Eru stjórnmálaflokkar eitthvað að pæla í fjölmiðlum?
Rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur hríðversnað á síðustu árum, starfsfólki í geiranum hefur fækkað um næstum helming á tveimur árum og fjölmiðlafrelsi á Íslandi fyrir vikið hríðfallið. Kjarninn kannaði hvort, og þá hvað, stjórnmálaflokkar vilja gera vegna þessa ástands.
Blaðamannafélag Íslands (BÍ) sendi í síðustu viku frá sér áskorun til stjórnmálaflokkana um að gera það að stefnumáli sínu að tryggja að á Íslandi fái þrifist frjálsir, sjálfstæðir og óháðir fjölmiðlar.
Auk þess skoraði Blaðamannafélagið á stjórnmálaflokka að hafa í huga samfélagslega ábyrgð sína og mikilvægi fjölmiðla fyrir lýðræðislega umræðu í samfélaginu þegar ákvörðun er tekin um birtingu auglýsinga.
BÍ hvatti stjórnmálaflokka til að setja sér stefnu, sem birt yrði opinberlega, um hlutfall auglýsingafjármagns sem veitt er til erlendra miðla, og jafnframt að birta að kosningum loknum sundurliðun á því hve miklu fjármagni var varið til erlendra miðla annars vegar og íslenskra hins vegar.
BÍ lagði fram alls átta tillögur til eflingar rekstrarumhverfis íslenskra fjölmiðla sem finna má hér.
En hvað er að finna um fjölmiðla í stefnum þeirra tíu flokka sem bjóða fram til Alþingis í öllum kjördæmum í komandi kosningum?
Hnignandi rekstrarumhverfi
Rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur verið mikið í umræðunni árum saman, enda hefur það orðið erfiðara með hverju árinu. Í júní var greint frá því að frá árinu 2013 og fram til síðustu áramót hafi þeim sem starfa á fjölmiðlum fækkað um úr 2.238 í 731. Frá árinu 2018 hefur þeim fækkað um 45 prósent og því er ljóst að þessi þróun hefur ágerst á þessum kjörtímabili.
Eina aðgerðin sem gripið hefur verið til vegna þessa er innleiðing styrkja til einkarekinna fjölmiðla, fyrst sem hluta af kórónuveirufaraldursaðgerðum stjórnvalda í fyrra, og svo með samþykkt laga sem greiða fyrir því að tæplega 400 milljónum króna verði skipt á milli allra einkarekinna fjölmiðla árlega. Um er að ræða endurgreiðslu á hluta af ritstjórnarkostnaði og fer þorri upphæðarinnar, næstum tvær af hverjum þremur krónur, til þriggja stærstu fjölmiðlafyrirtækja landsins.
Mikið var tekist á um þessa styrki á kjörtímabilinu og ekki tókst að lögfesta þá fyrr en á síðustu metrum þess, eftir að upphaflegu frumvarpi hafði verið breytt verulega.
Á meðan að tekist var á um þessa styrki var ekkert annað gert til að styrkja rekstrarumhverfi fjölmiðla. Fyrir vikið hefur Ísland hríðfallið í vísitölu Blaðamanna án landamæra, sem mæla fjölmiðlafrelsi í heiminum. Ísland situr nú í 16. sæti á þeim lista en hin Norðurlöndin, þar sem umtalsvert er stutt við fjölmiðla, raða sér í fjögur efstu sætin.
Þeir sem vilja ekki opinbera styrki til fjölmiðla
Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki ríkisstyrki til fjölmiðla. Í stjórnmálaályktun flokksráðsfundar flokksins frá því í síðasta mánuði kom fram að Sjálfstæðisflokkurinn vilji frekar breyta skattaumhverfi þeirra og takmarka verulega umfang RÚV á markaði. „Umfang RÚV á auglýsingamarkaði og samkeppni við stór erlend tæknifyrirtæki, sem búa við mun hagstæðara skattaumhverfi, hafa haft verulega neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. Takmarka á verulega umfang RÚV og bæta skattaumhverfi fjölmiðla.“
Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn vill að almenningi verði gefinn kostur á að styðja við alla fjölmiðla á skattaskýrslu sinni, sem þýðir að almenningur geti látið fé renna til eins eða fleiri fjölmiðla að eigin ósk. Flokkurinn vill að sama skapi leggja niður það styrkjakerfi við einkarekna fjölmiðla sem hefur verið lögfest. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn er líka með nokkrar aðrar hugmyndir sem eru nokkuð einstakar. Hann vill til að mynda að fríblöð verði látin borga endurvinnslugjald á hvert prentað eintak og að fjölmiðlar í eigu hagsmunatengdra fyrirtækja verði gert að auglýsa tengsl sín sérstaklega við hagsmunatengdar fréttir í sama miðli. „Misnotkun stórfyrirtækja, auðmanna og leppa þeirra í íslenskri fjölmiðlaflóru verður að uppræta. Takmörkun á tjáningarfrelsi má aldrei líðast,“ segir í stefnu flokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 22,5 prósent fylgi í nýjustu kosningaspá Kjarnans en Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn mælist ekki með marktækt fylgi.
Þeir sem vilja að hið opinbera styrki einkarekna fjölmiðla
Ekkert er fjallað um fjölmiðla í kosningastefnuskrá Vinstri grænna en í stefnu flokksins, sem samþykkt var á landsfundi í maí, segir að frjálsir fjölmiðlar séu lýðræðinu nauðsynlegir, þeir veiti aðhald með faglegri og upplýsandi umfjöllun og fréttaflutningi og því beri stjórnvöldum að verja sjálfstæði þeirra og ritstjórnarlegt frelsi. „Fjölmiðlar verða að hafa fjárhagslega burði til að sinna lýðræðishlutverki sínu. Æskilegt er að hið opinbera styðji við starfsemi þeirra án þess að vega að sjálfstæði þeirra með takmörkunum á fjárveitingum, hótunum eða annarri valdbeitingu.“
Vinstri græn vill samhliða tryggja stöðu RÚV sem öflugs fjölmiðils í almannaþágu sem reka eigi fyrir almannafé.
Samfylkingin fjallar sömuleiðis ekkert um fjölmiðla í kosningastefnu sinni en í stefnu flokksins, sem var samþykkt á flokksstjórnarfundi í mars, segir að frjálsir fjölmiðla gegni lykilhlutverki í lýðræðisþjóðfélagi og séu nauðsynleg undirstaða upplýstrar þjóðfélagsumræðu. „Samfylkingin vill tryggja rekstrargrundvöll einkarekinna miðla með ríkisframlögum, gera þeim kleift að starfa óháðir fjármálavaldi og stuðla þannig að heilbrigðara fjölmiðlaumhverfi á Íslandi.“
Flokkurinn vill auk þess standa vörð um sjálfstæði RÚV og „tryggja stofnuninni bolmagn til að upplýsa og veita aðhald án óeðlilegra afskipta valdhafa.“
Viðreisn er á svipuðum slóðum. Flokkurinn fjallar ekkert um fjölmiðla í sinni kosningastefnuskrá. Í landsþingsályktun flokksins frá 28. ágúst er hins vegar sagt:
„Almannaútvarp hefur bæði menningarlegu og lýðræðislegu hlutverki að gegna. Rétt er að huga að samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla og stuðningi hins opinbera, sérstaklega við innlenda dagskrárgerð. Veru RÚV á auglýsingamarkaði þarf að endurskoða með tilliti til stöðu einkarekinna fjölmiðla. Viðreisn telur að erlendir miðlar sem auglýsa á Íslandi, svo sem Facebook og Google, skuli greiða skatta til íslenska ríkisins, til jafns við aðra auglýsingamiðla.“
Þessir þrír flokkar mælast samtals með 36,6 prósent fylgi í nýjustu kosningaspá Kjarnans.
Þeir sem boða ekki styrki en aðrar skýrar aðgerðir
Píratar fjalla nokkuð ítarlega fjölmiðla í kosningastefnuskrá sinni. Þar segir meðal annars að ætli að framkvæma heildarstefnumótun til að styrkja fjölmiðla á Íslandi og auðvelda þeim aðhalds- og eftirlitshlutverk sitt með stjórnvöldum. „Gerð heildstæðrar stefnu er forsenda breytinga í málaflokknum, því bútasaumslausnir síðustu ára hafa hyglað stærri fjölmiðlum. Stefnan mun taka tillit til allra þátta í lagalegu og fjárhagslegu umhverfi fjölmiðla af öllum stærðum.“
Þá vilja Píratar taka RÚV af auglýsingamarkaði til að styrkja tekjuöflunarmöguleika annarra miðla en tryggja ríkismiðlinum þess í stað næg framlög til að standa straum af innlendri dagskrárgerð, öryggishlutverki, menningar- og menntahlutverki og rekstri fréttastofu. „Afnemum nefskattinn sem leggst hlutfallslega þyngst á þau sem minnst hafa og fjármögnum RÚV þess í stað með hefðbundnum sköttum.“
Píratar benda á að stærstu iðnríki heims hafi náð samkomulagi um að skattleggja netrisa, sem taki til sín sífellt meira auglýsingafé á ári hverju. „Ísland á að feta í sömu fótspor og fjármagna þannig stuðning til íslenskra fjölmiðla.“
Sósíalistaflokkurinn hefur þá stefnu að vilja styrkja skoðana- og tjáningarfrelsi. Í því felst að styðja frjálsa fjölmiðla með því að styrkja blaðamenn beint í stað þess að styrkja „ritstjórnir fjölmiðla í eigu auðfólks“.
Flokkurinn vill auka sjálfstæði RÚV og gera fyrirtækið aftur að stofnun. Í því felst að auka völd auka völd starfsfólks og breikka stjórn þess svo fulltrúar almannasamtaka eigi þar sæti. „Breyta Ríkisútvarpinu í þjóðarútvarp, kljúfa það frá flokksræði elítustjórnmálanna.“
Samanlagt fylgi þessara tveggja flokka er 19 prósent í nýjustu kosningaspá Kjarnans.
Þeir sem eru ekki skýrir um hvað þeir vilja
Fjölmiðlamál heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið, þar sem Lilja D. Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, hefur ráðið ríkjum á kjörtímabilinu.
Flokkurinn fjallar ekkert um fjölmiðla í sinni kosningastefnuskrá en í almennri stefnuskrá flokksins segir hins vegar að fjölmiðlar séu mikilvæg upplýsingaveita almennings í lýðræðislegu samfélagi. „Auka þarf gagnsæi um útbreidda fjölmiðla þannig að eignarhald sé skýrt sem og til að koma í veg fyrir samþjöppun. Ríkisútvarpið á að gegna mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi með hlutlægri umfjöllun og standa vörð um ísl. tungu. Á RÚV hvílir rík, lýðræðis- og samfélagsleg skylda og því ber að þjóna öllu landinu. Útvarpsgjaldið verður því að renna óskipt til RÚV.“
Framsókn mælist með 12,7 prósent fylgi í nýjustu kosningaspá Kjarnans.
Þeir sem fjalla ekkert um fjölmiðla í stefnum sínum
Ekkert um fjölmiðla er að finna í stefnuskrá Flokks fólksins. Sömu sögu er að segja um þau stefnuplögg sem Miðflokkurinn hefur birt. Ekkert var fjallað um stöðu fjölmiðla í stjórnmálaályktun landsþings hans sem samþykkt var um miðjan ágúst og það er heldur ekkert um fjölmiðla í grunnstefnu Miðflokksins.
Flokkurinn sendi þó frá sér tilkynningu í desember 2019 þar sem hann lagði meðal annars til það sem hann kallaði „nýja og betri aðferð til að styðja við einkarekna miðla“ með það að markmiði að draga hægt og rólega úr yfirburðastöðu RÚV á fjölmiðlamarkaði. „Tillögurnar eru tvíþættar. Annars vegar ganga þær út á að almenningur fái að velja með hvaða hætti stuðningur skilar sér til einkarekinna fjölmiðla. Hins vegar er horft til þess að styrkja innlenda dagskrárgerð í gegnum samkeppnissjóð sem verður fjármagnaður með auglýsingasölu hjá Ríkisútvarpinu.“
Samanlagt fylgi þessara tveggja flokka mælist ellefu prósent í nýjustu kosningaspá Kjarnans.
Lestu meira um komandi kosningar:
-
5. janúar 2023Ásmundur Einar Daðason staðið sig best allra ráðherra – Bjarni Benediktsson langverst
-
3. janúar 2023Samfylkingin ekki stærri hjá Gallup í tólf ár en Vinstri græn hafa aldrei mælst minni
-
21. desember 202242,1 prósent innflytjenda greiddu atkvæði í síðustu alþingiskosningum
-
26. nóvember 2022Allir formenn stjórnarflokkanna tapað umtalsverðu trausti á kjörtímabilinu
-
21. nóvember 2022Tíð ríkisstjórnarskipti og kórónuveiran hafa stóraukið nýtingu fjáraukalaga
-
19. nóvember 2022Samfylkingin hefur næstum tvöfaldað fylgið og andar ofan í hálsmálið á Sjálfstæðisflokki
-
27. október 2022Guðlaugur Þór horfir til þess að fella Bjarna
-
21. október 2022Kristrún Frostadóttir verður ein í framboði til formanns Samfylkingarinnar
-
20. október 2022Píratar og Samfylkingin hafa samanlagt bætt við sig tíu prósentustigum á kjörtímabilinu
-
16. október 2022Guðmundur Árni býður sig fram til varaformanns en Heiða hættir við framboð