Minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna gæti skilað þeim báðum utan stjórnar
Vinstri græn eru nú í þeirri stöðu að þrír miðjuflokkar eru með meira fylgi en þau og Viðreisn mælist með nákvæmlega það sama. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með sitt lægsta fylgi í kosningaspánni. Líkurnar á miðjustjórn án Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks virðast aukast með hverjum degi.
Sjálfstæðisflokkurinn fer í fyrsta sinn undir 22 prósenta fylgi í kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar síðan að hún var fyrst keyrð vegna komandi kosninga í apríl síðastliðnum. Um mitt sumar mældist fylgi flokksins 24,6 prósent en það hefur minnkað um 2,7 prósentustig síðan þá. Flokkurinn, sem er enn nokkuð afgerandi sá stærsti á Íslandi, er nú að mælast 3,4 prósentustigum undir kjörfylgi nú átta dögum fyrir kosningar og mun að óbreyttu fá sína verstu útkomu í kosningum frá upphafi.
Vinstri græn tapa líka fylgi milli spáa og mælast nú með 11,4 prósent. Dýfa flokksins hefur verið nokkuð skörp síðustu vikur en seint í ágúst mældist fylgið 13,7 prósent. Þegar horft er á fylgi í síðustu kosningum þá hefur enginn flokkur tapað jafn miklu og Vinstri græn, sem mælast nú með 5,5 prósentustigum minna fylgi en þau fengu þá. Verði það niðurstaða kosninga munu Vinstri græn hafa tapað þriðjungi af fylgi sínu á kjörtímabili þar sem flokkurinn leiddi ríkisstjórn í fyrsta sinn. Frá 25. ágúst hafa Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn saman tapað 4,5 prósentustigum.
Framsóknarflokkurinn virðist ætla að verða eini stjórnarflokkurinn sem fer út úr kjörtímabilinu með meira fylgi en hann hóf það með. Hann mælist nú með 12,5 prósent stuðning og er 1,8 prósentustigi yfir kjörfylgi.
Ríkisstjórnarflokkarnir njóta samtals 45,8 prósent fylgi og verði það niðurstaða kosninganna 25. september er ríkisstjórnin nokkuð örugglega fallin. Þetta er minnsta samanlagða fylgi sem þeir hafa haft í kosningaspánni hingað til á árinu 2021. Samanlagt tap flokkanna þriggja sem að henni standa frá síðustu kosningum stendur nú í 7,1 prósentustigum.
Miðjuflokkarnir í áframhaldandi sókn
Þeir stjórnarandstöðuflokkar sem hafa verið að bæta við sig fylgi síðustu daga eru Samfylking, Viðreisn og Píratar. Þann 26. ágúst síðastliðinn mældist samanlagt fylgi þeirra þriggja 32,6 prósent. Það mælist nú 36,4 prósent og því hafa þeir samanlagt bætt við sig 3,8 prósentustigum á nokkrum vikum. Frá síðustu kosningum hafa þessir þrír flokkar bætt við sig 8,4 prósentustigum. Sú vending gæti breytt miklu þegar kemur að myndun ríkisstjórnar ef þessi staða helst fram yfir næstu helgi.
Ýmsir þingmenn, og aðrir áhrifamenn innan Samfylkingarinnar hafa verið að reka áróður á samfélagsmiðlum um að atkvæði greitt Vinstri grænum sé atkvæði greitt ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Að sama skapi hefur sá hópur, jafnt opinberlega og í einkasamtölum, verið að hvetja til þess að fólk með vinstritilhneigingar eyði ekki atkvæði sínu í Sósíalistaflokkinn þar sem hann sé ekki möguleiki við myndun ríkisstjórnar. Hvort þessi aðferðarfræði sé að virka til að píska vinstrafylgið inn að miðjunni, til Samfylkingar og Pírata, er ómögulegt að segja til um en sú tilfærsla er hið minnsta að eiga sér stað samhliða því að aukinn kraftur hefur verið settur í þann áróður. Frá 26. ágúst hafa Vinstri græn og Sósíalistaflokkurinn þó tapað 2,8 prósentustigum á meðan að Píratar og Samfylking hafa bætt við sig 2,3 prósentustigum.
Sósíalistaflokkurinn, sem bætti skarpt við sig í lok sumars og mældist um tíma með yfir átta prósent fylgi, hefur nú mælst undir sjö prósentum í tveimur kosningaspám í röð.
Viðreisn tínir af Sjálfstæðisflokknum
Viðreisn hefur farið úr því að vera með 9,9 prósent fylgi seint í ágúst í að vera með 11,4 prósent nú. Það er aukning upp á 1,5 prósentustig. Á sama tímabili hefur Sjálfstæðisflokkurinn tapað 2,2 prósentustigum og virðist þorri þess fylgis hafa ratað á Viðreisn, en rökrétt er að áætla að það sem upp á vantar hafi lent hjá Framsóknarflokknum, sem mælist nú með 0,9 prósentustiga meira fylgi en 26. ágúst.
Miðflokkurinn mælist með 6,1 prósent fylgi þriðju kosningaspánna í röð og virðist pikkfastur á þeim slóðum Hann hefur ekki mælst með yfir 6,5 prósent fylgi frá því í byrjun september og stendur frammi fyrir afhroði ef fram fer sem horfir. Flokkurinn vann mikinn kosningasigur 2017 og fékk 10,9 prósent atkvæða. Ef fram fer sem horfir mun hann tapa um 44 prósent af stuðningi sínum.
Flokkur fólksins er sá flokkur sem hefur sýnt mestan stöðugleika í þessari kosningabaráttu en forsvarsmenn hans eru sennilega ekki ánægðir með þann stöðugleika. Frá því að farið var að keyra kosningaspánna í lok apríl hefur Flokkur fólksins aldrei mælst með yfir fimm prósent fylgi en er að sama skapi afar stöðugur í kringum 4,5 prósentin, þar sem stuðningur við hann stendur nú.
Líkur á fjögurra flokka stjórn aukast
Þegar kemur að myndun ríkisstjórna virðast nokkrir möguleikar koma til greina. Miðjustjórn Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar nýtur nú stuðnings 48,9 prósent kjósenda og ætti að fá meirihluta. Þeir flokkar hafa nú samanlagt 3,1 prósentustiga meira fylgi en stjórnarflokkarnir samanlagt.
Reykjavíkurmódelið svokallaða er líka möguleiki sem nýtur meira fylgis en núverandi ríkisstjórnarmynstur, en í því sitja ofangreindir flokkar utan Framsóknar og Vinstri græn koma í þeirra stað. Samanlagt fylgi þeirra flokka sem standa að meirihlutanum í Reykjavíkurborg mælist nú 47,8 prósent.
Ríkisstjórnin gæti auðvitað kippt einum flokki upp í til sínu og náð með því góðum meirihluta. Einu valkostirnir sem eru þar á borðinu eru þó Miðflokkur og Viðreisn þar sem Samfylkingin, Píratar og Sósíalistaflokkur Íslands hafa allir útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.
Ýmsir möguleikar eru á fimm flokka stjórn sem gæti haft myndarlegan meirihluta á þingi. Sá sem yrði líklegastur myndi samanstanda af Samfylkingu, Framsóknarflokki, Pírötum, Vinstri grænum og Viðreisn en samanlagt fylgi þessara fimm flokka mælist nú yfir 60 prósent.
Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni eru eftirfarandi:
- Skoðanakönnun MMR í samstarfi við Morgunblaðið 8 – 10. september (vægi 12,5 prósent)
- Netpanell ÍSKOS/Félagsvísindastofnunnar 23. ágúst – 13. september (13,2 prósent)
- Þjóðarpúls Gallup 30. ágúst-12. september (vægi 17,6 prósent)
- Skoðanakönnun Prósent í samstarfi við Fréttablaðið 13– 16. september (26,7 prósent)
- Skoðanakönnun Maskínu í samstarfi við Fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis 8 – 13. september (30,0 prósent)
Hvað er kosningaspáin?
Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.
Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.
Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.
Lestu meira:
-
5. janúar 2023Ásmundur Einar Daðason staðið sig best allra ráðherra – Bjarni Benediktsson langverst
-
3. janúar 2023Samfylkingin ekki stærri hjá Gallup í tólf ár en Vinstri græn hafa aldrei mælst minni
-
21. desember 202242,1 prósent innflytjenda greiddu atkvæði í síðustu alþingiskosningum
-
26. nóvember 2022Allir formenn stjórnarflokkanna tapað umtalsverðu trausti á kjörtímabilinu
-
21. nóvember 2022Tíð ríkisstjórnarskipti og kórónuveiran hafa stóraukið nýtingu fjáraukalaga
-
19. nóvember 2022Samfylkingin hefur næstum tvöfaldað fylgið og andar ofan í hálsmálið á Sjálfstæðisflokki
-
27. október 2022Guðlaugur Þór horfir til þess að fella Bjarna
-
21. október 2022Kristrún Frostadóttir verður ein í framboði til formanns Samfylkingarinnar
-
20. október 2022Píratar og Samfylkingin hafa samanlagt bætt við sig tíu prósentustigum á kjörtímabilinu
-
16. október 2022Guðmundur Árni býður sig fram til varaformanns en Heiða hættir við framboð