Mynd: Úr safni Hauck &Aufhauser
Mynd: Úr safni

Fyrri einkavæðing bankanna: Þegar franskur stórbanki reyndist óþekktur þýskur banki

Síðari einkavæðing ríkisbanka hófst í fyrra, þegar byrjað var að selja hluti í Íslandsbanka. Því ferli var svo haldið áfram í mars þegar umdeilt lokað útboð fór fram. Síðasta einkavæðing fjármálafyrirtækja í ríkiseigu hófst skömmu fyrir aldarmót, lauk snemma árs 2003 og leiddi til þess að rúmum fimm árum síðar var allt íslenska bankakerfið hrunið. Kjarninn mun rekja sögu fyrri einkavæðingarinnar í þremur hlutum um páskana. Þetta er þriðji hluti.

Fjórum dögum eftir að einka­væð­ing­ar­nefnd ákvað að selja Sam­son-hópi Björg­ólfs­feðga hlut rík­is­ins í Lands­bank­an­um, þann 13. sept­em­ber 2002, snéri nefndin sér að því að hefja und­ir­bún­ing á sölu á Bún­að­ar­bank­an­um.

Íslenska ríkið hafði lengi lagt mikla áherslu á að eitt af helstu mark­miðum einka­væð­ingar bank­anna væri að fá erlenda fjár­mála­stofnun til að koma inn sem eig­andi að íslenskum banka. Þar sem hlutur rík­is­ins í Lands­bank­anum hafði verið seldur til Sam­son, sem aug­ljós­lega var ekki erlendur banki, þá þótti ljóst að æski­legt væri að bjóð­endur í Bún­að­ar­bank­ann væru með slíkan með­fjár­festi í fartesk­inu.

Á end­anum átti S-hóp­ur­inn hæsta boðið í bank­ann. Í mati breska bank­ans HSBC, ráð­gjafa íslenska rík­is­ins í ferl­inu, á S-hópnum kom hins vegar fram að hann hefði áhyggjur af miklum kross­eigna­tengslum milli þeirra sem komu að fjár­fest­ing­ar­hópnum því það gerði bank­anum erfitt fyrir að meta raun­veru­lega stöðu hans. Þá kom einnig fram að þeir aðilar sem mynd­uðu S-hóp­inn höfðu verið í miklum lána­við­skiptum við Bún­að­ar­bank­ann. Sam­tals námu lán til þeirra 4,3 millj­örðum króna, eða 2,9 pró­sentum af heild­ar­út­lánum bank­ans um mitt ár 2002. Við mat á þekk­ingu og reynslu S-hóps­ins var sér­stak­lega tekið til­lit til aðkomu erlendrar fjár­mála­stofn­unar og þess tengsla­nets sem myndi fylgja slíkri aðkomu. Hinir sem skip­uðu hóp­inn vissu enda ekki neitt um banka­starf­semi.

S-hóp­ur­inn lét í það skína í upp­lýs­inga­gjöf sinni til einka­væð­ing­ar­nefndar að Sociéte Généra­le, franskur risa­banki, ætl­aði að kaupa hlut rík­is­ins með hópn­um. Þeim skila­boðum var fyrst komið á fram­færi við ráð­gjafa nefnd­ar­innar seint í októ­ber eða snemma í nóv­em­ber 2002. Engum datt hins vegar í hug að hringja í, eða senda fax til, Sociéte Générale og spyrja hvort málið væri raun­veru­lega þannig.

Sociéte Générale varð Hauck & Auf­häuser

Meint aðkoma Sociéte Générale virð­ist á end­anum hafa ráðið úrslitum um það að einka­væð­ing­ar­nefnd ákvað að mæla með því við ráð­herra­nefnd um einka­væð­ingu, á fundi sínum 4. nóv­em­ber 2002, að S-hóp­ur­inn fengi að kaupa hlut rík­is­ins í Bún­að­ar­bank­an­um.

Skrifað var undir ramma­sam­komu­lag um kaup hóps­ins á hlut í Bún­að­ar­bank­anum 15. nóv­em­ber 2002. 

Í fund­ar­gerð einka­væð­ing­ar­nefndar sem dag­sett er 12. des­em­ber 2002 segir að gert yrði ráð fyrir því að „að­ild Soc.Gen yrði stað­fest morg­un­inn eft­ir.“ Það gerð­ist hins vegar ekki og þess í stað til­kynntu for­svars­menn S-hóps­ins einka­væð­ing­ar­nefnd að erlendi aðil­inn sem átti aðild að hópnum yrði ekki kynntur fyrr en skrifað yrði undir kaup­samn­ing­inn. 

Á fundi sínum þennan dag, 13. des­em­ber, ræddi einka­væð­ing­ar­nefnd um hvernig ætti að bregð­ast við þess­ari beiðni. Í fund­ar­gerð er bókað að „nefndin taldi nauð­syn­legt að vita hverjir væru vænt­an­legir fjár­festar m.t.t. mark­miða rík­is­ins með söl­unn­i.“ Greini­legt var á við­brögð­unum að þessi afstaða kom nefnd­ar­mönnum í opna skjöldu og sam­kvæmt fund­ar­gerð­inni var meðal ann­ars rætt um hvort hætta ætti við ferl­ið. Það var hins vegar ekki gert. Frekar var ákveðið að ganga að ótrú­legum kröfum Ólafs Ólafs­sonar og félaga hans um að það kæmi rík­inu ekk­ert við fyr­ir­fram hver væri að kaupa banka af því. 

Næsti fundur einka­væð­ing­ar­nefndar var ekki hald­inn fyrr en 6. jan­úar 2003, 24 dögum síðar og tíu dögum áður en gengið var form­lega frá kaupum S-hóps­ins á ráð­andi hlut í Bún­að­ar­bank­an­um. 

Þann 9. jan­ú­ar, viku áður en skrifað var undir samn­ing um kaup S-hóps­ins á 45,8 pró­sent hlut hans í Bún­að­ar­bank­anum á 11,4 millj­arða króna, var þeim sem sátu í einka­væð­ing­ar­nefnd í fyrsta sinn gerð grein fyrir því hver erlendi fjár­festir­inn var sem ætl­aði að fjár­festa með hópn­um. Það reynd­ist alls ekki vera franski stór­bank­inn Sociéte Généra­le, heldur þýskur einka­banki að nafni Hauck & Auf­häuser. Sá hafði um 70 pró­sent tekna sinna af þókn­unum og stóð ekki í neinni sýni­legri fjár­fest­inga­starf­semi. Bank­inn hafði auk þess átt afleitt rekstr­arár 2002 þar sem hann tap­aði pen­ing­um. Samt var Hauck & Auf­häuser mættur til Íslands til að eign­ast ráð­andi hlut í íslenskum við­skipta­banka. 

Forsíða Morgunblaðsins eftir að gengið hafði verið frá sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.
Mynd: Skjáskot/Morgunblaðið

Kaup­samn­ingur um sölu á ráð­andi hlut rík­is­ins í Bún­að­ar­bank­anum var und­ir­rit­aður 16. jan­úar 2003 í höf­uð­stöðvum hans. Í frétta­til­kynn­ingu sem S-hóp­­ur­inn sendi frá sér vegna kaupanna sagði að það væru „mikil tíð­indi að traust­­ur, erlendur banki taki þátt í að fjár­­­festa í íslenskri fjár­­­mála­­stofn­un“. Í sam­eig­in­­legri til­­kynn­ingu frá Hauck & Auf­häuser og ráð­gjaf­­anum Mich­­ael Sautter frá Société Générale sagði að nokkrar ástæður lægju að baki „þeirri ákvörðun eig­enda Hauck & Auf­häuser Pri­vat­­banki­ers að fjár­­­festa í Bún­­að­­ar­­bank­an­­um. Á meðal þeirra: Bún­að­ar­bank­inn væri „væn­leg fjár­fest­ing.“

Tók fjórtán ár að fá svör

Eftir stóð þjóð og reyndi að átta sig á hvað hefði gerst. Eng­inn á Íslandi hafði heyrt um þennan þýska banka áður. Yahoo og Alta Vista, ráð­andi leit­ar­vélar þess tíma, skil­uðu engum upp­lýs­ingum og sumir efuð­ust bein­línis um hvort bank­inn væri raun­veru­leg­ur.

Rúmum tveimur árum eftir að Hauck & Auf­häuser keypti hlut í Bún­að­ar­bank­anum var bank­inn búinn að selja hann allan til ann­arra aðila innan S-hóps­ins.

Það áttu eftir að líða rúm fjórtán ár frá því að skrifað var undir kaup­samn­ing­inn þar til að opin­berað var hvað hefði raun­veru­lega átt sér stað. Sú opin­berum varð ótrú­legri en nokkurn hefði getað grun­að.

Þegar einka­væð­ing bank­anna stóð yfir var lít­ill fjár­fest­ing­ar­banki far­inn að gera sig mjög gild­andi á Íslandi. Hann hét Kaup­þing og hann sam­ein­að­ist Bún­að­ar­bank­anum í apríl 2003, tæpum þremur mán­uðum eftir að ríkið seldi hlut sinn í Bún­að­ar­bank­anum til S-hóps­ins. Sam­hliða tóku stjórn­­endur Kaup­­þings öll völd í hinum sam­ein­aða banka. 

Tak­marki var náð. Líkt og Sig­ur­jón Þ. Árna­son, fyrr­ver­andi banka­stjóri Lands­bank­ans, sagði við rann­sókn­ar­nefnd Alþingis þá fengu Kaup­þings­menn það sem þeir þurftu við sam­ein­ing­una; „láns­hæf­is­mat og við­skipta­banka­grunn á Íslandi." 

Allt frá upp­­hafi heyrð­ust efa­­semd­­araddir um að allt væri eins og af var látið í söl­unni á Bún­­að­­ar­­bank­an­­um. Margir efuð­ust um að Hauck & Auf­häuser væri raun­veru­­legur eig­andi sem hefði haft áhuga á að fjár­­­festa á Íslandi og enn fleiri fannst í meira lagi sér­­­kenn­i­­legt hvað það tók stuttan tíma fyrir S-hóp­inn að renna Bún­­að­­ar­­bank­­anum saman við Kaup­­þing. 

Þessi umræða fór mjög í taug­arnar á Ólafi Ólafs­syni og Kaup­þings­mönn­um. Þeir neit­uðu því ítrekað opin­ber­lega að Hauck & Auf­häuser hefði verið leppur og að fyrir hefði legið ein­hvers­konar sam­komu­lag um að sam­eina Bún­að­ar­bank­ann við Kaup­þing fyr­ir­fram. 

Ein áhrifa­mesta sagan af þessu er frá­sögn Björg­ólfs Guð­munds­sonar fyrir rann­sókn­ar­nefnd Alþingis í jan­úar 2010. Þar sagði Björgólfur að það hefði verið „óskap­­lega mikið hat­­ur“ milli Bún­­að­­ar­­bank­ans/­­Kaup­­þings og Lands­­banka Íslands, sem hann hefði aldrei skil­ið. Skýr­ingin hafi verið sú að Kaup­­þings­­menn töldu að aðilar innan Lands­­bank­ans hefðu komið því í umræð­una að til­­­boð Hauck & Auf­häuser hefði verið ein­hvers konar „falstil­­boð frá Þýska­land­i“.

Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbanka Íslands.
Mynd: Skjáskot

Síðan sagði Björgólf­­ur: „Ég man bara eftir því að ég var kall­aður til ákveð­ins aðila, hann hund­­skamm­aði mig fyrir að vera að leggja þá í ein­elti, þessa góðu drengi, Ólaf Ólafs­­son og félaga út af þessu máli í Þýska­landi, þetta væri allt hreint og klárt og þetta var nú Hall­­dór Ásgríms­­son sem að gerði það.“ Hall­­dór Ásgríms­­son var á þessum árum for­­maður Fram­­sókn­­ar­­flokks­ins, utan­­­rík­­is­ráð­herra og for­­sæt­is­ráð­herra á árunum 2004 til 2006. Hann lést árið 2015.

Björgólfur sagði við nefnd­ina að honum hefði brugðið mikið við þetta. „Ég man ég sagði við hann [Hall­­dór Ásgríms­­son]: Heyrðu, má ég skrifa þetta eftir þér? Af því að hann var, þetta var nú mán­u­­dagur kl. 9, erfið helgi og ég fékk miklar skammir fyrir það að ég stæði fyrir ein­hverjum miklum áróðri, eða við, um þann hóp sem hefði keypt Bún­­að­­ar­­bank­ann að það væri hvergi allt greitt með erlendu fjár­­­magni. Ég hafði ekki hug­­mynd um það.“

Aðspurður sagði Björgólfur að þessi fundur hafi lík­­­lega átt sér stað árið 2004. Hann sagði að Hall­­dór hefði sagt að „þeir [væru] alltaf að kvarta í sig yfir að við[...]hefðum haldið uppi áróðri að[...]þessi þýski banki væri bara falskt identity.[...]„Þessi tengsl, það voru rosa­­leg fram­­sókn­­ar­­tengsl þarna inni, alveg ótrú­­leg. Ég veit ekk­ert um flokkapóli­­tík eða neitt en þetta var, virt­ist vera, Ólafur Ólafs­­son virt­ist hafa alltaf beinan aðgang að Hall­­dóri og ein­hvern veg­inn, og var alltaf að magna upp ein­hver leið­ind­i.“

Tók fjórtán ár að fá sann­leik­ann fram

Sú tor­tryggni sem var til staðar gagn­vart ferl­inu leiddi til þess að Rík­is­end­ur­skoðun var látin vinna skýrslu um einka­væð­ingu rík­is­fyr­ir­tækja árið 2003. Nið­ur­staðan var sú að „ís­lensk stjórn­völd hafi í meg­in­at­riðum náð helstu mark­miðum sínum með einka­væð­ingu rík­is­fyr­ir­tækja á árunum 1998-2003.“ Engar athuga­semdir voru gerðar við það hvernig staðið var að sölu á hlut rík­is­ins í Bún­að­ar­bank­anum til S-hóps­ins í skýrsl­unni.

Í  júní 2016, rúmum þrettán árum eftir að skrifað var undir kaupin á Bún­að­ar­bank­an­um, dró loks til tíð­inda í þessu málið þegar Tryggvi Gunn­ars­son­ar, umboðs­maður Alþing­is, sendi upp úr þurru bréf til stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar.

Í bréf­inu lagi Tryggvi til að skipuð yrði rann­­sókn­­ar­­nefnd til að kom­­ast til botns í aðkomu þýska einka­­bank­ans Hauck & Auf­häuser að kaupum S-hóps­ins á Bún­­að­­ar­­bank­­anum í byrjun árs 2003. Þetta ætti að gera vegna þess að Tryggvi hefði nýjar upp­­lýs­ingar sem byggðu á ábend­ingum um hver raun­veru­­leg þátt­­taka þýska bank­ans var. Á til­lögu Tryggva var fall­ist. 

Kjartan Bjarni Björg­vins­­son var skip­aður í rann­­sókn­­ar­­nefnd­ina og réð til sín einn starfs­­mann, sak­sóknar­ann Finn Þór Vil­hjálms­­son. Þeir rann­­sök­uðu málið um nokk­­urra mán­aða skeið. Þann 29. mars 2017 héldu þeir blaða­­manna­fund og birtu 189 blað­síðna skýrslu um nið­­ur­­stöður sín­­ar.  Í henni var opin­ber­aður blekk­ing­­ar­­leikur sem reynd­ist enn ótrú­­legri og marg­slungn­­ari en flestir ætl­­uðu.

Kjartan Bjarni Björgvinsson afhendir Unni Brá Konráðsdóttur, þáverandi forseta Alþingis, skýrslu rannsóknarnefndarinnar vorið 2017.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Fléttu sem í fólst að hópur manna stóð að gerð leyni­legra bak­samn­inga við Hauck & Auf­häuser um hlut­inn í Bún­að­ar­bank­anum sem látið var í skína að þýski bank­inn hefði keypt.

Hauck & Auf­häuser lepp­aði eign­ar­haldið

Bak­samn­ing­arnir fólu í sér að þýski bank­inn var í reynd aðeins að nafn­inu til meðal kaup­enda að hlut rík­is­ins í Bún­að­ar­bank­an­um. Eign­ar­haldið var aðeins til mála­mynda og tíma­bund­ið. Aðrir aðilar fjár­mögn­uðu í reynd, báru alla áhættu og áttu alla hagn­að­von af þessum við­skiptum sem gerð voru í nafni Hauck & Auf­häuser. Þýska bank­anum var tryggt algjört skað­leysi af þátt­töku sinn í við­skipt­unum og fjár­hags­legir hags­munir hans tak­mörk­uð­ust við umsamda þóknun sem kveðið var á um í bak­samn­ing­un­um.

Sá aðili sem bar alla áhætt­una af við­­skipt­unum var Kaup­­þing. Þegar fléttan var gerð upp hafði Kaup­­þing sam­ein­­ast Bún­­að­­ar­­bank­an­­um.

Þannig lá fyrir að hið keypta bar áhætt­una af fléttu utan um kaup á sér.

Í skýrslu rann­sókn­ar­nefnd­ar­innar sagði að fyr­ir­hug­uð, en leyni­leg, sam­ein­ing Kaup­þings og Bún­að­ar­bank­ans hafi legið fyrir í októ­ber 2002. Þá hafi verið haldnir fundir í þáver­andi skrif­stofu­hús­næði eign­ar­halds­fé­lags­ins Sunds ehf. í svo­nefndum litla turni Kringl­unn­ar. Þau fund­ar­höld áttu sér því stað nokkrum vikum áður en að ákveðið var að ganga til samn­inga við S-hóp­inn um kaup á 45,8 pró­sent hlut rík­is­ins í Bún­að­ar­bank­anum og mán­uðum áður en að skrifað var undir kaup­samn­ing­inn. Kaup­þings var hins vegar hvergi getið í til­boði S-hóps­ins.

Ólafur Ólafsson þegar hann kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd 2017.
Mynd: Kjarninn

Það blasti líka við að erlendur aðili var nauð­syn­legur til að til­boð­inu yrði tek­ið.

Í skýrsl­unni sem Kjartan og Finnur unnu var opin­ber­að, líkt og marga hafði grun­að, að aðkoma Société Générale var hluti af blekk­ing­ar­leik. Aldrei stóð til að bank­inn myndi kaupa hlut í Bún­að­ar­bank­an­um. Tveir starfs­menn Þýska­lands­arms bank­ans, sem störf­uðu fyrir Ólaf Ólafs­son í mál­inu, höfðu aldrei neina heim­ild til að skuld­binda slíkan stór­banka í kaup á við­skipta­banka á Íslandi. Menn­irnir voru ein­fald­lega að sinna ráð­gjöf og spil­uðu þar með í leik Ólafs.

Fyrir ómakið fengu þeir um 300 millj­ónir króna í þókn­un.

Rann­sókn­ar­skýrslan varp­aði ljósi á, með óyggj­andi hætti, að Hauck & Auf­häuser hefði aldrei verið alvöru kaup­andi að hlut í Bún­að­ar­bank­an­um. Aðkoma hans var blekk­ing. Raun­veru­leik­inn var sá að Kaup­þing hafði fjár­magn­aði kaupin að fullu, að baki lágu bak­samn­ingar sem tryggðu Hauck & Auf­häuser fullt skað­leysi, þókn­ana­tekjur upp á eina milljón evra fyrir að leppa og sölu­rétt á hlutnum eftir að þýski lepp­bank­inn var búinn að halda á honum í tæp tvö ár. Sem hann síðan nýtti sér.

Hagn­aður sem lenti í aflands­fé­lögum

Til við­bótar lá fyrir í flétt­unni, sem var kölluð „Puffin“, að hagn­aður sem gæti skap­ast hjá réttum eig­enda hlut­ar­ins, aflands­fé­lags­ins Well­ing & Partners á Bresku Jóm­frú­areyj­un­um, myndi renna til tveggja aflands­fé­laga, skráð á sama stað, sem áttu það félag.

Annað þeirra aflands­fé­laga var Mar­ine Choice Limited, í eigu Ólafs Ólafs­son­ar. Hann hagn­að­ist um 3,8 millj­arða króna á flétt­unni.

Hitt félag­ið, Dek­hill Advis­ors, hagn­að­ist um 2,9 millj­arða króna á „Puffin“ verk­efn­inu. Þessar fjár­hæðir voru greiddar út til þeirra snemma árs 2006. Á núvirði er sam­eig­in­legur hagn­aður félag­anna tveggja rúm­lega 11 millj­arðar króna.

Í nið­ur­stöðu­hluta skýrslu Kjart­ans og Finns seg­ir: „Í íslensku laga­máli nær hug­takið blekk­ing almennt til þess að vekja, styrkja eða hag­nýta sér ranga eða óljósa hug­mynd manns um ein­hver atvik. Telja verður raunar að almennur skiln­ingur á þessu hug­taki sé í meg­in­at­riðum á sömu lund. rann­sókn­ar­nefnd Alþingis telur að þau gögn sem rakin hafa verið og birt í þess­ari skýrslu, og þau atvik sem umrædd gögn varpa skýru og ótví­ræðu ljósi á, sýni fram á svo ekki verði um villst að íslensk stjórn­völd hafi á sínum tíma verið blekkt um aðkomu Hauck & Auf­häuser að þeirri einka­væð­ingu Bún­að­ar­banka Íslands hf. sem lokið var með kaup­samn­ingi 16. jan­úar 2003. Á sama hátt varpar skýrsla þessi að mati nefnd­ar­innar skýru og ótví­ræðu ljósi á hverjir stóðu að þeirri blekk­ingu, komu henni fram og héldu svo við æ síð­an, ýmist með því að leyna vit­neskju sinni um raun­veru­lega aðkomu Hauck & Auf­häuser eða halda öðru fram gegn betri vit­und.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar