Bára Huld Beck Einar Þorsteinsson
Ótvíræður sigurvegari kosninganna, ekki bara í Reykjavík heldur á landsvísu, er Framsóknarflokkurinn.
Bára Huld Beck

Sigrar og töp sveitarstjórnarkosninganna

Framsóknarflokkurinn vann sveitarstjórnarkosningarnar, ekki bara í Reykjavík heldur á landsvísu. Sjálfstæðisflokkur hefur aldrei verið minni í Reykjavík og virðist ólíklegur til að komast til valda í borginni, en vann einnig varnarsigra og sigra inn á milli. Vinstri grænum gengur ekkert ná fótfestu í stærstu sveitarfélögum landsins og eiga einn kjörinn fulltrúa á höfuðborgarsvæðinu. Samfylkingin vann óvíða á utan Hafnarfjarðar og getur verið óhress með fylgistap í Reykjavík, Kópavogi og á Akureyri. Miðflokknum var víða hafnað með afgerandi hætti en getur þó alltaf huggað sig við 32 prósent í Grindavík. Kjarninn tók saman sigrana og töpin í sveitarstjórnarkosningunum í gær.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn er ótví­ræður sig­ur­veg­ari sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­anna sem fram fóru í gær. Í stærstu 22 sveit­ar­fé­lögum lands­ins bætti flokk­ur­inn alls við sig 18 kjörnum full­trú­um, þar af fjórum í Reykja­vík og fjórum í Mos­fells­bæ, en sigrar flokks­ins þar eru sér­stak­lega eft­ir­tekt­ar­verðir þar sem á hvor­ugum staðnum átti flokk­ur­inn full­trúa á síð­asta kjör­tíma­bili.

Flokk­ur­inn vann einnig sér­stak­lega góða sigra í Hvera­gerði, þar sem hann átti þátt í að fella hreinan meiri­hluta sjálf­stæð­is­manna sem hafði staðið óslitið frá árinu 2006 og í Borg­ar­byggð, þar sem flokk­ur­inn náði hreinum meiri­hluta eftir að hafa setið einn í minni­hluta.

Þá hélt flokk­ur­inn sínu eða bætti við í mörgum öðrum sveit­ar­fé­lög­um. Fyrir utan Fram­sókn­ar­flokk­inn, sem á nú 50 kjörna full­trúa í 22 stærstu sveit­ar­fé­lögum lands­ins, getur eng­inn stjórn­mála­flokkur verið að öllu leyti sáttur við útkomu kosn­ing­anna.

Súr töp en nokkrir sigrar hjá Sjálf­stæð­is­flokki

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn tap­aði mestu fylgi allra flokka í Reykja­vík frá síð­ustu kosn­ingum og hefur aldrei nokk­urn­tím­ann í sög­unni fengið lægra hlut­fall atkvæða í borg­inni, eða 24,5 pró­sent.

Samanburður 2018 og 2022
Infogram

Það þarf því ef til vill ekki að koma á óvart að Bjarni Bene­dikts­son for­maður flokks­ins hafi gert hug­myndir um að fækka borg­ar­full­trúum aftur úr 23 niður í 15 að umtals­efni í kosn­inga­vöku Rík­is­út­varps­ins í nótt, en sú aðgerð myndi leiða til þess að þrösk­uld­ur­inn til þess að kom­ast inn í borg­ar­stjórn yrði hærri og meira hlut­falls­legt afl innan borg­ar­stjórnar falla stærri flokkum eins og Sjálf­stæð­is­flokki í skaut.

Þrátt fyrir að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hafi verið stærstur í borg­inni hefði hann þurft að vera stærri til þess að bæta vonir sínar um að kom­ast til áhrifa, en eina sjá­an­lega leið Sjálf­stæð­is­flokks­ins til valda í Reykja­vík liggur í gegnum meiri­hluta­sam­starf við þrjá aðra flokka; Fram­sókn, Við­reisn og Flokk fólks­ins. Sú sam­steypa verður að telj­ast fremur ólík­leg ef horft er til mál­efna­á­herslna flokk­anna fjög­urra – hið minnsta virð­ast lík­legri mögu­leikar í spil­unum í borg­inni.

Sjálfstæðisflokkurinn

Í öðrum sveit­ar­fé­lögum höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins má segja að nið­ur­staðan hafi verið súr­sæt fyrir Sjálf­stæð­is­flokk­inn. Einn maður tap­að­ist í Hafn­ar­firði, en meiri­hlut­inn með Fram­sókn held­ur, þökk sé fylg­is­aukn­ingu Fram­sókn­ar. Á Sel­tjarn­ar­nesi hélt flokk­ur­inn hreinum meiri­hluta sínum með 50,1 pró­sent atkvæða og í Garðabæ fór fylgi flokks­ins undir 50 pró­sent. Þó eru enn 7 af 11 bæj­ar­full­trúum í Garðabæ sjálf­stæð­is­menn.

Í Mos­fellsbæ féll meiri­hlut­inn sem Sjálf­stæð­is­menn hafa leitt, þar sem sam­starfs­flokk­ur­inn Vinstri græn þurrk­að­ist út. Fram­sókn vann mik­inn sigur og gæti leitt aðra flokka til valda þar. Í Kópa­vogi má segja að flokk­ur­inn hafi unnið varn­ar­sigur þrátt fyrir að tapa einum full­trúa – og meiri­hlut­inn með Fram­sókn held­ur.

Á Ísa­firði tap­aði Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn manni og Í-list­inn sóp­aði til sín hreinum meiri­hluta. Einnig hefur flokknum vart tek­ist að hagga fylg­inu í Vest­manna­eyjum frá því árið 2018 og þar með er ekki útlit fyrir að flokk­ur­inn eigi leið að meiri­hluta.

Það voru þó sigrar líka, helst í Árborg. Þar fékk flokk­ur­inn stór­fína kosn­ingu og náði hreinum meiri­hluta og í Ölf­usi hélt hreinn meiri­hluti sjálf­stæð­is­manna einnig velli.

Í Fjarða­byggð náði flokk­ur­inn góðri kosn­ingu og fékk rúm 40 pró­sent, en það dugði þó ekki til að fella meiri­hluta Fram­sóknar og Fjarða­list­ans. Í Múla­þingi var flokk­ur­inn stærstur með tæp 30 pró­sent og heldur meiri­hluti Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn þar örugg­lega.

Kjörnum full­trúum Sjálf­stæð­is­flokks í 22 stærstu sveit­ar­fé­lögum lands­ins fækkar um 7 frá fyrra kjör­tíma­bili, eru nú 76 en voru 83 á síð­asta kjör­tíma­bili.

Vinstri græn biðu annað afhroð í Reykja­vík

Vinstri græn geta heilt yfir ekki gengið sátt frá þessum sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um, þrátt fyrir að eiga rétt eins og á síð­asta kjör­tíma­bili 9 kjörna full­trúa í sveit­ar­stjórnum 22 stærstu sveit­ar­fé­laga lands­ins. Flokk­ur­inn ætl­aði sér meira og bauð víðar sjálf­stætt fram en árið 2018.

Katrín Jak­obs­dóttir for­maður flokks­ins sagði í kosn­inga­vöku RÚV í nótt að það væri áhyggju­efni hve illa Vinstri grænum hefði gengið að ná fót­festu á sveit­ar­stjórn­ar­stig­inu.

Flokk­ur­inn náði ein­ungis einum full­trúa inn í sveit­ar­stjórnir á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, Líf Magneu­dóttur borg­ar­full­trúa. Árangur flokks­ins í borg­inni var verri en árið 2018, sem þó þótti afhroð, en þá fékk flokk­ur­inn 4,6 pró­sent. Nið­ur­staðan nú varð slétt 4 pró­sent, en 2.396 borg­ar­búar kusu flokk­inn.

Líf Magneudóttir hefur leitt Vinstri græn til innan við fimm prósenta fylgis í tveimur borgarstjórnarkosningum í röð.
Bára Huld Beck

Í þing­kosn­ing­unum í haust var flokk­ur­inn með 14,7 og 15,9 pró­sent atkvæða í Reykja­vík­ur­kjör­dæm­unum tveimur og verður það að telj­ast aga­leg nið­ur­staða fyrir flokk­inn, sem er nú næstum því helm­ingi minni en Sós­í­alista­flokk­ur­inn sem hefur markað sér stöðu vinstra megin við Vinstri græn í borg­inni.

Eins og áður var nefnt þurrk­að­ist flokk­ur­inn út í Mos­fellsbæ eftir sam­starf með Sjálf­stæð­is­flokki og Vinstri græn náðu ekki heldur inn í Kópa­vogi né Hafn­ar­firði. Flokk­ur­inn náði ekki heldur manni inn í bæj­ar­stjórn í Fjarða­byggð, en þar ákvað flokk­ur­inn að slíta sig frá sam­starfi félags­hyggju­flokka í Fjarða­list­anum og bjóða fram undir eigin merkj­um. Í Árborg náði flokk­ur­inn engum manni kjörn­um.

Vinstri græn töp­uðu síðan miklu fylgi og einum manni í Borg­ar­byggð, en þar féll meiri­hlut­inn sem flokk­ur­inn hefur tekið þátt í. Flokk­ur­inn hélt sínu í bæði Skaga­firði, þar sem Vinstri græn eiga tvo full­trúa og á Akur­eyri, þar sem flokk­ur­inn á einn full­trúa.

Einu sigr­arnir sem Vinst græn geta stært sig af í kosn­ingum gær­dags­ins komu í Múla­þingi og Norð­ur­þingi, en í báðum sveit­ar­fé­lögum á flokk­ur­inn nú tvo kjörna full­trúa eftir að hafa átt einn í hvoru sveit­ar­fé­lagi áður.

Sam­fylk­ingin er ekki að dansa

Sam­fylk­ingin boð­aði sókn jafn­að­ar­manna á sveit­ar­stjórn­ar­stig­inu í þessum kosn­ing­um. Það gekk eig­in­lega hvergi eftir nema í Hafn­ar­firði, þar sem bæj­ar­stjór­inn fyrr­ver­andi Guð­mundur Árni Stef­áns­son reif fylgi flokks­ins upp að hæl­unum á Sjálf­stæð­is­flokknum og tvö­fald­aði fjölda full­trúa úr tveimur í fjóra. Einnig má Sam­fylk­ingin ágæt­lega við una á Sel­tjarn­ar­nesi, þar sem flokk­ur­inn fékk tæp­lega 41 pró­sent og bætti við sig einum full­trúa, sem dugði þó ekki til að skáka Sjálf­stæð­is­flokkn­um.

Skoð­ana­kann­anir í Reykja­vík í aðdrag­anda kosn­inga bentu til þess að Sam­fylk­ingin yrði stærsti flokk­ur­inn í borg­inni. Raunin varð önn­ur, 20,3 pró­sent atkvæða féllu flokknum í skaut, tæpum sex pró­sentu­stigum minna en árið 2018 og meiri­hlut­inn féll nokkuð afger­andi, sem hljóta að telj­ast von­brigði.

Hilda Jana Gísladóttir verður eini bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri á kjörtímabilinu.
Samfylkingin

Strax í ræðu til stuðn­ings­manna eftir fyrstu tölur í gær­kvöldi hóf Dagur B. Egg­erts­son borg­ar­stjóri mikla brú­ar­smíði yfir til Ein­ars Þor­steins­sonar odd­vita Fram­sókn­ar­flokks­ins með tali um að flokkar núver­andi meiri­hluta og Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn stæðu fyrir sam­bæri­legar hug­myndir um þróun sam­göngu- og skipu­lags­mála í borg­inni og verður fróð­legt að sjá hvernig sam­töl um meiri­hluta­við­ræður munu þró­ast næsta daga.

Tveir kostir í þeim efnum blasa við. Annað hvort gæti núver­andi meiri­hluti haldið sínum tíu full­trúm saman og reynt að sann­færa Sós­í­alista­flokk­inn um að Við­reisn sé ekki ófor­betr­an­legur auð­valds­flokk­ur, eða þá að núver­andi meiri­hluti tvístrist. Þá gæti Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn verið kall­aður að borð­inu með Sam­fylk­ingu og Píröt­um, en það er eini þriggja flokka meiri­hlut­inn sem er raun­hæfur í borg­inni í ljósi kosn­inga­úr­slit­anna.

Sam­fylk­ingin mátti víðar þola töp. Í Kópa­vogi tap­að­ist einn full­trúi af tveimur og lík­lega reytti bæj­ar­mála­fram­boðið Vinir Kópa­vogs fylgi af Sam­fylk­ingu umfram aðra flokka. Flokk­ur­inn tap­aði svo einum manni og tölu­verðu fylgi á Akur­eyri, heimabæ for­manns­ins Loga Ein­ars­son­ar.

Heilt yfir er Sam­fylk­ingin þó á svip­uðum stað hvað varðar fjölda full­trúa í sveit­ar­stjórnum 22 stærstu sveit­ar­fé­lag­anna og gengur inn í kjör­tíma­bilið með 26 full­trúa í þessum sveit­ar­fé­lögum í stað 27 áður og hélt flokk­ur­inn meðal ann­ars sínu í sveit­ar­fé­lögum á borð við Reykja­nesbæ og Akra­nes, þar sem flokk­ur­inn hefur verið í meiri­hluta­sam­starfi.

Píratar geta vel við unað á möl­inni

Píratar voru eini flokk­ur­inn í meiri­hlut­anum í borg­ar­stjórn Reykja­víkur sem bætti við sig fylgi frá því árið 2018, þrátt fyrir að fylg­is­aukn­ingin hafi verið minni en kann­anir höfðu sýnt. Flokk­ur­inn bætti við sig einum full­trúa í borg­ar­stjórn og virð­ist vera búinn að festa sig nokkuð þægi­lega í sessi í borg­ar­mál­unum og með ákveð­inn kjós­enda­hóp – sem mætir þó ekk­ert allt of vel á kjör­stað miðað við hvers mikið fylgi flokks­ins er ofmetið í könn­un­um.

Í Kópa­vogi bætti flokk­ur­inn lít­il­lega við sig og hélt sínum bæj­ar­full­trúa, en þar með eru afrek Pírata á sveit­ar­stjórn­ar­stig­inu nán­ast upp tal­in. Flokk­ur­inn reyndi fyrir sér í nokkrum sveit­ar­fé­lögum til við­bótar með slæ­legum árangri.

Á Ísa­firði var fylgið innan við fimm pró­sent, á Akur­eyri rétt rúm­lega þrjú pró­sent og í Reykja­nesbæ um fjögur pró­sent, sem í öllum til­fellum var fjarri því að duga til að koma manni að sveit­ar­stjórn­ar­borð­inu.

Sanna Reykja­vík og fæði, klæði, hús­næði á Akur­eyri

Sós­í­alista­flokk­ur­inn bauð ein­ungis fram í Reykja­vík og náði góðum árangri, fékk 7,7 pró­sent atkvæða í borg­inni og tvo menn kjörna. Flokk­ur­inn bauð ein­ungis fram í Reykja­vík­ur­borg og er því ásamt Fram­sókn senni­lega eini flokk­ur­inn sem starfar einnig á lands­vísu sem getur að öllu leyti glaðst yfir árangrinum sem náð­ist í kosn­ing­un­um.

Kolbrún Baldursdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir.
Bára Huld Beck

Flokkur fólks­ins var á svip­uðum stað í Reykja­vík og í kosn­ing­unum árið 2018 með rúm­lega 4 pró­sent og virð­ist eiga sér ákveðið fasta­fylgi á meðal borg­ar­búa, en Kol­brún Bald­urs­dóttir hefði eflaust þegið fleiri atkvæði.

Flokk­ur­inn bauð einnig fram á Akur­eyri og vann þar góðan kosn­inga­sig­ur, fékk mann kjör­inn inn í bæj­ar­stjórn í fyrstu til­raun og 12,2 pró­senta fylgi – meira en Sam­fylk­ing­in. Litlu mun­aði að flokk­ur­inn næði öðrum manni inn í bæj­ar­stjórn­ina nyrðra og verður árangur flokks­ins þar að telj­ast ansi öfl­ug­ur.

Nýkjör­inn bæj­ar­full­trúi flokks­ins þar heitir Brynjólfur Ingv­ars­son og er vafa­laust einn elsti nýlið­inn sem tekur sæti í sveit­ar­stjórn eftir þessar kosn­ing­ar, en Bryn­ólfur er 80 ára gam­all.

Við­reisn fékk þungt högg í borg­inni

Við­reisn tap­aði nokkru fylgi í Reykja­vík og Pawel Bar­toszek féll úr borg­ar­stjórn, sem er högg fyrir flokk­inn og dregur vænt­an­lega veru­lega úr mögu­leikum hans á að hafa afger­andi áhrif á stefnu­mörkun í nýju meiri­hluta­sam­starfi, ef hægt verður að púsla flokknum inn í slíkt.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir verður eini borgarfulltrúi Viðreisnar á komandi kjörtímabili.
Bára Huld Beck

Ef til vill hugsa ein­hverjir innan Við­reisnar með sér að það væri skyn­sam­legt að standa utan meiri­hluta­sam­starfs á þessu kjör­tíma­bili í ljósi útkomu kosn­ing­anna, en álits­gjafar hafa sumir velt því fram að full­trúum Við­reisnar hafi reynst erfitt að skil­greina sig innan meiri­hluta­sam­starfs­ins í skugg­anum af Degi borg­ar­stjóra.

Við­reisn tap­aði einnig einum bæj­ar­full­trúa í Kópa­vogi og fram­boðið Fram­tíðin á Sel­tjarn­ar­nesi náði ekki Karli Pétri Jóns­syni inn í bæj­ar­stjórn, en hann sat fyrir Neslist­ann/Við­reisn á síð­asta kjör­tíma­bili. Við­reisn hélt full­trúum sínum í Hafn­ar­firði og í Mos­fellsbæ – auk þess að bjóða í fyrsta sinn fram sjálf­stætt í Garðabæ eftir að hafa klofið sig frá Garða­bæj­ar­list­anum og ná einum full­trúa inn með 13,3 pró­sent kosn­ingu.

Stór­sigur Mið­flokks­ins í Grinda­vík

Kosn­inga­nóttin var þung fyrir Mið­flokk­inn á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og raunar víð­ar. Flokk­ur­inn þurrk­að­ist út í Reykja­vík, Hafn­ar­firði, Mos­fells­bæ, Árborg og Reykja­nes­bæ, en í öllum þessum sveit­ar­fé­lögum átti Mið­flokk­ur­inn einn full­trúa á síð­asta kjör­tíma­bili.

Það var þó ljós í myrkr­inu fyrir Mið­flokk­inn og það ljós er í Grinda­vík. Þar bauð fram listi undir merkjum Mið­flokks­ins sem sóp­aði til sín 32,4 pró­senta fylgi, felldi meiri­hlut­ann og er stærsti flokk­ur­inn í bæj­ar­stjórn með þrjá full­trúa. Mið­flokk­ur­inn hélt svo sínum full­trúum í Norð­ur­þingi og Múla­þingi og er nú með sex sveit­ar­stjórn­ar­full­trúa á lands­vísu.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar