Íslandsbanki segir ekki hversu margir fengu flokkun sem hæfir fjárfestar á meðan að á útboðinu stóð
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluferli Íslandsbanka kemur fram að fjárfestar sem voru ekki í viðskiptum við Íslandsbanka gátu sótt um og fengið flokkun sem „hæfir fjárfestar“ á þeim klukkutímum sem útboðið stóð yfir. Þar var meðal annars horft til þess hvort viðkomandi leit á sjálfan sig sem „hæfan fjárfesti“. Bankinn vill ekki svara því hversu margir fengu slíka flokkun né fyrir hvað þeir keyptu, á meðan að Fjármálaeftirlitið rannsakar þennan hluta málsins.
Íslandsbanki vill ekki svara því hversu margir fjárfestar hefðu hlotið flokkun sem „hæfir fjárfestar“ hjá bankanum á þeim klukkutímum sem söluferlið á 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í honum stóð yfir í mars síðastliðnum. Íslandsbanki vill heldur ekki segja fyrir hversu háa upphæð þeir sem fengu flokkun á meðan að tekið var við tilboðum í hlut ríkisins í bankanum keyptu. Þessi hluti málsins sé til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu og á meðan svo sé muni bankinn ekki svara spurningum um hann.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars er vitnað í svör frá Íslandsbanka, einum af þremur umsjónaraðilum Bankasýslunnar í söluferlinu, um hvernig fjárfestar sem voru ekki í viðskiptum við bankann fram að söludeginum fengu möguleika á að sækja um og eftir atvikum fá flokkun hjá honum sem hæfir fjárfestar á meðan á sölunni stóð. Þar segir svo orðrétt: „Að auki var horft til fullyrðinga frá fjárfestunum sjálfum um að þeir teldust hæfir fjárfestar en bankinn þurfti að meta upplýsingar þess efnis sjálfstætt.“
Kjarninn spurði einnig hvort Íslandsbanki hefði lánað einhverjum þeirra fjárfesta sem fengu flokkun hjá bankanum á meðan á sölunni stóð fyrir kaupum á bréfum sem voru til sölu í ferlinu.
Íslandsbanki svaraði því neitandi að hafa lánað til kaupa á bréfunum. Í svarinu er sérstaklega tiltekið að bankanum sé óheimilt samkvæmt lögum að veita lán sem eru tryggð með veði í hlutabréfum í bankanum sjálfum. Að því var þó ekki spurt í fyrirspurn Kjarnans enda hefur veðtaka í eigin bréfum verið ólögmæt hérlendis frá árinu 2010.
207 fjárfestar fengu að kaupa
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluferlið á hlut ríkisins í Íslandsbanka er fjallað um val á þeim 207 fjárfestum sem fengu að kaupa hlut í bankanum, en 85 prósent þeirra voru á endanum innlendir. Hóps sem skilgreindur var sem „hæfir fjárfestar“. Alls fékk þessi hópur að eignast 22,5 prósent hlut í bankanum fyrir 52,65 milljarða króna, sem var 4,1 prósent undir dagslokagengi bréfa í Íslandsbanka.
Leiðin sem var valin til að selja hlutinn kallast tilboðsaðferð. Hún er framkvæmd á nokkrum klukkutímum og ákveðið var að einblína á áðurnefnda „hæfa fjárfesta“. Síðar var vísað í að þar sé um að ræða þá sem skilgreinast sem fagfjárfestar samkvæmt lögum. Til þess þarf að uppfylla tvö af þremur skilyrðum: að hafa átt ákveðið mörg viðskipti á ársfjórðungi, að fjármálagerningar þeirra og innistæður væru samanlagt virði 500 þúsund evra (um 70 milljón króna) eða meira eða að fjárfestir hafi gegnt eða gegni, í að minnsta eitt ár, stöðu í fjármálageiranum sem krefst þekkingar á fyrirhuguðum viðskiptum eða þjónustu.
Röksemdarfærslan fyrir því að fara þessa leið var meðal annars sú að það myndi spara kostnað og laða að erlenda fjárfesta. Ekki þyrfti að ráðast í útboðslýsingu til að uppfylla upplýsingaskilyrði fyrir almenna fjárfesta, venjulegt fólk. Bara þeir sem hefðu óskilgreindan betri skilningi á því sem þeir væru að kaupa, var boðið að vera með.
Margir fengu ekki boð
Tvær grímur runnu á marga þegar kom í ljós að margir þessara aðila voru ekki það sem kalla mætti stofnanafjárfestar sem hefðu burði til að styðja við bankann til lengri tíma né voru að kaupa í því magni að nauðsynlegt væri að velja þá til þátttöku í lokuðu útboði umfram almenna fjárfesta. Tortryggni vaknaði strax og tilkynningar um kaup stjórnenda og stjórnarmanna Íslandsbanka, eða aðila sem tengdust þeim, voru birtar í Kauphöll til að mæta tilkynningarskyldu um innherjaviðskipti. Þar voru einstaklingar að kaupa fyrir nokkrar milljónir króna. Þrýstingur var settur á að fá frekari upplýsingar um hverjir hafi fengið að kaupa og við hvert skref sem var stigið í að opinbera það vöknuðu fleiri spurningar.
Þeir sem keyptu fyrir minna en 30 milljónir króna voru 59 talsins. Þeir sem keyptu fyrir minna en 50 milljónir voru 79. Alls 167 aðilar keyptu fyrir 300 milljónir króna eða minna. Sá sem keypti fyrir lægstu upphæðina, starfsmaður Íslandsbanka, keypti fyrir 1,1 milljón króna. Samkvæmt upplýsingum sem Kjarninn hefur aflað er ljóst að sumir þeirra sem söluráðgjafarnir flokkuðu sem hæfa fjárfesta eru ekki skilgreindir sem slíkir í öðrum fjármálafyrirtækjum. Í því birtist það vandamál að fyrirtæki í verðbréfamiðlun eru með það hlutverk samkvæmt lögum að meta sjálf hvort viðskiptavinir þeirra uppfylli skilyrði þess að teljast slíkur.
Þá liggur fyrir að margir, bæði innlendir og erlendir, fagfjárfestar fengu ekki boð um að vera með þrátt fyrir að sumir þeirra hafi leitað beint eftir því. Hefur Kjarninn til að mynda undir höndum tölvupóstsamskipti milli aðila og Bankasýslu ríkisins, sem fór með framkvæmd sölunnar fyrir hönd ríkisins, þar sem leitað var eftir því að stór alþjóðlegur fjárfestingarsjóður fengi að taka þátt í útboðinu 22. mars. Engin svör bárust. Umræddur aðili sem sendi póstinn er ekki á meðal þeirra söluráðgjafa sem valdir voru til að sjá um útboðið.
Nóg að fullyrða það sjálfur
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að miðlægur gagnagrunnur um hæfa fjárfesta er ekki til hér á landi. Umsjónaraðilar, söluráðgjafar og söluaðilar Bankasýslunnar gátu því ekki flett upp öðrum tilboðsgjöfum en viðskiptavinum sínum til að sannreyna fullyrðingar þeirra um að þeir væru hæfir fjárfestar. Flokkun fjárfesta í söluferlinu var því framkvæmd hjá hverju fjármálafyrirtæki fyrir sig.
Samkvæmt Íslandsbanka, einum af þremur umsjónaraðilum Bankasýslunnar í söluferlinu, höfðu fjárfestar sem voru ekki í viðskiptum við bankann fram að söludeginum möguleika á að sækja um og eftir atvikum fá flokkun hjá honum sem hæfir fjárfestar á meðan á sölunni stóð. Að auki var horft til fullyrðinga frá fjárfestunum sjálfum um að þeir teldust hæfir fjárfestar en bankinn þurfti að meta upplýsingar þess efnis sjálfstætt. Ríkisendurskoðun segir í skýrslu sinni að stofnunin hafi ekki kannaði hvernig þessu var háttað hjá öðrum umsjónaraðilum, söluráðgjöfum eða söluaðilum við mat þeirra á hæfum fjárfestum. Þessi hluti söluferlisins er nú til rannsóknar hjá Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
Innri reglur komu ekki í veg fyrir hagsmunaárekstra
Þá segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar að samkvæmt upplýsingum frá meðal annars fjármálaráðgjafa Bankasýslunnar sé óvenjulegt að einkafjárfestum sem samþykktir hafa verið sem fagfjárfestar sé boðin þátttaka í sölu með tilboðsfyrirkomulagi. „Fjármála- og efnahagsráðuneyti og Bankasýslan voru hins vegar sammála um að gera ráð fyrir þátttöku einkafjárfesta sem uppfylltu skilyrði sem hæfir fjárfestar í söluferlinu.“
Bankasýslan hefur í svörum sínum til Ríkisendurskoðunar vísað til þess að fjármálafyrirtækjum beri lögum samkvæmt að setja sér innri reglur um ráðstafanir gegn hagsmunaárekstrum. „Stofnunin mat það svo að regluverk fjármálamarkaðarins væri með þeim hætti að slíkar innri reglur umsjónaraðila, söluráðgjafa og söluaðila kæmu í veg fyrir hagsmunaárekstra í sölunni. Ljóst er að innri reglur Íslandsbanka komu ekki í veg fyrir slíkt.“
Í ítarlegri málsvörn sem Bankasýslan hefur birt á heimasíðu sinni segir að á fjármálafyrirtækjum hvíli ríkar skyldur samkvæmt lögum og reglum um að haga starfsemi sinni og innra skipulagi þannig að komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra meðal annars milli fyrirtækisins, þar með talið starfsmanna, og viðskiptavina þess. Það sé staðreynd. „Brot gegn slíkum reglum varða stjórnvaldssektum allt að 10 prósent af heildarveltu viðkomandi fyrirtækis.“
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
3. desember 2022Var Ríkisendurskoðun að misskilja eða veitti Bankasýslan ráðherra ekki réttar upplýsingar?
-
1. desember 2022Íslandsbanki segir ekki hversu margir fengu flokkun sem hæfir fjárfestar á meðan að á útboðinu stóð
-
30. nóvember 2022„Það var mjög óheppilegt að náinn ættingi hafi verið í þessum kaupendahópi“
-
25. nóvember 2022Yfir 60 prósent treysta ekki stjórninni til að selja Íslandsbanka og vilja rannsóknarnefnd
-
24. nóvember 2022„Ríkisendurskoðun hafnar aðdróttunum ákveðinna fjölmiðla um annarleg sjónarmið“
-
21. nóvember 2022Spyr Bjarna hvort Fjármálaeftirlitið hafi lagaheimildir til að rannsaka Bjarna
-
21. nóvember 2022Ekki í fyrsta sinn sem ríkisbanki, Ríkisendurskoðun og Bankasýslan fara í hár saman
-
18. nóvember 2022Vill að Katrín mæti fyrir fjárlaganefnd og geri grein fyrir næstu skrefum í bankasölu
-
17. nóvember 2022Sögðu Sjálfstæðisflokkinn bara vilja ræða leka, ekki bankasöluna eða skýrsluna um hana