Mynd: Samsett katrín og bjarni
Mynd: Samsett

Minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna gæti skilað þeim báðum utan stjórnar

Vinstri græn eru nú í þeirri stöðu að þrír miðjuflokkar eru með meira fylgi en þau og Viðreisn mælist með nákvæmlega það sama. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með sitt lægsta fylgi í kosningaspánni. Líkurnar á miðjustjórn án Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks virðast aukast með hverjum degi.

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn fer í fyrsta sinn undir 22 pró­senta fylgi í kosn­inga­spá Kjarn­ans og Bald­urs Héð­ins­sonar síðan að hún var fyrst keyrð vegna kom­andi kosn­inga í apríl síð­ast­liðn­um. Um mitt sumar mæld­ist fylgi flokks­ins 24,6 pró­sent en það hefur minnkað um 2,7 pró­sentu­stig síðan þá. Flokk­ur­inn, sem er enn nokkuð afger­andi sá stærsti á Íslandi, er nú að mæl­ast 3,4 pró­sentu­stigum undir kjör­fylgi nú átta dögum fyrir kosn­ingar og mun að óbreyttu fá sína verstu útkomu í kosn­ingum frá upp­hafi.

Vinstri græn tapa líka fylgi milli spáa og mæl­ast nú með 11,4 pró­sent. Dýfa flokks­ins hefur verið nokkuð skörp síð­ustu vikur en seint í ágúst mæld­ist fylgið 13,7 pró­sent. Þegar horft er á fylgi í síð­ustu kosn­ingum þá hefur eng­inn flokkur tapað jafn miklu og Vinstri græn, sem mæl­ast nú með 5,5 pró­sentu­stigum minna fylgi en þau fengu þá. Verði það nið­ur­staða kosn­inga munu Vinstri græn hafa tapað þriðj­ungi af fylgi sínu á kjör­tíma­bili þar sem flokk­ur­inn leiddi rík­is­stjórn í fyrsta sinn. Frá 25. ágúst hafa Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn og Vinstri græn saman tapað 4,5 pró­sentu­stig­um.

Niðurstöður kosningaspárinnar 17. september 2021

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn virð­ist ætla að verða eini stjórn­ar­flokk­ur­inn sem fer út úr kjör­tíma­bil­inu með meira fylgi en hann hóf það með. Hann mælist nú með 12,5 pró­sent stuðn­ing og er 1,8 pró­sentu­stigi yfir kjör­fylg­i. 

Rík­is­stjórn­ar­flokk­arnir njóta sam­tals 45,8 pró­sent fylgi og verði það nið­ur­staða kosn­ing­anna 25. sept­em­ber er rík­is­stjórnin nokkuð örugg­lega fall­in. Þetta er minnsta sam­an­lagða fylgi sem þeir hafa haft í kosn­inga­spánni hingað til á árinu 2021. Sam­an­lagt tap flokk­anna þriggja sem að henni standa frá síð­ustu kosn­ingum stendur nú í 7,1 pró­sentu­stig­um. 

Miðju­flokk­arnir í áfram­hald­andi sókn

Þeir stjórn­ar­and­stöðu­flokkar sem hafa verið að bæta við sig fylgi síð­ustu daga eru Sam­fylk­ing, Við­reisn og Pírat­ar. Þann 26. ágúst síð­ast­lið­inn mæld­ist sam­an­lagt fylgi þeirra þriggja 32,6 pró­sent. Það mælist nú 36,4 pró­sent og því hafa þeir sam­an­lagt bætt við sig 3,8 pró­sentu­stigum á nokkrum vik­um. Frá síð­ustu kosn­ingum hafa þessir þrír flokkar bætt við sig 8,4 pró­sentu­stig­um. Sú vend­ing gæti breytt miklu þegar kemur að myndun rík­is­stjórnar ef þessi staða helst fram yfir næstu helgi.

Auglýsing

Ýmsir þing­menn, og aðrir áhrifa­menn innan Sam­fylk­ing­ar­innar hafa verið að reka áróður á sam­fé­lags­miðlum um að atkvæði greitt Vinstri grænum sé atkvæði greitt rík­is­stjórn með Sjálf­stæð­is­flokkn­um. Að sama skapi hefur sá hóp­ur, jafnt opin­ber­lega og í einka­sam­töl­um, verið að hvetja til þess að fólk með vinstritil­hneig­ingar eyði ekki atkvæði sínu í Sós­í­alista­flokk­inn þar sem hann sé ekki mögu­leiki við myndun rík­is­stjórn­ar. Hvort þessi aðferð­ar­fræði sé að virka til að píska vinstra­fylgið inn að miðj­unni, til Sam­fylk­ingar og Pírata, er ómögu­legt að segja til um en sú til­færsla er hið minnsta að eiga sér stað sam­hliða því að auk­inn kraftur hefur verið settur í þann áróð­ur. Frá 26. ágúst hafa Vinstri græn og Sós­í­alista­flokk­ur­inn þó tapað 2,8 pró­sentu­stigum á meðan að Píratar og Sam­fylk­ing hafa bætt við sig 2,3 pró­sentu­stig­um. 

Sós­í­alista­flokk­ur­inn, sem bætti skarpt við sig í lok sum­ars og mæld­ist um tíma með yfir átta pró­sent fylgi, hefur nú mælst undir sjö pró­sentum í tveimur kosn­inga­spám í röð.

Við­reisn tínir af Sjálf­stæð­is­flokknum

Við­reisn hefur farið úr því að vera með 9,9 pró­sent fylgi seint í ágúst í að vera með 11,4 pró­sent nú. Það er aukn­ing upp á 1,5 pró­sentu­stig. Á sama tíma­bili hefur Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn tapað 2,2 pró­sentu­stigum og virð­ist þorri þess fylgis hafa ratað á Við­reisn, en rök­rétt er að áætla að það sem upp á vantar hafi lent hjá Fram­sókn­ar­flokkn­um, sem mælist nú með 0,9 pró­sentu­stiga meira fylgi en 26. ágúst. 

Þróun fylgis framboða í kosningaspánni
Kosningaspáin er unnin í aðdraganda kosninga til Alþingis 2021.
B C D F M P S V Aðrir

Mið­flokk­ur­inn mælist með 6,1 pró­sent fylgi þriðju kosn­inga­spánna í röð og virð­ist pikk­fastur á þeim slóðum Hann hefur ekki mælst með yfir 6,5 pró­sent fylgi frá því í byrjun sept­em­ber og stendur frammi fyrir afhroði ef fram fer sem horf­ir. Flokk­ur­inn vann mik­inn kosn­inga­sigur 2017 og fékk 10,9 pró­sent atkvæða. Ef fram fer sem horfir mun hann tapa um 44 pró­sent af stuðn­ingi sín­um. 

Flokkur fólks­ins er sá flokkur sem hefur sýnt mestan stöð­ug­leika í þess­ari kosn­inga­bar­áttu en for­svars­menn hans eru senni­lega ekki ánægðir með þann stöð­ug­leika. Frá því að farið var að keyra kosn­inga­spánna í lok apríl hefur Flokkur fólks­ins aldrei mælst með yfir fimm pró­sent fylgi en er að sama skapi afar stöð­ugur í kringum 4,5 pró­sent­in, þar sem stuðn­ingur við hann stendur nú. 

Líkur á fjög­urra flokka stjórn aukast

Þegar kemur að myndun rík­is­stjórna virð­ast nokkrir mögu­leikar koma til greina. Miðju­stjórn Sam­fylk­ing­ar, Fram­sókn­ar­flokks, Pírata og Við­reisnar nýtur nú stuðn­ings 48,9 pró­sent kjós­enda og ætti að fá meiri­hluta. Þeir flokkar hafa nú sam­an­lagt 3,1 pró­sentu­stiga meira fylgi en stjórn­ar­flokk­arnir sam­an­lag­t. 

Inga Sæland hefur ekki náð Flokki fólksins á flug hingað til í kosningabaráttunni og hann dólar rétt undir fimm prósent markinu.
Mynd: Bára Huld Beck

Reykja­vík­ur­mód­elið svo­kall­aða er líka mögu­leiki sem nýtur meira fylgis en núver­andi rík­is­stjórn­ar­mynstur, en í því sitja ofan­greindir flokkar utan Fram­sóknar og Vinstri græn koma í þeirra stað. Sam­an­lagt fylgi þeirra flokka sem standa að meiri­hlut­anum í Reykja­vík­ur­borg mælist nú 47,8 pró­sent. 

Rík­is­stjórnin gæti auð­vitað kippt einum flokki upp í til sínu og náð með því góðum meiri­hluta. Einu val­kost­irnir sem eru þar á borð­inu eru þó Mið­flokkur og Við­reisn þar sem Sam­fylk­ing­in, Píratar og Sós­í­alista­flokkur Íslands hafa allir úti­lokað sam­starf við Sjálf­stæð­is­flokk­inn.

Auglýsing

Ýmsir mögu­leikar eru á fimm flokka stjórn sem gæti haft mynd­ar­legan meiri­hluta á þingi. Sá sem yrði lík­leg­astur myndi sam­an­standa af Sam­fylk­ingu, Fram­sókn­ar­flokki, Píröt­um, Vinstri grænum og Við­reisn en sam­an­lagt fylgi þess­ara fimm flokka mælist nú yfir 60 pró­sent.

Þær kann­anir sem liggja til grund­vallar nýj­ustu kosn­inga­spánni eru eft­ir­far­andi:

  • Skoð­ana­könnun MMR í sam­starfi við Morg­un­blaðið 8 – 10. sept­em­ber (vægi 12,5 pró­sent)
  • Net­pan­ell ÍSKOS/­Fé­lags­vís­inda­stofn­unnar 23. ágúst – 13. sept­em­ber (13,2 pró­sent)
  • Þjóð­ar­púls Gallup 30. ágúst-12. sept­em­ber (vægi 17,6 pró­sent)
  • Skoð­ana­könnun Pró­sent í sam­starfi við Frétta­blaðið 13– 16. sept­em­ber (26,7 pró­sent)
  • Skoð­ana­könnun Mask­ínu í sam­starfi við Frétta­stofu Stöðvar 2, Bylgj­unnar og Vísis 8 – 13. sept­em­ber (30,0 pró­sent)

Hvað er kosn­­inga­­spá­in?

Fyrir hverjar kosn­ingar um allan heim birta fjöl­miðlar gríð­ar­legt magn af upp­lýs­ing­um. Þessar upp­lýs­ingar eru oftar en ekki töl­fræði­leg­ar, byggðar á skoð­ana­könn­unum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upp­lifir stjórn­málin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórn­mála­fræð­ingar og fjöl­miðlar kepp­ast svo við að túlka nið­ur­stöð­urnar og veita almenn­ingi enn meiri upp­lýs­ingar um stöð­una í heimi stjórn­mál­anna.

Auglýsing

Allar þessar kann­anir og allar mögu­legar túlk­anir á nið­ur­stöðum þeirra kunna að vera rugl­andi fyrir hinn almenna neyt­anda. Einn kannar skoð­anir fólks yfir ákveðið tíma­bil og annar kannar sömu skoð­anir á öðrum tíma og með öðrum aðferð­um. Hvor könn­unin er nákvæm­ari? Hverri skal treysta bet­ur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vand­inn er að hinn almenni kjós­andi hefur ekki for­sendur til að meta áreið­an­leika hverrar könn­un­ar.

Þar kemur kosn­inga­spáin til sög­unn­ar.

Kosn­­­inga­­­spálíkan Bald­­­urs Héð­ins­­­sonar miðar að því að setja upp­­­lýs­ing­­­arnar sem skoð­ana­kann­­­anir veita í sam­hengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­­inga. Nið­ur­stöður spálík­ans­ins eru svo birtar hér á Kjarn­anum reglu­lega í aðdrag­anda kosn­inga.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar