Einungis eitt framboð vill halda flugvellinum í Vatnsmýri
Á flugvöllurinn að víkja fyrir byggð? Styður þitt framboð Borgarlínu eins og áætlanir um hana líta út í dag? Á Reykjavíkurborg að beita sér fyrir því að bílaumferð minnki innan borgarmarkanna? Á að fækka bílastæðum í miðborginni? Svörin við þessum spurningum og fleirum voru kreist fram úr frambjóðendum í borginni á dögunum, á fundi Samtaka um bíllausan lífsstíl.
Þetta er fremur einföld spurning. Viljið þið að í Vatnsmýrinni sé byggð eða viljið þið að í Vatnsmýrinni sé flugvöllur?“ spurði Gísli Marteinn Baldursson fulltrúa framboða sem bjóða fram í Reykjavík á framboðsfundi sem Samtök um bíllausan lífsstíl stóðu fyrir fyrr í mánuðinum.
Allir fulltrúar flokkanna sem voru á fundinum, nema Ómar Már Jónsson oddviti Miðflokksins, sögðu að þau vildu sjá byggð í Vatnsmýrinni fremur en flugvöll. Það voru þó fyrirvarar hjá sumum. „Ef við finnum nýjan stað fyrir hann er frábært að byggja í Vatnsmýrinni,“ sagði Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknarflokksins.
Einungis átta ár eru liðin frá því að Framsóknarflokkurinn bauð fram í Reykjavík undir merkjum Framsóknar og flugvallarvina og í síðustu kosningum var það eitt af helstu stefnumálum flokksins að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýri.
Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins sló einnig fram sama fyrirvaranum. Ef nýr staður verði fundinn fyrir flugvöll ætti að byggja í Vatnsmýrinni.
Níu framboð í pallborði og leiðtogar þess tíunda í salnum
Fulltrúar níu flokka tóku þátt í fundinum, sem fjallaði um það hvað framboðin í borginni vildu gera fyrir fjölbreytilegar samgöngur í Reykjavík. Fulltrúar tíunda framboðsins af þeim alls ellefu sem bjóða fram í borginni, sem heitir Reykjavík, besta borgin, gerðust svo einnig þátttakendur í fundinum með spurningum og athugasemdum úr sal.
Í stafni þess framboðs standa Gunnar H. Gunnarsson og Örn Sigurðsson, en þeir hafa verið meðal helstu talsmanna hjá Samtökum um betri byggð um langt skeið. Þau samtök hafa meðal annars talað fyrir því að flugvöllurinn víki sem allra fyrst úr Vatnsmýri og þar byggist upp þétt borgarbyggð og hafa lengi átalið borgaryfirvöld fyrir að beita sér ekki harðar fyrir því að flugvellinum verði lokað.
Öll nema Kolbrún og Sanna vilja fækka bílastæðum í miðborginni
Á fundinum, sem fram fór á Kex Hostel þann 13. apríl, létu gestir og fundarstjórinn Gísli Marteinn spurningar dynja á frambjóðendunum. Bílastæði í miðborginni komu til tals eftir spurningu úr sal. „Hverjir vilja fækka stæðum í miðborginni?“ spurði fundarstjórinn – og átti þar ekki einungis við bílastæði á yfirborði jarðar heldur heildarfjölda bílastæða í miðborginni.
Hvað ætla flokkarnir í borgarstjórn að gera fyrir fjölbreytilegar samgöngur?Hvað ætla flokkarnir í borgarstjórn að gera fyrir fjölbreytilegar samgöngur?
Posted by Samtök um bíllausan lífsstíl on Wednesday, April 13, 2022
Frambjóðendurnir voru með spjöld með grænum karli og rauðum karli og þýddi grænn karl í þessu tilviki að frambjóðendur vildu fækka stæðum í miðborginni, en rauður að þau vildu það ekki. Grænn karl fór á loft hjá öllum frambjóðendum nema Kolbrúnu Baldursdóttur oddvita Flokk fólksins og Sönnu Magdalenu Mörtudóttur oddvita Sósíalistaflokksins.
„Má sitja hjá?“ spurði Einar Þorsteinsson og uppskar hlátur úr salnum, en sneri svo grænum karli í átt að fundargestum og tók þar með undir með fulltrúum allra fjögurra meirihlutaflokkanna, Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins, sem einnig sögðust vilja fækka bílastæðunum í miðborg Reykjavíkur.
„En viljið þið útvíkka það svæði þar sem er rukkað fyrir stæði?“ spurði Gísli Marteinn næst og þá sneri Einar spjaldinu yfir á rauðan karl og slóst þar með í hópinn með þeim Sönnu og Kolbrúnu. Aðrir fulltrúar flokkanna voru á grænu og því fylgjandi því að borgin bætti við svæðum þar sem bílastæði eru gjaldskyld.
Fulltrúar allra flokka sögðust sömuleiðis sammála um það á fundinum að Reykjavíkurborg ætti að beita sér fyrir því að draga úr bílaumferð í Reykjavík. Og uppskáru lófaklapp úr salnum.
Svo var það Borgarlínan
Nokkur tími fór í að ræða þetta stóra samgönguverkefni sem er hluti af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og felur í sér uppbyggingu sérrýmis undir strætisvagna um höfuðborgarsvæðið. Spurningin sem lögð var fyrir frambjóðendurna var sú hvort þeirra framboð væri „hlynnt Borgarlínu eins og er verið að skipuleggja hana núna?“
Kjarninn tók saman svör frambjóðendanna við þessari spurningu, í þeirri röð sem þau voru sett fram á fundinum.
Kolbrún Baldursdóttir, Flokki fólksins
„Mér þykir leiðinlegt hvað fólk er eitthvað ósátt við þetta verkefni víða sem maður fer um borgina. En við erum flokkur sem hefur aldrei staðið upp og sagt að við viljum ekki Borgarlínu. Það væri ekki mjög skynsamlegt að segja það enda er þetta bara eitthvað sem er framtíðin að sjálfsögðu. [...] Við myndum vilja skoða þetta verkefni og kannski þarf að gera þetta eitthvað öðruvísi.“
Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sósíalistaflokki
„Nei, af því að samkvæmt áætlun á fyrsti leggur að koma 2025 og þetta er kynnt þannig að þetta er lausnin sem við eigum að bíða eftir. Á meðan er ekkert að gerast í Strætómálum, á meðan að það er að grotna niður get ég ekki stutt þessa útfærslu. [...] Til að leysa vandann núna þurfum við áreiðanlegar lausnir núna.“
Hildur Björnsdóttir, Sjálfstæðisflokki
„Við viljum vinna áfram að samgöngusáttmálanum. [...] En mér finnst stundum eins og spurningin „styður þú Borgarlínu eins og hún lítur út núna“ sé svolítið eins og spurningin í Stellu í Orlofi: „Hver á þennan sumarbústað, já eða nei?“ Við vitum ekki enn hver á að reka þetta eða hvað þetta kostar. [...] Við viljum svör við þessum spurningum, við erum aurasálir í Sjálfstæðisflokknum. [...] Við styðjum Borgarlínu, við viljum ekki útvatnaða útgáfu en við viljum vita hver á að reka hana og hvernig. [...] Það er algjörlega klárt að það liggur ekki fyrir hver á að taka reikninginn af rekstri Borgarlínu.“
Um Borgarlínu, eins og hún hefur verið lögð upp í frumdrögum
Einar Þorsteinsson, Framsóknarflokkurinn
„Við erum með Borgarlínu, án fyrirvara. [...] Markmiðið er alveg á hreinu. Við ætlum að klára Borgarlínu og gera hana að besta almenningssamgöngukerfi í heimi. Það er bara frábært markmið og við eigum að vera stolt af því. Í grunninn þurfa samgöngumál ekkert að vera eitthvað flokkspólitískt bitbein. Við þurfum að taka tillit til þarfa borgarbúa. [...] Ég styð Borgarlínuna eins og hún er núna og ég treysti því að þetta ferli og næsta borgarstjórn sem tekur við verkefninu stýri því af ábyrgð þannig að það sé skynsamlega haldið á spilunum.“
Pawel Bartoszek, Viðreisn
„Viðreisn hefur bæði í borgarstjórn og á þingi og í öllum sveitarfélögum kosið með samgöngusáttmála þannig að við styðjum þessa hugmynd um Borgarlínu eins og hún liggur fyrir. Innan þeirra marka má koma með ýmsar útfærslur og ég hef alltaf talað fyrir þeirri útfærslu sem gengur lengst hvað varðar gæði. Ég hef talað fyrir því að Suðurlandsbrautin ætti að verða ein akrein fyrir almenna bílaumferð og ein akrein fyrir Borgarlínu. Ég hef talað fyrir því að Hverfisgatan ætti að verða fyrst og fremst fyrir Borgarlínu og mögulega einhverja staðbundna umferð.“
Dóra Björt Guðjónsdóttir, Pírötum
„Ég styð þessar fyrirætlanir um Borgarlínu að sjálfsögðu en við myndum gjarnan vilja hraða Borgarlínu og svo er rosa mikilvægt að tryggja gæðin alla leið. Skipulagsmálin eru ansi tæknilega í eðli sínu og við höfum beitt okkur fyrir því að það sé allt hannað út frá sem mestum metnaði, bæði hvað varðar Borgarlínu, skipulagið, götumyndina og annað. Við viljum metnaðarfulla og góða Borgarlínu, ef eitthvað er, meiri Borgarlínu hraðar.“
Dagur B. Eggertsson, Samfylkingu
„Ég styð Borgarlínu, já. En mig langar aðeins bara að nefna, því að sumir hafa verið að kalla þetta „Borgarlínu borgarstjóra“ eða „Borgarlínu Dags“. Þó það sé rosalega freistandi fyrir einhvern í pólitík að taka rosa mikið „kredit“ þá vil ég undirstrika að það eru tugir af okkar bestu sérfræðingum sem hafa komið að útfærslunni og við höfum sótt teymi á heimsmælikvarða til að koma að hönnuninni. Þetta er svo mikið lykilverkefni fyrir framtíð borgarinnar að það hefur verið vandað alveg gríðarlega mikið til verka og ég hef sannfærst um það að eftir því sem við höfum kraft og styrk í pólitíkinni [...] til að hafa gæðin í hámarki, þeim mun betra verði verkefnið.“
Ómar Már Jónsson, Miðflokki
„Ég styð bíllausan lífsstíl. Byrjum þar. [...] Mér finnst allt í lagi að staldra aðeins við eftir kosningarnar og fara betur yfir samgöngusáttmálann. [...] Nei.“
Líf Magneudóttir, Vinstri grænum
„Ég styð þetta verkefni heilshugar og þakka bara fyrir að VG hafi verið í ríkisstjórn þegar við gerðum þennan samgöngusáttmála. Það er alveg rétt sem Dagur segir, verkefni verða ekki til í tómarúmi, það er samvinna og það að við séum að róa öll í sömu átt sem gera kraftaverkin í byltingu borgarinnar.“
Lestu meira
-
5. janúar 2023Vindorkan áskorun fyrir stjórnkerfi skipulags- og orkumála
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
28. desember 2022Borgarlínan „lykilþáttur“ í samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins
-
27. desember 2022Áttar sig illa á andstöðu hægrimanna við veggjöld
-
1. desember 2022Hugmyndir um kláf upp á Esjuna verða teknar til skoðunar á ný
-
23. nóvember 2022Hátt í 80 íbúðir í nýju fjölbýli á Ármannsreit
-
19. nóvember 2022Þétting byggðar getur aukið losun gróðurhúsalofttegunda
-
9. nóvember 2022Vegagerðin líti ásakanir um óheiðarleg vinnubrögð starfsmanna alvarlegum augum
-
8. nóvember 2022Hafa beðið í rúman áratug eftir að eignast eigið heimili
-
4. nóvember 2022Sameiginleg bílastæðahús fremur en bílakjallarar í Keldnalandinu