Samsett mynd/Bára Huld Beck Hólagarður
Samsett mynd/Bára Huld Beck

Ástandið er að eyðileggja líf allra – Á vappinu í stórborginni Hólagarði

Á næstunni munu Auður Jónsdóttir rithöfundur og Bára Huld Beck blaðamaður rúnta um úthverfi höfuðborgarsvæðisins og kanna bæði stemninguna og rekstrarskilyrðin í kófinu í hinum ýmsu verslunarkjörnum. Hólagarður var fyrsti viðkomustaðurinn.

Í Hól­unum er versl­un­ar­kjarn­inn Hóla­garð­ur, einn af þó nokkrum slíkum í Reykja­vík, en svo iðandi af lif­andi mann­lífi að hann gæti sem best verið stað­settur í borg á meg­in­land­inu. Í yfir­læt­is­lausu hús­næð­inu dummar borg­ar­stemn­ing, nokkuð ólík því sem ger­ist í miðbæ Reykja­víkur þar sem búðir fyrir ferða­fólk sköp­uðu ásýnd­ina fyrir kóvid­plág­una, en minnir nú helst á nota­legt þorp úti á landi. Það er líf í mið­bæn­um, en kannski væri of djúpt í árina tekið að segja mann­líf­siða. Hana má hins vegar finna í Hóla­garði.

Við brugðum okkur í bíltúr upp í Breið­holt á fann­hvítum þriðju­degi í þeim til­gangi að heyra í fólki utan mið­bæj­ar­ins og spyrja hvernig lífið væri að leika það og fyr­ir­tæki þess á tímum kóvid. Það var skyndi­dilla að fara þang­að, frekar en eitt­hvert ann­að, okkur lang­aði bara að hitta ein­hverja aðra en þessa algeng­ustu veg­far­endur í 101 Reykja­vík.

Mið­aust­ur­landa­mark­að­ur­inn

Við lögðum bílnum fyrir utan versl­un­ar­kjarn­ann og sáum strax þó nokkur áhuga­verð fyr­ir­tæki blasa við, en kannski er það raun­veru­leik­inn í dag að lít­il, spenn­andi og kannski ögn exó­tísk fyr­ir­tæki eru oftar stað­sett í úthverfum og iðn­að­ar­hverf­um, frekar en í mið­bæn­um; mögu­lega er ástæðan hátt leigu­verð á síð­ar­nefndum staðn­um, þó að í og með spili lík­lega sam­setn­ing íbú­anna inn í ásýnd umhverf­is­ins. Við héldum rak­leiðis inn í fyr­ir­tækið sem var næst bíln­um, en það var búðin Mið­aust­ur­landa­mark­að­ur­inn.

Við lágt búð­ar­borð sat eldri karl­maður og brosti fal­lega hlý­lega til okk­ar. Við spurðum hvort við mættum eiga við hann örfá orð og það var sjálf­sagt. Hann sagð­ist heita Najat. Í ljós kom að sonur hans, Shahez, sér líka um þessa búð, en við fengum að hringja í hann til að fá frek­ari upp­lýs­ing­ar. Þarna var vel við okkur gert; við fengum sætar kökur og ískaffi.

Okkur skild­ist á þeim feðgum að í þess­ari kóvid­bylgju gengi svo sem ágæt­lega í búð­inni sem hefur verið starf­rækt síðan 2017, aðeins brösu­legar en áður, samt vel. Eins virt­ist bara liggja vel á þeim.

Bára Huld Beck
Kaupa má vörur sem sjaldgæft er að finna á Íslandi í Miðausturlandamarkaðinum.
Bára Huld Beck
Bára Huld Beck

Þegar við skoð­uðum vöru­úr­valið fannst okkur blasa við að búðin hljóti að eiga trygga vild­ar­kúnna því þarna má finna ýmsar vörur sem er erfitt, ef ekki ómögu­legt, að finna hér á landi. Önnur okkar keypti sér ými­legt sem fæst yfir­leitt bara í útlenskum borgum og bæj­um. Hún hrós­aði happi að geta keypt sér hnetur í hun­angi, þykkar kanil­stangir, súr­grjón inn­vafin í græn­blöð­unga og krydd.

Þegar við spurðum Najat hvort hann væri ugg­andi um ætt­ingja sína í Írak kvaðst hann auð­vitað hafa áhyggjur af kóvid, en að nán­ustu ætt­ingjar byggju hér á Íslandi. Hann brosti jákvæður við spurn­ingum okkar og virt­ist ekk­ert vilja velta sér upp úr kóvidá­stand­inu, frekar gleðj­ast yfir áhuga okkar á vör­unum í versl­un­inni.

Najat stóð vaktina þegar blaðamenn bar að garði í Miðausturlandamarkinum.
Bára Huld Beck

Álf­ur­inn

Mið­aust­ur­landa­mark­að­ur­inn er stað­settur fyrir utan sjálfa versl­un­ar­kringl­una, á leið­inni inn í hana sáum við hvar karl­maður stóð undir vegg, merktum áletr­un­inni Álf­ur­inn og sýni­lega bar. Mað­ur­inn kvaðst heita Erlend­ur, en hann rekur bar­inn ásamt eig­in­konu sinni og líka öðrum hjón­um. Rétt í því bar aðra kon­una að og hún sagð­ist heita Soff­ía. Við spurðum þau hvernig gengi að reka bar­inn í þessu árferði.

„Það hefur auð­vitað áhrif, “ sagði Erlend­ur. „Við höfum þurfti að loka, setja á fjölda­tak­mark­anir og skerða opn­un­ar­tím­ann, stundum hefur bara verið opið til klukkan níu. Núna lokar húsið klukkan tíu, en fólk má vera inni til ell­efu.“

Soffía sam­sinnti þessu og bætti við: „Sem betur fer stóð bar­inn vel þegar þetta skall á. Ég myndi ekki bjóða í það öðru­vísi.“

Við spurðum hvort þau væru ugg­andi um fram­hald­ið.

„Nei, svo sem ekki,“ sagði Erlendur með blendnu kímn­is­brosi.

„En ef þetta fer niður í tíu til tutt­ugu manns, þá þurfum við bara að loka,“ sagði Soff­ía. „Það er ódýr­ara að loka bara. Hér þurfa alltaf að vera tveir starfs­menn á vakt. En við höfum sjálf tekið að okkur að telja inn fólk.“

Þau báru sig vel, þó að þau veigri sér ekki við að vera raun­sæ. Við fengum á til­finn­ing­una að þeim væri virki­lega annt um stað­inn sinn og óskuðum þeim góðs gengis þegar við fórum inn í sjálfan Hóla­garð. Von­andi eigum við eftir að gera okkur glaðan dag á Álf­in­um, eitt­hvert kvöldið í fram­tíð­inni.

Erlendur og Soffía báru sig vel en segja að Álfurinn hefði staðið tæpt ef ekki fyrir góða rekstrarstöðu fyrir kófið.
Bára Huld Beck
Bára Huld Beck

Nudd­stofan Sarin

Nálægt inn­gang­inum er nudd­stofan Sarin – Thai Massa­ge. Við röltum upp stiga og komum síðan inn í hlý­lega mót­töku. Þar hittum við fyrir Sar­int­hip sem rekur nudd­stof­una og fengum við einnig að heyra í eig­in­manni henn­ar, Sverri, í gegnum síma. Það var elsku­lega tekið á móti okkur og þau voru til í að rabba við okkur um rekst­ur­inn í ástand­inu, en vildu síður að við tækjum mynd­ir. Okkur skild­ist á þeim að í Taílandi þættu þær ekki eins sjálf­sagðar og hér á landi.

Þau hafa tvisvar þurft að loka í kóvid. Á nudd­stof­unni hefur verið minna að gera í kóvid­bylgj­unum en á venju­legum degi. En þau búa svo vel að eiga trygga vild­ar­vini sem flestir koma, þrátt fyrir árferð­ið, þó að sumir ótt­ist það.

Sverrir sagði þau vera með lægsta verðið í bæn­um, það er að segja hjá skráðum nudd­stof­um, og segir þau ekki hafa hækkað verðið síðan þau byrj­uðu. Verð­skrá á afgreiðslu­borð­inu sýnir þau orð hans í reynd, þarna er afar hag­stætt verð og hægt að velja á milli mis­langra tíma. Við hugs­uðum okkur gott til glóð­ar­innar að prófa fljót­lega að koma í nudd á Sar­in, kannski það væri ekki úr vegi að fara fyrst í nudd og fá sér síðan bjór á Álf­in­um!

„Þessir styrkir sem við höfum feng­ið, þeir hafa fleytt okkur í gegnum þetta tíma­bil,“ sagði Sverr­ir. „Svo njótum við tryggrar við­skipta­vild­ar. En auð­vitað er ástandið búið að taka alveg rosa­lega á. Þetta er búið að vera upp og ofan, sumir dagar full­bók­að­ir, aðrir tóm­ir. Mis­mun­andi hvernig fólk tekur þessu.“

Þegar við spurðum hvort hann væri ugg­andi svar­aði Sverr­ir: „Er maður það ekki þegar svona stendur á? Ástandið er að eyði­leggja líf allra.“

