Samsett mynd Álverin þrjú
Samsett mynd

Kynferðisleg áreitni og ofbeldi í álverunum og verklag þeirra

Alls hafa 27 tilkynningar borist álfyrirtækjunum þremur, Fjarðaáli, Norðuráli og Rio Tinto á síðustu fjórum árum. Kjarninn kannaði þá verkferla sem málin fara í innan fyrirtækjanna.

Frá fyrstu metoo-­bylgj­unni hefur mikið vatn runnið til sjávar varð­andi umræðu um kyn­ferð­is­lega áreitni og ofbeldi á vinnu­stöð­um. Í lok árs skrif­uðu tæp­­­­lega 5.650 kon­ur úr hinum ýmsu starfs­­­­stéttum sem lifa við margs konar aðstæður undir áskorun þar sem þær settu fram kröfur sínar og deildu með þjóð­inni 815 frá­­­sögn­­um.

Kjarn­inn hefur und­an­farið kannað hvernig verk­lagi í íþrótta­­sam­­bönd­um, opin­berum fyr­ir­tækjum og stofn­un­um, stærstu bönk­unum og leik­hús­unum sé háttað og hversu margar til­­kynn­ingar hafi borist síðan fyrsta bylgja metoo hófst.

Hér koma svör þriggja stærstu fyr­ir­tækj­anna sem reka álver á Íslandi, Fjarða­áls, Rio Tinto og Norð­ur­áls.

Bára Huld Beck

Tvö mál end­uðu með upp­sögn

Síð­ustu fjögur ár hafa alls 11 form­legar til­kynn­ingar um kyn­ferð­is­lega áreitni borist mannauð­steymi Fjarða­áls sem rekur álverið á Reyð­ar­firði. Í 10 til­fellum voru ger­endur eða meintir ger­endur karl­menn og í einu kona.

Þetta kemur fram í svari Fjarða­áls við fyr­ir­spurn Kjarn­ans.

Tvö mál end­uðu með upp­sögn, tvö mál end­uðu með áminn­ingu og til­færslu í starfi, fjögur mál end­uðu með sátt og lauk þremur málum án frek­ari aðgerða þar sem rann­sókn sem fram fór skil­aði ekki nið­ur­stöðu sem var grund­völlur neinna aðgerða.

Í svar­inu segir að hjá Fjarða­áli sé unnið sam­kvæmt skýrum verk­ferlum þegar upp koma mál af þessum toga sem sé vel skil­greindur í verk­lags­regl­um. Sér­fræð­ingar mannauð­steym­is, hjúkr­un­ar­fræð­ingur á heilsu­gæslu og sér­fræð­ingar vel­ferð­ar­þjón­ustu komi einnig að mál­un­um.

„Fyr­ir­tækið er í sam­starfi við Empower um inn­leið­ingu á Jafn­rétt­is­vísi og í því ferli verða allir núver­andi verk­ferlar rýndir með til­liti til þess hvort eitt­hvað megi bæta við okkar ferla eða hvort þeir séu full­nægj­and­i,“ segir í svar­inu.

Fram kemur hjá Fjarða­áli að starfs­menn geti fyllt út eyðu­blað sem aðgengi­legt er að innri vef Fjarða­áls og sent inn til mannauð­steymis þar sem þeir til­kynna um áreitni eða ein­elti.

Sú til­kynn­ing virki þær verk­lags­reglur sem til eru hjá fyr­ir­tæk­inu yfir slík mál. Til­gang­ur­inn með ferlunum sé að tryggja fag­lega með­höndlun vegna ein­elt­is, kyn­ferð­is­legs eða kyn­bund­ins áreitis á vinnu­stað.

Talað um for­varnir í verk­lags­regl­unum

Í verk­lags­regl­unum er skil­grein­ingar á ein­elti, kyn­bund­inni áreitni og ofbeldi og dæmi tekin um slíka hegð­un.

Einnig eru upp­lýs­ingar um boð­leiðir í verk­lags­regl­unni þannig að starfs­menn átti sig á hvert þeir geti leit­að, hver sé hjálp­ar­keðj­an. Þar er tekið fram að sér­fræð­ingur í mannauð­steymi haldi utan um skrán­ingar á þessum til­kynn­ingum sem koma inn.

Þá er farið yfir ferlið eða fram­kvæmd­ina þegar starfs­maður sem orðið hefur fyrir ein­hverju til­kynnir brot­ið. Fram kemur hjá Fjarða­áli að næsti yfir­maður og mannauð­steymið, vinnu­vernd­ar­full­trúi, hjúkr­un­ar­fræð­ingur þurfi að koma að mál­inu. Stundum sé utan­að­kom­andi aðili feng­inn í verkið – en fyr­ir­tækið vinnur einnig með heilsu­vernd.

Þá er talað um for­varnir í verk­lags­regl­um, það er hvað hægt sé að gera til að koma í veg fyrir að alvar­leg mál komi upp. Sam­kvæmt Fjarða­áli eru starfs­manna­sam­töl nýtt í slíkar for­varnir og vill fyr­ir­tækið þar af leið­andi tryggja fræðslu og þjálfun í þessum mála­flokki.

Eins sé mik­il­vægt að starfs­menn þekki þær leiðir sem koma til greina ef upp koma atvik er varða kyn­ferð­is­lega áreitni eða ofbeldi.

Afleið­ingar af því að haga sér ósæmi­lega

Að hámarki mega líða sjö dagar frá því að kvörtun kemur inn á borð fyr­ir­tæk­is­ins þangað til málið fer í ferli. Þá er tekið fram í verk­lags­regl­unum að öll mál séu tekin mjög alvar­lega.

Verk­lags­lýs­ing­arnar eru utan um form­legu ferl­ana en einnig koma upp óform­leg mál, sam­kvæmt fyr­ir­tæk­inu. Sumir vilja ekki að mál þeirra fari í form­legt ferli en fram kemur hjá Fjarða­áli það geti verið flók­ið. Þá komi til kasta næstu yfir­manna og mannauðteymis að takast á við þau mál.

Fjarðaál er með sér­staka stefnu gegn hefnd­ar­að­gerðum en starfs­menn geta hringt í svo­kall­aða heil­ind­ar­línu og til­kynnt um hvers kyns atvik sem teng­ist ekki endi­lega þessum málum heldur öllu sem við­kemur fyr­ir­tæk­inu.

Ef starfs­maður hringir í þessa línu og til­kynnir eitt­hvað atvik þá má ekki beita hefnd­ar­að­gerðum gegn þeim ein­stak­lingi, sam­kvæmt reglum fyr­ir­tæk­is­ins. Bæði sé hægt að koma með nafn­lausar ábend­ingar og undir nafni.

Fyr­ir­tækið má ekki greina opin­ber­lega frá nið­ur­stöðu mála þar sem nöfn ein­stak­ling­anna sem um ræðir koma fram. En það hefur verið rætt innan Fjarða­áls að segja frá til að mynda fjölda til­fella á inn­an­hús­fund­um. „Það er mik­il­vægt að fólk viti að það séu afleið­ingar af því að haga sér ósæmi­lega.“

Málin eru alltaf unnin og lokið með ein­hverjum hætti, kemur fram hjá Fjarða­áli.

Aðsend mynd

Tveimur málum lauk með áminn­ingu

Á árunum 2017 til 2021 hafa fimmtán mál komið á borð stjórn­enda Norð­ur­áls, sem rekur álverið á Grund­ar­tanga, er varða kyn­ferð­is­lega áreitni eða ofbeldi, að því er fram kemur í svari fyr­ir­tæk­is­ins við fyr­ir­spurn Kjarn­ans.

Fimm mál komu upp fyrstu 10 mán­uði árs­ins 2021 en tveimur mál­anna lauk með áminn­ingu og eitt með til­færslu í starfi. Í einu til­felli skorti þjálfun og bætt sam­skipti og í öðru til­viki reynd­ist ekki fótur fyrir ásök­un­um.

Þá komu upp fjögur máli árið 2020, tvö árið 2019, ekk­ert árið 2018 og fjögur árið 2017.

„Norð­urál er með ítar­lega verk­ferla um við­brögð við ein­elti, kyn­ferð­is­legri og kyn­bund­inni áreitni og öðru ofbeldi. Þessir ferlar eru aðgengi­legir öllu starfs­fólki, þeir eru kynntir þegar fólk hefur störf hjá fyr­ir­tæk­inu og reglu­lega eftir það. Jafn­framt er spurt um þessa þætti í vinnu­staða­grein­ing­um,“ segir í svar­inu.

Talað er um for­varnir gegn ein­elt­is-, áreit­is- og ofbeld­is­málum í mann­rétt­inda- og jafn­rétt­is­stefnu og í jafn­rétt­is­á­ætlun seg­ir: „Undir engum kring­um­stæðum er ein­elti, kyn­ferð­is­leg áreitni, kyn­bundin áreitni eða annað ofbeldi liðið á vinnu­staðn­um. Ein­elti, kyn­ferð­is­leg áreitni, kyn­bundin áreitni og annað ofbeldi er brot á starfs­skyldum og óásætt­an­leg hegðun á vinnu­stað.“

Allar kvart­anir skoð­aðar

Í svar­inu kemur jafn­framt fram að farið hafi verið í ítar­lega end­ur­skoðun á verk­ferlum eftir að spurt var um þessi mál í vinnu­staða­grein­ingu fyrir um 10 árum síð­an, en „alla tíð virð­ast þau þó hafa verið litin alvar­legum aug­um“.

Allar kvart­anir um ein­elti, kyn­ferð­is­lega og kyn­bundna áreitni og annað ofbeldi sem ber­ast eru skoð­aðar ofan í kjöl­inn, sam­kvæmt fyr­ir­tæk­inu.

„Rætt er við meinta þolendur og meinta ger­endur og rit­aðar eru greina­gerðir sem máls­að­ilar stað­festa. Ef við á er rætt við vitni og þeirra frá­sögn skrá­sett.

Þegar atvik hafa verið upp­lýst og nið­ur­staðan talin sú að brotið hafi verið á starfs­manni er það fram­kvæmda­stjóra mannauðs­mála, fram­kvæmda­stjóra Norð­ur­áls og/eða for­stjóra að ákveða hvort ger­andi fær áminn­ingu, er færður til í starfi eða er vikið úr starfi. Ef atvik flokk­ast ekki undir ein­elti, áreitni eða annað ofbeldi eru máls­að­ilar upp­lýstir um þá nið­ur­stöðu, en áfram er fylgst með sam­skiptum hlut­að­eig­andi ef við á,“ segir í svar­inu.

Að end­ingu kemur fram hjá Norð­ur­áli að eðli máls­ins sam­kvæmt sé um við­kvæman mála­flokk að ræða og fyllsta trún­aðar gætt.

Úr safni

Eitt mál komið upp hjá ISAL

Á síð­ustu fjórum árum hefur komið upp eitt til­vik þar sem kvartað var vegna kyn­ferð­is­legrar áreitni eða ofbeldis hjá ISAL, álver­inu í Straums­vík sem rekið er af Rio Tinto á Íslandi.

Þetta kemur fram í svari fyr­ir­tæk­is­ins við fyr­ir­spurn Kjarn­ans.

Til­vikið var rann­sakað af hlut­lausum fag­að­ila í sam­ræmi við verk­ferla hjá fyr­ir­tæk­inu. Mál­inu lauk með því að einn starfs­maður var lát­inn hætta hjá fyr­ir­tæk­inu. Starfs­fólk sem kvart­aði fékk við­eig­andi fag­lega aðstoð, sam­kvæmt Rio Tinto.

„Tekið er á þessum málum í sam­ræmi við stefnu og verk­ferla ISAL um við­brögð gegn ein­elti, kyn­ferð­is­legri og kyn­bund­inni áreitni og ofbeldi. Hjá ISAL er starf­andi sér­stakt ein­eltisteymi og fagráð sem vinnur að fram­gangi þess­ara mála,“ segir í svar­inu.

Enn fremur kemur fram að kyn­ferð­is­legt- og kyn­bundið áreiti og ofbeldi sé ekki undir neinum kring­um­stæðum umborið hjá fyr­ir­tæk­inu.

Í verk­lagi fyr­ir­tæk­is­ins kemur fram að starfs­maður sem hefur vit­neskju um ein­elti, áreitni eða ofbeldi á vinnu­stað skuli upp­lýsa næsta yfir­mann, sinn fram­kvæmda­stjóra eða fram­kvæmda­stjóra starfs­manna­sviðs. Starfs­maður sem orðið hefur fyrir áreiti er hvattur til að hafa sam­band við næsta yfir­mann, sinn fram­kvæmda­stjóra, fóstra, trún­að­ar­mann, lækni, hjúkr­un­ar­fræð­ing, starfs­manna­þjón­ustu eða leið­toga heil­brigð­is­mála sem aðstoðar við­kom­andi að kom­ast í sam­band við ein­eltisteymið eða fram­kvæmda­stjóra starfs­manna­sviðs. Einnig er hægt að hafa beint sam­band við full­trúa ein­eltisteym­is.

Í sam­ráði við þol­anda er ákveðið hvort bregð­ast skuli við með óform­legri máls­með­ferð eða hvort lög og reglur á sviði vinnu­verndar krefj­ist form­legrar máls­með­ferð­ar. Fram kemur í verk­lag­inu að í öllum til­vikum muni fyr­ir­tækið huga að líðan meints þol­anda og ger­anda. Mögu­legt sé að máls­að­ilar þurfi á sér­fræði­að­stoð að halda, til að mynda aðstoð trún­að­ar­læknis eða sál­fræð­ings, og muni slík aðstoð standa þeim til boða.

Óform­leg máls­með­ferð felst í því að við­kom­andi fram­kvæmda­stjóri og fram­kvæmda­stjóri starfs­manna­sviðs fara yfir málið með meintum þol­anda og grípa til við­eig­andi aðgerða í sam­ráði við mein­tan þol­anda. Við með­ferð máls verði sýnt var­færni og nær­gætni með virð­ingu og einka­hagi hlut­að­eig­andi starfs­manns í huga og fyllsta trún­aðar gætt.

Ein­eltisteymi metur stöðu máls­ins að þremur mán­uðum liðnum

Einnig getur meintur þol­andi óskað eftir form­legri máls­með­ferð. Málið er kannað með því að ræða við mein­tan þol­anda, mein­tan ger­anda og aðra sem gætu varpað ljósi á mál­ið. Leit­ast er við að athugun máls taki sem skemmstan tíma, segir í verk­lags­regl­un­um. Sér­stakt ein­eltisteymi sér um að koma mál­inu í far­veg hjá utan­að­kom­andi fag­að­ila sem sér um athugun máls­ins.

Þegar athugun er lokið er hald­inn skila­fundur með við­kom­andi fram­kvæmda­stjórum og fram­kvæmda­stjóra starfs­manna­sviðs þar sem fag­að­ili kynnir nið­ur­stöður og leggur fram til­lögur um aðgerð­ir. Við­kom­andi fram­kvæmda­stjóri og fram­kvæmda­stjóri starfs­manna­sviðs kynna nið­ur­stöðu máls­ins fyrir máls­að­ilum í sitt­hvoru lagi og kynna þær aðgerðir sem gripið verður til.

Ein­eltisteymið fær upp­lýs­ingar um aðgerð­ar­á­ætlun og að þremur mán­uðum liðnum skal það kanna stöðu máls­ins. Ef teymið metur að aðgerðir hafi skilað til­settum árangri er mál­inu lok­að. Ann­ars er mál­inu vísað til fram­kvæmda­stjóra starfs­manna­sviðs sem ákveður næstu skref.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar