Erlendir fjárfestar pökkuðu saman og fluttu 115 milljarða úr landi
Fjármagnsflótti hefur verið frá Íslandi síðasta hálfa árið. Þá hafa erlendir fjárfestar sem áttu hér eignir, meðal annars hlutabréf í banka, farið út með 92,6 milljarða króna umfram það sem erlendir fjárfestar hafa fjárfest hér. Frá byrjun árs í fyrra er hrein nýfjárfesting á Íslandi neikvæð um 115 milljarða króna.
Hrein nýfjárfesting á Íslandi á síðasta ári var neikvæð um 57 milljarða króna. Á fyrstu þremur mánuðum yfirstandandi árs þá var hún neikvæð um 58 milljarða króna. Samanlagt hafa því erlendir fjárfestar farið með 115 milljarða króna út úr íslensku hagkerfi á 15 mánuðum umfram það sem erlendir fjárfestar hafa komið með inn í það.
Þetta kemur fram í nýju Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands sem birt var í dag.
Fjármagnsflótti erlendra fjárfesta frá Íslandi er skollinn á. Og þorri fjármunanna leituðu út úr hagkerfinu á síðasta hálfa árinu. Frá október í fyrra og til loka mars voru hreinar nýfjárfestingar neikvæðar um 92,6 milljarða króna.
Höft í rúmlega áratug
Á Íslandi voru sett fjármagnshöft í nóvember 2008 til að koma í veg fyrir að umfangsmiklar krónueignir, meðal annars í eigu kröfuhafa fallinna banka, væri ekki skipt yfir í aðra gjaldmiðla með tilheyrandi áhrifum á íslensku krónuna. Höftin voru svo losuð að mestu í mars 2017, en ekki að öllu leyti. Enn var til staðar svokölluð bindiskylda. Samkvæmt henni var erlendum fjárfestum gert að festa fimmtung af fjármagni sínu hér til lengri tíma, en með því varð Ísland að óálitlegri kosti fyrir fjárfestingar erlendis frá. Bindiskyldan var svo afnumin í mars 2019.
Bindiskyldan kom í veg fyrir að þeir erlendu aðilar sem áttu fjárfestingar hérlendis, til dæmis í ríkisskuldabréfum eða hlutabréfum skráðra félaga, seldu þær eignir og færu. Þar var að uppistöðu um að ræða fjárfesta sem áttu eignir með rætur í bankahruninu. Um var að ræða til dæmis aflandskrónueigendur eða erlendu sjóðina sem áttu kröfur á Kaupþing og breyttu þeim í hlutafé í Arion banka.
Innbyggður hvati var til að halda fjárfestingunum hérlendis á meðan að bindiskyldan var við lýði. Fyrstu tvo mánuðina eftir að hún var afnumin virtist sem að þessi breytta staða myndi stuðla að jákvæðri þróun fyrir íslenskt hagkerfi. Hrein nýfjárfesting erlendra aðila hérlendis var jákvæð um 25 milljarða króna. Á öllu árinu 2019 var hún jákvæð um 30 milljarða króna.
Fjármagnsflótti brestur á
Á fyrstu fimm mánuðum ársins 2020 var hrein nýfjárfesting erlendra aðila hérlendis svo neikvæð um fimm milljarða króna. Í lok þess tímabils var kórónuveirufaraldurinn búinn að herja á Ísland í þrjá mánuði. Í Fjármálastöðugleikariti Seðlabankans sem kom út í byrjun júlí í fyrra segir að þessi tala bendi til þess að „engin merki hafa verið um fjármagnsflótta frá landinu en frá því að farsóttin náði útbreiðslu hér á landi hefur hrein skráð nýfjárfesting verið jákvæð um 2 ma.kr.“
Þessi staða breyttist hratt á seinni hluta ársins 2020. Og enn hraðar á fyrstu þremur mánuðum ársins 2021.
Alls flæddu út 52,2 milljarðar króna í eigu erlendra fjárfesta umfram það sem var nýfjárfest hérlendis frá júnílokum og út desember 2020. Innflæðið var 19,3 milljarðar króna en útflæðið 67,9 milljarðar króna.
Mest munaði um sölu eins skuldabréfasjóðs, Blue Bay Asset Management, á ríkisskuldabréfum sem hann átti, en sjóðurinn átti í upphafi árs í fyrra um helming allra ríkisbréfa í eigu erlendra aðila og losaði um alla stöðuna á árinu 2020. Samanlagt skilaði þessi staða því að hrein nýfjárfesting á Íslandi var neikvæð um 57 milljarða króna alls í fyrra.
Aflandskrónur lækkuðu um helming
Þessi þróun hefur haldið áfram í ár. Í Fjármálastöðugleikariti Seðlabankans sem birt var í dag segir að „hrina fjármagnsútflæðis“ hafi hafi hafist í fyrrahaust þegar nokkrir erlendir aðilar sem áttu stórar verðbréfastöður hérlendis, tóku að selja auðseljanlegar krónueignir sínar og síðar meir innlend verðbréf. „Á tímabilinu september 2020 - mars 2021 losuðu erlendir aðilar um 29 ma.kr. af ríkisbréfum, 23 ma.kr. af aflandskrónum (innstæðubréf CBI 2016 fyrst og fremst) en einnig hlutabréf fyrir 62 ma.kr. og fluttu andvirðið úr landi. Á sama tíma keyptu lífeyrissjóðir gjaldeyri fyrir 31 ma.kr., að megninu til í september og október.“
Aflandskrónur lækkuðu um helming á síðasta ári, að megninu til undir lok árs. Fram að því hafði staða þeirra lítið sem ekkert breyst frá því að losað var um bindiskylduna vorið 2019.
Fréttaskýringaröð Kjarnans um íslensku krónuna
Alls var hrein nýfjárfesting neikvæð um 58 milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2021. Útflæðið þar stafar fyrst og fremst af sölu stærstu erlendu eigenda Arion banka, aðallega vogunarsjóðanna Taconic Capital Advisors og Sculptor Capital Management, á hlut sínum í bankanum. Þeir seldu um þriðjungshlut sinn í bankanum á örfáum vikum fyrir um 60 milljarða króna.
Lítill áhugi erlendis frá á íslenskum hlutabréfum
Ef bara er horft á áhuga erlendra fjárfesta á skráðum hlutabréfum þá virðist hann ekki vera mikill. Frá byrjun árs í fyrra hefur innflæði verið 10,3 milljarðar króna en erlendir fjárfestar á sama tíma selt hlutabréf fyrir 89 milljarða króna.
Þetta gerist á sama tíma og íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur verið afar líflegur. Frá því að úrvalsvísitala Kauphallarinnar náði lággildi í mars í fyrra hefur hún hækkað um 82 prósent. Á fyrstu þremur árum yfirstandandi árs hækkaði hún um 13 prósent. Það félag sem hefur leitt hækkunina á árinu 2021 er Arion banka, félagið sem erlendu fjárfestarnir hafa verið að selja sig hratt niður í. Bankinn hefur hækkað um 32 prósent á þremur mánuðum.
Ef horft er á eignarhald erlendra aðila í öðrum auðseljanlegum eignum (aðallega ríkisbréf og innstæður) en hlutabréfum þá áttu útlendingar 237 milljarða króna í slíkum eignum í lok árs 2019. Umfang þeirra í lok febrúar var 161 milljarður króna og því hafa 76 milljarðar króna seytlað út.
Í Fjármálastöðugleikaritinu segir að í lok mars hafi erlendir aðilar áttu um fjögur prósent af heildarútgáfu ríkisbréfa, sem sé lágt í sögulegu tilliti og í erlendum samanburði.
Til að koma í veg fyrir að krónan falli hratt þegar fjármagnsútflæði er mikið á skömmum tíma þá kaupir Seðlabankinn krónur á móti. Gjaldeyrisvaraforði hans var 857 milljarðar króna í lok mars síðastliðins og í ritinu segir að hann sé „nægjanlegur miðað við helstu forðaviðmið þrátt fyrir nokkurt fjármagnsútflæði undanfarin misseri.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði