Á síðasta kjörtímabili lagði þingflokkur Viðreisnar auk þingmanna Pírata og Samfylkingar fram frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem fól í sér að sjávarútvegsfyrirtæki sem hefðu meira en eitt prósent af heildarafla á sínum höndum þyrftu að skrást á hlutabréfamarkað. Ef fyrirtæki réðu yfir 8-12 prósentum heildaraflahlutdeildar gætu einstakir hluthafar og aðilar honum tengdir ekki farið með meira en tíu prósent hlutafjár eða atkvæðisréttar.
Þingflokkur Viðreisnar hefur nú lagt frumvarpið fram aftur, í þetta sinn einn síns liðs. Tilgangurinn er sagður þríþættur. Í fyrsta lagi er því ætlað að auka gagnsæi fjárhagsupplýsinga með kröfum um skráningu á skipulegum hlutabréfamarkaði. Í öðru lagi felur það í sér kröfu um dreifða eignaraðild stærri útgerðarfyrirtækja. Í þriðja lagi afmarkar það með skýrari hætti en gildandi lög það hámark í heildaraflahlutdeild sem einstakir aðilar eða tengdir aðilar geta ráðið yfir.
Viðreisn hefur líka lagt á ný fram frumvarp um tímabindingu veiðiheimilda til 20 ára. Ef það yrði að lögum myndi heildaraflahlutdeild í öllum tegundum fyrnast um fimm prósent á ári og sama hlutdeild í kjölfarið seld á uppboðsmarkaði til 20 ára í senn.
Þingflokkur Flokks fólksins hefur líka lagt aftur fram frumvarp sem áður hefur komið fram en hlaut ekki brautargengi um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Tilgangur þess er að tryggja „virka samkeppni og sporna við því að veiðiheimildir safnist á fáar hendur.“
Ef frumvarpið yrði að lögum myndi skilgreining á tengdum aðilum breytast þannig að aðilar mættu eiga, beint eða óbeint, 20 prósent af hlutafé eða stofnfé í öðru fyrirtæki sem heldur á kvóta. Það þak er í dag 50 prósent. Auk þess yrðu eftirlitsheimildir Fiskistofu efldar umtalsvert svo stofnunin geti rannsakað með „viðhlítandi hætti hvort tengsl séu á milli aðila“.
Vilja miða við lög um peningaþvætti
Þingflokkur Samfylkingarinnar er ekki eftirbátur kollega sinna í stjórnarandstöðunni og leggur fram sitt eigið frumvarp um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Líkt og í hinum tilfellunum er um endurframlagningu að ræða.
Frumvarpið miðar að því að hrinda í framkvæmd tillögum verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni sem verkefnastjórnin skilaði til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 30. desember 2019, en Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sat í þeirri verkefnastjórn.
Efni frumvarpsins er meðal annars það að lagðar eru til breytingar á skilgreiningu hugtaksins „tengdir aðilar“ í lögum um stjórn fiskveiða. Í frumvarpi Samfylkingarinnar er í fyrsta lagi lagt til að miðað verði við að aðilar teljist tengdir fari annar aðilinn með að minnsta kosti 25 prósent hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í hinum, til samræmis við lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í öðru lagi er lagt til að til tengdra aðila teljist lögaðilar sem stjórnað er af sömu einstaklingum og hjón, sambúðarfólk, börn þeirra og fósturbörn auk lögaðila í þeirra eigu. Í þriðja lagi er lögð til ítarlegri skilgreining á því hvað felist í raunverulegum yfirráðum en kveðið er á um í gildandi lögum um stjórn fiskveiða. Að lokum er kveðið á um málsmeðferð Fiskistofu þegar samanlögð aflaheimild einstakra aðila og tengdra aðila er yfir sex prósent af heildarverðmæti allra tegunda sem sæta takmörkunum á leyfilegum heildarafla.
Ríkisstjórnin ætlar að skipa nefnd
Þegar áðurnefnd lokaskýrsla verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni var brit kom í ljós að hún gerði engar tillögur að breytingum á kvótaþaki eða kröfu um hlutfall meirihlutaeignar í tengdum aðilum.
Kristján Þór Júlíusson, þáverandi ráðherra málaflokksins, hafði þá þegar lagt fram tvenn drög að frumvörpum um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnunar. Annað fjallaði um skilgreiningu tengdra aðila í sjávarútvegi í samráðsgátt stjórnvalda, sem byggði á vinnu verkefnastjórnarinnar. Í þeim drögum kom fram að þeir sem lagabreytingin myndi hafa áhrif á myndu hafa fram á fiskveiðiárið 2025/2026 til að koma sér undir lögbundið kvótaþak, eða sex ár. Kvótaþakið myndi hins vegar áfram vera óbreytt, hveri og ein eining mætti halda á allt að 12 prósent af úthlutuðum kvóta.
Annað frumvarpið, það sem snýr ekki að frekari skilgreiningu á tengdum aðilum var svo lagt fram í apríl síðastliðnum, lítillega breytt, en var ekki afgreitt fyrir þinglok. Í greinargerð þess sagði að megintilgangur þess væri að koma á heildstæðu viðurlagakerfi vegna brota á lögum á sviði fiskveiðistjórnar, að heimildir Fiskistofu til að sinna rafrænu eftirliti yrðu styrktar og að hugtakið raunveruleg yfirráð við framkvæmd reglna um hámarksaflahlutdeild yrði afmarkað betur.
Í þingmálaskrá nýrrar ríkisstjórnar, sem var birt í síðustu viku kemur fram að nýr ráðherra málaflokksins, Svandís Svavarsdóttir, ætli að leggja það fram að nýju í janúar 2022.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er greint frá því að skipuð verður nefnd til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Þar segir: „Nefndinni verði falið að bera saman stöðuna hér og erlendis og leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar. Nefndin falli einnig um hvernig hægt er að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og þá sérstaklega meðal stærstu fyrirtækja landsins. Þá meti nefndin árangur af atvinnu- og byggðakvóta og strandveiðum til að styðja við atvinnulíf í landsbyggðunum.“
Stóraukin samþjöppun milli ára
Þegar Fiskistofa tók saman kvótastöðu allra útgerða í fyrrahaust var niðurstaðan sú að engin ein útgerð héldi á meiri kvóta en lög heimila, en samkvæmt því má engin ein tengd blokk hald á meira en tólf prósent af heildarverðmæti úthlutaðra aflaheimilda hverju sinni. Brim, sjávarútvegsfyrirtæki sem er skráð á markað, var efst á listanum yfir þær útgerðir sem héldu á mestu með 10,45 prósent af úthlutuðum kvóta.
Tíu stærstu útgerðirnar héldu samanlagt á 53,1 prósent af kvótanum. Það var svipuð staða og hafði verið árin á undan.
Fiskistofa, sem hefur eftirlit með því að yfirráð einstakra aðila yfir aflahlutdeildum fari ekki umfram lögbundin mörk, birti nýja samantekt á samþjöppun aflahlutdeildar í byrjun síðasta mánaðar. Þar birtist ný staða. Nú er ein útgerð, Brim, komin yfir lögbundið kvótaþak og tíu stærstu útgerðirnar halda nú á 67,45 prósent á öllum úthlutuðum kvóta.
Fjórar blokkir eru með yfirráð yfir 60 prósent af öllum kvóta sem úthlutað hefur verið á Íslandi. Sú stærsta, sem hverfist um Samherja, heldur á yfir 22 prósent af öllum kvóta.
Meira í arð en opinber gjöld
Hagur sjávarútvegsfyrirtækja landsins, samtala arðgreiðslna og aukins eigin fjár þeirra, hefur vænkast um meira en 500 milljarða króna frá bankahruni. Geirinn greiddi sér meira út í arð, alls 21,5 milljarða króna, í fyrra en hann greiddi í öll opinber gjöld, alls 17,4 milljarða króna. Inni í þeirri tölu eru veiðigjöld (4,8 milljarðar króna), tekjuskattur (7,3 milljarðar króna) og áætlað tryggingagjald (5,3 milljarðar króna).
Þetta er í eina skiptið á síðustu fimm árum sem sjávarútvegurinn hefur greitt minna í opinber gjöld en hann tók út í arðgreiðslur. Raunar hefur geirinn einungis einu sinni greitt jafn lítið í bein opinber gjöld innan árs á því tímabili og hann gerði í fyrra, en það var árið 2017 þegar heildargreiðslur hans í opinber gjöld voru 15,8 milljarðar króna.
Heildararðgreiðslur út úr sjávarútvegi frá byrjun árs 2016 og út síðasta ár nema 70,5 milljörðum króna. Á sama tíma hefur geirinn greitt 35,9 milljarða króna í veiðigjöld, eða rétt rúmlega 50 prósent af þeirri upphæð sem eigendur sjávarútvegsfyrirtækja hafa fengið í arð.
Kannanir sýna að almenningur vill breytingar
Í aðdraganda síðustu kosninga voru gerðar ýmsar kannanir á skoðun almennings á stjórn fiskveiða hérlendis. Í könnun sem MMR vann fyrir Öldu - félag um sjálfbærni og lýðræði kom meðal annars fram 66 prósent landsmanna, tveir af hverjum þremur, voru óánægðir með núverandi útfærslu á kvótakerfi í sjávarútvegi. Þar af sögðust 38 prósent vera mjög óánægð með hana.
Í sömu könnun kom fram að 64 prósent landsmanna, næstum tveir af hverjum þremur, telja að núverandi útfærsla á kvótakerfinu ógni lýðræðinu.
Loks var birt niðurstaða könnunar sem Gallup gerði fyrir þrýstihópinn Þjóðareign. Í henni var fólk spurt hvort það styddi að markaðsgjald væri greitt fyrir afnot af fiskimiðum þjóðarinnar. Niðurstaðan var sú að 77 prósent aðspurðra var fylgjandi því og einungis 7,1 prósent var andvígt slíkri kerfisbreytingu. Afgerandi meirihluti kjósenda allra flokka var fylgjandi breytingunni þótt stuðningurinn væri minni hjá kjósendum Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks en þeim sem ætla að kjósa aðra flokka.
Lestu meira:
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
30. desember 2022Rammi sameinaður Ísfélaginu og til stendur að skrá nýju risaútgerðina á hlutabréfamarkað
-
29. desember 2022Baldvin Þorsteinsson eignast erlenda útgerð Samherja sem metin er á 55 milljarða króna
-
19. desember 2022Hagnaður sjávarútvegs þrefaldaðist milli ára en afkoma tæknifyrirtækja breyttist lítið
-
13. desember 2022Fallið frá því að hækka gjöld á sjókvíaeldi um mörg hundruð milljónir á ári
-
9. desember 2022Prentsmiðjan og skuldir Árvakurs við hana færðar úr útgáfufélagi Morgunblaðsins
-
6. desember 2022Samherji Holding segist ekki líða mútugreiðslur, fyrirgreiðslur og ávinning í skiptum fyrir óeðlileg áhrif
-
30. nóvember 2022Samherjasamstæðan átti eigið fé upp á tæpa 160 milljarða króna um síðustu áramót
-
28. nóvember 2022SFS styðja frumvarp Svandísar um að hækka veiðigjöld á næsta ári en lækka þau árin á eftir
-
23. nóvember 2022Svandís leggur fram frumvarp sem hækkar veiðigjöld um 2,5 milljarða á næsta ári