Markaðsvirði Icelandair Group lækkað um 30 milljarða á innan við mánuði
Stríðið í Úkraínu hefur orsakað gríðarlegar hækkanir á eldsneytisverði. Flugfélög finna verulega fyrir því enda hefur verðið á þotueldsneyti hækkað um tugi prósenta á nokkrum dögum. Hlutabréf íslensku flugfélaganna, Icelandair Group og PLAY, hafa samhliða hrunið í verði.
Þann 10. febrúar síðastliðinn voru kynntar tillögur stjórnar Icelandair Group sem leggja átti fyrir aðalfund félagsins. Þær báru með sér að þeir sem stýra flugfélaginu töldu að bjart væri framundan. Eftir næstum 80 milljarða króna tap á fjórum árum, sem að hluta til var vegna rangra rekstrarákvarðanna á árunum 2018 og 2019 en að mestu vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á árunum 2020 og 2021, væri viðsnúningurinn handan við hornið.
Icelandair Group hafði farið í gegnum mikla sviptivinda. Félagið hafði þurft að semja af hörku við starfsfólk sitt til að fá það til að þiggja lægri laun en vinna meira til að bæta rekstrarhæfi sitt. Það hafði sótt 33 milljarða króna í nýtt hlutafé, meðal annars til almennings á Íslandi, og um leið þynnt út stærstu hluthafa sína að mestu leyti, en þar voru íslenskir lífeyrissjóðir fyrirferðamiklir. Það hafði þegið marga milljarða, meira en nokkuð annað félag, úr ríkissjóði vegna aðgerða sem ráðist var í til að hjálpa atvinnulífinu í gegnum kórónuveirufaraldurinn.
Eftirspurn eftir stjórnendum sögn kalla á bónuskerfi
Í febrúar leit út fyrir að það versta væri að baki. Þremur dögum áður en tillögur stjórnar voru kynntar, 7. febrúar, var greint frá því að fjárhagsstaða Icelandair Group væri nú það sterk, og það bjart framundan, að tímabært væri að segja upp lánalínu upp á 16,5 milljarða króna með ríkisábyrgð.
Þegar tillögurnar urðu opinberar var ljóst af hverju það lá á að segja upp þeirri lánalínu, átta mánuðum áður en hún rann út. Innleiða átti kaupauka- og kaupréttarkerfi fyrir lykilstjórnendur Icelandair. Samkvæmt kaupréttarkerfinu átti að láta lykilstjórnendur fá allt af 25 prósent af árslaunum sínu í formi kaupréttar, og að gefa alls út 900 milljónir nýja hluti á þremur árum vegna þessa. Miðað við gengi bréfa í Icelandair Group á þeim degi sem tillögur stjórnar voru kynntar var markaðsvirði þeirra nýju hluta sem átti að færa lykilstjórnendum rúmlega tveir milljarðar króna.
Bónuskerfið var sagt nauðsynlegt svo hægt yrði að draga úr líkum á að lykilstarfsmenn myndu yfirgefa félagið með litlum fyrirvara. Það væri viðvarandi áhætta fyrir félagið að lykilstarfsmenn hætti þar sem þeir fái ekki nægilega vel greitt fyrir störf sín.
Innrás breytti öllu
Þann 21. febrúar 2022 lýstu Rússar yfir sjálfstæði héraðanna Donetsk og Luhansk í austurhluta Úkraínu og þremur dögum síðar hófst innrás Rússa inn í nágrannalandið.
Vesturveldin gripu samstundis til stórtækra efnahagsþvingana gagnvart Rússlandi sem beindust meðal annars að því að hefta orkusölu landsins, en Rússland er einn stærsti framleiðandi af olíu og gasi í heiminum. Samkvæmt frétt sem Bloomberg birti í byrjun viku stefnir Evrópusambandið til að mynda á að draga gasinnflutning sinn frá Rússlandi saman um næstum 80 prósent áður en árið 2022 er á enda runnið.
Stríðsreksturinn og efnahagsþvinganir vesturvelda hafa leitt til þess að eldsneytisverð hefur rokið upp. Um tíma fór verðið á hverri tunnu á hráolíu í 130 Bandaríkjadali á mánudag. Til samanburðar var það 20 Bandaríkjadalir á tunnu í apríl 2020 og 92 Bandaríkjadalir 19. febrúar síðastliðinn.
Ein þeirra atvinnugreina sem kaupir gríðarlegt magn af jarðefnaeldsneyti eru flugfélög.
Verðið langt yfir áætlunum
Í aðdraganda þess að Icelandair sótti þorra þess nýja hlutafjár sem félagið fékk í endurskipulagningaferli sínu, í stóru útboði í september 2020, var birt fjárfestakynning sem innihélt meðal annars spá um verð á þotueldsneyti næstu árin. Hún gerði ráð fyrir að meðalverð á því yrði 438 Bandaríkjadalir á hvert tonn árið 2022.
Á uppgjörsfundi sem Icelandair hélt vegna birtingar á ársuppgjöri sínu í febrúar síðastliðnum sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, að gert væri ráð fyrir að eldsneytisverðið yrði mun hærra í ár en spáð var í fjárfestingakynningunni, eða um 800 Bandaríkjadalir á tonn. Hluti þess kostnaðar myndi lenda á flugfélögunum þar sem ómögulegt væri að velta honum að fullu út í fargjöld.
Þróunin síðustu daga hefur verið langt yfir þeim mörkum. Á mánudag stóð verðið á tonni af þotueldsneyti í 1.341 Bandaríkjadal og hafði hækkað um helming á tíu dögum.
Morgunblaðið greindi frá því 16. febrúar síðastliðinn að Icelandair væri með 29 prósent af áætlaðri eldsneytisnotkun sinni varin á fyrsta ársfjórðungi 2022 og 23 prósent á öðrum ársfjórðungi. Þeir samningar tryggja kaup á eldsneyti fyrir 660 Bandaríkjadali á tonnið, sem er umtalsvert undir heimsmarkaðsverði sem stendur. Þeir varnarsamningar gilda þó bara fram á mitt þetta ár og þorri eldsneytiskaupa Icelandair er áfram sem áður á markaðsverði.
Næstum 30 milljarðar horfnir
Afleiðingin hefur verið sú að hlutabréfaverð Icelandair Group hefur hrunið. Frá 10. febrúar, deginum sem áform um uppsetningu bónuskerfis fyrir lykilstarfsmenn voru kynnt, hefur þriðjungur af markaðsvirði félagsins þurrkast út. Það hefur hrapað úr 86,6 milljörðum króna í 56,7 milljarða króna. Næstum 30 milljarðar króna af virði hluthafa hefur horfið.
Samt sem áður var tillögunni haldið til streitu á aðalfundi Icelandair Group þann 3. mars síðastliðinn. Þar var hún samþykkt með naumum meirihluta. Þrír stærstu lífeyrissjóðirnir í hluthafahópi Icelandair Group; Gildi, Brú og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) lögðust allir gegn tillögunni. Samanlagt eiga sjóðirnir um tíu prósent hlut í Icelandair Group.
Komið niður við útboðsgengi
Hitt millilandaflugfélagið sem starfrækt er hérlendis, PLAY, skráði sig á First North markaðinn í fyrra. Í hlutafjárútboði sem fór fram í aðdraganda skráningar voru seldir hlutir fyrir 4,3 milljarða króna. Eftirspurn var áttföld en alls bárust tilboð upp á 33,8 milljarða króna. Útboðsgengið hjá PLAY nam 20 krónum á hlut fyrir tilboð yfir 20 milljónum króna og 18 krónum á hlut fyrir tilboð undir 20 milljónum króna.
Á fyrsta viðskiptadegi með bréf félagsins eftir skráningu hækkaði virði þeirra um 23 til 37 prósent og dagslokagengið þann dag, 9. júlí í fyrra, var 24,6 krónur á hlut. Í október náði hlutabréfaverðið því að verða 29,2 krónur á hlut. Síðan þá hefur það hríðfallið og var 20,1 króna á hlut í lok dags í gær. Virðið hefur því dregist saman um næstum þriðjung frá því í haust. Markaðsvirðið er nú rétt yfir 14 milljarðar króna sem er 6,4 milljörðum króna minna en í október.
PLAY er ekki með neinar eldsneytisvarnir og tapaði 1,4 milljarði króna á fyrstu níu mánuðum síðasta árs.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi