Þær áætlanir sem ríkisstjórnir heimsins hafa þegar skilað til Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, fyrir fundinn í París í desember (COP 21) duga ekki til að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna í loftslagsmálum, ef marka má gögn Climate Action Tracker. Framlag Íslands, í slagtogi við Evrópusambandið og Noreg, er metið hóflegt.
Markmiðið er að hægja á hlýnun loftslags á jörðinni þannig að það fari ekki 2°C yfir meðalhitastig jarðar fyrir iðnbyltingu. Miðað við þau gögn og þær áætlanir sem ríki heims hafa þegar sett sér verður þessu markmiði ekki náð og meðalhiti jarðar fara yfir þrjár gráður árið 2100.
Climate Action Tracker er sjálfstætt vísindalegt greiningartól á vegum fjögurra stofnana sem halda utan um aðgerðir og væntingar heimsins í loftslagsmálum. Með því að magngreina heildaráhrif núgildandi stefnu stjórnvalda og markmiða þeirra í loftslagsmálum má bera afleiðingarnar saman við markmiðin, 2°C eða 1,5°C hlýnun árið 2100. 32 ríki eru tekin með í vísitöluna en saman bera þau ábyrgð á 80 prósent alls útblásturs í heiminum og þar búa 70 prósent mannkyns.
Hér má sjá niðurstöður Climate Action Tracker grafískt. Rauða línan sýnir væntanlega þróun miðað við markmið ríkja heimsins, græna línan sýnir æskilega þróun og bláa lína sýnir afleiðingar óbreyttrar stefnumótunar.
Núgildandi stefna stjórnvalda í heiminum munu gera loftslag á jörðinni 3,9°C hlýrra en fyrir iðnbyltingu árið 2100. Vikmörkin í þessum spám eru nokkuð stór: Efri mörkin eru 5,2°C en neðri mörkin 2,9°C. Standi ríki heims hins vegar við framlögð markmið sín má vænta þess að meðalhitinn verði 3,1°C hærri. Vikmörkin eru minni: Efri mörkin eru 3,8°C en þau neðri 2,5°C.
Áætlanir og markmið ríkja heimsins sem þegar hafa skilað markmiðum sínum fyrir COP21 munu að öllum líkindum hafa nokkur áhrif á hlýnun jarðar. Þær duga hins vegar ekki til að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Climate Action Tracker sér þó ástæðu til að benda á hvatana sem liggja að baki því að halda hlýnun undir tveimur gráðum. „Sem betur fer sýnir IPCC 5AR (fimmta úttektarskýrsla þverþjóðlegrar nefnd um loftslagsmál) að enn frekari aðgerðir sem nægi til að halda hlýnun undir 2°C er tæknilega og efnahagslega fýsileg,“ segir á vef Climate Action Tracker. Samkvæmt skýrslu nefndarinnar er kostnaðurinn við að halda hlýnun í skefjum hóflegur, jafnvel áður en hliðarverkanir eru teknar með í reikninginn; aukið orkuöryggi og heilsufarslegar umbætur vegna minni loftmengunar.
Þann 1. september, þegar þessar niðurstöður voru teknar saman, höfðu þau lönd sem bera ábyrgð á 65 prósent alls útblásturs í heiminum skilað markmiðum sínum eða 29 ríki. Kjarninn sagði svo frá könnun New Climate Institute hinn 7. september þar sem kom fram að búist er við að 76 prósent alls útblásturs verði búið að setja markmið um í lok september.
Innleiðing endurnýjanlegra orkugjafa á borð við Hellisheiðarvirkjun er ein meginstoða áætlana um minni losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. (Mynd: Birgir Þór).
Markmið Íslands og Evrópu metin hófleg
Markmið Evrópusambandsins (ESB) um 40 prósent minni útblástur gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við árið 1990 er metið hóflegt af Climate Action Tracker. Markmið Evrópusambandsins falla þar í hóp með Brasilíu, Kína, Bandaríkjunum, Indlandi og Indónesíu. Öll eru meðal stærstu eða mest vaxandi iðnvelda heims.
Ísland og Noregur fylgja ESB í þessum efnum og fylgja sömu markmiðum. Um markmið einstakra ríkja verður svo samið í framhaldinu. Ísland er ekki meðal þeirra 32 landa sem tekin eru til greina í spánni og þess vegna eru nýjustu upplýsingar um Ísland síðan í nóvember 2013. Þar er markmið Íslands metið hógvært og ekki nægilegt framlag til að stemma stigu við hlýnun jarðar.
Í úttektinni um Ísland eru langtímamarkmið okkar listuð sem samkvæmt vef Umhverfisráðuneytisins eru enn 50-75 prósent minni losun gróðurhúsalofttegunda árið 2050 miðað við losun ársins 1990. Það er markmið sem sett var árið 2007 og má lesa um forsendur þess markmiðs í niðurstöðum sérfræðinganefndar á vegum Umhverfisráðuneytisins frá 2009 . Annars eru markmið Íslands byggð á losunarkvótum Kýóto-bókunarinnar sem rennur út árið 2020. Í Umhverfisráðuneytinu er nú unnið að undirbúningi fyrir loftslagsráðstefnuna í París og markmið og áætlanir uppfærðar í samræmi við það.
Langtímamarkmið ESB í loftlsagsmálum er að minnka losun um 80-95 prósent árið 2050 miðað við losun ársins 1990. Aðeins eitt ríki af þessum 32 löndum sem reiknuð eru með í spá Climate Action Tracker fær einkunina „fyrirmynd“. Það er Bútan en þar er langtímamarkmiðið að losa engar gróðurhúsalofttegundir.
Mikilvægt er að hafa í huga að hér er fjallað um eitt af mörgum verkefnum ráðstefnunnar í París í desember. Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna styðst við tvö lykilhugtök þegar stefna mannkynsins er mörkuð í þessum málaflokki. Það er mildun (e. mitigation) og aðlögun (e. adaptation). Það er mikilvægt fyrir heiminn að milda áhrif mannkyns á loftslag jarðar en það er einnig ljóst að mannkynið verður að aðlagast breyttum aðstæðum vegna hlýnunar jarðar.
Löndin og einkunir landanna 32
Einkunnaþrepin eru þrjú í spá Climate Action Tracker. Á kortinu merkir dökkgrænn einkunina „Fullnægjandi“, ljós grænn merkir „Nægilegt“, gulur merkir „hóflegt“ og þau lönd sem merkt eru með rauðum lit fá einkunina „Ófullnægjandi“. Fjólubláu löndin höfðu enn ekki skilað markmiðum sínum og eru því ekki reiknuð með í spánni.