Sannkristinn ræðukóngur sem beitti sér gegn þungunarrofi, afglæpavæðingu og orkupakkanum
Birgir Þórarinsson hefur sagt skilið við Miðflokkinn og gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, flokk sem sem hann sagði síðast í vor að hefði brugðist í mörgum málum. Á þingmannsferli sínum hefur Birgir vakið athygli fyrir íhaldsmennsku og kristileg gildi ásamt því að vera allra þingmanna duglegastur við að halda ræður, sérstaklega þegar málþóf hefur staðið yfir.
Þann 9. október 2017 var send út fréttatilkynning þess efnis að hinn nýstofnaði Miðflokkur, sem tók í fyrsta sinn þátt í alþingiskosningum 19 dögum síðar, hefði fundið oddvita til að leiða flokkinn í Suðurkjördæmi.
Oddvitinn, Birgir Þórarinsson, var sérfræðingur í alþjóðasamskiptum og guðfræðingur.
Birgir var, líkt og flestir sem fylgdu Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni yfir í Miðflokkinn í aðdraganda hinna skyndilegu kosninga árið 2017, fyrrverandi liðsmaður Framsóknarflokksins. Og hann var einn þeirra sem náði kjöri í miklum kosningasigri Miðflokksins fyrir fjórum árum síðan, þegar flokkurinn fékk bestu hlutfallslegu niðurstöðu sem nýr flokkur hefur fengið í sínum fyrstu kosningum hérlendis.
Birgir var aftur í framboði fyrir Miðflokkinn í kosningunum í síðasta mánuði, og var einn tveggja frambjóðenda flokksins sem voru kjördæmakjörnir á þing, ásamt formanninum Sigmundi Davíð. Sá árangur leiddi til þess að Miðflokkurinn fékk einnig einn jöfnunarþingmann sem nú er Bergþór Ólason en var fyrst Karl Gauti Hjaltason.
Innan við tveimur vikum eftir að kosningarnar voru afstaðnar, áður en þingmenn höfðu fengið kjörbréf sín afhent og áður en stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar hefur verið ritaður, ákvað Birgir að hætta í Miðflokknum og færa sig yfir til Sjálfstæðisflokksins, sem tók honum opnum örmum. Sú ákvörðun hefur verið afar umdeild og Birgir legið undir ámæli fyrir að hafa blekkt kjósendur, sérstaklega þar sem hann vísaði í næstum þriggja ára gamalt mál, Klausturmálið svokallaða, sem rökstuðning fyrir ákvörðun sinni.
Áhugamaður um aukna notkun þjóðfánans
En hver er Birgir og hvað stendur hann fyrir? Hann er með meistarapróf í alþjóðasamskiptum og utanríkisþjónustu (MIS) frá American University, Washington D.C. í Bandaríkjunum, með áherslu á hagsmunagæslu ríkja á alþjóðavettvangi. Einnig hefur hann BA próf í guðfræði frá Háskóla Íslands og próf í Opinberri stjórnsýslu og stjórnun frá EHÍ.
Áður en Birgir fór í framboð fyrir Miðflokkinn hafði hann starfað við yfirstjórn UNRWA, flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínumenn, í Mið-Austurlöndum, sinnt verkefnum á vegum utanríkisráðuneytisins, verið varaþingmaður fyrir Framsóknarflokkinn í Suðurkjördæmi 2009-2013 og setið í sveitarstjórn sveitarfélagsins Voga. Auk þess hafði Birgir rekið ferðaþjónustu um árabil.
Á síðasta kjörtímabili var hann fyrsti flutningsmaður nokkurra frumvarpa sem urðu ekki að lögum. Það fyrsta, sem síðar var lagt fram tvívegis til viðbótar, fjallaði um notkun íslenska þjóðfánans á byggingum og var stutt af öllum þingflokki Miðflokksins. Í frumvarpinu var lagt til að flaggað yrði alla daga ársins frá klukkan átta að morgni til klukkan 21 að kvöldi á byggingum hinna þriggja arma ríkisvaldsins auk bygginga embættis forseta Íslands, það er við forsetasetrið á Bessastöðum og skrifstofu forseta á Sóleyjargötu. Auk þess var lagt til að fáninn yrði lýstur upp í skammdeginu.
Málið náði aldrei í gegnum þingið.
Klausturmálið andstætt kristilegum gildum
Rúmu ári eftir að Birgir var kjörinn á þing kom hið svokallaða Klausturmál upp. Það snerist um framferði sex þingmanna, fjögurra úr Miðflokki og tveggja úr Flokki fólksins, á barnum Klaustri þann 20. nóvember 2018. Þar ræddi hluti hópsins, þeir Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, meðal annars með kynferðislegum og niðrandi hætti um þingkonur og einn ráðherra. Tal fólksins var tekið upp af öðrum gesti á staðnum og komið til fjölmiðla.
Birgir ræddi málið í Silfrinu sunnudaginn 9. desember, nokkrum dögum eftir að fyrstu fréttir um málið birtust. Þar sagði hann meðal annars að framferði sexmenninganna væri andstætt kristilegum gildum. Þeir þingmenn hans sem tóku þátt í samsætinu á Klaustri þyrftu að gera það upp við sig hvort þeir segi af sér eða ekki eftir samtal við sína nánustu og grasrót flokksins.
Birgir gerði þó greinarmun á þeim sem sögðu þá hluti sem fjölmiðlar höfðu greint ítarlega frá og þeim sem þögðu, og gripu ekki inn í. Í síðarnefnda hópinn féll meðal annars formaðurinn Sigmundur Davíð.
Með hnút í maganum fyrir þingflokksfundi
Þegar Birgir rökstuddi vistaskipti sín úr Miðflokknum yfir í Sjálfstæðisflokkinn í grein sem birtist í Morgunblaðinu á laugardag sagði hann að traust milli hans og forystu flokksins væri brostið og að sú staða ætti rætur að rekja allt aftur til Klausturmálsins. „Eins og kunnugt er gagnrýndi ég málið opinberlega og viðbrögð þeirra sem í hlut áttu. Ég gat þess jafnframt að ég óskaði engum þess að vera þolandi eða gerandi í máli sem skók þjóðina dögum saman og enn er minnst á í fjölmiðlum. Að baki standa fjölskyldur sem hafa átt erfitt vegna málsins. Ég gagnrýndi samflokksmenn mína sem í hlut áttu vegna þess að heilindi við eigin samvisku og sú ábyrgð að breyta rétt í þjónustu við kjósendur er fyrsta skylda þingmanna. Eftir gagnrýni mína á Klausturmálið naut ég aldrei fulls trausts innan hópsins og um tíma var beinlínis litið svo á að ég væri vandamálið.“
Lýsingar Birgis á afleiðingum þess, sem hann opinberaði í viðtali á Rás 2 í morgun, bera með sér að hann hafi upplifað einelti úr höndum annarra þingmanna Miðflokksins eftir að hafa gagnrýnt þá fyrir klámfengið og niðrandi tal um aðra þingmenn í því máli, að hann hafi verið sérstaklega verið tekinn fyrir á þingflokksfundum og fyrir vikið hafi hann verið með hnút í maganum fyrir þá. „Ég var vandamálið, ekki þeir.“
Ræðukóngur þrjú ár í röð
Það var þó ekki sýnilegt að Birgir væri utangátta í Miðflokknum þrátt fyrir gagnrýni hans á samflokksmenn sína. Eftir skammvinna dýfu í skoðanakönnunum framan af árinu 2019 náði flokkurinn um tíma vopnum sínum á ný með skipulögðu málþófi í tveimur málum, fyrst til að hindra frumvarp sem heimilaði eigendur eftirstandandi aflandskrónueigendum að fara með þær úr landi, og síðan í hinu svokallaða orkupakkamáli.
Í síðarnefnda málinu voru raunar öll met slegin. Málþóf Miðflokksmanna gegn þriðja orkupakkanum endaði með því að verða lengsta umræða íslenskrar þingsögu, en hún stóð yfir í um 150 klukkustundir. Hún skilaði ekki beinum árangri, þar sem málið var samþykkt í þinginu. Óbeinu áhrifin voru þó augljós. Orkupakkamálið tröllreið allt í einu samfélaginu, mótmæli voru haldin, þrýstihópar stofnaðir og undirskriftum safnað. Samhliða rauk Miðflokkurinn aftur upp í fylgi. Þeir ráðherrar sem báru ábyrgð á framgangi málsins, Guðlaugur Þór Þórðarson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, koma báðir úr Sjálfstæðisflokknum.
Birgir Þórarinsson, nýr flokksfélagið þeirra, var lykilmaður í þessari vegferð, sem í raun hélt þinginu í gíslingu vikum saman og kom í veg fyrir afgreiðslu fjölda annarra mála sem komust ekki á dagskrá vegna málþófsins.
Birgir er reyndar ekki óvanur því að eyða löngum stundum í ræðupúlti Alþingis. Hann var ræðukóngur Alþingis síðastliðin þrjú ár. Öll þau ár talaði hann í heild í meira en sólarhring á hverju þingi. Á síðasta þingi liðins kjörtímabils flutti Birgir alls 324 ræður.
Vildi telja konur af því að rjúfa meðgöngu með styrk
Birgir vakti líka töluverða athygli fyrir skoðanir sínar á þungunarrofi á síðasta kjörtímabili. Strax haustið 2018 var hann fyrsti flutningsmaður frumvarps tíu þingmanna um fæðingarstyrk til kvenna sem gefa börn til ættleiðingar við fæðingu. Yrði það að lögum áttu mæðurnar að fá fæðingarstyrk í sex mánuði upp á 135.525 krónur á mánuði. Samkvæmt greinargerð var tilgangur frumvarpsins „að styðja konur sem taka ákvörðun um að gefa barn sitt til ættleiðingar við fæðingu“ en letja þær frá því að rjúfa meðgöngu. Frumvarpið var ekki afgreitt sem lög.
Birgir lét einnig til sín taka í umræðum um frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um þungunarrof sem var á endanum afgreitt sem lög 13. maí 2019. Samkvæmt frumvarpinu varð þungunarrof heimilt fram á 22. viku meðgöngu, óháð því hvaða ástæður lægju þar að baki. Áður var það einungis heimilt til loka 16. viku en eftir það við vissar tilgreindar aðstæður.
Í ræðu sem Birgir flutti 2. maí 2019 gerði hann sérstaka athugasemd við notkun á hugtakinu þungunarrof, og vildi halda sig við hugtakið fóstureyðing. „Það verður að segjast eins og er að með þessu nýja hugtaki er fókusinn tekin frá fóstrinu og færður alfarið yfir á móðurina. Má spyrja sig hvort verið sé að gera lítið úr lífinu sem kviknað hefur í móðurkviði. Hér er á ferðinni hugtak sem gefur tilefni til að ætla að verið sé að milda það sem raunverulega er að gerast. Verið er að binda endi á líf, það er óumdeilt.“
Þegar frumvarpið var samþykkt var Birgir einn þeirra 18 þingmanna sem greiddi atkvæði gegn því. Í ræðu sinni um atkvæðagreiðsluna sagði hann meðal annars: „Það á ekki að vera hlutverk stjórnvalda að rýmka svo mikið heimildir til fóstureyðinga. Málið er umdeilt og viðkvæmt. Það á að vera hlutverk stjórnvalda að tryggja bestu fáanlegu mæðravernd og efnahagslegar og félagslegar aðstæður sem hvetja konur til að standa með lífinu sem guð gaf og hefur heitið okkur að blessa. Ég er á móti þessu frumvarpi.“
Birgir gagnrýndi Sjálfstæðisflokkinn sérstaklega fyrir sína aðkomu að málinu í ræðum sínum.
Taldi skipulega afkristnun vera öfugþróun
Kristin gildi hafa verið Birgi hugleikin og áberandi í málflutningi hans frá því að hann settist á þing. Í nýársræðu sem hann flutti í Seltjarnarneskirkju á fyrsta degi ársins 2020 sagði Birgir meðal annars það vera áhyggjuefni að hans dómi „að hér á landi hefur gætt ákveðinnar tilhneigingar til skipulegrar afkristnunar síðustu árin. Árið 2008 var hætt að kenna kristinfræði sem sérstakt fag í skólum landsins. Fyrirmælin komu frá þáverandi menntamálaráðherra. Árið 2011 bannaði Reykjavíkurborg Gídeonfélaginu að dreifa Nýja testamentinu í skólum borgarinnar, sem það hafði gert allar götur síðan 1954. Þessari öfugþróun hefur verið stjórnað af háværum minnihluta. Hér þarf að snúa við blaðinu.“
Síðar í sömu ræðu sagði hann: „Kristin trú hefur verið mótandi afl í íslensku þjóðlífi.
Saga og menning þjóðarinnar verður ekki á nokkurn hátt skilin án þekkingar á kristinni trú, siðgæði og sögu kristinnar kirkju.“
Vildi auka veg kristinfræði í grunnskólum
Um ári síðar var Birgir svo fyrsti flutningsmaður frumvarps um að auka veg kristinfræðikennslu í grunnskólum landsins sem mælt var fyrir í febrúar á þessu ári en sofnaði síðar í nefnd. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu sagðist að eðlilegt hlyti að teljast að fjallað væri ítarlegast um þau trúarbrögð sem ríkjandi séu í samfélaginu. „Þekking á kristni og Biblíunni er forsenda skilnings á vestrænni menningu og samfélagi. Þekking á eigin trú er forsenda til skilnings á trú annarra og leið til umburðarlyndis. Skólanum er ætlað að miðla grundvallargildum þjóðfélagsins, sem hér á landi eru byggð á kristnum rótum. Fræðsla í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði miðlar nemendum þekkingu á eigin rótum.“
Ef frumvarpið hefði orðið að lögum yrði kennslan eins og var fyrir gildistöku grunnskólalaga frá árinu 2008, sem felldu hana niður. Þingmennirnir sem stóðu að frumvarpinu vildu að heiti námsgreinarinnar trúarbragðafræði yrði breytt í kristinfræði og trúarbragðafræði og töldu að nám á því sviði væri mikilvægt til skilnings, umburðarlyndis og víðsýni. „Nemendur verða að vera búnir undir að lifa í fjölbreyttu lýðræðislegu samfélagi og takast á við margvísleg úrlausnarefni sem þeirra bíða í breyttum heimi,“ sagði í greinargerð sem fylgir frumvarpinu.
Á meðal þeirra raka sem þingmennirnir notuðu til að rökstyðja þörfina fyrir aukna áherslu á kristinfræðikennslu í skólum var að hér á landi fari innflytjendum sem komi frá ólíkum menningarheimum fjölgandi. Það auki að mati þingmannanna kröfur um umburðarlyndi og gagnkvæma virðingu. „Með vaxandi fjölgun íslenskra ríkisborgara sem eru af erlendu bergi brotnir eykst nauðsyn þess að brjóta niður múra á milli menningarheilda og trúarhópa og auka þar með umburðarlyndi. Slíkt er best gert með sérstakri fræðslu um ríkjandi trú landsins, kristni, og almennri fræðslu um trúarbrögð heimsins og þar með menningu og siði þjóða og þjóðarbrota. Til að slík fræðsla verði að gagni og nái að stuðla að alhliða þroska nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi þarf hún að ná til allra.”
Taldi mikilvægt að flóttamenn sem hingað komi séu kristnir
Í ræðunni sem Birgir flutti í Seltjarnarneskirkju í byrjun árs 2020, og minnst var hér á undan, fjallaði hann einnig um flóttamenn. Þar sagði hann mjög lítinn hluta þeirra flóttamanna sem hingað koma vera kristinnar trúar þrátt fyrir „þá staðreynd að kristnir er sá trúarhópur í heiminum sem mest verður fyrir barðinu á ofsóknum. [...] Samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna falla hundruð kristinna í hverjum mánuði af völdum ofsókna. Talið er að 245 milljónir kristinna manna sæti alvarlegum ofsóknum vegna trúar sinnar, en ríflega fjögur þúsund létu lífið á síðasta ári af þeim sökum. 80 prósent allra trúarofsókna í heiminum beinast gegn kristnu fólki.“
Birgir taldi að Íslendingar ættu að vera í fararbroddi þegar kæmi að því að gagnrýna ofsóknir gegn kristnu fólki í heiminum. „Þegar kemur að móttöku kvótaflóttamanna hingað til lands tel ég veigamikil rök fyrir því að þeir séu kristnir. Auk þess eiga kristnir flóttamenn auðveldara með að aðlagast íslensku samfélagi, siðum okkar og venjum.“
Hann gagnrýndi einnig Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra og nú samflokkskonu hans, fyrir að hafa lýst yfir áhuga á aðskilnaði ríkis og kirkju. Birgir taldi enga þörf fyrir þá umræðu.
Vildi að biskup yrði áfram embættismaður
Í sumar lagði Birgir svo fram breytingartillögu við frumvarp til laga um þjóðkirkjuna þar sem hann vildi bæta við ákvæði um að biskup Íslands verði áfram embættismaður, en ekki starfsmaður, líkt og frumvarpið gerði ráð fyrir.
Í breytingartillögu Birgis var lagt til að eftirfarandi setningu yrði bætt við 10. grein frumvarpsins: „Biskup Íslands gegnir æðsta embætti þjóðkirkjunnar og fer með yfirstjórn hennar eftir því sem kirkjuþing mælir nánar fyrir um.“
Í greinargerð sem fylgdi breytingartillögunni sagði Birgir að embætti biskups væri elsta embætti Íslands sem haldi hefur frá upphafi. „Saga og hefðir eru dýrmætar eignir sérhvers samfélags, rétt eins og menning þess. Hugtakið embætti í kirkjunni hefur sérstaka merkingu sem byggist á guðfræði hennar. Almennt séð er hugtakið í kirkjulegu samhengi fyrst og fremst tengt þjónustu, ábyrgð, umsjón og forystu, rétt eins og annars staðar þar sem það kemur fyrir og er að því leyti ótengt kirkjunni. Starf er aftur á móti fyrst og fremst framkvæmd verkefna sem aðrir fela starfsfólki að sinna.“
Birgir sagði að það megi álykta að ákveðin grundvallarbreyting myndi verða á hlutverki biskups kirkjunnar með því að fella niður hugtakið embætti biskups og breyta því í starf biskups eins og frumvarpið gerði ráð fyrir. „Ætla má að ábyrgð biskups til andlegrar forystu í kirkjunni og umsjónarskylda biskups gagnvart kenningu og siðum hennar hafi þá ekki lengur þann styrk sem biskupsembættið hefur haft í kirkjunni allt frá frumkirkjunni og í samhengi Íslands í meira en þúsund ár.“
Ekki var tekið tillit til breytingartillögu Birgis en frumvarpið varð að lögum 13. júní síðastliðinn.
Hrósaði Duterte fyrir árangurinn
Birgir var líka duglegur fyrirspyrjandi sem þingmaður og spurði meðal annars mikið út í málefni fjármálakerfisins. Þar má nefna fyrirspurnir sem snúa að losun á eignarhaldi íslenskra ríkisins á Arion banka, um vogunarsjóði sem áttu eignarhluti í íslenska fjármálakerfinu og nýjar höfuðstöðvar Landsbankans.
En einn eftirminnilegasta ræða Birgis á kjörtímabilinu var flutt í apríl 2019. Þar fagnaði Birgir þeim árangri sem ríkisstjórn Rodrigo Duterte á Filippseyjum hafði náð í stríði sínu gegn fíkniefnum og glæpahringjum. „Árangurinn af aðgerðum stjórnvalda er mikill og í flestum borgum landsins hefur glæpatíðni minnkað á bilinu 40 til 70 prósent,“ sagði Birgir í ræðunni. tilefnið var að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafði gagnrýnt stjórnvöld á Filippseyjum fyrir mannréttindabrot á vettvangi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, en þúsundir höfðu þá verið drepnir í herferð Duterte gegn glæpahringjum á tæpum þremur árum.
Birgir sagði málið snúast um stríð gegn eiturlyfjum þar í landi og að stjórn Duterte hefði verið sökuð um dráp á borgurum án dóms og laga. „Ekki er þó allt sem sýnist í þessum og mikið af falsfréttum hefur verið dreift sem eru fjármagnaðar af eiturlyfjahringjum á Filippseyjum og settar fram í þeim tilgangi að sverta stjórnvöld.“
Nokkrum vikum síðar funduðu á þriðja tug stuðningsmanna Duterte hérlendis með Birgi á skrifstofum nefndarsviðs Alþingis um áhyggjur sínar af ályktun Íslands í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.
Sagði Sjálfstæðisflokkinn hafa brugðist
Í þessum anda var Birgir einnig á móti frumvarpi um afglæpavæðingu neysluskammta fíkniefna. Í ræðu sem hann flutti fyrr á þessu ári sagði hann frumvarpið slæmt og að það sendi „slæm skilaboð út í samfélagið með því að lögleiða neysluskammta af fíkniefnum, neysluskammta sem ólöglegt er að flytja inn í landið og ólöglegt er að selja. Með þessu frumvarpi er verið að skapa meira vandamál en við lagfærum.“
Í ræðunni, sem flutt var í apríl 2021, sagði Birgir enn fremur um Sjálfstæðisflokkinn að hann hafi eitt sinn verið íhaldsflokkur sem stóð vörð um lög og reglu í landinu. „Sjálfstæðisflokkurinn hefur brugðist í þessu máli eins og svo mörgum öðrum, herra forseti, rétt eins og hann brást í fóstureyðingamálinu, flokkur sem eitt sinn barðist gegn fóstureyðingum,“ sagði Birgir Þórarinsson.
Núna, tæpum sex mánuðum síðar, er hann genginn í þann flokk sem honum fannst bregðast svo illa.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars