Í júní síðastliðnum vísaði Mannréttindadómstóll Evrópu kæru Ólafs Ólafssonar gegn íslenska ríkinu frá. Dómurinn hafnaði með afgerandi hætti að Rannsóknarnefnd Alþingis um þátttöku þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbankans 2003 hefði brotið gegn rétti Ólafs til réttlátar málsmeðferðar.
Ólafur sendi kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu nokkrum mánuðum eftir að niðurstaðan var birt í skýrslu, eða í júlí 2017. Ólafur vildi meina að hann hefði ekki notið réttinda sem honum væru tryggð í Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem „umgjörð og málsmeðferð RNA hafi í raun falið í sér sakamál á hendur honum og jafngilt refsingu án þess að hann hafi notið nokkurra þeirra réttinda sem fólk sem borið er sökum á að njóta og er grundvöllur réttarríkisins“.
Í málinu fór Ólafur, sem hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm í Al Thani-málinu svokallaða snemma árs 2015, fram á að íslenska ríkið myndi greiða honum bætur vegna miska og greiðslu málskostnaðar sem hann hafði lagt í vegna þess. Kjarninn óskaði eftir því við ríkislögmann að fá sundurliðun á fjárkröfum Ólafs. Í kjölfarið sendi lögmaður Ólafs Kjarnanum gögnin.
Þau sýna að heildarupphæðin sem Ólafur fór fram á að íslenska ríkið myndi greiða er um 32 milljónir króna án virðisaukaskatts. Að honum meðtöldum fer upphæðin upp í um 40 milljónir króna.
Vildi bætur fyrir mikla neikvæða fjölmiðlaathygli
Í kröfugerð sem danskur lögmaður Ólafs, Tyge Trier, sendi inn til Mannréttindadómstólsins 12. október í fyrra kemur fram að skjólstæðingur hans hafi krafist 20 þúsund evra vegna ófjárhagslegs tjóns. Þar var um að ræða kröfu um miskabætur vegna álags og gremju sem rannsókn rannsóknarnefndarinnar og mikil neikvæð fjölmiðlaathygli hefði skapað Ólafi.
Vildi ekki gefa skýrslu
Þá fór Ólafur fram á að ríkið myndi greiða sér 45.460 evrur vegna málskostnaðar sem féll til vegna ýmissa þátta sem snéru að vinnu rannsóknarnefndarinnar. Þar er meðal annars tiltalinn kostnaður vegna vitnisburðar Ólafs í héraðsdómi þegar vinna rannsóknarnefndarinnar stóð yfir, áfrýjunarferlis fyrir Hæstarétti og vegna komu hans fyrir stjórnsýslu- og eftirlitsnefndar. Þessi upphæð er án virðisaukaskatts, en ofan á lögmannsþjónustu leggst 24 prósent virðisaukaskattur. Samkvæmt reikningum sem fylgdu með þeim gögnum sem Kjarninn fékk send þá er heildarkostnaður vegna lögmanns Ólafs í þessum hluta málsins um 7,4 milljónir króna auk virðisaukaskatts, en tímakaup lögmannsins var 26 til 27 þúsund krónur auk virðisaukaskatts á þessum tíma.
Til að útskýra þennan hluta málsins betur þá neitaði Ólafur, og þrír aðrir lykilmenn í kaupum S-hópsins á Búnaðarbankanum, að mæta í boðaða skýrslutöku á vegum rannsóknarnefndarinnar. Rannsóknarnefndin krafðist þess í kjölfarið fyrir dómstólum að þeim yrði gert skylt að mæta og þá báru Ólafur og einn annar mannanna brigður á að þeim væri skylt að svara spurningum nefndarinnar. Málatilbúnaði þeirra var endanlega hafnað í janúar 2017 í Hæstarétti og skýrslur voru teknar af mönnunum fjórum í lok janúar og byrjun febrúar það ár.
Dýr rekstur fyrir Mannréttindadómstólnum
Í máli sínu fyrir Mannréttindadómstólnum fór Ólafur fram á að fá 130.992 evrur vegna kostnaðar, lögmannskostnaðar og annars sem féll til, vegna málsins sem þar var rekið. Þar af vildi hann að íslenska ríkið greiddi 68.267 evrur auk virðisaukaskatts vegna íslenska lögmannateymis hans og 62.725 evrur auk virðisaukaskatts vegna erlendra lögmanna, meðal annars Danans Tyge Trier, en hann gerði fjárkröfurnar fyrir hönd Ólafs í október í fyrra samkvæmt skjölum sem Kjarninn fékk afhent hjá íslenskum lögmanni Ólafs, Gísla Guðna Hall hjá Mörkinni lögmannsstofu. Virðisaukaskattur í Danmörku er 25 prósent.
Lögmannsstofan Logos vann í málinu fyrir Ólaf hérlendis og samkvæmt vinnuskýrslu sem Kjarninn fékk afhenta kostaði hver evra 161,72 íslenskar krónur þegar skýrslan var gerð í október í fyrra. Ólafur gerði kröfu um að íslenska ríkið greiddi um 21,2 milljónir króna auk um 5,2 milljóna króna í virðisaukaskatt vegna þessa lögmannskostnaðar.
Samtals gerði Ólafur því kröfu um að íslenska ríkið greiddi sér 31,8 milljónir króna í bætur og málskostnað fyrir utan virðisaukaskatt af vinnu lögmanna hans. Að honum meðtöldum fór upphæðin í um 40 milljónir króna.
Þar sem málinu var vísað frá situr Ólafur uppi með lögmannskostnað sinn sjálfur og fær engar bætur. Þegar niðurstaða Mannréttindadómstólsins lá fyrir sendi Ólafur frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist meta það hvort hann myndi kjósa að höfða mál á hendur ríkinu fyrir íslenskum dómstólum vegna framgöngu Rannsóknarnefndar Alþingis.
Salan tortryggð frá byrjun
Málið á rætur sínar að rekja til áranna 2002 og 2003, þegar einkavæðing Búnaðarbankans stóð yfir. Ólafur var á meðal þeirra sem leiddu hinn svokallaða S-hóp sem keypti kjölfestuhlut íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum árið 2003. Á meðal annarra sem áttu að hafa myndað þann hóp var þýskur banki, Hauck & Aufhäuser, en aðkoma hans gerði það að verkum að markmiði íslenskra stjórnvalda um að erlend fjármálastofnun kæmi að kaupunum var opinberlega mætt. Aðkoma þýska bankans var alla tíð tortryggð víða og talið að hún hefði verið til málamynda. Til að slá á þær gagnrýnisraddir var Ríkisendurskoðun fengin til að vinna tvær skýrslur.
Í mars 2006 vann Ríkisendurskoðun síðan átta blaðsíðna samantekt í kjölfar fundar Vilhjálms Bjarnasonar, síðar þingmanns Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann lagði fram nýjar upplýsingar um söluna á Búnaðarbankanum til S-hópsins.
Niðurstaða Ríkisendurskoðunar var sú að ekkert sem lagt hafi verið fram í málinu hafi stutt víðtækar ályktanir Vilhjálms um að þýski bankinn hefði ekki verið raunverulegur eigandi í Búnaðarbankanum. „Þvert á móti þykja liggja óyggjandi upplýsingar og gögn um hið gagnstæða,“ segir í skýrslu hennar.
Rannsóknarnefnd skipuð mörgum árum síðar
Síðan leið og beið og í maí 2016 greindi þáverandi umboðsmaður Alþingis, Tryggvi Gunnarsson, frá þeirri skoðun sinni að Alþingi ætti að skipa rannsóknarnefnd til að kalla fram nýjar upplýsingar um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupum S-hópsins á Búnaðarbankanum, ef áhugi væri fyrir því að komast til botns í málinu. Hann sagðist þá hafa undir höndum nýjar upplýsingar og ábendingar um raunverulega þátttöku Hauck & Aufhäuser, þýsks einkabanka, í kaupunum á Búnaðarbankanum. Tryggvi var einn þeirra þriggja sem myndaði rannsóknarnefnd Alþingis um orsök og afleiðingar bankahrunsins sem skilaði af sér viðamikilli skýrslu í apríl 2010.
Alþingi ákvað að skipa nefnd og í lok mars 2017, rúmum fjórtán árum eftir að hluturinn í Búnaðarbankanum var seldur, kynntu þeir Kjartan Bjarni Björgvinsson, sem sat í nefndinni, og Finnur Þór Vilhjálmsson, starfsmaður hennar, niðurstöður sínar.
Þær voru afdráttarlausar.
Stjórnvöld, fjölmiðlar og almenningur blekkt
Ítarleg gögn sýndu með óyggjandi hætti að Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í Búnaðarbankanum í orði kveðnu. „Í raun var eigandi hlutarins aflandsfélagið Welling & Partners, skráð á Tortóla á Bresku Jómfrúaeyjum. Með fjölda leynilegra samninga og millifærslum á fjármunum, m.a. frá Kaupþingi hf. inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser var þýska bankanum tryggt skaðleysi af viðskiptunum með hluti í Búnaðarbankanum.“
Auk þess sýndi skýrslan að síðari viðskipti á grundvelli ofangreindra leynisamninga hefði gert það að verkum, að Welling & Partners fékk í sinn hlut rúmlega 100 milljónir Bandaríkjadala sem voru lagðar inn á reikning félagsins hjá Hauck & Aufhäuser. Snemma árs 2006, eða um þremur árum eftir viðskiptin með eignarhlut ríkisins í Búnaðarbankanum, voru 57,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Marine Choice Limited sem stofnað var af lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama en skráð á Tortóla. Raunverulegur eigandi Marine Choice Limited var Ólafur Ólafsson.
Um svipað leyti voru 46,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Dekhill Advisors Limited sem einnig var skráð á Tortóla. Íslensk skattayfirvöld telja að eigendur þess félags hafi verið bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, aðaleigendur Bakkavarar og stærstu eigendur Kaupþings fyrir hrun.
Samkvæmt tilkynningu sem nefndin sendi frá sér í aðdraganda þess að skýrslan var birt árið 2017 sýndu gögn málsins „hvernig íslensk stjórnvöld voru blekkt og hvernig rangri mynd af viðskiptunum var haldið að fjölmiðlum og almenningi. Á hinn bóginn bendir ekkert til annars en að öðrum aðilum innan fjárfestahópsins sem keypti hlut ríkisins í Búnaðarbankanum, S-hópsins svokallaða, hafi verið ókunnugt um leynisamningana og að þeir hafi staðið í þeirri trú að Hauck & Aufhäuser væri raunverulegur eigandi þess hlutar sem hann var skráður fyrir.“