Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi samkvæmt kosningaspá sem gerð var fyrir Kjarnann úr nýjustu skoðanakönnunum. Flokkurinn fengi rétt tæpan fjórðung atkvæða ef gengið yrði til kosninga nú. Píratar hafa næst mest fylgi á eftir Sjálfstæðisflokknum með 23,6 prósent atkvæða.
Kjarninn leitaði til Baldurs Héðinssonar, stærðfræðings, og bað hann að keyra spálíkan fyrir Alþingiskosningar byggða á síðustu könnunum sem birtar hafa verið. Þær kannanir sem reiknaðar eru með og gefið vægi eru könnun Capacent sem gerð var 29. janúar til 25. febrúar, könnun Fréttablaðsins dagana 10. til 11. mars, könnun MMR dagana 13. til 18. mars og könnun Fréttablaðsins 18. til 19. mars.
Niðurstöður kosningaspárinnar
Augljóst er af niðurstöðum kosningaspárinnar að Píratar eru á góðri siglingu þessa dagana. Kannanir MMR ofmátu fylgi Pírata nokkuð verulega fyrir síðustu Alþingis- og borgarstjórnarkosningar. Það gerði Fréttablaðið líka, þó ekki eins mikið.
Í líkaninu er könnunum gefið vægi eftir stærð úrtaks, aldri og fleiri breytum. Capacent-könnunin síðan 25. febrúar tók stærsta úrtakið af þeim könnunum sem hafðar voru til hliðsjónar en sú könnun er jafnframt sú elsta.
„Capacent er áreiðanlegasti könnunaraðilinn samkvæmt minni greiningu,“ segir Baldur í tölvupósti til Kjarnans og bætir við að áhugavert verði að fá næsta Þjóðarpúls sem væntanlega verður birtur í byrjun apríl. „[Hann] mun gefa góða vísbendingu um hver staða Pírata er.“
Píratar hlutu 5,1 prósent atkvæða í Alþingiskosningunum 2013 og eiga þrjá þingmenn á Alþingi. Flokkurinn hefur í síðustu könnunum (MMR og Fréttablaðinu) mælst með mest fylgi þeirra sex flokka sem sitja á Alþingi nú. Í nýjustu könnuninni mældist flokkurinn með 29,1 prósent fylgi sem myndi duga þeim til að næla í 19 þingmenn. Sjálfstæðisflokkurinn, sem ítrekað hefur mælst stærstur í fylgiskönnunum frá kosningum 2013, mældist næst stærstur eða með 23,4 prósent.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, þykir hafa staðið sig vel að undanförnu og margir þakka ekki síst honum fylgisaukningu Pírata hér á landi.
Aðrir flokkar fastir
Fylgi annarra flokka en Pírata hefur breyst lítið síðan í kosningunum 2013, sé Framsóknarflokkurinn undanskilinn. Framsókn vann mikinn kosningasigur þá en síðan hefur fylgið týnst af flokknum í hverri skoðanakönnuninni á fætur annari. Framsóknarflokkurinn fengi aðeins 11,0 prósent atkvæða samkvæmt kosningaspánni, miðað við 24,4 prósent í kosningum.
Samfylkingin fengi 16,1 prósent atkvæða miðað við 12,9 prósent í kosningunum 2013. Nýjasta könnunin sem tekin er með í kosningaspánni er gerð í vikunni fyrir landsfund flokksins um síðastliðna helgi. Seinni könnunardagurinn var 19. mars en að kvöldi þess dags kynnti Sigríður Ingibjörg Ingadóttir formannsframboð gegn sitjandi formanni Árna Páli Árnasyni á fundinum. Landsfundurinn og atburðirnir í aðdraganda hans hafa því mjög takmörkuð áhrif á niðurstöðu kosningaspárinnar.
Stuðningur við Bjarta framtíð hefur aukist lítillega og mælist nú 10,1 prósent miðað við 8,2 prósent í kosningum. Vinstri græn hafa staðið nokkurn veginn í stað og mælast með 10,2 prósent fylgi en fengu 10,9 prósent.
Alþingiskosningar eru venjulega haldnar á fjögurra ára fresti og verða næst haldnar árið 2017. (Mynd: Birgir Þór Harðarson)