Á föstudag tilkynnti Umhverfisverndarráð Bandaríkjanna að Volkswagen hafi búið bíla sína ólöglegum hugbúnaði sem var til þess gerður að svindla á útblástursprófunum. Dísel-bílar bílaframleiðandans losa þess vegna 40 sinnum meira af gróðurhúsalofttegundum en leyft er.
Bandarísk stjórnvöld hafa fyrirskipað innköllun 482.000 frá bæði Volkswagen og dótturfyrirtækinu Audi. Bílarnir voru allir framleiddir á árunum 2009 til 2015. Um leið hafa stjórnvöld vestra sagst vilja sekta Volkswagen um 37.500 bandaríkjadali fyrir hvert tilvik. Sektarupphæðin getur þess vegna orðið gríðarlega há eða um 18 milljarðar Bandaríkjadalir; meira en árshagnaður fyrirtækisins. Stjórnendur fyrirtækisins hafa sett 6,5 milljarða evra til hliðar til þess að borga skaðabætur og kostnað vegna svindlsins.
Hversu slæmt er ástandið?
The Guardian tók saman lykilatriði málsins í gær og spurði: Hversu slæmt er þetta fyrir Volkswagen? Svörin voru betri í gær en í dag. Við lokun markaða í gær hafði markaðsvirði fyrirtækisins fallið um 26 milljarða evra, andvirði 3.700 milljarða íslenskra króna, síðan hneykslið kom upp. Til samanburðar var landsframleiðsla Íslands 2014 1.989 milljarðar króna.
Blaðamaður The Guardian reynir einnig að leggja mat á orðspor fyrirtækisins til lengri tíma. Það gæti tekið langan tíma að endurreisa. Volkswagen hefur nefnilega lagt mikla áherslu á slag orð eins og „hreint dísel“ og markaðsett bíla sína sem umhverfisvænan kost fyrir ökumenn.
Enn fremur virðist svindlið ekki vera bundið við Bandaríkin því ellefu milljón bílar hafa verið seldir með þessari svindlaðferð um allan heim. Hjá Heklu, umboðsaðila Volkswagen á Íslandi, var fátt um svör þegar Kjarninn leitaði þangað. Volkswagen-verksmiðjurnar hafa einfaldlega ekki haft samband eða gefið skýringar á þessu.
Og hjá CNN hefur verið reynt að varpa ljósi á hversu alvarlegt þetta gæti reynst fyrir þýskan efnahag. Þar er smíði gæðabíla einn af lykilþáttum góðs aorðspors. Alls skipar bílaútflutningur 20 prósent af heildarútflutningi Þjóðverja og hjá Volkswagen, Audi og Porsche starfa 775.000 manns.
Um leið og hlutabréfaverð í Volkswagen hrundi féll verð hluta í öðrum evrópskum bílaframleiðendum líka. Hið franska Peugeot hefur fallið um sjö prósent, BMW um fimm prósent og Daimler (eigandi Mercedes-Benz) hefur fallið um 5 prósent. Aðeins eru nokkrir mánuðir síðan sagt var frá því að Volkswagen-samsteypan, með Audi og Porsche innanborðs, seldi flesta bíla allra bílasmiða í heiminum og um leið velti fyrirtækið Toyota úr sessi.
Hvernig svindlaði Volkswagen eiginlega á prófinu?
Samkvæmt Umhverfisráði Bandaríkjanna, og John German, embættismannsins sem komst að hinu sanna, þá vissi tölva bílsins hvenær verið væri að prófa bílinn og hvenær ekki. Svo þegar bílnum var stungið í samband til að reikna útblásturinn minnkaði hann sjálfkrafa. Um leið og bíllinn var svo tekinn úr sambandi 40 faldaðist losunin svo skyndilega.
Ekki er víst hvernig Volkswagen ætlar að tækla vandamálið; það má hugsanlega gera með hugbúnaðaruppfærslu. Hjá bílablaðinu Consumer Reports, sem er virt meðal bílgreina í Bandaríkjunum, benda menn á að bílarnir muni tapa eiginleikum sínum við lagfæringu á vandanum. „Það er mjög líklegt að uppfærsla muni hafa áhrif á eyðslu og eiginleika bílsins,“ segir Jake Fisher, yfirmaður bílprófana hjá blaðinu. Litlir díselbílar geta komist langleiðina að eyðslu bensínknúinna „hybrid“-bíla, svo það er kannski augljóst hvers vegna viðskiptavinir Volkswagen völdu þessa bíla.
The Guardian segir svo frá því í dag að samkvæmt greiningu þeirra á menguninni sem Volkswagen kann að bera ábyrgð á hafi allir þessir 11 milljón bílar blásið nærri milljón tonnum af loftmengandi efnum út í andrúmsloftið á hverju ári. Það sé um það bil jafn mikið og útblástur gróðurhúsalofttegunda frá öllum orkuverum, bílum, iðnaði og landbúnaði á öllu Bretlandi.
Hvað svo?
Volkswagen hefur svarað þessu hneyksli með nokkrum yfirlýsingum síðustu daga. Forstjórinn Martin Winterkorn, baðst persónulega innilega afsökunar á málinu þegar hann las yfirlýsingu sína tárvotur á sunnudag. Þar kallaði hann útfærslu hugbúnaðarins „galla“. Yfirmaður Volkswagen í Norður-Ameríku, Michael Horn, sagði svo á mánudag að þeir hefðu „algerlega klúðrað þessu“. Um leið viðurkenndi hann að fyrirtækið hefði verið óheiðarlegt gagnvart bandarískum yfirvöldum og almenningi með því að eiga við hugbúnaðinn til að falsa útblástursgögn.
Í morgun var svo haldin krísufundur í stjórn fyrirtækisins þar sem Winterkorn sat fyrir svörum. Þar er forstjórinn sagður vera í afar þröngri stöðu og erlendir fjölmiðlar fullyrða að hann verði „grillaður“ þar til stjórnarmenn verði sannfærðir um hvort forstjórinn sé að ljúga eða ekki.
Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa þegar sagst ætla að hefja opinbera rannsókn á málinu. Á mánudag sagðist bandaríska þingið ætla að setja saman rannsóknarnefnd um málið. Úr dómsmálaráðuneytinu vestra hefur jafnframt heyrst að glæparannsókn verði gerð á þessum svikum Volkswagen. Þá eru stjórnvöld í Þýskalandi og Suður Kóreu að rannsaka málið.
Nokkrar lagaskrifstofur hafa þegar hafið hópmálsókn á hendur Volkswagen. Robert Clifford hjá Clifford Law í Chicago fer fyrir einni af stærstu málsókninni en hann segir viðskiptavini bílaframleiðandans hafa orðið fyrir gríðarlegu tjóni og að þeir hafi alls ekki fengið það sem þeir voru að kaupa.
Á meðan þessi stormur ríður yfir Volkswagen hafa sögusagnir flogið um að forstjórinn Martin Winterkorn verði látinn fara strax á föstudaginn og að Matthias Müller, yfirmaður hjá dótturfélaginu Porsche, verði ráðinn í hans stað.