Hvaða flokkar vilja breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu, hverjir verja það og hverjum er alveg sama?
Kannanir sýna skýrt að mikill meirihluti almennings vill breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu. Sá vilji endurspeglast ekki jafn skýrt í afstöðu stjórnmálaflokka þótt flestir þeirra hafi á stefnuskrá sinni að breyta kerfinu umtalsvert eða umbylta því.
Í síðustu viku var birt niðurstaða könnunar sem Gallup gerði fyrir þrýstihópinn Þjóðareign. Í henni var fólk spurt hvort það styddi að markaðsgjald væri greitt fyrir afnot af fiskimiðum þjóðarinnar. Niðurstaðan var sú að 77 prósent aðspurðra var fylgjandi því og einungis 7,1 prósent var andvígt slíkri kerfisbreytingu. Afgerandi meirihluti kjósenda allra flokka var fylgjandi breytingunni þótt stuðningurinn væri minni hjá kjósendum Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks en þeim sem ætla að kjósa aðra flokka.
Í annarri könnun, sem MMR gerði fyrir Öldu – félags um sjálfbærni og lýðræði, og var birt í ágúst, 66 prósent landsmanna, tveir af hverjum þremur, vera óánægðir með núverandi útfærslu á kvótakerfi í sjávarútvegi. Þar af sögðust 38 prósent vera mjög óánægð með hana. Tæpur fimmtungur, 19 prósent aðspurðra, sagðist ekki hafa sterka skoðun á útfærslunni en einungis 14 prósent voru ánægð með hana. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins reyndust þeir einu sem eru ánægðari með útfærslu kvótakerfisins en óánægðari. Alls sögðust 42 prósent þeirra vera ánægðir með hana en 25 prósent eru óánægð.
Í núverandi kerfi er var aflahlutdeildum úthlutað án endurgjalds snemma á níunda áratugnum á grundvelli veiðireynslu. Síðar var útgerðum leyft að selja aflaheimildirnar og frá árinu 1997 hafa þær getað veðsett þær í bönkum fyrir lánum. Fyrir þessi afnot af náttúruauðlindum í eigu þjóðar greiða þær útgerðir sem halda á kvóta veiðigjald. Það var alls 4,9 milljarðar króna á síðasta ári. Frá hruni til loka árs 2019 nam samanlagður hagnaður útgerða landsins 439 milljörðum króna, þegar búið var að draga veiðigjöld og aðrar álögur frá. Á sama tímabili greiddu útgerðirnar um 70 milljarða króna alls í veiðigjöld.
Nú hafa allir þeir tíu stjórnmálaflokkar sem bjóða fram til þings 25. september næstkomandi birt stefnuskrár sínar í aðdraganda kosninga. Kjarninn bar saman áherslur þeirra í sjávarútvegsmálum og afstöðu til kerfisbreytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Þau sem vilja engar breytingar
Sjálfstæðisflokkurinn er allra flokka skýrastur um að verja eigi sjávarútveg frá frekari gjaldheimtu og kerfisbreytingum.
Í stjórnmálaályktun flokksins, sem samþykkt var um síðustu helgi, segir að íslenskur sjávarútvegur sé burðarás í atvinnulífi um land allt og leiðandi í heiminum hvað varðar sjálfbærni, þróun og arðsemi. Atvinnugreinin sé í daglegri samkeppni við erlendan ríkisstyrktan sjávarútveg og því sé nauðsynlegt „að gjaldheimta í sjávarútvegi dragi ekki úr samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði og fjárfestingu í greininni.“
Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist 24 prósent í nýjustu kosningaspá Kjarnans.
Þau sem vilja breytingar
Vinstri grænekki um stórar kerfisbreytingar í stefnuyfirlýsingu sinni en segja að þau sem nýti auðlindir í þjóðareign, hvort sem það sé land, orka, sjávarauðlindin eða annað, þurfi „að greiða sanngjarnt gjald af þeirri nýtingu. Alþingi á að tryggja auðlindaákvæði í stjórnarskrá ásamt skýru ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd.“
Ekki er tilgreint hvernig eigi að ákveða „sanngjarnt gjald“.
Í stjórnmálaályktun landsfundar flokksins, sem fór fram um helgina, segir til viðbótar að halda þyrfti áfram að auka byggðatengdar aflaheimildir, efla strandveiðar, vinna gegn samþjöppun í sjávarútvegi og stuðla að fjölbreytni í útgerð. „Meta þarf áhrif nýs fyrirkomulags afkomutengdra veiðigjalda á lítil og meðalstór fyrirtæki annars vegar og stærri fyrirtæki hins vegar.“
Í stefnu flokksins sem var samþykkt í maí er hins vegar fjallað meira um hvernig hann vill breyta stöðu mála. Þar segir að flokkurinn vilji að fiskveiðistjórnunarkerfið verði endurskoðað með áherslu á að styrkja varnir gegn óhóflegri samþjöppun með því að kvótaþök séu fortakslaust virt, girðingar haldi sér milli kerfaog að framtíðargrundvöllur veiðiréttinda verði tímabundinn og afmörkuð nýtingarleyfi bundin tilteknum skilyrðum. Á meðal þess sem felst í þessu er að aðilar sem teljast tengdir í skilningi kvótaþakanna ef eitt fyrirtæki eða eigendur þess eiga meira en fjórðung í öðru. Girða beri fyrir að stórfyrirtæki í aflamarkskerfinu geti keypt upp smærri fyrirtæki og veiðiheimildir í krókaflamarkskerfinu og aukið þannig enn á samþjöppun veiðiheimilda.
Þá vilja Vinstri græn að verðlagningarkerfi fiskveiða, ekki síst í uppsjávarveiðum, verði tekið til endurskoðunar til að tryggja réttlátan hlut sjómanna, hafnargjöld, útsvarstekjur sveitarfélaga og skatttekjur ríkisins.
Fylgi Vinstri grænna mældist með 12,2 prósent í nýjustu kosningaspá Kjarnans.
Þau sem setja ekki fram skýra stefnu
Miðflokkurinn hefur ekki sett fram neina stefnu í aðdraganda kosninga um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þá er ekkert minnst á sjávarútvegm fiskveiðistjórnunarkerfi eða gjaldtöku vegna nýtingu auðlindarinnar í stjórnmálaályktun flokksins sem samþykkt var á Landsþingi hans um miðjan síðasta mánuð.
En Miðflokkurinn hefur hins vegar þá yfirlýstu stefnu að vilja greiða út auðlindagjald til allra fullorðinna Íslendinga 1. desember á hverju ári. Stjórnvöld eiga að fjármagna þá greiðslu með auðlindagjöldum og stuðla að „hagkvæmri auðlindanýtingu“. Fyrsta árið á greiðslan að vera 100 þúsund krónur á mann og með því viðmiði er litið til þátta á borð við veiðigjöld, hagnað Landsvirkjunar og sölu losunarheimilda.
Í kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins fyrir komandi kosningar er ekki minnst á fiskveiðistjórnunarkerfið, veiðigjöld eða annars konar gjaldtöku vegna nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar. Í síðustu samþykktu ályktun Flokksþings Framsóknarflokksins, sem er frá mars 2018, segir að sjávarútvegur og landbúnaður séu grunnatvinnuvegir landsins og traustar stoðir í byggðum þess. „Greinarnar þurfa ávallt að búa við sanngjörn starfsskilyrði. Tryggja þarf samkeppnishæfni þeirra og leggja áherslu á að styðja við sjálfbærni, nýsköpun og vöruþróun.“
Samanlagt fylgi Miðflokks og Framsóknarflokks mældist 17,4 prósent í nýjustu kosningaspá Kjarnans.
Þau sem vilja kerfisbreytingu
Samfylkingin boðar í kosningastefnu sinni sókn gegn sérhagsmunum, hærri veiðigjöld og endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu með það að markmiði að hámarka arð þjóðarinnar að sjávarauðlindinni. Í stefnu flokksins er þó ekki tilgreint sérstaklega hvernig eigi að endurskoða kerfið en sagt að Samfylkingin vilji álag á veiðigjald sem leggst á tuttugu stærstu útgerðir landsins. Það á að auka tekjur um nokkra milljarða króna.
Píratar líta á sjávarauðlindina sem „sameiginlega og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar“. Því á enginn að geta fengið fiskveiðiheimildir, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.
Píratar vilja að aflaheimildir séu boðnar upp til leigu á opnum markaði og tryggja að leigugjaldið renni að fullu til íslensku þjóðarinnar. „Píratar ætla að gera handfæraveiðar frjálsar og fyrsta skrefið verður að tryggja 48 veiðidaga á hvern handfærabát. Við ætlum að láta allan afla fara upphaflega í gegnum innlendan fiskmarkað til að fá eðlilegt markaðsverð á öllu sjávarfangi. Þannig er komið í veg fyrir að útgerðum með eigin vinnslu sé gert kleift að selja sjálfum sér sjávarfang með afslætti. Verðlagsstofa skiptaverðs verður þar með óþörf og lögð niður og tvöföld verðlagning leggst af, sjómönnum og landsmönnum til heilla. Við ætlum að gera það refsivert að láta sjómenn taka þátt í kaupum eða leigu útgerðarfyrirtækja á aflaheimildum.“
Viðreisn vill sanngjarnar leikreglur í sjávarútvegi með því að hluti kvótans verði boðinn upp á markaði á hverju ári. Í stefnuskrá flokksins segir að í „fyllingu tímans verði þannig allar veiðiheimildir bundnar slíkum samningum og útgerðin greiðir fyrir afnot af fiskimiðunum í samræmi við markaðsverðmæti aflaheimilda.“ Þegar stjórnmálaályktun flokksins er skoðuð kemur fram að útfærsla þessara áherslna eigi að vera þannig að „í stað veiðileyfagjalds verði ákveðinn hluti kvótans settur á markað á hverju ári og seld sem nýtingarsamningar til ákveðins tíma. Með samningum til 20-30 ára sé pólitískri óvissu eytt og eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni staðfest.“
Flokkur fólksins tiltekur í lista yfir forgangsmál sín að hann vilji að útgerðir greiði það sem hann kallar fullt verð fyrir aðgang að sjávarauðlindinni, vilja nýja nýtingastefnu fiskimiða „þar sem auðlindir okkar eru sameign þjóðarinnar en ekki einkaeign fárra útvalinna sægreifa“. Flokkurinn vill stórefla strandveiðar og gera handfæraveiðar frjálsar og styður lögfestingu ákvæðis um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá.
Samanlagt fylgi Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins mældist 37,7 prósent í nýjustu kosningaspá Kjarnans.
Þeir sem vilja umbyltingu
Sósíalistaflokkur Íslands gengur flokka lengst í afstöðu til fisveiðistjórnunarmála. í tólfta tilboði hans til kjósenda fyrir komandi kosningar leggur flokkurinn til að kvótakerfið verði lagt niður og að byggð verði „réttlátari umgjörð utan um fiskveiðar og vinnslu.“ Flokkurinn boðar að stærstu útgerðarfélögum landsins verði skipt upp bæði þversum og langsum ef hann komist til valda. Einnig segir flokkurinn að veiðigjöld, sem innheimt verði við löndun, geti skilað hinu opinbera 35 milljörðum króna.
Sósíalistar segjast einnig ætla að gera kröfu um að allur afli fari á markað og að veiðigjöld verði innheimt við löndun, „á jafn einfaldan máta og virðisaukaskattur“. Þá vill flokkurinn að sett verði upp „fiskiþing í hverjum landshluta þar sem sjómenn, fiskverkafólk og almenningur allur sest niður og mótar fiskveiðistefnuna til lengri tíma.“ Til að „losna við yfirgang útgerða og annarra hagsmunaaðila“ færi best á því að nota slembival til að velja fulltrúa á þingin, að stærstu eða öllu leyti.
Fylgi Sósíalistaflokks Íslands mældist 8,1 prósent í nýjustu kosningaspá Kjarnans.
Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn vill að handfæraveiðar í strandveiðikerfi verði frjálsar fyrir báta tíu metra að lengd og styttri, leyfa á sölu á fiski beint frá báti og að makrílveiðar verði frjálsar innan tíu sjómílna fyrir smábáta að 15 metrum.
Flokkurinn vill enn fremur að stórútgerðarfyrirtæki og tengd fyrirtæki geti ekki átt í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum og rofið kvótaþakið á þann hátt, en þakið er 20 prósent á einstakar fisktegundir og tólf prósent á heildarafla. Þá vill hann að útgerðir greiði 20 prósent tekjuskatt af þeim hlunnindum sem útgerðinni er afhent árlega og að virðisaukaskattur verði settur á leiguverð kvóta.
Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn er ekki með mælanlegt fylgi samkvæmt kosningaspá Kjarnans.
Fréttaskýringin var uppfærð kl. 10:50 með viðbótarupplýsingum um stefnu Vinstri grænna.
Lestu meira:
-
5. janúar 2023Ásmundur Einar Daðason staðið sig best allra ráðherra – Bjarni Benediktsson langverst
-
3. janúar 2023Samfylkingin ekki stærri hjá Gallup í tólf ár en Vinstri græn hafa aldrei mælst minni
-
21. desember 202242,1 prósent innflytjenda greiddu atkvæði í síðustu alþingiskosningum
-
26. nóvember 2022Allir formenn stjórnarflokkanna tapað umtalsverðu trausti á kjörtímabilinu
-
21. nóvember 2022Tíð ríkisstjórnarskipti og kórónuveiran hafa stóraukið nýtingu fjáraukalaga
-
19. nóvember 2022Samfylkingin hefur næstum tvöfaldað fylgið og andar ofan í hálsmálið á Sjálfstæðisflokki
-
27. október 2022Guðlaugur Þór horfir til þess að fella Bjarna
-
21. október 2022Kristrún Frostadóttir verður ein í framboði til formanns Samfylkingarinnar
-
20. október 2022Píratar og Samfylkingin hafa samanlagt bætt við sig tíu prósentustigum á kjörtímabilinu
-
16. október 2022Guðmundur Árni býður sig fram til varaformanns en Heiða hættir við framboð