Hugsanlega má hægja á hlýnun Jarðar með því að minnka magn sólarljóss sem berst niður á yfirborð plánetunnar. Það eru í það minnsta tillögur tiltölulega smás hóps vísindamanna sem vilja leggjast í róttækar aðgerðir til að koma í veg fyrir auknar og æ hraðari loftslagsbreytingar.
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP 20) stendur nú yfir í Lima í Perú. Ráðstefnan er talin vera mikilvægur hlekkur til að ná markmiði alþjóðasamfélagsins um lagalega bindandi samning milli ríkja um takmörkun á losun koltvíoxíðs út í andrúmsloftið. Gestgafinn þetta árið vill að texti samkomulags liggi fyrir í lok ráðstefnunnar.
Eini lagalega bindandi samingurinn sem gerður hefur verið um losun gróðurhúsalofttegunda er Kyoto-bókunin sem gerð var árið 1997 og tók gildi í desember 2005. Sá samningur rann hins vegar út í lok árs 2012. Hlutar samningsins hafa verið framlengdir en ítrekaðar viðræður um nýjan samning hafa allar silgt í strand.
Á fundinum í Lima mun að öllum líkindum skýrast hvernig samkomulagið mun á endanum líta út.
Á loftslagsráðstefnunni í Lima er nýr samningur undirbúinn og reynt að finna sameiginlega fleti milli ríkjanna fyrir ráðstefnu næsta árs í París þar sem markmiðið er að skrifa undir og ganga frá samkomulagi. Á fundinum í Lima mun að öllum líkindum skýrast hvernig samkomulagið mun á endanum líta út.
Allir þurfa að vera með
Bandaríkin og Kína eru föst á þeirri stefnu sinni að ætla ekki að skrifa undir lagalega bindandi samning. Bandaríkin vilja ekki taka þátt í slíkum sáttmála því bandaríska þingið mun að öllum líkindum ekki samþykka hann. Ríkin tvö, auk Evrópusambandsins, losa mest magn gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið en hafa öll sett sér markmið til að minna losun sína. Kjarninn greindi frá því í nóvember að Bandaríkin og Kína hefðu gert með sér samkomulag um minni útblástur.
Önnur ríki sem losa mikið magn hafa ekki sett sér markmið. Rússland, Ástralía, Indland eru þar lykilgerendur enda þurfa öll ríki að koma að samkomulaginu eigi lofslagsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að nást með þessum leiðum.
Viðræður um samkomulag hafa áður hrunið, þrátt fyrir að góður vilji hafi verið meðal allra þjóða og skilningur á markmiðinu. Skemmst er að minnast ráðstefnunnar í Kaupmannahöfn 2009, sem Svandís Svavarsdóttir þáverandi umhverfisráðherra sótti fyrir hönd Íslands.
Nú hafa sérfræðingar mestar áhyggjur af því að „hinar ríkari þjóðir“ muni standa í vegi fyrir að samkomulag náist.
Makmið ráðstefnunnar 2009 var að útbúa samningsdrög (eins og stefnan er í ár í Lima) en þegar á leið urðu ráðstefnugestir óánægðir með hvernig haldið var á málum. Ekkert varð af samkomulaginu 2010. Þá voru það þróunarríki sem stóðu í einna helst í veg fyrir samkomulagi eftir að hafa séð samningsdrögin sem þau töldu hygla ríkari þjóðum. Nú hafa sérfræðingar mestar áhyggjur af því að „hinar ríkari þjóðir“ muni standa í vegi fyrir að samkomulag náist.
Hér að neðan má heyra hlaðvarpsþátt The Guardian um ráðstefnuna í Lima. Þar er meðal annars rætt við Susan Goldenberg, loftslagsfréttamann Guardian í Lima. Hún útskýrir meðal annars hvaða niðurstaða hægt er að vænta af ráðstefnunni í Perú.
[embed]http://audio.theguardian.tv/audio/kip/global-development/series/global-development-podcast/1417689033804/3452/gdn.glo.141204.mh.lima-COP14-climate.mp3[/embed]
Aðrar lausnir mögulegar?
Vísindamenn hafa talið til margar tæknilegri lausnir til að hægja á hlýnun jarðar. Þær eru þó misvænlegar til árangurs. Í grein sem birtist í vísindatímaritinu Philosophical Transactions of the Royal Society A fyrir skömmu voru ýmsar leiðir tilgreindar sem gætu nýst sem fyrsta skrefið í þá átt að takmarka magn sólargeisla sem berast til yfirborðs Jarðar.
Mashable greinir frá þessum leiðum vef sínum í dag. Meðal þeirra leiða sem tilgreindar eru er að gera skýjahuluna hvítari með því að speyja sjó upp í loftið (e. marine cloud brightening). Eðlisfræðingurinn John Latham lagði þetta fyrst til árið 1990. Þannig myndu vindknúin skip sigla um hafið og spreyja söltum sjónum upp í loftið svo hann blandist skýjunum. Þannig verður skýjahulan hvítari og endurkastar meira af geislum sólar aftur út í himinngeiminn.
Kenningu sinni til stuðnings hefur Latham bent á að útblástur stórra skipa sjáist á gervitunglamyndum.
Latham hefur ritað margar fræðigreinar um þessa hugmynd sína og segir vísbendingar um að leiðin gæti virkað. Hann bendir til dæmis á að útblástur frá stórum skipum megi sjá á gervihnattamyndum.
Þá hafa verið nefndar hugmyndir sem fela í sér að spreyja súlfat-dögg í heiðhvolfið til að hindra sólargeisla. Áhrif þessa lausnar yrði í líkingu við það sem gerist þegar gosmökkur eldfjalla stígur upp í heiðhvolfið og berst með háloftavindum.
Vísindamenn telja jafnframt hægt að breyta svokölluðum klósigum (tegund háskýja) svo þau myndu framleiða fleiri ískristalla. Þetta yrði gert til að geislarnir sem lágskýin endurvarpa aftur út í geim kæmust alla leið út úr lofthjúpi Jarðar, og yrði ekki endurvarpað til Jarðar á ný af klósigunum.
„Sumir eru hræddir við þetta og halda að við séum að þykjast vera Guð.“
Þessar hugmyndir hafa hins vegar verið gagnrýndar harðlega. Aðrir vísindamenn telja engar líkur á því að þessar lausnir muni virka. Matt Watson, rannsakandi við Bristol-háskóla, lét hafa eftir sér í viðtali við BBC að honum fyndust svona lausnir ógnvekjandi. „En við verðum að bera saman mögulegar lausnir við það sem við erum að gera núna, þegar allt gengur sinn vana gang í átt til fjögurra gráðu heitari heims.“
John Latham segir svona lausnir aðeins vera til skamms tíma og til þess að hægja á þróuninni svo mannkynið geti fengið meiri tíma til að undirbúa varanlega lausn. „Sumir eru hræddir við þetta og halda að við séum að þykjast vera Guð,“ segir Latham. „En ÞAð sem við erum að reyna að gera er að endurheimta þær aðstæður sem væru hér ef við hefðum ekki brennt jarðefnaeldsneyti í auknum mæli í 100 ár.“