sem erlendir fjárfestar hafa fjárfest hér. Frá byrjun árs í fyrra er hrein nýfjárfesting á Íslandi neikvæð um 115 milljarða króna.

Hrein nýfjár­fest­ing á Íslandi á síð­asta ári var nei­kvæð um 57 millj­arða króna. Á fyrstu þremur mán­uðum yfir­stand­andi árs þá var hún nei­kvæð um 58 millj­arða króna. Sam­an­lagt hafa því erlendir fjár­festar farið með 115 millj­arða króna út úr íslensku hag­kerfi á 15 mán­uðum umfram það sem erlendir fjár­festar hafa komið með inn í það. 

Þetta kemur fram í nýju Fjár­mála­stöð­ug­leika­riti Seðla­banka Íslands sem birt var í dag. 

Fjár­magns­flótti erlendra fjár­festa frá Íslandi er skoll­inn á. Og þorri fjár­mun­anna leit­uðu út úr hag­kerf­inu á síð­asta hálfa árinu. Frá októ­ber í fyrra og til loka mars voru hreinar nýfjár­fest­ingar nei­kvæðar um 92,6 millj­arða króna. 

Höft í rúm­lega ára­tug

Á Íslandi voru sett fjár­magns­höft í nóv­em­ber 2008 til að koma í veg fyrir að umfangs­miklar krónu­eign­ir, meðal ann­ars í eigu kröfu­hafa fall­inna banka, væri ekki skipt yfir í aðra gjald­miðla með til­heyr­andi áhrifum á íslensku krón­una. Höftin voru svo losuð að mestu í mars 2017, en ekki að öllu leyti. Enn var til staðar svokölluð bindi­skylda. Sam­­kvæmt henni var erlendum fjár­­­festum gert að festa fimmt­ung af fjár­­­magni sínu hér til lengri tíma, en með því varð Ísland að óálit­­legri kosti fyrir fjár­­­fest­ingar erlendis frá. Bindi­skyldan var svo afnumin í mars 2019.

Auglýsing

Bindi­skyldan kom í veg fyrir að þeir erlendu aðilar sem áttu fjár­fest­ingar hér­lend­is, til dæmis í rík­is­skulda­bréfum eða hluta­bréfum skráðra félaga, seldu þær eignir og færu. Þar var að uppi­stöðu um að ræða fjár­festa sem áttu eignir með rætur í banka­hrun­inu. Um var að ræða til dæmis aflandskrónu­eig­endur eða erlendu sjóð­ina sem áttu kröfur á Kaup­þing og breyttu þeim í hlutafé í Arion banka. 

Inn­byggður hvati var til að halda fjár­fest­ing­unum hér­lendis á meðan að bindi­skyldan var við lýði. Fyrstu tvo mán­uð­ina eftir að hún var afnumin virt­ist sem að þessi breytta staða myndi stuðla að jákvæðri þróun fyrir íslenskt hag­kerfi. Hrein nýfjár­fest­ing erlendra aðila hér­lendis var jákvæð um 25 millj­arða króna. Á öllu árinu 2019 var hún jákvæð um 30 millj­arða króna.

Fjár­magns­flótti brestur á

Á fyrstu fimm mán­uðum árs­ins 2020 var hrein nýfjár­fest­ing erlendra aðila hér­lendis svo nei­kvæð um fimm millj­arða króna. Í lok þess tíma­bils var kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn búinn að herja á Ísland í þrjá mán­uði. Í Fjár­mála­stöð­ug­leika­riti Seðla­bank­ans sem kom út í byrjun júlí í fyrra segir að þessi tala bendi til þess að „engin merki hafa verið um fjár­magns­flótta frá land­inu en frá því að far­sóttin náði útbreiðslu hér á landi hefur hrein skráð nýfjár­fest­ing verið jákvæð um 2 ma.kr.“

Auglýsing

Þessi staða breytt­ist hratt á seinni hluta árs­ins 2020. Og enn hraðar á fyrstu þremur mán­uðum árs­ins 2021. 

Alls flæddu út 52,2 millj­arðar króna í eigu erlendra fjár­festa umfram það sem var nýfjár­fest hér­lendis frá júnílokum og út des­em­ber 2020. Inn­flæðið var 19,3 millj­arðar króna en útflæðið 67,9 millj­arðar króna.

Mest mun­aði um sölu eins skulda­bréfa­sjóðs, Blue Bay Asset Mana­gement, á rík­is­skulda­bréfum sem hann átti, en sjóð­ur­inn átti í upp­hafi árs í fyrra um helm­ing allra rík­is­bréfa í eigu erlendra aðila og los­aði um alla stöð­una á árinu 2020.  Sam­an­lagt skil­aði þessi staða því að hrein nýfjár­fest­ing á Íslandi var nei­kvæð um 57 millj­arða króna alls í fyrra. 

Aflandskrónur lækk­uðu um helm­ing

Þessi þróun hefur haldið áfram í ár. Í Fjár­mála­stöð­ug­leika­riti Seðla­bank­ans sem birt var í dag segir að „hrina fjár­magns­út­flæð­is“ hafi hafi haf­ist í fyrra­haust þegar nokkrir erlendir aðilar sem áttu stórar verð­bréfa­stöður hér­lend­is, tóku að selja auð­selj­an­legar krónu­eignir sínar og síðar meir inn­lend verð­bréf. „Á tíma­bil­inu sept­em­ber 2020 - mars 2021 los­uðu erlendir aðilar um 29 ma.kr. af rík­is­bréf­um, 23 ma.kr. af aflandskrónum (inn­stæðu­bréf CBI 2016 fyrst og fremst) en einnig hluta­bréf fyrir 62 ma.kr. og fluttu and­virðið úr landi. Á sama tíma keyptu líf­eyr­is­sjóðir gjald­eyri fyrir 31 ma.kr., að megn­inu til í sept­em­ber og októ­ber.“

Aflandskrónur lækk­uðu um helm­ing á síð­asta ári, að megn­inu til undir lok árs. Fram að því hafði staða þeirra lítið sem ekk­ert breyst frá því að losað var um bindi­skyld­una vorið 2019.

Alls var hrein nýfjár­fest­ing nei­kvæð um 58 millj­arða króna á fyrstu þremur mán­uðum árs­ins 2021. Útflæðið þar stafar fyrst og fremst af sölu stærstu erlendu eig­enda Arion banka, aðal­lega vog­un­ar­sjóð­anna Taconic Capi­tal Advis­ors og Sculptor Capi­tal Mana­gement, á hlut sínum í bank­an­um. Þeir seldu um þriðj­ungs­hlut sinn í bank­anum á örfáum vikum fyrir um 60 millj­arða króna. 

Lít­ill áhugi erlendis frá á íslenskum hluta­bréfum

Ef bara er horft á áhuga erlendra fjár­festa á skráðum hluta­bréfum þá virð­ist hann ekki vera mik­ill. Frá byrjun árs í fyrra hefur inn­flæði verið 10,3 millj­arðar króna en erlendir fjár­festar á sama tíma selt hluta­bréf fyrir 89 millj­arða króna. 

Þetta ger­ist á sama tíma og íslenski hluta­bréfa­mark­að­ur­inn hefur verið afar líf­leg­ur. Frá því að úrvals­vísi­tala Kaup­hall­ar­innar náði lág­gildi í mars í fyrra hefur hún hækkað um 82 pró­sent. Á fyrstu þremur árum yfir­stand­andi árs hækk­aði hún um 13 pró­sent. Það félag sem hefur leitt hækk­un­ina á árinu 2021 er Arion banka, félagið sem erlendu fjár­fest­arnir hafa verið að selja sig hratt niður í. Bank­inn hefur hækkað um 32 pró­sent á þremur mán­uð­u­m.  

Auglýsing

Ef horft er á eign­ar­hald erlendra aðila í öðrum auð­selj­an­legum eignum (að­al­lega rík­is­bréf og inn­stæð­ur) en hluta­bréfum þá áttu útlend­ingar 237 millj­arða króna í slíkum eignum í lok árs 2019. Umfang þeirra í lok febr­úar var 161 millj­arður króna og því hafa 76 millj­arðar króna seytlað út. 

Í Fjár­mála­stöð­ug­leika­rit­inu segir að í lok mars hafi erlendir aðilar áttu um fjögur pró­sent af heild­ar­út­gáfu rík­is­bréfa, sem sé lágt í sögu­legu til­liti og í erlendum sam­an­burði.

Til að koma í veg fyrir að krónan falli hratt þegar fjár­magns­út­flæði er mikið á skömmum tíma þá kaupir Seðla­bank­inn krónur á móti. Gjald­eyr­is­vara­forði hans var 857 millj­arðar króna í lok mars síð­ast­lið­ins og í rit­inu segir að hann sé „nægj­an­legur miðað við helstu forða­við­mið þrátt fyrir nokk­urt fjár­magns­út­flæði und­an­farin miss­er­i.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar