Kynferðisleg áreitni og ofbeldi í álverunum og verklag þeirra
Alls hafa 27 tilkynningar borist álfyrirtækjunum þremur, Fjarðaáli, Norðuráli og Rio Tinto á síðustu fjórum árum. Kjarninn kannaði þá verkferla sem málin fara í innan fyrirtækjanna.
Frá fyrstu metoo-bylgjunni hefur mikið vatn runnið til sjávar varðandi umræðu um kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Í lok árs skrifuðu tæplega 5.650 konur úr hinum ýmsu starfsstéttum sem lifa við margs konar aðstæður undir áskorun þar sem þær settu fram kröfur sínar og deildu með þjóðinni 815 frásögnum.
Kjarninn hefur undanfarið kannað hvernig verklagi í íþróttasamböndum, opinberum fyrirtækjum og stofnunum, stærstu bönkunum og leikhúsunum sé háttað og hversu margar tilkynningar hafi borist síðan fyrsta bylgja metoo hófst.
Hér koma svör þriggja stærstu fyrirtækjanna sem reka álver á Íslandi, Fjarðaáls, Rio Tinto og Norðuráls.
Tvö mál enduðu með uppsögn
Síðustu fjögur ár hafa alls 11 formlegar tilkynningar um kynferðislega áreitni borist mannauðsteymi Fjarðaáls sem rekur álverið á Reyðarfirði. Í 10 tilfellum voru gerendur eða meintir gerendur karlmenn og í einu kona.
Þetta kemur fram í svari Fjarðaáls við fyrirspurn Kjarnans.
Tvö mál enduðu með uppsögn, tvö mál enduðu með áminningu og tilfærslu í starfi, fjögur mál enduðu með sátt og lauk þremur málum án frekari aðgerða þar sem rannsókn sem fram fór skilaði ekki niðurstöðu sem var grundvöllur neinna aðgerða.
Í svarinu segir að hjá Fjarðaáli sé unnið samkvæmt skýrum verkferlum þegar upp koma mál af þessum toga sem sé vel skilgreindur í verklagsreglum. Sérfræðingar mannauðsteymis, hjúkrunarfræðingur á heilsugæslu og sérfræðingar velferðarþjónustu komi einnig að málunum.
„Fyrirtækið er í samstarfi við Empower um innleiðingu á Jafnréttisvísi og í því ferli verða allir núverandi verkferlar rýndir með tilliti til þess hvort eitthvað megi bæta við okkar ferla eða hvort þeir séu fullnægjandi,“ segir í svarinu.
Fram kemur hjá Fjarðaáli að starfsmenn geti fyllt út eyðublað sem aðgengilegt er að innri vef Fjarðaáls og sent inn til mannauðsteymis þar sem þeir tilkynna um áreitni eða einelti.
Sú tilkynning virki þær verklagsreglur sem til eru hjá fyrirtækinu yfir slík mál. Tilgangurinn með ferlunum sé að tryggja faglega meðhöndlun vegna eineltis, kynferðislegs eða kynbundins áreitis á vinnustað.
Talað um forvarnir í verklagsreglunum
Í verklagsreglunum er skilgreiningar á einelti, kynbundinni áreitni og ofbeldi og dæmi tekin um slíka hegðun.
Einnig eru upplýsingar um boðleiðir í verklagsreglunni þannig að starfsmenn átti sig á hvert þeir geti leitað, hver sé hjálparkeðjan. Þar er tekið fram að sérfræðingur í mannauðsteymi haldi utan um skráningar á þessum tilkynningum sem koma inn.
Þá er farið yfir ferlið eða framkvæmdina þegar starfsmaður sem orðið hefur fyrir einhverju tilkynnir brotið. Fram kemur hjá Fjarðaáli að næsti yfirmaður og mannauðsteymið, vinnuverndarfulltrúi, hjúkrunarfræðingur þurfi að koma að málinu. Stundum sé utanaðkomandi aðili fenginn í verkið – en fyrirtækið vinnur einnig með heilsuvernd.
Þá er talað um forvarnir í verklagsreglum, það er hvað hægt sé að gera til að koma í veg fyrir að alvarleg mál komi upp. Samkvæmt Fjarðaáli eru starfsmannasamtöl nýtt í slíkar forvarnir og vill fyrirtækið þar af leiðandi tryggja fræðslu og þjálfun í þessum málaflokki.
Eins sé mikilvægt að starfsmenn þekki þær leiðir sem koma til greina ef upp koma atvik er varða kynferðislega áreitni eða ofbeldi.
Afleiðingar af því að haga sér ósæmilega
Að hámarki mega líða sjö dagar frá því að kvörtun kemur inn á borð fyrirtækisins þangað til málið fer í ferli. Þá er tekið fram í verklagsreglunum að öll mál séu tekin mjög alvarlega.
Verklagslýsingarnar eru utan um formlegu ferlana en einnig koma upp óformleg mál, samkvæmt fyrirtækinu. Sumir vilja ekki að mál þeirra fari í formlegt ferli en fram kemur hjá Fjarðaáli það geti verið flókið. Þá komi til kasta næstu yfirmanna og mannauðteymis að takast á við þau mál.
Fjarðaál er með sérstaka stefnu gegn hefndaraðgerðum en starfsmenn geta hringt í svokallaða heilindarlínu og tilkynnt um hvers kyns atvik sem tengist ekki endilega þessum málum heldur öllu sem viðkemur fyrirtækinu.
Ef starfsmaður hringir í þessa línu og tilkynnir eitthvað atvik þá má ekki beita hefndaraðgerðum gegn þeim einstaklingi, samkvæmt reglum fyrirtækisins. Bæði sé hægt að koma með nafnlausar ábendingar og undir nafni.
Fyrirtækið má ekki greina opinberlega frá niðurstöðu mála þar sem nöfn einstaklinganna sem um ræðir koma fram. En það hefur verið rætt innan Fjarðaáls að segja frá til að mynda fjölda tilfella á innanhúsfundum. „Það er mikilvægt að fólk viti að það séu afleiðingar af því að haga sér ósæmilega.“
Málin eru alltaf unnin og lokið með einhverjum hætti, kemur fram hjá Fjarðaáli.
Tveimur málum lauk með áminningu
Á árunum 2017 til 2021 hafa fimmtán mál komið á borð stjórnenda Norðuráls, sem rekur álverið á Grundartanga, er varða kynferðislega áreitni eða ofbeldi, að því er fram kemur í svari fyrirtækisins við fyrirspurn Kjarnans.
Fimm mál komu upp fyrstu 10 mánuði ársins 2021 en tveimur málanna lauk með áminningu og eitt með tilfærslu í starfi. Í einu tilfelli skorti þjálfun og bætt samskipti og í öðru tilviki reyndist ekki fótur fyrir ásökunum.
Þá komu upp fjögur máli árið 2020, tvö árið 2019, ekkert árið 2018 og fjögur árið 2017.
„Norðurál er með ítarlega verkferla um viðbrögð við einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og öðru ofbeldi. Þessir ferlar eru aðgengilegir öllu starfsfólki, þeir eru kynntir þegar fólk hefur störf hjá fyrirtækinu og reglulega eftir það. Jafnframt er spurt um þessa þætti í vinnustaðagreiningum,“ segir í svarinu.
Talað er um forvarnir gegn eineltis-, áreitis- og ofbeldismálum í mannréttinda- og jafnréttisstefnu og í jafnréttisáætlun segir: „Undir engum kringumstæðum er einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða annað ofbeldi liðið á vinnustaðnum. Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og annað ofbeldi er brot á starfsskyldum og óásættanleg hegðun á vinnustað.“
Allar kvartanir skoðaðar
Í svarinu kemur jafnframt fram að farið hafi verið í ítarlega endurskoðun á verkferlum eftir að spurt var um þessi mál í vinnustaðagreiningu fyrir um 10 árum síðan, en „alla tíð virðast þau þó hafa verið litin alvarlegum augum“.
Allar kvartanir um einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni og annað ofbeldi sem berast eru skoðaðar ofan í kjölinn, samkvæmt fyrirtækinu.
„Rætt er við meinta þolendur og meinta gerendur og ritaðar eru greinagerðir sem málsaðilar staðfesta. Ef við á er rætt við vitni og þeirra frásögn skrásett.
Þegar atvik hafa verið upplýst og niðurstaðan talin sú að brotið hafi verið á starfsmanni er það framkvæmdastjóra mannauðsmála, framkvæmdastjóra Norðuráls og/eða forstjóra að ákveða hvort gerandi fær áminningu, er færður til í starfi eða er vikið úr starfi. Ef atvik flokkast ekki undir einelti, áreitni eða annað ofbeldi eru málsaðilar upplýstir um þá niðurstöðu, en áfram er fylgst með samskiptum hlutaðeigandi ef við á,“ segir í svarinu.
Að endingu kemur fram hjá Norðuráli að eðli málsins samkvæmt sé um viðkvæman málaflokk að ræða og fyllsta trúnaðar gætt.
Eitt mál komið upp hjá ISAL
Á síðustu fjórum árum hefur komið upp eitt tilvik þar sem kvartað var vegna kynferðislegrar áreitni eða ofbeldis hjá ISAL, álverinu í Straumsvík sem rekið er af Rio Tinto á Íslandi.
Þetta kemur fram í svari fyrirtækisins við fyrirspurn Kjarnans.
Tilvikið var rannsakað af hlutlausum fagaðila í samræmi við verkferla hjá fyrirtækinu. Málinu lauk með því að einn starfsmaður var látinn hætta hjá fyrirtækinu. Starfsfólk sem kvartaði fékk viðeigandi faglega aðstoð, samkvæmt Rio Tinto.
„Tekið er á þessum málum í samræmi við stefnu og verkferla ISAL um viðbrögð gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi. Hjá ISAL er starfandi sérstakt eineltisteymi og fagráð sem vinnur að framgangi þessara mála,“ segir í svarinu.
Enn fremur kemur fram að kynferðislegt- og kynbundið áreiti og ofbeldi sé ekki undir neinum kringumstæðum umborið hjá fyrirtækinu.
Í verklagi fyrirtækisins kemur fram að starfsmaður sem hefur vitneskju um einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustað skuli upplýsa næsta yfirmann, sinn framkvæmdastjóra eða framkvæmdastjóra starfsmannasviðs. Starfsmaður sem orðið hefur fyrir áreiti er hvattur til að hafa samband við næsta yfirmann, sinn framkvæmdastjóra, fóstra, trúnaðarmann, lækni, hjúkrunarfræðing, starfsmannaþjónustu eða leiðtoga heilbrigðismála sem aðstoðar viðkomandi að komast í samband við eineltisteymið eða framkvæmdastjóra starfsmannasviðs. Einnig er hægt að hafa beint samband við fulltrúa eineltisteymis.
Í samráði við þolanda er ákveðið hvort bregðast skuli við með óformlegri málsmeðferð eða hvort lög og reglur á sviði vinnuverndar krefjist formlegrar málsmeðferðar. Fram kemur í verklaginu að í öllum tilvikum muni fyrirtækið huga að líðan meints þolanda og geranda. Mögulegt sé að málsaðilar þurfi á sérfræðiaðstoð að halda, til að mynda aðstoð trúnaðarlæknis eða sálfræðings, og muni slík aðstoð standa þeim til boða.
Óformleg málsmeðferð felst í því að viðkomandi framkvæmdastjóri og framkvæmdastjóri starfsmannasviðs fara yfir málið með meintum þolanda og grípa til viðeigandi aðgerða í samráði við meintan þolanda. Við meðferð máls verði sýnt varfærni og nærgætni með virðingu og einkahagi hlutaðeigandi starfsmanns í huga og fyllsta trúnaðar gætt.
Eineltisteymi metur stöðu málsins að þremur mánuðum liðnum
Einnig getur meintur þolandi óskað eftir formlegri málsmeðferð. Málið er kannað með því að ræða við meintan þolanda, meintan geranda og aðra sem gætu varpað ljósi á málið. Leitast er við að athugun máls taki sem skemmstan tíma, segir í verklagsreglunum. Sérstakt eineltisteymi sér um að koma málinu í farveg hjá utanaðkomandi fagaðila sem sér um athugun málsins.
Þegar athugun er lokið er haldinn skilafundur með viðkomandi framkvæmdastjórum og framkvæmdastjóra starfsmannasviðs þar sem fagaðili kynnir niðurstöður og leggur fram tillögur um aðgerðir. Viðkomandi framkvæmdastjóri og framkvæmdastjóri starfsmannasviðs kynna niðurstöðu málsins fyrir málsaðilum í sitthvoru lagi og kynna þær aðgerðir sem gripið verður til.
Eineltisteymið fær upplýsingar um aðgerðaráætlun og að þremur mánuðum liðnum skal það kanna stöðu málsins. Ef teymið metur að aðgerðir hafi skilað tilsettum árangri er málinu lokað. Annars er málinu vísað til framkvæmdastjóra starfsmannasviðs sem ákveður næstu skref.