Veggjaldaáætlanir í vinnslu – horft til gjaldtöku í Fossvogsdal og Elliðaárvogi
Engar ákvarðanir hafa enn verið teknar um álagningu flýti- og umferðargjalda á höfuðborgarsvæðinu, en slík gjöld eiga þó að standa undir stórum hluta fjármögnunar Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins næsta rúma áratuginn. Það er þó eitt og annað í pípunum, samkvæmt minnisblaði sem opinbera hlutafélagið Betri samgöngur sendi á fjármálaráðuneytið og sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins í haust.
Hugmyndavinna vegna svokallaðra flýti- og umferðargjalda á höfuðborgarsvæðinu stendur nú yfir á vettvangi opinberra aðila, en engar ákvarðanir í þeim efnum hafa þó verið teknar. Betri samgöngur ohf. hefur lagt fram þá tillögu til hluthafa sinna, ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, að unnið verði að útfærslunni með það að markmiði að innheimta gjaldanna geti hafist 1. janúar 2023.
Sú tillaga var reyndar sett fram í september síðastliðnum, en þá sendi stjórn Betri samgangna, sem leidd er af Árna M. Mathiesen fyrrverandi ráðherra, frá sér minnisblað með hugmyndum sínum um mögulega innheimtu flýti- og umferðargjalda. Opinbera hlutafélagið hafði þá þegar látið verkfræðistofuna Eflu vinna útfærslu á því hvernig fýsilegt væri að rukka fyrir akstur með sjálfvirkum tollahliðum á ákveðnum svæðum á höfuðborgarsvæðinu og áætla kostnað við uppsetningu gjaldtökulausna á þeim sömu svæðum.
Framkvæmdastjóri Betri samgangna, Davíð Þorláksson, sagði frá því á fundi Vegagerðarinnar um samgöngusáttmálann fyrir rúmri viku að hann vonaðist til þess að hægt yrði að kynna tillögur að útfærslu umferðargjalda fljótlega, en fyrir liggur að samkvæmt áætlunum á að fjármagna helminginn af þeim stórtæku samgönguframkvæmdum sem framundan eru á höfuðborgarsvæðinu með svokölluðum flýti- og umferðargjöldum, eða þá með öðrum fjármögnunarleiðum ríkisins, sem enn hafa ekki verið útfærðar.
Alls er um að ræða 60 milljarða króna, sem fjármagna skal með þessum hætti.
Lítið verið talað um útfærsluna
Um útfærslu þessara hugsanlegu gjalda hefur lítið verið talað opinberlega frá því að samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins var undirritaður árið 2019. Kjarninn vildi kanna hvar þessi vinna væri stödd og óskaði eftir því við fjármálaráðuneytið að fá afhent öll fyrirliggjandi gögn sem væru í fórum þess og sneru að útfærslu flýti- og umferðargjalda. Tvö skjöl bárust blaðamanni í upphafi þessarar viku.
Annars vegar er um að ræða áðurnefnt minnisblað með tillögum stjórnar Betri samgangna um gjaldtökuna, sem sent var til ráðuneytisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í lok september í fyrra og hins vegar skýrslu frá verkfræðistofunni Eflu um mögulega útfærslu tollhliða á því gjaldtökusvæði sem Betri samgöngur sjá helst fyrir sér að taka til skoðunar.
Samkvæmt minnisblaðinu er helsta tillagan sem Betri samgöngur horfa til sú að taka gjald af ökumönnum sem aka inn á eða út af miðsvæði Reykjavíkurborgar, sem afmarkast af Fossvogsdal og Elliðaárósum – en samkvæmt því sem segir í minnisblaði Betri samgagna voru um 280.000 bílferðir farnar í gegnum hið mögulega gjaldtökusvæði á hverjum degi árið 2018.
Áætlaður kostnaður við að setja upp sjálfvirkan gjaldtökubúnað á alls 22 akreinar á þessu svæði er í skýrslunni frá Eflu áætlaður um 360 milljónir króna, en þá er miðað við reynslutölur frá Ósló í Noregi þar sem sambærilegt fyrirkomulag gjaldtöku er fyrir hendi. Kostnaður við hugbúnað vegna bakvinnslu og reikningagerð er svo sagður geta legið á milli 200 og 400 milljóna króna, en tekið er fram að það væri kostnaður sem óháður væri stærð og staðsetningu kerfis og gæti þess vegna nýst fyrir bakvinnslu og rukkanir á fleiri stöðum á landinu.
Það er svo tíundað að rekstrarkostnaður sjálfs gjaldtökukerfisins geti verið nokkur prósent af innheimtum tekjum, jafnvel upp í 8,5 prósent eins og það er í Ósló.
Undirstrikað að engar ákvarðanir liggi fyrir
Fjármála- og efnahagsráðuneytið lagði áherslu á það í svari sínu við gagnabeiðni Kjarnans að í vinnu við heildarendurskoðun á tekjustofnum ríkisins vegna ökutækja og eldsneytis sem nú fer fram hjá ráðuneytinu hafi verið horft til „einhvers konar gjaldtöku af umferð,“ en að þeirri vinnu sé ekki lokið.
„Mun niðurstaða þeirrar vinnu verða höfð til hliðsjónar við útfærslu á innheimtu flýti- og umferðargjalda vegna samgöngusáttmálans á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í svari ráðuneytisins, sem segist enn fremur ekki hafa tekið afstöðu til þeirra hugmynda um mögulega innheimtu gjalda af umferð á höfuðborgarsvæðinu sem Betri samgöngur hafa sett fram.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur tjáð sig nokkuð um þessa vinnu að undanförnu, meðal annars í samtölum við Kjarnann síðla á síðasta ári. Þar nefndi hann sjálfvirknilausnir og tollahlið á meðal valkosta þegar kæmi að gjaldtöku af umferð.
„Þar koma margir kostir til greina, eins og við sjáum bara í öðrum löndum. Það er hægt að lesa af mælum, það er hægt að vera með tollhlið, það er hægt að nota sjálfvirknilausnir og fleira. Þetta er eitthvað sem við ætlum að taka til skoðunar og hrinda í framkvæmd,“ sagði Bjarni við Kjarnann.
Grófir útreikningar um möguleg gjöld
Í minnisblaði Betri samgangna, sem ber titilinn „Flýti- og umferðargjöld – tillaga um næstu skref“ er rifjað upp að samkvæmt framkvæmda- og fjárstreymisáætlun sem fylgdi Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, sem undirritaður var í september 2019, skuli „flýti- og umferðargjöld eða önnur fjármögnun ríkisins“ skila 5 milljarða króna tekjum á ári í tólf ár frá og með árinu 2022.
Þar er dregin upp gróf mynd af því hversu há veggjöldin þyrftu að vera á annatímum og utan þeirra til þess að nægt fé myndi nást í kassann árlega. Ef allar ferðir myndu kosta 50 krónur og sama gjaldið rukkað allan sólarhringinn myndi það skila 5,1 milljarði í árlegar tekjur, ef gengið væri út frá því að daglegar ferðir um í gegnum tollahliðin væru 250 þúsund talsins.
Annatímagjöld morgna og kvölds
Í minnisblaði Betri samgangna er dregið fram að hægt sé að setja að minnsta kosti þrenns konar hvata inn í gjaldskrána, til þess að ná fram jákvæðum áhrifum á umferðarmálin á höfuðborgarsvæðinu.
Í fyrsta lagi væri um að ræða hvata til að nýta aðra ferðamáta en einkabílinn „og draga þannig úr umferðartöfum og umhverfisáhrifum samgangna í heild“, í öðru lagi hvata fyrir fólk til þess að aka utan annatíma virka daga og draga þannig úr umferðartöfum og umhverfisáhrifum bílaumferðar og í þriðja lagi hvata til „vistvænnar endurnýjunar bílaflotans“ og umhverfisáhrifum bílaumferðar.
Betri samgöngur nefna til sögunnar í minnisblaði sínu dæmi um veggjaldakerfi í fjórum borgum á Norðurlöndum, Ósló og Bergen í Noregi og Stokkhólmi og Gautaborg í Svíþjóð, en þar eru veggjöld hærri á annatímum en utan þeirra til þess að draga úr umferðarþyngslum.
Samkvæmt samantekt Betri samgangna fer þetta gjald hæst upp í 675 íslenskar krónur í Stokkhólmi, fyrir hverja ferð inn í miðborgina á annatímum yfir umferðarþyngstu mánuði ársins. Í Gautaborg er gjaldið að hámarki 330 íslenskar krónur á hverja ferð á annatímum, en þar er akstur gjaldfrjáls eftir 18:30 á kvöldin til 6 á morgnana og sömuleiðis um helgar.
Gjald fyrir bensínknúinn fólksbíl í Ósló er svo almennt um 330 krónur á hverja ferð, en um 420 krónur á annatímum. Þeir sem fara um á rafmagns- og vetnisbílum eru rukkaðir um lægri gjöld.
Í tillögum Betri samgangna frá því í haust er hvergi talað um að annatímaverðið verði hærra en 200 krónur á ferð á höfuðborgarsvæðinu, en það er hæsta upphæðin sem sett er fram í töflunni sem sjá má hér að ofan.
Nánar á að vinna með sviðsmyndir um annatímagjöldin og meðalgjald á ökutæki, en þó segir í minnisblaðinu að á þessu stigi sé miðað við að „annatímagjaldskrá verði í gildi kl. 7-9 og aftur kl. 16-18 virka daga“.
Svara þurfi fleiri spurningum til að ná sátt um gjaldtökuna
Í minnisblaði Betri samgangna segir að af fyrirliggjandi gögnum megi ráð að flýti- og umferðargjöld geti verið „góður kostur til að ná settum markmiðum Samgöngusáttmálans“ og að það ættu ekki að vera tæknilegar hindranir við innleiðingu þeirra á höfuðborgarsvæðinu.
Betri samgöngur vísa til skýrslu frá OECD um samfélagsleg áhrif veggjalda sem séu breytileg eftir tíma dags og staðsetningu og þess að slík gjöld séu umdeild, þar sem einhverjir notendur gatnakerfisins tapi á þeim á meðan aðrir njóti af þeim góðs. Reynslan sýni hins vegar að þar sem flýti- og umferðargjöld hafi verið innleidd sé „samfélagið fljótt að samþykkja hinn nýja veruleika“ og að gjöldin njóti stuðnings á áhrifasvæði sínu. Flestir nái að aðlaga ferðavenjur sínar eða ferðatímagjöldunum en séu ekki „verðlagðir út af götunni“ eins og það er orðað í minnisblaðinu.
Í niðurlagi minnisblaðsins segir hins vegar að svara þurfi fjölmörgum fleiri spurningum um gjaldtökuna til að sátt verði um hana. Til dæmis hvort það væri æskilegt og sanngjarnt að taka gjald af umferð víðar en einungis við akstur inn og út af miðsvæði Reykjavíkurborgar, þar sem sú gjaldtaka hefði einungis „bein áhrif á um fjórðung bílferða á höfuðborgarsvæðinu“.
Svo þurfi einnig að greina greiðsluvilja vegfarenda og meta hver upphæð gjalda á annatímum og utan þeirra þurfi að vera til að bæta umferðarflæði, minnka tafir og mengun.
„Þá er mikilvægt að ræða hvort innheimta eigi hærri gjöld og nýta hluta þeirra í rekstur almenningssamgangna til að auka tíðni og þjónustu þeirra og bæta valkosti vegfarenda um leið og gjöldin verða innleidd,“ segir í minnisblaðinu.
Sem áður segir er ekki búið að taka neinar ákvarðanir um innleiðingu þessara gjalda, en til þess að þau geti orðið að veruleika þarf að leggja fram og samþykkja þingmál sem heimilar gjaldtöku sem þessa á Alþingi. Slíkt mál er ekki á þingmálalista ríkisstjórnarinnar á yfirstandandi þingi.
Lestu meira
-
10. janúar 2023Myndu að „sjálfsögðu ekki“ sætta sig við verulegar tafir á Axarvegi
-
9. janúar 2023Þegar það snjóaði inn um anddyri Íslands
-
5. janúar 2023Skipulagsstofnun dregur fram kosti Miðleiðar að Fjarðarheiðargöngum
-
28. desember 2022Borgarlínan „lykilþáttur“ í samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins
-
27. desember 2022Áttar sig illa á andstöðu hægrimanna við veggjöld
-
20. desember 2022Eysteinn Þórir hreppti Hríseyjarferjuna
-
20. desember 2022Ríkið leggur 15 milljarða króna Keldnalandið inn í Betri samgöngur
-
17. desember 2022Bjarni tók upp hanskann fyrir almenningssamgöngur
-
17. desember 2022Samgöngur á landi – í hinu stóra samhengi orku- og auðlindadrifins skattkerfis
-
8. desember 2022Betri samgöngur fá 900 milljónir úr ríkissjóði vegna tafa á flýti- og umferðargjöldum