Þegar Rússar hafa viljað sýna mátt sinn og megin gagnvart nágrönnum sínum vestar í Evrópu hafa stjórnvöld í Kreml skrúfað fyrir gasleiðslur. Gazprom, stærsti flutningsaðili gass í heiminum, er að meirihluta í eigu rússneskra stjórnvalda sem hafa ekki hikað við að beita gasrisanum í utanríkismálum.
Gazprom sér Evrópu fyrir um fjórðungi alls gass sem notað er í álfunni. Gasinu er pumpað um gasleiðslur sem liggja þvert yfir álfuna frá helstu gasekrum í Austur-Evrópu, meðal annars Úkraínu þar sem helmingur rússnesks gass rennur í gegn.
En það kann að vera að þetta utanríkismálatól Rússa sé að þrotum komið og hafi ekki svo mikil áhrif lengur. Gazprom er nefnilega aðeins skugginn af sjálfu sér eftir gríðarlegt fall á virði þess á hlutabréfamörkuðum. Árið 2008 náði markaðsvirði fyrirtækisins hæstu hæðum og var metið á 367,27 milljarða dollara (um 49 þúsund milljarða íslenskra króna). Forstjóri fyrirtæksins, Alexander Medvedev, spáði þá að virði fyrirtækisins yrði orðið tæplega þúsund milljarðarðar árið 2010.
Medvedev reyndist síður en svo sannspár því virði Gazprom hefur síðan hrunið ævintýralega og markaðsvirði fyrirtækisins er nú metið á 51,12 milljarða dollara (tæplega 7 þúsund milljarðar íslenskra króna). Samkvæmt Bloomberg-fréttastofunni hefur ekkert fyrirtæki á lista 5.000 stærstu hrunið jafn mikið eins og Gazprom.
Það sem meira er að Gazprom virðist hvergi nærri því að ná botninum og óvissan hefur vakið spurningar um hvort fyrirtækið geti hreinlega lifað af. Ráðherra hagþróunar í Rússlandi hefur spáð því að árleg gasframleiðsla í Rússlandi í ár muni minnka í 414 milljarða rúmmetra, langt undir markmið Gazprom um 485 milljarða rúmmetra. Það er minnsta gasframleiðsla í 26 ára sögu Gazprom. Útflutningstekjur af gasinu hafa einnig hrunið ævintýralega. Á fyrstu fimm mánuðum ársins 2015 hafa útflutningstekjur Gazprom minnkað um 35,8 prósent miðað fyrra ár.
Vladimir Pútin, forseti Rússlands, hefur óhikað notað Gazprom sem tól í utanríkismálum. Nýlega tók Gazprom á sig gríðarlegar skuldbindingar svo Rússar geti selt gas og olíu til Kína og landanna við Kyrrahafið.
Hvað skeði eiginlega?
Það er því ekki nema von að fólk spyrji sig hvað hafi gerst fyrir helsta birgðasala Evrópu - og Kína - á hinu verðmæta gasi. Stjórnvöld í Kreml segja „hlýja vetur“ vera ástæðu þess að olíuverð hefur hríðlækkað og þar með tekjur ríkisolíufyrirtækisins, en á meðan eru orkurisar á borð við ExxonMobil og PetroChina enn á ljúfri siglingu. Um þetta er fjallað ítarlega á Eurasianet.
Markaðshlutdeild Rússa á gasmarkaði í Evrópu hefur minnkað með „hlýrri vetrum“, en á sama tíma hafa Norðmenn stækkað viðskiptahóp sinn gríðarlega. Í fyrsta sinn skákuðu þeir Rússum í magni birgða á síðasta fjórðungi ársins 2014 og þeim fyrsta árið 2015 um meira en 50 prósent.
Sérfræðingar á sviði markaðsviðskipta telja þessa erfiðleika hins vegar ráðast af afskiptum rússneskra stjórnvalda. „Þetta er vandamál allra fyrirtækja í eigu rússneska ríkisins,“ sagði Oleg Popov, eingaumsýslumaður hjá Allianz í Moskvu, við Bloomberg í fyrra. „Gazprom er virkur taflmaður í utanríkispólitík Kremlar og félagslegum málum. Gazprom tekur einfaldlega á sig kostnaðinn í stað stjórnvalda og þannig er þungu hlassi lift af ríkissjóði.“
Gazprom hefur til dæmis fjárfest í stórum rússneskum fjölmiðlum sem verða svo að málgagni stjórnvalda, sannfært nágrannaríki um að vera hliðholl Rússum með góðu eða illu og styrkt ævintýralega dýra ólympíuleika í Sochi.
Fyrirmæli Kremlar um að Gazprom beiti sér hafa reynst fyrirtækinu fjárhagslega erfið. Stuðningur Rússa við aðskilnaðarsveitir í austurhluta Úkraínu hafa gert það að verkum að útflutningur Gazprom til Úkraínu hefur fallið úr 36,4 rúmkílómetrum árið 2014 í 3,7 rúmkílómetra á fyrri helmingi ársins 2015. 1. júlí urðu viðskiptin svo engin. Orkustífla Rússa gegn Úkraínu hafa engu skilað nema tapi fyrir Gazprom. Um leið hefur það þvingað Evrópulönd til að dreifa álagi gasinnflutnings frá Rússum.
Stjórnvöld í Rússlandi vilja halda áfram að minnka flutning gass í gegnum Úkraínu og flytja það frekar um Tyrkland eða um leiðslur í Eistrasalti. Ráðast þyrfti í nokkra uppbyggingu til þess að gera þetta mögulegt og sérfræðingar telja það óskynsamlegt; það hafi meira með pólitík að gera en hagræði. Það yrði mun dýrara að flytja gasið um Eistrasaltið en í gegnum Úkraínu.
Alexei Miller, framkvæmdastjóri Gazprom, hefur meðal annars fundað með Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, um fyrirhugaða gasflutninga um Tyrkland og Grikkland.
Þá hefur eftirspurn eftir olíu og gasi frá Mið-Austurlöndum minnkað eftir að Bandaríkin urðu sjálfbær með orku. Biksteinsgasframleiðsla Bandaríkjamanna hefur gert það að verkum að nú er hægt að framleiða gas og olíu með ódýrari hætti. Rússar hafa hins vegar setið eftir hvað þetta varðar. Forstjóri Gazprom hefur meira að segja sagt að þetta sé aðeins gæðavara sem ekki sé eins mikil eftirspurn eftir. Evrópa hefur hins vegar í auknum mæli keypt ódýrari orku frá Mið-Austurlöndum og minnkað innflutning á dýrri orku frá Rússlandi.
Dýr samningur við Kína
Ársgamalt samkomulag Rússa við Kínverja um gas og olíu kann að hafa enn meiri kvaðir í för með sér fyrir Gazprom. Fyrirtækið er samkvæmt samkomulaginu skuldbundið til að annast uppbyggingu allra innviða olíu- og gassölu til Kína og telja sérfræðingar fyrirtækisins að kostnaðurinn við það gæti orðið meiri en 100 milljarðar bandaríkjadala.
Gazprom hefur vegna þessa þurft að taka þó nokkra áhættu í fjármögnun verkefnisins því umsamdar greiðslur frá Kínverjum bárust aldrei og tæknileg úrlausnarefni kunna að auka verðmiðann enn frekar. Lægra olíuverð hefur það einnig í för með sér að virði samningsins fyrir Gazprom er ekki lengur 400 milljaðar dollara heldur mun minna. Fatið af olíu kostaði um það bil 100 dollara þegar samkomulagið var gert í fyrra en kostar nú aðeins um 50 dollara.
Verðið sem Gazprom fær nú fyrir hvern rúmkílómetra af gasi er um 200 dollarar. Greiningarfyrirtækið Merryll Lynch segir Gazprom þurfa að rukka Kínverja um 340-380 dollara til þess að hagnast á viðskiptunum. Samkomulagið við Kína gæti því auðveldlega orðið að eitri í æðar rússneska olíurisans.