Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, var viðstaddur fund Evrópuþingsins í Strasburg í dag til að ræða stöðuna í heimalandi sínu og framhald viðræðna um lán Evrópuríkja til Grikkja. Fulltrúar evruríkjanna lýstu mismunandi sjónarmiðum sínum og voru ekki allir sammála um hver næstu skref eiga að vera, jafnvel þó flestir virtust sammála um að Evrópusamvinna væri leiðin framá við.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB
„Í ljósi þeirra vandræða sem Grikkland er í, má svarið alls ekki verið að snúa baki við nauðsyn þess að þróa hagkerfið og peningakerfið áfram.“
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands
Tsipras gagnrýndi það að aðgerðir ESB handa Grikkjum snérust um að bjarga bönkunum en almenningur fékk aldrei þá hjálp sem þurfti. „Hin einfalda staðreynd er sú að við verðum að horfast í augu við að meirihluti grísku þjóðarinnar telur sig ekki eiga annarra kosta völ en að fara fram á leið út úr þessum botnlanga,“ sagði Tsipras.
Manfred Weber, Þýskaland
„Þú beitir ögrunum, við leitum samkomulags. Við þér blasa rústirnar, við leitum að velmegun. Þér líkar ekki við Evrópu, við elskum Evrópu. Þú ert að tala um virðingu, en þú segir fólkinu þínu ítrekað ósatt og það er ekki virðingarvert,“ sagði Weber og beindi orðum sínum til Tsipras. Hann benti jafnframt á að fimm lönd í ESB búa við verri lífsviðurværi en Grikkland og spurði: „Hvernig ætlar að þú að segja þessu fólki að Grikkland þoli ekki frekari niðurskurð?“
Gianni Pittella, Ítalía
„Ég held að nú séu réttu aðstæðurnar til að ná samkomulagi og það er undir ríkisstjórn Grikkja komið að ákveða hvaða endurbætur þarf að ráðast í til að skapa aðstæður fyrir atvinnusköpun, berjast gegn spillingu og skattaundanskotum. Þetta er allt nauðsynlegt, ekki af því að ESB mun fara fram á það, heldur vegna þess að það hagnast Grikkjum.“
Ryszard Legutko, Pólland
„Það er eitthvað rotið í Grikklandi en það er eitthvað rotið í ESB líka.“ Legutko bætti við að ef „leikritið“ héldi áfram yrði erfitt að komast að því hvað ætti að fá mesta athygli. „Hverju erum við að reyna að bjarga? Er það myntsamstarfið? Er það grískt samfélag? Er það trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar eða lánveitenda? Er það arfleið Angelu Merkel eða traustara og nánara Evrópusamstarf?“
Guy Verhofstadt, Belgía
„Í fimm ár höfum við flotið sofandi að þeim feigðarósi sem er útganga Grikkja úr evrusamstarfinu, með hjálp öfgahægrifólks. Og síðustu mánuði höfum við aukið hraðann að feigðarósnum. Það er ekki þú [Tsipras] eða við [ESB] sem borgum brúsann, heldur er það gríska þjóðin sem mun borga fyrir útgönguna úr evrusamstarfinu.“
Gabriele Zimmer, Þýskaland
„Finnum nú lausn sem er varanleg og heldur velli. Við skulum ekki skapa okkur til skammvinna frygð með því að biðja aðra um að gera hluti. Berum virðingu fyrir fólki og Evrópu og virðum niðurstöðuna á sunnudag.“
Rebecca Harms, Þýskaland
Harms sagðist vænta þess að Tsipras bæri á borð traustar hugmyndir um endurbætur og betri framtíð, en ekki bara hvatningarræður um að nú ættum við að binda endi á spillingu og önnur vandamál. „Allt þarf að ákveða í þessari viku.“
Nigel Farage, Bretland
Farage gagnrýndi innleiðingu evrunnar í ræðu sinni og sagði: „Ef þú neyðir þjóðir og ólík hagkerfi til að komast að samkomulagi, án þess að leita samþykkis þjóðanna, er ólíklegt að samstarfið gangi upp og þessi áætlun hefur nú mistekist. Við erum ekki aðeins að ræða Grikkland í dag, heldur öll ríkin við Miðjarðarhafið sem finnast þau föst með ranga mynt.“
Marine Le Pen, Frakkland
„Evran og aðhald eru síamstvíburar. Fólkið þitt [Grikkir] sleppur ekki við aðhald án þess að ganga úr evrusamstarfinu.“
Eleftherios Synadinos, Grikkland
Synadinos, óháður Evrópuþingmaður Grikkja, vakti athygli á hörmungum seinni heimstyrjaldar og hersetu Þjóðverja í Grikklandi. Þjóðverjum var gert að borga Grikkjum himinháar skaðabætur sem hafa ekki borist að öllu leyti. „Hvers vegna er þetta ekki tekið með í reikninginn þegar við ræðum skuldir Grikkja?“ spurði hann og bætti við Grikkjum væri fullfært að hætta í myntsamstarfinu og lifa það af.