Tilkynnt var um sameiningu Símans og Skjásins, sem rekur meðal annars Skjáeinn, Skjábíó, Skjákrakka, Skjáheim, Skjásport og útvarpsstöðina K100,5, í morgun. Í raun hefði þetta skref verið stigið fyrir mörgum árum síðan ef eftirlitsyfirvöld hefðu heimilað það, enda Skjárinn verið systurfélag Símans í áratug.
Þess í stað hefur Skjárinn verið að kaupa þjónustu af Símanum árum saman sem gerði það að verkum að skuld upp á meira en milljarð króna hafði myndast á efnahagsreikningi Skjásins. Þeirri skuld var að mestu breytt í hlutafé í lok árs 2013. Síminn hefur á móti, vegna skilyrða sem sett voru af Samkeppniseftirlitinu árið 2005, ekki mátt nýta efni Skjásins við sölu á vörum sínum innan fjarskiptahluta félagsins.
Nú er þetta allt breytt. Og ljóst að íslenskir neytendur munu finna vel fyrir þeirri eðlisbreytingu sem er að eiga sér stað á fjölmiðla- og fjarskiptamarkaði á næstu misserum.
Alþjóðleg breyting sem Ísland tekur fullan þátt í
Það er alþjóðleg þróun að línan milli fjarskipta og fjölmiðlunar og afþreyingar hefur verið að hverfa. Í nútímasamfélagi þar sem þorri íbúa er með tölvu í formi snjallsíma í vasanum, fær þorra þeirra upplýsinga sem hann leitar eftir stafrænt í gegnum snjalltæki eða tölvur og vill ráða sinni eigin afþreyingardagskrá í stað þess að vera bundinn dagskráruppstillingu sjónvarpsstöðva þá er í það í raun rökrétt skref að samþætta pípurnar sem miðla efninu við efnisframleiðsluna sjálfa.
Á Íslandi hófst þessi þróun á síðasta ári þegar stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins, 365 miðlar, sameinuðust fjarskiptafyrirtækinu Tali. 365 hafði raunar áður hafið að bjóða upp á fjarskiptaþjónustu undir eigin nafni og bjóða í ýmis leyfi á því sviði, en skrefið var fullstígið þegar Tal var rennt inn í starfsemi fyrirtækisins. Síðan að þetta gerðist hefur 365 getað „pakkað“ fjarskipta- og sjónvarpsþjónustu vörum saman í böndul og selt notendum.
Vodafone tilkynnti síðan í byrjun viku að félagið hefði komið á fót áskriftarveitu með sjónvarpsefni sem verður aðgengilegt í Vodafone Sjónvarpi, sem mun heita Vodafone Play.
365 miðlar og Tal sameiðnustu á síðasta ári.
Baráttan hefst fyrir alvöru
Með tilkomu Símans að fullum krafti inn á þennan markað hefst baráttan hins vegar fyrir alvöru. Síminn er enda langstærsta fjarskiptafyrirtæki landsins og eftir að búið er að vinda ofan af mikilli skuldsetningu félagsins og semja um samkeppnismál er það mjög vel í stakk búið til að keppa af miklum krafti á þessum markaði. Eigið fé Símans í lok síðasta árs var um 30 milljarðar króna. Til samanburðar er eigið fé sameinaðs félags 365 miðla og Tals 3,8 milljarðar króna.
Þrátt fyrir að Síminn hafi átt Skjáinn í áratug þá hefur hann ekki mátt „pakka“ vörum saman á sama hátt vegna skilyrða sem Samkeppniseftirlitið setti á sínum tíma. En heimurinn hefur breyst mikið frá árinu 2005 og möguleikar fólks á notkun fjölmiðla líklega aldrei gengið í gegnum jafn mikla kúvendingu.
Þá voru enn tvö ár í að fyrsta iPhone-inn kæmi á markað. Þá var Netflix enn þjónusta sem sendi DVD-diska heim til fólks. Þá voru ekki til pöddur eða snjallúr. Ekki einu sinni VOD-leigur í sjónvarpinu þínu. Ef þú vildir horfa á sjónvarpsþátt þá gastu annað hvort niðurhalið honum ólöglega eða beðið eftir því að hann væri á dagskrá sjónvarpsstöðvar.
Orri Hauksson, forstjóri Símans.
Í ljósi þeirrar þróunar blasti við að þau skilyrði sem sett voru fyrir eign Símans á Skjánum áttu ekki lengur við, sérstaklega eftir að samkeppnisaðilar á innanlandsmarkaði fóru að samþætta fjölmiðlun og fjarskipti. Í gær var því undirrituð sátt þar sem Samkeppniseftirlitið slakaði verulega á skilyrðunum sem sett voru fyrir áratug.
Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir að þetta hafi verið tímabært skref. „Við áttum auðveldara með að vinna með 365 miðlum samkvæmt skilyrðunum en okkar eigin dótturfélagi.“ Nú geti Síminn hins vegar „pakkað“ mörgum vörum sínum saman í vöndul og selt til viðskiptavina sinna. Hann nefnir sem dæmi að nú sé til að mynda hægt að bjóða þeim sem sé með snjallsjónvarp hjá Símanum (Sjónvarp Símans) viðbætur á borð við nokkrar fríar kvikmyndir sem Skjárinn á réttinn af. „Nú getum við farið að taka allskonar efnisþætti og pakkað þeim saman við aðra þjónustu hjá okkur.“
Rekstur innlendrar línulegrar dagskrárgerðar, sem eru sjónvarpsstöðvarnar Skjáreinn og Skjársport, verður hins vegar að vera áfram efnahagslega og bókhaldslega aðskilinn frá öðrum rekstri Símans. Því verða áfram skýr takmörk á því hversu mikið má „pakka“ til að mynda áskriftarsölu á þeim stöðvum saman við fjarskiptaþjónustu Símans.
Línuleg dagskrá á undanhaldi
Það er hins vegar ljóst að Síminn er ekki að horfa á línulega sjónvarpsdagskrá sem aðalatriði í þróun sinni á afþreyingar- og fjölmiðlaþjónustu fyrir viðskiptavini sína. Orri bendir á að áhorf á línulegt sjónvarp hafi fallið mjög mikið undanfarið. „Heimurinn er að fara í svolítið aðra átt en að vera í línulega forminu. Og þessi sátt hjálpar okkur mjög mikið við að geta þróað okkar módel áfram í þeim heimi.“
En munu áskrifendur Skjásins finna fyrir þessari breytingu á næstunni? Líklega ekki. Þótt rekstur sjónvarps- og útvarpsstöðva félagsins færist undir hinar ýmsu deildir Símans munu engar breytingar á dagskránni eða framsetningu efnis í þessari umferð. Í aðdraganda komandi vetrardagskrár mun það breytast.
Orri segir að í því felist ekki að fjölga sjónvarpsstöðvum, kaupa eitthvað stórkostlega mikið magn af nýju efni, auka útvarpsrekstur eða stofna dagblað. „Við munum miklu frekar samþætta það efni sem er hjá Skjánum með öðrum vörum sem eru í fjarskiptahlutanum núna.“
Skoða mjög alvarlega að bjóða í enska boltann
Það vakti athygli í nóvember 2014 þegar Skjárinn tryggði sér sýningarréttinn á Evrópumóti karla í knattspyrnu næstu sumar. Þjónusta við íþróttaáhugamenn á Íslandi hefur verið mjög góð undanfarin ár, til dæmis innan vébandanda 365 miðla þar sem fjölmargar sportrásir eru reknar og sýnt frá fjölbreyttu og afar vinsælu íþróttaefni og því miklar kröfur gerðar til þess að Skjárinn geti sinnt framsetningu efnisins svo sómi sé af.
Að sögn Orra hefur Síminn verið að undirbúa þennan sjónvarpsviðburð með Skjánum undanfarna mánuði og hann fullyrðir að þjónustan sem áhorfendur fái verði sú mesta sem boðið hefur verið upp á. Búið sé að ráðast í mikla vöruþróun til að nýta þá möguleika sem tæknin býður upp á til að auka upplifun. „Það að sameina félögin gerir það mun einfaldara og að auknu keppikefli fyrir okkur.“
Hann segir það klárt mál að Síminn muni skoða að kaupa sýningaréttinn að öðrum íþróttaviðburðum. Íþróttir séu mjög vinsælt sjónvarpsefni og þær verði áfram stór hluti af sjónvarpsáætlun Símans. Aðspurður hvort til standi að bjóða í sýningarréttinn að enska boltanum, en samningur 365 miðla um að sýna hann rennur út eftir næsta tímabil, segir Orri það ekki hafa verið ákveðið. „En við erum klárlega að skoða það mjög alvarlega.“