Kínverska fatafyrirtækið Shein viðurkennir að hafa brotið gegn reglum um vinnutíma og heitir því að verja 15 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um tveimur milljörðum króna, í að bæta vinnuaðstæður starfsmanna í fataverksmiðjum sem framleiða fatnað sem Shein selur.
En það er stórt en. Shein viðurkennir aðeins að hafa brotið gegn reglum um vinnutíma í tveimur verksmiðjum af mörg þúsund sem fyrirtækið á í viðskiptum við.
Algóriþmar og leitarvélabestun
Viðskiptamódel Shein er með þeim hætti að tískurisinn rekur ekki eina einustu verslun. Öll viðskipti fara fram á netinu. Shein á heldur ekki fataverksmiðjur heldur gerir fyrirtækið samning við þriðja aðila í Kína, yfir þrjú þúsund fataverksmiðjur, sem framleiða fá eintök af flíkum. Takmarkað magn af vörum er síðan birt á heimasíðu Shein og algóriþmar fylgjast með viðbrögðum neytenda. Ef ákveðið bikiní slær til dæmi í gegn á TikTok gerir Shein stærri pantanir og framleiðir meira.
Shein stærir sig af þessu fyrirkomulagi og segir viðskiptamódel sitt byggt á „þeim forsendum að framleiða aðeins þær vörur í því magni sem samsvarar raunverulegri eftirspurn og minnka þannig framleiðsluúrgang“.
Þetta viðskiptamódel kallast „test and repeat“, þó svo að Shein kjósi ekki að nota þá skilgreiningu. Matthew Brennan, rithöfundur og sérfræðingur í kínverskum tæknimálum, segir í samtali við Vox að Shein sé stöðugt að safna og greina gögn viðskiptavina og noti síðan upplýsingarnar til að hanna fatnað eftir því sem er í tísku hverju sinni.
Eigandi Shein, Chris Xu, var enginn sérstakur tískufrömuður en hann sérhæfði sig í leitarvélabestun (e. search engine optimization) og er tæknimiðuð nálgun í markaðssetningu talin ein helsta ástæða þess hvað fyrirtækið hefur vaxið hratt. Shein er í dag metið á 100 milljarða Bandaríkjadala. Það er meira en samanlagt virði tískurisanna H&M og Zara.
Í ítarlegri fréttaskýringu um Shein í Kjarnanum í sumar vísaði Rakel Guðmundsdóttir í rannsóknir sem sýnt hafa að vörur frá Shein innihalda skaðleg efni. Af þeim vörum sem rannsakaðar voru innihélt ein vara af hverjum fimm umtalsvert magn eiturefna, meðal annars blý, PFAS og þalöt. Shein hefur sótt í sig veðrið í netverslun á Íslandi og er með átta prósent hlutdeild í netverslun Íslendinga á fatnaði í erlendum netverslunum.
Það eru þó ekki allir sem taka Shein fagnandi hér á landi og hefur hringrásarverslunin Hringekjan til að mynda tekið allar vörur frá Shein úr endursölu vegna magns eiturefna í flíkum og Rauði krossinn vill ekki sjá flíkur frá Shein í verslunum sínum. Fötum frá Shein á þó enn að skila í fatasöfnunargáma.
Fá fimm krónur fyrir hverja framleidda flík og vinna 18 tíma vinnudag
Verksmiðjurnar sem Shein skiptir við skipta þúsundum. Shein hefur nú viðurkennt að langur vinnutími starfsmanna í verksmiðjum í Kína brjóti gegn gildandi reglugerðum. En aðeins í tveimur verksmiðjum í Guangzhou-héraði í Kína.
Shein viðurkenndi brotin eftir að starfsfólk í tveimur verksmiðjum steig fram í bresku heimildarmyndinni Inside the Shein Machine: UNTOLD og greindu frá gríðarlöngum vinnudögum og fáum, ef einhverjum, frídögum.
Fjölmiðlafólk á vegum Channel 4 sótti um störf hjá fataverksmiðjum sem eru með samning við Shein og mynduðu starfsemina með falinni myndavél. Dæmi eru um starfsfólk sem vinnur allt að 18 klukkustundir á dag, alla daga vikunnar og fær greitt fyrir hverja flík sem það framleiðir, þrjú penní, eða sem nemur um fimm krónum. Þá fá þau aðeins einn frídag í mánuði.
Shein réðst í sjálfstæða rannsókn
Heimildarmyndin kom út í október og í kjölfarið réðst Shein í sjálfstæða rannsókn á vinnuaðstæðum starfsfólks í verksmiðjum sem Shein á í viðskiptum við. Niðurstöðurnar liggja nú fyrir og eru þær að aðeins í tveimur verksmiðjum er vinnutíminn lengri en reglur í héraðinu kveða á um.
Í einni verksmiðjunni var vinnudagurinn allt að 13 og hálfur tími á dag og tveir til þrír frídagar í mánuði og í annarri verksmiðju var vinnudagurinn 12 klukkustundir og engir skilgreindir frídagar í mánuði.
„Þetta er styttri vinnutími en haldið er fram í heimildarmyndinni en samt sem áður lengri en svæðisbundnar reglur kveða á um,“ segir í yfirlýsingu Shein, sem hefur hætt viðskiptum við verksmiðjurnar tvær og gefið þeim frest til áramóta til að endurskipuleggja vinnufyrirkomulag starfsmanna sinna.
En eftir standa þúsundir annarra verksmiðja í Kína sem Shein á viðskiptum við. Verksmiðjur sem ekki hafa verið gerðar heimildamyndir um. Að minnsta kosti ekki ennþá.
Segja laun hærri en meðallaun starfsfólks í fataframleiðslu
Shein hefur hafnað öllum öðrum staðhæfingum sem fram koma í heimildamyndinni, meðal annars hvað varðar laun, sem Shein fullyrðir að séu hærri en lágmarkslaun í Guangzhou-héraði og hærri en meðallaun starfsfólks í fataframleiðslu almennt í þessum hluta Kína.
„Það er ekki rétt sem fram kemur að verksmiðjur haldi eftir launum starfsmanna eða dragi frá launum þeirra með ólögmætum hætti,“ segir í yfirlýsingu Shein, sem segir það heldur ekki rétt að starfsfólk fái greitt eftir fjölda flíka sem það framleiðir heldur fái það greitt fyrir „hvert framleiðsluferli flíkurinnar“.
Í nýafstaðinni „Black Friday-útsölu“ Shein var hægt að kaupa flíkur á eitt penní. Það eru 0,73 krónur. Og þrefalt minna en starfsmaður verksmiðjunnar í Guangzhou-héraði fékk greitt fyrir að framleiða flíkina.
Fjárfestingaáætlun sem á að tryggja bættar vinnuaðstæður
Shein fullyrðir að tveggja milljarða króna fjárfestingaráætlun fyrirtækisins sem snýr að bættum vinnuaðstæðum starfsfólk sem framleiðir flíkur tískurisans muni ná til mörg hundruð verksmiðja á næstu þremur til fjórum árum.
Adam Winston, yfirmaður umhverfis- og samfélagsmála hjá Shein á heimsvísu segir fyrirtækið hafa unnið markvisst að áætlun um upprunaábyrgðir (e. responsible sourcing programme) til að bæta velferð og vinnuaðstæður starfsfólks sem framleiðir vörur Shein.
Shein hefur einnig komið á fót kerfi sem gerir starfsfólki fataverksmiðjanna kleift að senda inn nafnlausar ábendingar eða kvartanir með tölvupósti, símtali eða í gegnum WeChat. „Það er hluti af áætlun okkar til að sinna eftirliti og viðhalda réttindum starfsfólks,“ segir Winston.