
Miðjuflokkar í lykilstöðu nokkrum dögum fyrir kosningar en Sjálfstæðisflokkur tapar enn
Leiðtogaumræður á RÚV fóru fram 31. ágúst síðastliðinn og með þeim hófst kosningabaráttan af alvöru. Frá fyrstu kosningaspá sem keyrð var eftir þær og fram til dagsins í dag hafa þrír flokkar tapað fylgi, fjórir hafa bætt við sig og tveir standa meira og minna í stað.
Sósíalistaflokkurinn, Vinstri græn og Píratar bæta við sig fylgi í nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar. Fyrstnefndi flokkurinn fer úr 6,9 í 7,3 prósent eftir að hafa verið að dala frá síðustu mánaðamótum, þegar hann toppaði í rúmlega átta prósent fylgi. Haldi þetta fylgi sér í kosningunum verður Sósíalistaflokkurinn sá flokkur sem tekur til sín mest nýtt fylgi um næstu helgi, þegar landsmenn ganga að kjörborðinu, en hann er í framboði til Alþingis í fyrsta sinn.
Vinstri græn hækka um 0,3 prósentustig og mælast með 11,7 prósent fylgi, sem er þó enn rúmlega 30 prósent undir kjörfylgi flokksins.
Píratar mælast nú með 12,2 prósent fylgi sem er það mesta sem þeir hafa mælst með í septembermánuði. Þeir eru nú með jafn mikið fylgi og Framsóknarflokkurinn og eru ásamt honum í þriðja til fjórða sæti yfir stærstu flokka landsins.
Þrír standa í stað
Samfylkingin stendur nánast í stað milli spáa og er enn að mælast næst stærsti stjórnmálaflokkur landsins með 13 prósent fylgi. Um tíma virtist flokkurinn stefna í verri útkomu en 2017, þegar hann fékk 12,1 prósent atkvæða, en fylgið hefur aukist nokkuð eftir því sem leið á september. Niðurstaðan verður þó alltaf vonbrigði fyrir flokkinn miðað við hvar hann stóð í byrjun árs, þegar fylgið mældist næstum 16 prósent. Þessi viðbót sem bæst hefur við síðustu daga gæti þó skipt máli þegar kemur að því að mynda ríkisstjórn.
Miðflokkurinn er á sömu slóðum og hann hefur meira og minna verið frá því í lok ágúst með sex prósent fylgi og Flokkur fólksins mælist minnstur þeirra flokka sem eiga möguleika á að komast inn á þing með 4,7 prósent stuðning.
Sjálfstæðisflokkur hefur tapað 2,7 prósentustigum í september
Þrír flokkar tapa einhverju sem nemur milli spáa. Viðreisn tapar mest, 0,4 prósentustigum, og mælist með slétt ellefu prósent fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram að síga og mælist nú með 21,6 prósent stuðning. Fylgi þessa stærsta stjórnmálaflokks landsins hefur lækkað í hverri einustu kosningaspá sem keyrð hefur verið frá 3. september, en þá mældist það 24,3 prósent. Sú spá var sú fyrsta sem Kjarninn birti eftir að fyrstu leiðtogaumræður yfirstandandi kosningabaráttu fóru fram, en með þeim hófst hin eiginlega kosningabarátta.
Á rúmum tveimur vikum hefur Sjálfstæðisflokkurinn því tapað 2,7 prósentustigum af fylgi sem er meira en nokkur annar flokkur á því tímabili. Raunar hafa einungis tveir aðrir flokkar lækkað í kosningaspánni sem einhverju nemur frá 3. september. Sósíalistaflokkurinn hefur misst 0,8 prósentustig og Miðflokkurinn 0,5 prósentustig.
Framsóknarflokkurinn lækkar líka milli spáa, alls um 0,3 prósentustig, og mælist með 12,2 prósent fylgi. Hann er þó enn eini stjórnarflokkurinn sem mælist yfir kjörfylgi nú þegar örfáir dagar eru til kosninga.
Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna þriggja; Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks mælist nú 45,5 prósent og hefur ekki mælst lægra frá því að kosningaspáin var fyrst keyrð vegna komandi kosninga, í apríl síðastliðnum. Samanlagt hafa stjórnarflokkarnir tapað 7,4 prósentustigum frá síðustu kosningum og minni líkur að ríkisstjórnin haldi eins og stendur. Stjórnin þyrfti því að bæta fjórða flokknum við til að halda meirihluta að óbreyttu.
Miðjuflokkar í lykilstöðu
Sú fjögurra flokka stjórn án Sjálfstæðisflokks sem er með mest fylgi er ríkisstjórn Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Vinstri grænna með samanlagt 49,1 prósent fylgi. Flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra yrði minnsti flokkurinn í slíku stjórnarmynstri.

Reykjavíkurmódelið er ekki langt undan með 47,9 prósent sameiginlegan stuðning, en það samanstendur af Samfylkingu, Pírötum, Vinstri grænum og Viðreisn.
Fimm flokka stjórn frá miðju til vinstri með Reykjavíkurmódelsflokkunum og auk Framsóknar væri með 60 prósent stuðning og stóran meirihluta á þingi.
Fjögurra flokka hægri stjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Viðreisnar og Miðflokks er einnig tölfræðilega möguleg og myndi vera með 50,8 prósent fylgi.
Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni eru eftirfarandi:
- Netpanell ÍSKOS/Félagsvísindastofnunnar 23. ágúst – 17. september (16,2 prósent)
- Þjóðarpúls Gallup 30. ágúst-12. september (vægi 19,8 prósent)
- Skoðanakönnun Prósent í samstarfi við Fréttablaðið 13– 16. september (20,1 prósent)
- Skoðanakönnun Maskínu í samstarfi við Fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis 8 – 13. september (23,6 prósent)
- Skoðanakönnun MMR í samstarfi við Morgunblaðið 15 – 17. september (vægi 20,3 prósent)
Hvað er kosningaspáin?
Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.
Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.
Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.
Lestu meira:
-
1. maí 2022Upprifjun endurtalningarinnar í Norðvestur
-
27. apríl 2022Ríkisstjórnin kolfallin og Sjálfstæðisflokkur mælist með undir 18 prósent fylgi
-
19. apríl 2022Tveir starfsmenn og tveir embættismenn höfnuðu flutningi milli ráðuneyta
-
14. apríl 2022Staða stjórnarflokkanna nú sterkari en hún var hálfu ári eftir kosningarnar 2017
-
12. apríl 2022Píratar, Samfylking og Viðreisn mælast saman með meira fylgi en stjórnarflokkarnir
-
4. apríl 2022Fylgi stjórnmálaflokka hreyfist lítið – Andstaðan enn langt frá því að ógna stjórninni
-
16. mars 2022Sjálfstæðisflokkur og Píratar bæta vel við sig en Vinstri græn tapa umtalsverðu fylgi
-
22. febrúar 2022Misjafn hagur – misjafnir hagir
-
2. febrúar 2022Allir stjórnarflokkarnir tapað fylgi frá síðustu kosningum en mælast með meirihluta
-
27. janúar 2022Stjórnarflokkarnir tapa samanlögðu fylgi og mælast í vandræðum í Reykjavík