Fyrri einkavæðing bankanna: Sendu bréf og fengu að kaupa Landsbanka Íslands
Síðari einkavæðing ríkisbanka hófst í fyrra, þegar byrjað var að selja hluti í Íslandsbanka. Því ferli var svo haldið áfram í mars þegar umdeilt lokað útboð fór fram. Síðasta einkavæðing fjármálafyrirtækja í ríkiseigu hófst skömmu fyrir aldarmót, lauk snemma árs 2003 og leiddi til þess að rúmum fimm árum síðar var allt íslenska bankakerfið hrunið. Kjarninn mun rekja sögu fyrri einkavæðingarinnar í þremur hlutum um páskana. Þetta er annar hluti.
Fyrir einkavæðingarferlið sem hófst 2002 átti íslenska ríkið rúmlega 48 prósent hlut í Landsbankanum og 55 prósent í Búnaðarbankanum. Fyrirkomulag á einkavæðingu ríkisfyrirtækja, þar á meðal bankanna var á þessum árum töluvert frábrugðið því sem það er nú. Einkavæðingin sjálf var á ábyrgð svokallaðrar ráðherranefndar um einkavæðingu. Í henni sátu fjórir valdamestu ráðherrar ríkisstjórnarinnar. Þegar Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru seldir sátu í nefndinni Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, og Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskipta- og bankamálaráðherra.
Undir ráðherranefndinni starfaði síðan framkvæmdanefnd um einkavæðingu. Í henni sátu fjórir menn. Hver og einn þeirra var fulltrúi eins af ofangreindum ráðherrum. Þegar bankasalan hófst sátu í framkvæmdanefndinni, sem einnig er einfaldlega kölluð einkavæðingarnefnd, þeir Ólafur Davíðsson, sem var formaður hennar, Steingrímur Ari Arason, Jón Sveinsson og Sævar Þór Sigurgeirsson. Auk þess hafði nefndin tvo starfsmenn, þá Skarphéðinn Berg Steinarsson, sem nokkrum árum síðar var einn æðsti stjórnandi Baugs-samsteypunnar sálugu, og Guðmundur Ólason, sem síðar varð forstjóri fjárfestingafélagsins Milestone.
Þetta fyrirkomulag á sölu ríkiseigna er nokkuð frábrugðið því fyrirkomulagi sem á nú að gilda um það. Nú er til sérstök stofnun sem heitir Bankasýsla ríkisins sem sér um sölu ríkisins á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. Yfir henni er þriggja manna stjórn sem í sitja fulltrúar sem fjármála- og efnahagsráðherra skipar. Bankasýslan á síðan að skila fjármála- og efnahagsráðherra tillögu um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þá tillögu á í kjölfarið að leggja fyrir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Ráðherrann tekur síðan ákvörðun um hvort sölumeðferð eignarhlutarins haldi áfram og á endanum hvort að tilboðum skuli hafnað eða þau samþykkt.
Reyndu að selja erlendum banka
Sala Landsbankans árið 2002 átti sér nokkurn aðdraganda. Upphaflega stóð til að reyna að selja bankann til erlendra banka eftir að hugmyndir um dreifða eignaraðild höfðu skyndilega verið lagðar á hilluna. Til boða stóð að minnsta kosti þriðjungshlutur.
Ríkisstjórn Íslands sendi frá sér fréttatilkynningu árið 2001 þar sem auglýst var eftir áhugasömum fjárfesti. Ísland setti auglýsingar víða vegna þessa, meðal annars í hinu virta blaði Financial Times. Til viðbótar hafði ráðgjafi íslenskra stjórnvalda, hinn breski HSBC, samband við 24 banka víðs vegar að og bauð þeim að bjóða í Landsbankann. Í árslok 2001 lýstu tveir erlendir bankar, Den Norske Bank (DnB) og Wachovia, yfir áhuga á að eignast kjölfestuhlut í Landsbanka Íslands. Niðurstaðan þótti mikil vonbrigði.
Í bréfi sem Edward Williams, ráðgjafi hjá HSBC, sendi ráðgjafarnefnd um einkavæðingu seint á árinu 2001 lýsir hann yfir vonbrigðum sínum með niðurstöðuna og segir hana meðal annars orsakast af erfiðri stöðu á alþjóðamörkuðum. Í bréfinu kemur einnig í ljós að báðir aðilarnir sem eftir stóðu að loknu forvali voru með nokkuð flókin tilboð. DnB var til dæmis í 47 prósenta eigu norska ríkisins á þessum tíma en einkavæðinganefnd hafði sérstaklega lýst því yfir að hún hefði fyrirvara gegn því að selja Landsbankann til aðila í eigu annarra ríkisstjórna. Landsbankinn hefði enda verið að stórum hluta í eigu norska ríkisins ef salan hefði gengið eftir.
Þegar líða fór að árslokum 2001 var orðið nokkuð ljóst að ekki myndi takast að semja við bankana tvo um kaup á Landsbankanum. Daginn eftir að DnB gaf afsvar 20. desember 2001 var send út fréttatilkynning um að sala á hlutabréfum í Landsbankanum myndi frestast.
Síðan gerðist ekkert í nokkra mánuði.
Söluferlið saltað
Sumarið 2002 virtust menn orðnir þreyttir á því að bíða og þá var ákveðið að hætta að einblína á erlenda fjárfesta sem mögulega kaupendur að hlut ríkisins í Landsbankanum. Skýr vilji stóð þó til þess að erlent fjármálafyrirtæki yrði á meðal þeirra sem myndu standa að tilboði í hlutinn.
Ljóst er þó á fundargerðum einkavæðingarnefndar að nefndarmenn voru ekki bjartsýnir á að til tíðinda myndi draga sumarið 2002, enda væru fjármálamarkaðir dofnir á þeim tíma að mati þeirra. Jón Sveinsson, fulltrúi Halldórs Ásgrímssonar þáverandi utanríkisráðherra, lét bóka á fundi einkavæðingarnefndar að hann teldi „skynsamlegt að bíða og forðast óðagot. Skipti máli að móta næstu skref bæði í Búnaðarbankanum og Landsbankanum.“
Einkavæðingarnefnd forðaðist ekki óðagotið lengi. Tveimur dögum eftir fundinn, 27. júní 2002, þar sem Jón bókaði ofangreinda skoðun sína barst nefndinni bréf. Það var frá fjárfestahópi sem síðar tók upp nafnið Samson. Hópurinn samanstóð af Björgólfi Guðmundssyni, syni hans Björgólfi Thor Björgólfssyni og Magnúsi Þorsteinssyni. Þremenningarnir höfðu þá nýverið hagnast gífurlega á að selja bjórverksmiðju í Rússlandi til Heineken.
Í bréfinu var óskað eftir viðræðum um kaup á kjölfestuhlut í Landsbanka Íslands þar sem hópurinn teldi að hann væri „álitlegur kostur fyrir seljanda“. Síðan voru lagðar fram 13 forsendur sem áttu að vera til grundvallar í viðræðum Samson við einkavæðingarnefnd.
Ákveðið að hefja viðræður við Samson-hópinn
Einkavæðingarnefnd fundaði daginn eftir að bréfið barst og á þeim fundi var m.a. lögð fram drög að minnisblaði vegna mögulegrar sölu á Landsbankanum í september 2002. Minnisblaðið var sent til Valgerðar Sverrisdóttur viðskiptaráðherra tveimur dögum síðar. Þegar hún sendi minnisblaðið til baka til nefndarinnar hafði það tekið nokkrum breytingum. Í samantekt sem fylgdi breyttu minnisblaðinu kom skýrt fram að Valgerður taldi Samson-hópinn ekki uppfylla þær kröfur sem kjölfestufjárfestir í Landsbankanum átti að búa yfir. Þar segir orðrétt að „hópurinn [hefur] enga reynslu af bankarekstri og því vandséð við fyrstu sýn að þeir geti aukið samkeppnishæfni bankans með líkum hætti og erlendur banki gæti gert.“
Þessar mótbárur Valgerðar skiptu þó litlu. Á fundi einkavæðingarnefndar sem haldin var 5. júlí 2002 var tilboð Samson formlega tekið fyrir. Í fundargerð er bókað eftir Ólafi Davíðssyni, formanni nefndarinnar, að „í viðræðum við ráðherranefnd um einkavæðingu hefði komið fram áhugi á að taka upp viðræður á þeim grunni sem skilgreindur var í bréfinu en þó þannig að tryggt væri að verklagsreglum um einkavæðingu væri framfylgt.“
Það voru því stjórnmálamennirnir sem tóku ákvörðun um að hefja viðræður við Samson þrátt fyrir að fjárfestahópurinn uppfyllti ekki upprunaleg skilyrði og hefði enga reynslu af því að eiga eða reka banka.
Sama hver vilji stjórnmálamannanna um hver ætti að eignast bankann þá var ljóst að það þyrfti að minnsta kosti að auglýsa kjölfestuhlutinn í Landsbankanum til sölu svo öðrum gæfist kostur á að bjóða líka. Þann 10. júlí, tveimur vikum eftir að það virtist ekkert standa til að hefja neitt söluferli og tæpum tveimur vikum eftir að bréf Samson barst einkavæðingarnefnd, var kjölfestuhlutur í báðum ríkisbönkunum, Búnaðarbanka og Landsbanka, auglýstur til sölu. Áhugasamir höfðu 15 daga til að skila inn tilboðum.
Þrír hópar bitust um bankana
Fimm hópar skiluðu inn tilkynningu og lýstu áhuga á að eignast hlut í öðrum hvorum bankanum. Tveir þeirra, Samson og Kaldbakur, fjárfestingafélag Samherja, lýstu yfir meiri áhuga á Landsbankanum en hinir þrír vildu frekar eignast Búnaðarbankann. Þeir voru Íslandsbanki (siðar Glitnir), hópur kenndur við Þórð Magnússon (nú stjórnarformaður Eyris Invest), og hinn svokallaði S-hópur sem leiddur var af Ólafi Ólafssyni og Finni Ingólfssyni, fyrrum varaformanni Framsóknarflokksins og viðskiptaráðherra. Finnur hafði verið skipaður seðlabankastjóri árið 2000 en hann lét af þeim störfum í september 2002 og tók við starfi forstjóri tryggingafélagsins VÍS, sem tók síðan þátt í kaupum S-hópsins á Búnaðarbankanum.
Einkavæðingarnefnd útilokaði Íslandsbanka frá viðræðum um kaup á hlut í Landsbankanum vegna samkeppnissjónarmiða og ýtti hópi Þórðar Magnússonar einnig til hliðar þar sem hann þótti „vera lítið skilgreindur og óljós“. Viðræður fóru því fram við hina þrjá hópanna.
Snemma í september 2002 dró til tíðinda. Á fundum sem haldnir voru 8. og 9. september var ákveðið að ganga til viðræðna við Samson um kaup á hlut í Landsbankanum, þrátt fyrir að hópurinn hafi ekki átt hæsta tilboðið. Raunar var tilboð Samson lægra en tilboð bæði Kaldbaks og S-hópsins. Engin áreiðanleikakönnun hafði farið fram á Samson þegar þessi ákvörðun var tekin. Á fundargerðum einkavæðingarnefndar er nokkuð ljóst að alls engin eining var á meðal nefndarmanna um þessa ákvörðun.
Daginn eftir síðari fundinn sagði Steingrímur Ari Arason sig úr einkavæðingarnefnd með bréfi til Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra. Í bréfinu stóð m.a. að ástæðan væri „þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í aðdraganda þessarar ákvörðunar og hafa nú leitt til þess að aðrir áhugasamir kaupendur eru sniðgengnir þrátt fyrir hagstæðari tilboð fyrir ríkissjóð á alla hefðbundna mælikvarða. Ég[...]aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum.“
Síðar var ríkisendurskoðun fengin til að gera greinargerð sem byggði vegna ásakana Steingríms Ara. Í greinargerðinni kemur fram að gagnrýni hans hafi aðallega snúist um tvö atriði: Annars vegar hafi reglur um hvernig tilboðin voru metin verið óljósar og í „veigamiklum atriðum ákveðnar eftir að tilboð lágu fyrir.“ Einkavæðingarnefnd hafi ekki haft ákveðið vægi og einkunnargjöf fyrir einstaka ákvörðunarþætti áður en að upplýsinganna var aflað. Því hafi henni í raun verið gert ómögulegt að gera grein fyrir matinu með hlutlægum eða gegnsæjum hætti. „Þegar hér var komið sögu hafi niðurstaðan óhjákvæmilega byggst á huglægu mati og var þar með spurning um pólitíska ákvörðun.“
Hitt sem Steingrímur Ari gagnrýndi var það sem hann taldi mikilvæg atriði sem hefðu verið ófrágengin þegar samþykkt var að ganga til einkaviðræðna við Samson um kaup á hlut ríkisins í Landsbankanum. Meðal annars hefðu hugmyndir um ásættanlegt verð verið óljósar. Hann taldi því ekki að stjórnvöld hefðu haft önnur tilbúin markmið en að selja bankann þegar þau settust niður til viðræðna við Samson. Ekkert hafi legið ljóst fyrir um hvað stjórnvöld vildu fá út úr þeirri sölu.
Gagnrýni Steingríms Ara fær aukið vægi þegar tölvupóstsamskipti tengd sölu Landsbankans eru skoðuð. Þar er meðal annars að finna póst frá Edward Williams, sem starfaði hjá breska bankanum HSBC og var einn helsti ráðgjafi íslenskra stjórnvalda við söluna, sem er dagsettur 29. ágúst 2002, nokkrum dögum áður en ákveðið var að selja Landsbankann til Samson. Í tölvupóstinum leggur hann fram tillögur um hvernig ætti mögulega að meta bjóðendur í hlut ríkisins í Landsbankanum. Þar segir Williams frá nýlegu mati sem HSBC hafði komið að varðandi sölu á fjármálastofnun. Þar hafði vægi fjárhagslega þáttar tilboðsins, sem er fyrst og fremst verð, verið 40 prósent en þrír aðrir þættir metnir 20 prósent hver. Í niðurlagi póstsins frá Williams segir síðan að „með því að skilgreina viðmið og vega þau vandlega, þá er mögulegt að komast að „réttri“ niðurstöðu við að velja þann aðila sem þykir ákjósanlegastur, en á sama tíma vera með hálf-vísindalega (semi-scientific) réttlætingu fyrir ákvörðuninni sem myndi standast utanaðkomandi gagnrýni.“
Matið á bjóðendum í hlut ríkisins í Landsbankanum var síðan unnið þannig að rætt var við hópanna. Þann 6. september 2002 ræddi Williams við Björgólf Thor Björgólfsson. Um hálftíma eftir að samtali þeirra lauk sendi hann einkavæðingarnefnd póst og sagði frá því að hann hafi upplifað Björgólf Thor sem alvarlegan og staðfastan fjárfesti. Hann ræddi líka í tölvupóstinum að breska fjármálaeftirlitið muni þurfa að samþykkja alla kjölfestufjárfesta í Landsbankanum vegna eignar bankans í breska Heritable-bankanum. Williams segir frá því að hann hafi fengið þau svör að slíkur einstaklingur þyrfti að vera „fit and proper.“ Að mati Williams er slíkt mat huglægt, en byggist helst á því að „einstaklingarnir séu með hámarks siðferði og að þeir hafi ekki gert neitt sem kasti rýrð á getu þeirra til að reka banka.“
Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu eftir skoðun sína á ferlinu, þrátt fyrir ofangreindar aðfinnslur Steingríms Ara og önnur fyrirliggjandi gögn, að einkavæðing bankanna hefði verið í lagi og í samræmi við verklagsreglur. Þeir sem komu að einkavæðingarferlinu vísa oft í þá niðurstöðu Ríkisendurskoðunar sem vott um að eðlilega hafi verið staðið að sölu bankanna.
Vildu kaupa meira en þriðjung
Í gögnum einkavæðingarnefndar kemur þó skýrt fram að ekki var eining á milli stjórnarflokkanna um hvernig sala Landsbankans ætti að fara fram. Í minnispunktum Skarphéðins Bergs Steinarssonar, starfsmanns nefndarinnar, kemur til að mynda fram að „nokkur andstaða er hjá Framsóknarmönnum við að Samson kaupi meira en 33,3%.“
Samson vildi hins vegar kaupa 45,8 prósent hlut og Björgólfur Thor var alls ekki sáttur með að hluturinn yrði takmarkaður. Hann sendi bréf til Valgerðar Sverrisdóttur þar sem hann sagði m.a. að „til að geta talist kjölfestufjárfestir í Landsbankanum er 33% eignarhlutur ekki nægjanlegur í ljósi þeirra miklu fjármuna sem Samson hefur lýst yfir áhuga á að koma með inn í íslenska hagkerfið.“
Björgólfur Thor sendi líka bréf til Ólafs Davíðssonar, formanns einkavæðingarnefndar, þar sem hann hótaði að slíta viðræðum um kaup á Landsbankanum ef ekki yrði gengið að óskum hans. Björgólfur Thor gaf stjórnvöldum einn dag til að svara.
Daginn eftir að svarfresturinn rann út, þann 18. október 2002, var skrifað undir samkomulag um að selja Samson 45,8 prósent hlut íslenska ríkisins í Landsbankanum. Fyrir þennan hlut greiddi Samson-hópurinn á endanum 11,2 milljarða króna. Upprunlega stóð til að Samson-hópurinn myndi taka lán fyrir 70 prósent af kaupverðinu en þegar upp var staðið var alls 65 prósent af kaupverðinu greitt með eigin fé en restin með láni frá Búnaðarbanka Íslands. Formlegur kaupsamningur var síðan undirritaður á gamlársdag 2002 og nýju eigendurnir tóku við bankanum á aðalfundi Landsbankans í febrúar 2003. Björgólfur Guðmundsson settist þá í stól stjórnarformanns bankans og sat í honum þar til Landsbankinn og íslenskt bankakerfi hrundi í október 2008.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
3. desember 2022Var Ríkisendurskoðun að misskilja eða veitti Bankasýslan ráðherra ekki réttar upplýsingar?
-
1. desember 2022Íslandsbanki segir ekki hversu margir fengu flokkun sem hæfir fjárfestar á meðan að á útboðinu stóð
-
30. nóvember 2022„Það var mjög óheppilegt að náinn ættingi hafi verið í þessum kaupendahópi“
-
25. nóvember 2022Yfir 60 prósent treysta ekki stjórninni til að selja Íslandsbanka og vilja rannsóknarnefnd
-
24. nóvember 2022„Ríkisendurskoðun hafnar aðdróttunum ákveðinna fjölmiðla um annarleg sjónarmið“
-
21. nóvember 2022Spyr Bjarna hvort Fjármálaeftirlitið hafi lagaheimildir til að rannsaka Bjarna
-
21. nóvember 2022Ekki í fyrsta sinn sem ríkisbanki, Ríkisendurskoðun og Bankasýslan fara í hár saman
-
18. nóvember 2022Vill að Katrín mæti fyrir fjárlaganefnd og geri grein fyrir næstu skrefum í bankasölu
-
17. nóvember 2022Sögðu Sjálfstæðisflokkinn bara vilja ræða leka, ekki bankasöluna eða skýrsluna um hana