Bára Huld Beck
Bára Huld Beck

AfroZone og pólsk kjöt­búð

Næst röltum við í búð­ina AfroZo­ne, þar sem má finna „ ... afrískar vörur og sér­vörur fyrir fólk á Íslandi með dökkt hör­und og hár sem getur verið erfitt viður­eignar ... “ svo vitnað sé í við­tal við eig­anda búð­ar­innar í Morg­un­blað­inu árið 2018. Við höfðum báðar heyrt af búð­inni sem hefur getið sér gott orð og á sér, ef marka má orð göt­unn­ar, marga fastakúnna, en því miður var eig­and­inn ekki við svo við gátum ekki fengið leyfi til að grennsl­ast frekar fyrir í versl­un­inni. En hún var full af áhuga­verðum vörum, þarna sáum við hára­liti, mat­væli og tromm­ur, svo eitt­hvað sé nefnt. Við sam­mælt­umst um að gera okkur fljótt aftur ferð í Hóla­garð til að skoða hana í mak­ind­um.

Í afrísku búðinni má finna sérvörur fyrir fólk á Íslandi með dökkt hörund og hár sem getur verið erfitt viðureignar. Mynd: Bára Huld Beck

And­spænis AfroZone er ekki síður girni­leg búð. Nefni­lega kjöt­búð með kjöt­vörur unnar með pólskum aðferð­um. Búðin er svo spreng­full af girni­legu kjöti og allra­handa pylsum að mynd­rænt minnir hún á orðið Gósen­land.

Við afgreiðslu­borðið stóð kona og afgreiddi með vina­legu öryggi. Hún veigraði sér við að tala um búð­ina við okk­ur, en brosti blíð­lega þegar hún beindi sam­tal­inu til vinar síns sem var hlý­legur en vildi ekki láta nafn síns get­ið. Hann útskýrði fyrir okkur að í kjöt­vör­unum byggi bragð æsk­unnar í Pól­landi, kjöt­vör­urnar væru unnar með gam­al­grónum aðferðum sem hún þekkti frá blautu barns­beini; þetta væru hefð­bundnar pólskar fjöl­skyldu­upp­skrift­ir. Sama gildir um þessa búð og aðrar sem við heim­sóttum að við­skipta­vin­irnir eru trygg­ir. Að vísu urðu nokkur afföll í kóvid­bylgj­unni nú síð­ast í nóv­em­ber, en brátt líður senn að jólum og ef að líkum lætur fer fólk að gera sér sér­staka ferð í góða kjöt­búð. Okkur fannst aldeilis fengur í fram­boð­inu þarna, þessi búð var sann­kölluð upp­götvun og kallar á fleiri heim­sókn­ir.

Bára Huld Beck
Bára Huld Beck
Bára Huld Beck

Við­skipta­vinur á ferð

Í Hóla­garði eru þó nokkur fyr­ir­tæki til við­bót­ar, þarna er margt að sjá og girn­ast. Við höfðum ekki tíma til að fara á fleiri staði, en á leið­inni út rák­umst við á góð­kunn­ingja ann­arrar okk­ar. Sá býr í grennd­inni, heitir Þór­lindur og starfar sem yfir­þjónn á Vinnu­stofu Kjar­vals í Aust­ur­stræti. Við röbbuðum aðeins við hann sem sagð­ist vera búinn að búa í Hauks­hólum síð­ustu fjögur árin og virt­ist hinn ánægð­asti.

„Það er búin að vera mikil bæt­ing á umhverf­inu hér síð­ustu árin,“ sagði hann. „Ekki eins mikið af glæp­um, lista­verk skreyta blokk­irnar og ungt fólk er að flytja hingað og kaupa íbúð­ir. Hér hefur mikið breyst bara á þessum fjórum árum. Alveg fullt af skemmti­legum versl­un­um, eins og til dæmis AfroZo­ne, og hægt að fá svo margt skemmti­legt, mjög mikið úrval. Hér er fólk af mörgum þjóð­ar­brotum og það býður upp á meira úrval. Ég bjó áður í Sví­þjóð, í Gauta­borg, og umhverfið hér minnir mig á það. “

Þórlindur býr í hverfinu og lætur vel af því.
Bára Huld Beck

Já, í Hóla­garði má aldeilis finna jóla­gjafir, sagði önnur okkar – eða var það hin? – þegar við kvöddum Þór­lind. Og það eru orð að sönnu, þarna má jú líka kaupa í jólamat­inn! Og fá sér jóla­bjór á Álf­in­um! Í þessum líf­lega versl­un­ar­kjarna leyn­ist allt á milli him­ins og jarð­ar. Von­andi verður raunin sú í fram­tíð­inni, þrátt fyrir ástand­ið. Kannski við getum gefið okkur það sjálfum í jóla­gjöf að kaupa gjaf­irnar hjá smá­vöru­kaup­mönnum sem þessum og stuðla þannig að því að við getum notið versl­un­ar­menn­ingar eins og hún ger­ist best. Margt vit­laus­ara en að gefa skemmti­legt sam­fé­lag í jóla­gjöf.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar