Í Reykjavík eru félagslegar íbúðir 5,3 prósent allra íbúða – Í Garðabæ eru þær 0,7 prósent
Áfram sem áður er Reykjavíkurborg, og skattgreiðendur sem í henni búa, í sérflokki þegar kemur að því að bjóða upp á félagslegt húsnæði. Þrjár af hverjum fjórum slíkum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu eru þar á meðan að eitt prósent þeirra er í Garðabæ. Fleiri almennar íbúðir eru á Akranesi en í öllum Kraganum og níu af hverjum tíu slíkum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu eru í Reykjavík.
Á höfuðborgarsvæðinu eru 4.016 íbúðir sem skilgreindar eru sem félagslegar. Meginþorri þeirra, alls 2.969 íbúðir, eru í höfuðborginni Reykjavík, eða 74 prósent allra félagslegra íbúða. Það sveitarfélag sem kemur næst í því að draga þennan vagn á svæðinu er Kópavogur með 477 íbúðir og þar á eftir Hafnarfjörður með 334 íbúðir. Verst standa Seltjarnarnes, með 44 félagslegar íbúðir, og Garðabær, með 43, sig. Mosfellsbær kemur þarna á milli með 149 félagslegar íbúðir.
Þetta má lesa út úr svari Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um fjölda félagslegra íbúða sem birt var í gær. Upplýsingar um fjölda félagslegra íbúða eru sóttar í húsnæðisáætlun sveitarfélaga sem skilað er til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Um er að ræða félagslegt leiguhúsnæði í eigu sveitarfélags eða húsnæði sem sveitarfélag framleigir til skjólstæðinga félagsþjónustu, leiguhúsnæði fyrir eldri borgara og sértæk búsetuúrræði.
Einungis 0,67 prósent íbúa í Garðabæ
Myndin af því hvernig skattgreiðendur sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sinna félagslegri þörf fyrir húsnæði með útsvars- og fasteignaskattsgreiðslum sínum með mismunandi hætti verður enn skýrari þegar horft er á félagslegar íbúðir sem hlutfall af heildarfjölda íbúða í hverju sveitarfélagi fyrir sig.
Í Reykjavík eru slíkar íbúðir 5,26 prósent allra íbúða. Í Kópavogi, Hafnarfirði og Mosfellsbæ eru þær yfir þrjú prósent. Tvö sveitarfélög skera sig áfram sem áður út. Einungis 2,54 prósent íbúða á Seltjarnarnesi eru félagslegar. Í Garðabæ eru þær hlutfallslega enn færri, eða 0,67 prósent. Ekkert annað sveitarfélag á landinu sem hefur yfir eitt þúsund íbúðir innan sinna vébanda er með svo lágt hlutfall allra íbúða helgaðar félagslega kerfinu, en í Garðabæ eru alls 6.447 íbúðir.
Almennar íbúðir fyrir tekjulága
Til viðbótar við ofangreindar upplýsingar svaraði Sigurður Ingi því hversu margar almennar íbúðir hafa verið byggðar í sveitarfélögum landsins. Lög um byggingu slíkra íbúða voru samþykkt sumarið 2016. Hið nýja íbúðakerfi er tilraun til að endurreisa einhvern vísi að ríkisrekna félagslega húsnæðiskerfinu sem var aflagt undir lok síðustu aldar með þeim afleiðingum að félagslegum íbúðum fækkaði um helming milli áranna 1998 og 2017.
Markmið þeirra laga var að bæta húsnæðisöryggi þeirra sem eru undir ákveðnum tekju- og eignarmörkum með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði. Þannig yrði stuðlað að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu þeirra sem leigja húsnæðið og fari að jafnaði ekki yfir 25 prósent af tekjum þeirra.
Lögin byggðu á yfirlýsingu sem þáverandi ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar gaf út í tengslum við kjarasamninga sem voru undirritaðir í maí 2015. Í henni var gert ráð fyrir að 2.300 íbúðir yrðu byggðar á árunum 2015 til 2018.
Lengri tíma tók hins vegar að klára lögin og fyrstu úthlutanir á grundvelli þeirra fóru ekki fram fyrr en á árinu 2016.
Um 90 prósent almennra íbúða á höfuðborgarsvæðinu í Reykjavík
Íbúðirnar sem hafa fengið stofnframlög eru ætlaðar fyrir allskyns hópa sem eru með lágar tekjur. Þar ber fyrst að nefna þá félagshópa sem eru undir skilgreindum tekju- og eignarviðmiðum.
Stór hluti þessarar uppbyggingar, sem er afar umfangsmikil, er á vegum Bjargs íbúðafélags, sem var stofnað af ASÍ og BSRB fyrir nokkrum árum síðan, og er rekið án hagnaðarmarkmiða.
Ýmsar íbúðir sem eru ekki innan almenna íbúðakerfisins eða eru ekki í eigu sveitarfélaga falla þó ekki undir þessa upptalningu líkt og allar íbúðir Félagsstofnunar stúdenta og hluti íbúða Byggingarfélags námsmanna, hluti íbúða Brynju – Hússjóðs ÖBÍ, íbúðir Leigufélagsins Bríetar og fleiri.
Almenna ibúðakerfið er fjármagnað þannig að ríkið veitir stofnframlag sem nemur 18 prósent af stofnvirði almennra íbúða. Stofnvirði er kostnaðarverð íbúðarinnar, sama hvort það er við byggingu hennar eða vegna kaupa á henni.
Reykjavík hefur tekið á sig meginþorra ábyrgðar á uppbyggingu á almenna íbúðarkerfinu fyrir lágtekjufólk sem eru í vandræðum með að taka þátt á hefðbundnum íbúðamarkaði. Alls 89,4 prósent allra almennra íbúða sem hafa risið á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum eru í Reykjavík.
Það er ekki án kostnaðar fyrir höfuðborgina, eða íbúa hennar, sem greiða fyrir reksturinn með útsvari og fasteignagjöldum. Sveitarfélög veita nefnilega 12 til 16 prósent stofnframlag til verkefnanna. Þau geta falist í beinu fjárframlagi en eru oftar en ekki í formi úthlutunar á lóðum eða lækkunar eða niðurfellingar á gjöldum sem þyrfti annars að greiða til sveitarfélagsins.
Fleiri almennar íbúðir í útjaðrinum en í Kraganum
Reykjavíkurborg hefur meðal annars úthlutað Bjargi íbúðarfélagi lóðir undir mörg hundruð íbúðir á stöðum eins í Úlfarsárdal, Bryggjuhverfinu og Hraunbæ, en líka á þéttingareitum í gamla hluta borgarinnar á borð við Kirkjusand, Vogabyggð og Skerjabyggð.
Í svari Sigurðar Inga kemur fram að alls 446 almennar leiguíbúðir fyrir tekju‐ og eignalága hafi risið á höfuðborgarsvæðinu. Alls 399 þeirra eru í Reykjavík. Í Garðabæ hafa risið 22 slíkar íbúðir, 15 í Kópavogi og tíu í Hafnarfirði. Ekki ein einasta almenna leiguíbúð hefur risið í Mosfellsbæ eða á Seltjarnarnesi enn sem komið er.
Athygli vekur að þrjú sveitarfélög fyrir utan höfuðborgarsvæðið hafa byggt meira magn af almennum íbúðum en öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, utan Reykjavíkur. Þar fer Akranes fremst í flokki með 51 almenna íbúð og annað sveitarfélag á suðvesturhorninu, Árborg, er með 28 slíkar íbúðir innan sinna vébanda. Á Akranesi, þar sem búa 7.810 manns, eru því fleiri almennar íbúðir en í Kraganum svokallaða, öllum öðrum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins utan Reykjavíkur, þar sem búa 105.570 manns.
Í höfuðstað Norðurlands, Akureyri, hefur svo verið byggð 31 almenn íbúð.
Lestu meira:
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði
-
24. desember 2022Segja verðtryggða íbúðalánavexti mögulega vera orðna hagkvæmari en óverðtryggða
-
23. desember 2022Allir helstu lánveitendur búnir að hækka íbúðalánavexti eftir ákvörðun Seðlabankans
-
20. desember 2022Hvers vegna Efling þarf öðruvísi samning
-
17. desember 2022Ríkasta 0,1 prósentið skuldaði nánast ekkert en átti eignir upp á 330 milljarða
-
14. desember 2022Biðst afsökunar á að tilkynning um 30 prósent leiguhækkun hafi ekki verið nærgætnari
-
12. desember 2022Borgin eignast og endurselur 19 íbúðir af 81 í nýju fjölbýli í Laugarnesi
-
10. desember 2022Umdeilt leigufélag ratar enn og aftur í fréttir vegna frásagna af okri á leigjendum
-
30. nóvember 2022Leigufélagið Bríet gefur 30 prósent afslátt af leigu í desember