Mynd: Samsett collagess.jpg

Miðflokkurinn beitir málþófi gegn aflandskrónufrumvarpi

Seðlabanki Íslands hefur miklar áhyggjur af því að lausar aflandskrónur aukist um 25 milljarða á morgun verði frumvarp sem er nú til umræðu ekki samþykkt. Hörð átök voru um málið á þingi í dag þar sem Miðflokkurinn beitir málþófi. Þar var formaður þess flokks spurður um Wintris, tengsl sín hrægamma og hverra hagsmuna hann væri að gæta. Hann ásakaði fyrirspyrjandann um meiðyrði og taldi að vísa ætti háttsemi hans til siðanefndar.

Miðflokkurinn stendur nú fyrir málþófi til að hindra að frumvarp sem heimilar eigendum eftirstandandi aflandskrónueigna að fara með þær úr landi, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, verði að veruleika.

Frumvarpið, verði það að lögum, mun heimila Seðlabankanum að beita þrenns konar heimildum við losun aflandskrónueigna og felur auk þess í sér breytingar á bráðabirgðaákvæði laga um gjaldeyrismál sem varðar reglur um bindinu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris.

Seðlabanki Íslands skilaði efnahags- og viðskiptanefnd umsögn um málið fyrir skemmstu. Þar kom meðal annars fram að mikilvægt yrði að frumvarpið yrði að lögum fyrir 26. febrúar, sem er í dag. Ástæðan væri sú að þá væri gjalddagi tiltekins flokks ríkisbréfa. Ef frumvarpið yrði ekki afgreitt fyrir þann tíma myndi umfang aflandskrónueigna í lausu fé aukast um næstum 70 prósent eða um 25 milljarða króna.

Í umsögn Seðlabanka Íslands sagði enn fremur: „Við það eykst hætta á að stórir aflandskrónueigendur, sem átt hafa sín bréf í samfelldu eignarhaldi frá því fyrir höft og taldir hafa verið líklegir til að endurfjárfesta í íslenskum skuldabréfum þegar þeirra bréf koma á gjalddaga þann 26. febrúar muni í stað þess leita út þegar þeir losna af bundnum reikningum. Það mun hafa tvenns konar áhrif. Í fyrsta lagi mun Seðlabankinn þurfa að eyða mun meiri forða til að koma í veg fyrir gengisfall í tengslum við losun aflandskróna. Í öðru lagi mun draga meira úr framboði erlends fjár á innlendum skuldabréfamarkaði en reiknað var með þegar frumvarpið var samið. Markaðsaðilar hafa kvartað undan skorti á slíku framboði í tengslum við bindingu fjármagnsstreymis inn á skuldabréfamarkað.“

Öll nefndin nema einn studdi álitið, sá var lasinn

Efnahags- og viðskiptanefnd afgreiddi málið með samþykki allra mættra nefndarmanna 21. febrúar síðastliðinn. Þeir komu úr Sjálfstæðisflokki, Viðreisn, Pírötum, Vinstri grænum, Samfylkingu og Framsóknarflokki. Einn nefndarmaður, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins, var fjarverandi við afgreiðslu nefndarinnar.

Þegar Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, mælti fyrir nefndarálitinu skömmu eftir klukkan 15 í dag var þegar ljóst að Miðflokkurinn ætlaði að stilla sér upp gegn því. Allir þingmenn flokksins höfðu skráð sig á mælendaskrá. Síðan þá hafa þeir tekið aftur og aftur til máls.

Fyrstur þeirra í pontu steig Sigmundur Davíð og sagðist hafa verið lasinn þegar nefndarálitið var samþykkt. Hann sagði að það breytti því þó ekki að hann teldi ekki hafa komið til greina að kvitta upp á það. „Mér þykir reyndar heldur óviðurkvæmilegt að Seðlabanki Íslands skuli setja þinginu hálfgerða afarkosti um að afgreiða eigi þetta mál í dag, ella geti eitthvað mjög óljóst gerst. Skýringar bankans á því finnast mér ekki alveg trúverðugar. Þar er gefið til kynna að núna, loksins þegar ákveðnir eigendur skuldabréfa séu búnir að vera lokaðir inni í höftum í 10 ár, muni þeir gjarnan vilja vera áfram bara ef þeir fái að endurnýja skuldabréfin á þessum tiltekna degi. Og svo fæ ég ekki betur séð en að á sama stað komi fram það álit Seðlabankans að markaðsaðilar hafi af því áhyggjur að lítil ásókn erlendra fjárfesta sé í íslenskum skuldabréfamarkaði nú um stundir, en dregur samt þá ályktun að það hljóti helst að vera þeir sem eru búnir að brenna sig verst og vera hér í 10 ár, sem muni hafa áhuga á að fjárfesta í innlendum skuldabréfamarkaði. Ég fæ þetta ekki alveg til að ganga upp, þessar skýringar Seðlabankans.“

Smári spyr Sigmund Davíð

Hitna tók í kolunum þegar Smári McCarthy, þingmaður Pírata, tók til máls. Hann sagðist sýnast sem svo af mælendaskrá að Miðflokkurinn væri að skipa sér í málþófsgír til þess að tefja afgreiðslu málsins. „Þá fer maður að velta fyrir sér hver tilgangurinn er. Í tíundu grein siðareglna Alþingis segir, með leyfi forseta, þingmenn skulu þar sem við á vekja athygli á persónulegum hagsmunum sínum þar sem máli skiptir við meðferð þingmála.“

Í kjölfarið beindi Smári þeirri spurningu til Sigmundar Davíðs hvort að hann hefði nú „eins og hann hafði nú hér fyrir nokkrum árum, eins og alþjóð veit, persónulega hagsmuni sem tengjast meðferð þessa þingmáls. Og ef svo er ekki þá langar mig til þess að spyrja í þágu hvaða markmiða eða hagsmunaaðila það er sem Miðflokkurinn er nú að reyna að tefja framgöngu þessa máls?“

Sigmundur Davíð tók fyrirspurninni ekki vel. „Því virðast fá takmörk sett hversu framganga Pírata getur verið ógeðfelld á þessu Alþingi. Og ég held að það sé orðið löngu tímabært að siðanefnd fari að fjalla um Pírata og hvernig þeir starfa, ekki bara eineltiskúlturinn innan þeirra raða heldur líka framkomu þeirra við aðra þingmenn.“

Sigmundur Davíð sagði forsendur spurningar Smára vera fráleitar. Mat Seðlabanka Íslands á málinu væri rökleysa. „Ef að höftunum er ekki aflétt og menn taka aftur upp þráðinn þar sem frá var horfið þá geta vogunarsjóðir ekki hreyft sig. Þá sitja þeir áfram fastir. Ég hef sannarlega engra hagsmuna að gæta hjá vogunarsjóðum eins og háttvirtur þingmaður á að geta gert sér grein fyrir. En ég ítreka það að mér finnst framganga Pírata hér á Alþingi undanfarnar vikur og undanfarna mánuði, og reyndar í kannski dálítið mörg ár, vera fyrir neðan allar hellur.“

Wintris, meiðyrði og siðanefnd

Smári kom aftur í pontu og sagði spurning sín væri réttmæt og óskaði eftir þvi að Sigmundur Davíð svaraði henni efnislega. „Það muna svo sem allir eftir því að sá maður sem talaði mest um hrægamanna hér um árið reyndist vera einn þeirra sjálfur.“

Smári sagði að Sigmundur Davíð hefði meira að segja viðurkennt það í blaðaviðtali að það hefðu verið tengsl á milli aflandsfélags sem hafði verið í hans eigu, Wintris, og aflandskrónueigna. „Nú veit ég ekki hver staðan er á aflandskrónueignum eða fyrirtækinu Wintris í dag[...]En það er eðlilegt, og það eru ekki eineltistilburðir að spyrja þegar þekkt er að þingmenn hafi einhver tengsl, eða hafi haft einhver tengsl í fortíðinni við ákveðin mál að spyrja hvort þau tengsl séu enn til staðar.“

Það væri sér í lagi mikilvægt þegar það skapaðist einhver vafi á því hvort að áhætta væri á því hvort að hagnaðartækifæri gæti skapast fyrir aflandskrónueigendur ef áðurnefndur skuldabréfaflokkur fengi að renna út, líkt og hann gerir í dag. „Þá er eðlilegt að spyrja úr því að Miðflokkurinn er kominn í þennan málþófsgír: Fyrir hvern? Hver græðir?“

Sigmundur Davíð kom aftur í andsvar og sagði: „Þingmaðurinn sem talaði hér á undan mér gerðist sekur um meiðyrði. Hann laug og lagði sig fram við það að reyna að stimpla inn ógeðfellda mynd sem hann, og allt of margir félagar hans hafa reynt á undanförnum árum að viðhalda og koma inn hjá fólki. Ég hef aldrei haft nein tengsl við nokkra hrægammasjóði og það hafa engir ættingjar mínir gert heldur. Konan mín að vísu tapaði peningum sem hún átti inní banka þegar þeir hrundu og gaf megninu af því eftir eins og aðrir sem töpuðu á hruninu.“ Sigmundur Davíð sagði að framganga Smára setti framgöngu Pírata í þinginu í nýjar lægðir að hans mati. „Fyrir utan það að kenningin hans er svo arfavitlaus. Að búa til samsæriskenningu um það að það að koma í veg fyrir að harðskeyttustu vogunarsjóðirnir séu losaðir úr höftum einhliða að hálfu ríkisins, að með því móti sé á einhvern hátt verið að ganga gegn hagsmunum ríkisins. Hvers konar eindæmis della er þetta og hvað eigum við að þola mikið meira af þessu frá þingmönnum Pírata? Ég held að minnsta kosti í þessu tilviki sé fullt tilefni til þess að vísa framgöngu þingmannsins til siðanefndar.“

Málþóf Miðflokksins stendur enn yfir þegar þessi fréttaskýring er birt. Hægt er að fylgjast með því hér.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar