Meirihlutinn næði þrettán borgarfulltrúum en Sjálfstæðisflokkur stefnir í verstu útreið sína frá upphafi
Píratar nánast tvöfalda fylgi sitt og Framsókn tekur til sín nær allt það fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn tapar frá síðustu borgarstjórnarkosningum. Staða Samfylkingarinnar og Pírata við myndun ýmis konar meirihluta virðist sterk. Þetta er niðurstaða nýjustu kosningaspár Kjarnans.
Meirihlutinn í Reykjavík rígheldur samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Dr. Baldurs Héðinssonar. Samanlagt fá flokkarnir fjórir sem hann mynda: Samfylking, Píratar, Viðreisn og Vinstri græn 52,4 prósent fylgi og 13 borgarfulltrúa, eða einum fleiri en þeir eru nú með. Flokkarnir fjórir bæta samanlagt við sig sex prósentustigum frá síðustu kosningum. Líkurnar á því að meirihlutinn haldi mælast nú 70 prósent, sem er það mesta sem mælst hefur í kosningaspánni fyrir þessar kosningar.
Samhliða kosningaspánni er nú keyrð sætaspá. Hún er framkvæmd þannig að keyrðar eru 100 þúsund sýndarkosningar miðað við fylgi flokka í kosningaspánni. Í hverri þeirra er úthlutað 23 borgarfulltrúum og þar sem sýndarkosningarnar eru allar með innbyggða óvissu þá getur fylgið í hverri einstakri sýndarkosningu stundum hærra og stundum lægra, þótt meðaltal kosninganna allra sé það sama og kom fram í kosningaspánni. Hægt er að sjá sætaspánna hér að neðan:
- >99%Einar Þorsteinsson
- 98%Árelía Eydís Guðmundsdóttir
- 86%Magnea Gná Jóhannsdóttir
- 51%Aðalsteinn Haukur Sverrisson
- 17%Þorvaldur Daníelsson
- 82%Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
- 39%Pawel Bartoszek
- >99%Hildur Björnsdóttir
- >99%Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
- >99%Kjartan Magnússon
- 92%Marta Guðjónsdóttir
- 70%Björn Gíslason
- 35%Friðjón R. Friðjónsson
- 69%Kolbrún Baldursdóttir
- 18%Helga Þórðardóttir
- 87%Sanna Magdalena Mörtudóttir
- 47%Trausti Breiðfjörð Magnússon
- 11%Andrea Jóhanna Helgadóttir
- 36%Ómar Már Jónsson
- >99%Dóra Björt Guðjónsdóttir
- 97%Alexandra Briem
- 83%Magnús Norðdahl
- 47%Kristinn Jón Ólafsson
- >99%Dagur B. Eggertsson
- >99%Heiða Björg Hilmisdóttir
- >99%Skúli Þór Helgason
- 99%Sabine Leskopf
- 92%Hjálmar Sveinsson
- 68%Guðný Maja Riba
- 33%Sara Björg Sigurðardóttir
- 67%Líf Magneudóttir
- 22%Stefán Pálsson
Sá flokkur innan meirihlutans sem bætir mestu við sig frá kosningunum 2018 eru Píratar. Þeir nánast tvöfalda fylgi sitt, fara úr 7,7 í 14,9 prósent og myndu fá fjóra borgarfulltrúa að óbreyttu. Samfylkingin er stærsti flokkurinn í borginni samkvæmt kosningaspánni en 23,1 prósent kjósenda segjast ætla að kjósa flokkinn. Fylgi hans hefur verið afar stöðugt síðastliðinn mánuð og það myndi skila honum sex borgarfulltrúum, eða einum færri en flokkurinn fékk í síðustu kosningum.
Viðreisn er á mjög svipuðum slóðum í fylgi og árið 2018 og mælist með 7,7 prósent stuðning. Það myndi skila báðum borgarfulltrúum flokksins aftur í borgarstjórn. Vinstri græn mælast með meira fylgi en þau fengu síðast upp úr kjörkössunum en það er samt sem áður einungis 6,7 prósent. Fylgið hefur ekki mælst yfir sjö prósent síðan um miðjan mars. Það lítur því út fyrir að Líf Magneudóttir verði áfram ein í borgarstjórnarflokki flokksins.
Fylgið færist frá Sjálfstæðisflokki til Framsóknar
Sá flokkur sem tapar mestu frá síðustu kosningum er Sjálfstæðisflokkurinn. Hann mælist nú með 21 prósent fylgi sem er 9,8 prósentustigum minna en flokkurinn fékk 2018.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur ekki mælst lægra en það gerir nú í kosningaspánni í aðdraganda þessara kosninga en það mældist 25 prósent um miðjan síðasta mánuð. Samkvæmt sætaspá Kjarnans mun flokkurinn fá fimm borgarfulltrúa, sem er þremur færri en hann fékk í síðustu kosningum. Yrði þetta niðurstaða kosninga væri um að ræða langverstu niðurstöðu Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningum frá upphafi.
Það fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn tapar virðist nær allt hafa færst yfir á Framsóknarflokk Einars Þorsteinssonar. Hann bætir við sig mestu fylgi allra flokka frá kosningunum 2018, þegar Framsókn fékk einungis 3,2 prósent atkvæða, þrátt fyrir að hafa ekki einu sinni kynnt stefnuskrá nú þegar ellefu dagar eru til kosninga. Fylgi Framsóknar mælist nú 12,3 prósent og allt stefnir í að það skili flokknum þeim þremur borgarfulltrúum sem Sjálfstæðisflokkurinn tapar.
Sósíalistaflokkurinn siglir nokkuð lygnan sjó og litlar breytingar hafa verið á fylgi hans í síðustu spám, en það mælist nú 6,7 prósent. Það er nánast sama fylgi og hann fékk 2018 þegar 6,4 prósent kjósenda kaus flokk Sönnu Magdalenu Mörtudóttur.
Flokkur fólksins virðist líka ætla að sigla sínu borgarfulltrúasæti í höfn en flokkurinn mælist með 5,4 prósent fylgi í nýjustu spánni.
Miðflokkurinn mælist nú með meira en tveggja prósenta fylgi í kosningaspánni síðan um miðjan mars en er enn órafjarlægð frá því að ná manni inn. Því virðist allt stefna í að flokkurinn tapi sínu eina borgarstjórnarsæti.
Önnur framboð mælast ekki með fylgi.
Margir meirihlutar í spilunum
Ef fram fer sem horfir þá ættu Samfylkingin og Píratar, sem eru með keimlíkar stefnuskrár, að vera í lykilaðstöðu við myndun meirihluta í höfuðborginni. Flokkarnir tveir mælast nú með 38 prósent samanlagt fylgi og gætu náð að mynda þriggja flokka meirihluta með Framsókn, sem hefði 13 borgarfulltrúa og meirihluta atkvæða á bakvið sig, höfði það til þeirra.
Þeir gætu líka ákveðið að halda sig við það fjögurra flokka samstarf sem er nú í borginni, en 70 prósent líkur eru á því að hægt verði að mynda þá stjórn aftur. Ef ákveðið yrði að skipta Vinstri grænum út fyrir Sósíalistaflokk Íslands fara líkurnar niður í 64 prósent og ef Viðreisn yrði skipt út fyrir Framsókn fara líkurnar upp í 92 prósent.
Erfitt er að sjá hvaða leið Sjálfstæðisflokkurinn á í meirihluta. Píratar hafa þegar útilokað samstarf við flokkinn og nokkuð augljóst er að Samfylkingin mun ekki vinna með honum. Sennilegasta leiðin fyrir þennan gamla turn í höfuðborginni að völdum er í gegnum fjögurra flokka stjórn með Framsókn, Viðreisn og Flokki fólksins. Líkurnar á því að hægt verði að mynda þann meirihluta eru, eins og sakir standa, þó einungis 28 prósent. Líkurnar á því að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn geti myndað tveggja flokka meirihluta mælast eitt prósent.
Líkurnar eru fengnar með því að framkvæma 100 þúsund sýndarkosningar. Í hverri sýndarkosningu er vegið meðaltal þeirra skoðanakannana sem kosningaspáin nær yfir hverju sinni líklegasta niðurstaðan en sýndarniðurstaðan getur verið hærri eða lægri en þetta meðaltal og hversu mikið byggir á sögulegu fráviki skoðanakannana frá úrslitum kosninga.
Kannanir í nýjustu kosningaspá fyrir borgarstjórnarkosningar 14. maí:
- Þjóðarpúls Gallup 14. mars. – 10. apríl (20,5 prósent)
- Skoðanakönnun Prósents 13. - 26. apríl (40,3 prósent)
- Skoðanakönnun Maskínu 8. apríl – 2. maí (39,2 prósent)
Hvað er kosningaspáin?
Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.
Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.
Lestu meira um borgarstjórnarkosningarnar:
-
21. desember 2022Kosningastjóri Samfylkingarinnar nýr aðstoðarmaður borgarstjóra
-
3. nóvember 2022Framsókn og Vinstri græn hafa tapað um átta prósentustigum af fylgi frá síðustu kosningum
-
31. ágúst 2022Vegglistaverk Libiu og Ólafs þótti óleyfilegur kosningaáróður í Hafnarfirði
-
20. ágúst 2022Laun 30 dýrustu bæjarstjóranna voru samtal 698 milljónir króna í fyrra
-
12. ágúst 2022Hildur varði 9,3 milljónum í prófkjörsslaginn og átti eina og hálfa milljón afgangs
-
11. ágúst 2022Hildur skilaði uppgjöri vegna prófkjörs í gær
-
6. júlí 2022Vigdís Hauksdóttir vill verða bæjarstjóri
-
18. júní 2022Flokkurinn sem útilokaði sjálfan sig
-
8. júní 2022Dagur ógnar
-
7. júní 2022Næstum fjórum af hverjum tíu kjósendum Framsóknar líst illa á samstarfið í borginni