Sigrar og töp sveitarstjórnarkosninganna
Framsóknarflokkurinn vann sveitarstjórnarkosningarnar, ekki bara í Reykjavík heldur á landsvísu. Sjálfstæðisflokkur hefur aldrei verið minni í Reykjavík og virðist ólíklegur til að komast til valda í borginni, en vann einnig varnarsigra og sigra inn á milli. Vinstri grænum gengur ekkert ná fótfestu í stærstu sveitarfélögum landsins og eiga einn kjörinn fulltrúa á höfuðborgarsvæðinu. Samfylkingin vann óvíða á utan Hafnarfjarðar og getur verið óhress með fylgistap í Reykjavík, Kópavogi og á Akureyri. Miðflokknum var víða hafnað með afgerandi hætti en getur þó alltaf huggað sig við 32 prósent í Grindavík. Kjarninn tók saman sigrana og töpin í sveitarstjórnarkosningunum í gær.
Framsóknarflokkurinn er ótvíræður sigurvegari sveitarstjórnarkosninganna sem fram fóru í gær. Í stærstu 22 sveitarfélögum landsins bætti flokkurinn alls við sig 18 kjörnum fulltrúum, þar af fjórum í Reykjavík og fjórum í Mosfellsbæ, en sigrar flokksins þar eru sérstaklega eftirtektarverðir þar sem á hvorugum staðnum átti flokkurinn fulltrúa á síðasta kjörtímabili.
Flokkurinn vann einnig sérstaklega góða sigra í Hveragerði, þar sem hann átti þátt í að fella hreinan meirihluta sjálfstæðismanna sem hafði staðið óslitið frá árinu 2006 og í Borgarbyggð, þar sem flokkurinn náði hreinum meirihluta eftir að hafa setið einn í minnihluta.
Þá hélt flokkurinn sínu eða bætti við í mörgum öðrum sveitarfélögum. Fyrir utan Framsóknarflokkinn, sem á nú 50 kjörna fulltrúa í 22 stærstu sveitarfélögum landsins, getur enginn stjórnmálaflokkur verið að öllu leyti sáttur við útkomu kosninganna.
Súr töp en nokkrir sigrar hjá Sjálfstæðisflokki
Sjálfstæðisflokkurinn tapaði mestu fylgi allra flokka í Reykjavík frá síðustu kosningum og hefur aldrei nokkurntímann í sögunni fengið lægra hlutfall atkvæða í borginni, eða 24,5 prósent.
Það þarf því ef til vill ekki að koma á óvart að Bjarni Benediktsson formaður flokksins hafi gert hugmyndir um að fækka borgarfulltrúum aftur úr 23 niður í 15 að umtalsefni í kosningavöku Ríkisútvarpsins í nótt, en sú aðgerð myndi leiða til þess að þröskuldurinn til þess að komast inn í borgarstjórn yrði hærri og meira hlutfallslegt afl innan borgarstjórnar falla stærri flokkum eins og Sjálfstæðisflokki í skaut.
Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið stærstur í borginni hefði hann þurft að vera stærri til þess að bæta vonir sínar um að komast til áhrifa, en eina sjáanlega leið Sjálfstæðisflokksins til valda í Reykjavík liggur í gegnum meirihlutasamstarf við þrjá aðra flokka; Framsókn, Viðreisn og Flokk fólksins. Sú samsteypa verður að teljast fremur ólíkleg ef horft er til málefnaáherslna flokkanna fjögurra – hið minnsta virðast líklegri möguleikar í spilunum í borginni.
Í öðrum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins má segja að niðurstaðan hafi verið súrsæt fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Einn maður tapaðist í Hafnarfirði, en meirihlutinn með Framsókn heldur, þökk sé fylgisaukningu Framsóknar. Á Seltjarnarnesi hélt flokkurinn hreinum meirihluta sínum með 50,1 prósent atkvæða og í Garðabæ fór fylgi flokksins undir 50 prósent. Þó eru enn 7 af 11 bæjarfulltrúum í Garðabæ sjálfstæðismenn.
Í Mosfellsbæ féll meirihlutinn sem Sjálfstæðismenn hafa leitt, þar sem samstarfsflokkurinn Vinstri græn þurrkaðist út. Framsókn vann mikinn sigur og gæti leitt aðra flokka til valda þar. Í Kópavogi má segja að flokkurinn hafi unnið varnarsigur þrátt fyrir að tapa einum fulltrúa – og meirihlutinn með Framsókn heldur.
Á Ísafirði tapaði Sjálfstæðisflokkurinn manni og Í-listinn sópaði til sín hreinum meirihluta. Einnig hefur flokknum vart tekist að hagga fylginu í Vestmannaeyjum frá því árið 2018 og þar með er ekki útlit fyrir að flokkurinn eigi leið að meirihluta.
Það voru þó sigrar líka, helst í Árborg. Þar fékk flokkurinn stórfína kosningu og náði hreinum meirihluta og í Ölfusi hélt hreinn meirihluti sjálfstæðismanna einnig velli.
Í Fjarðabyggð náði flokkurinn góðri kosningu og fékk rúm 40 prósent, en það dugði þó ekki til að fella meirihluta Framsóknar og Fjarðalistans. Í Múlaþingi var flokkurinn stærstur með tæp 30 prósent og heldur meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsókn þar örugglega.
Kjörnum fulltrúum Sjálfstæðisflokks í 22 stærstu sveitarfélögum landsins fækkar um 7 frá fyrra kjörtímabili, eru nú 76 en voru 83 á síðasta kjörtímabili.
Vinstri græn biðu annað afhroð í Reykjavík
Vinstri græn geta heilt yfir ekki gengið sátt frá þessum sveitarstjórnarkosningum, þrátt fyrir að eiga rétt eins og á síðasta kjörtímabili 9 kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum 22 stærstu sveitarfélaga landsins. Flokkurinn ætlaði sér meira og bauð víðar sjálfstætt fram en árið 2018.
Katrín Jakobsdóttir formaður flokksins sagði í kosningavöku RÚV í nótt að það væri áhyggjuefni hve illa Vinstri grænum hefði gengið að ná fótfestu á sveitarstjórnarstiginu.
Flokkurinn náði einungis einum fulltrúa inn í sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu, Líf Magneudóttur borgarfulltrúa. Árangur flokksins í borginni var verri en árið 2018, sem þó þótti afhroð, en þá fékk flokkurinn 4,6 prósent. Niðurstaðan nú varð slétt 4 prósent, en 2.396 borgarbúar kusu flokkinn.
Í þingkosningunum í haust var flokkurinn með 14,7 og 15,9 prósent atkvæða í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og verður það að teljast agaleg niðurstaða fyrir flokkinn, sem er nú næstum því helmingi minni en Sósíalistaflokkurinn sem hefur markað sér stöðu vinstra megin við Vinstri græn í borginni.
Eins og áður var nefnt þurrkaðist flokkurinn út í Mosfellsbæ eftir samstarf með Sjálfstæðisflokki og Vinstri græn náðu ekki heldur inn í Kópavogi né Hafnarfirði. Flokkurinn náði ekki heldur manni inn í bæjarstjórn í Fjarðabyggð, en þar ákvað flokkurinn að slíta sig frá samstarfi félagshyggjuflokka í Fjarðalistanum og bjóða fram undir eigin merkjum. Í Árborg náði flokkurinn engum manni kjörnum.
Vinstri græn töpuðu síðan miklu fylgi og einum manni í Borgarbyggð, en þar féll meirihlutinn sem flokkurinn hefur tekið þátt í. Flokkurinn hélt sínu í bæði Skagafirði, þar sem Vinstri græn eiga tvo fulltrúa og á Akureyri, þar sem flokkurinn á einn fulltrúa.
Einu sigrarnir sem Vinst græn geta stært sig af í kosningum gærdagsins komu í Múlaþingi og Norðurþingi, en í báðum sveitarfélögum á flokkurinn nú tvo kjörna fulltrúa eftir að hafa átt einn í hvoru sveitarfélagi áður.
Samfylkingin er ekki að dansa
Samfylkingin boðaði sókn jafnaðarmanna á sveitarstjórnarstiginu í þessum kosningum. Það gekk eiginlega hvergi eftir nema í Hafnarfirði, þar sem bæjarstjórinn fyrrverandi Guðmundur Árni Stefánsson reif fylgi flokksins upp að hælunum á Sjálfstæðisflokknum og tvöfaldaði fjölda fulltrúa úr tveimur í fjóra. Einnig má Samfylkingin ágætlega við una á Seltjarnarnesi, þar sem flokkurinn fékk tæplega 41 prósent og bætti við sig einum fulltrúa, sem dugði þó ekki til að skáka Sjálfstæðisflokknum.
Skoðanakannanir í Reykjavík í aðdraganda kosninga bentu til þess að Samfylkingin yrði stærsti flokkurinn í borginni. Raunin varð önnur, 20,3 prósent atkvæða féllu flokknum í skaut, tæpum sex prósentustigum minna en árið 2018 og meirihlutinn féll nokkuð afgerandi, sem hljóta að teljast vonbrigði.
Strax í ræðu til stuðningsmanna eftir fyrstu tölur í gærkvöldi hóf Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mikla brúarsmíði yfir til Einars Þorsteinssonar oddvita Framsóknarflokksins með tali um að flokkar núverandi meirihluta og Framsóknarflokkurinn stæðu fyrir sambærilegar hugmyndir um þróun samgöngu- og skipulagsmála í borginni og verður fróðlegt að sjá hvernig samtöl um meirihlutaviðræður munu þróast næsta daga.
Tveir kostir í þeim efnum blasa við. Annað hvort gæti núverandi meirihluti haldið sínum tíu fulltrúm saman og reynt að sannfæra Sósíalistaflokkinn um að Viðreisn sé ekki óforbetranlegur auðvaldsflokkur, eða þá að núverandi meirihluti tvístrist. Þá gæti Framsóknarflokkurinn verið kallaður að borðinu með Samfylkingu og Pírötum, en það er eini þriggja flokka meirihlutinn sem er raunhæfur í borginni í ljósi kosningaúrslitanna.
Samfylkingin mátti víðar þola töp. Í Kópavogi tapaðist einn fulltrúi af tveimur og líklega reytti bæjarmálaframboðið Vinir Kópavogs fylgi af Samfylkingu umfram aðra flokka. Flokkurinn tapaði svo einum manni og töluverðu fylgi á Akureyri, heimabæ formannsins Loga Einarssonar.
Heilt yfir er Samfylkingin þó á svipuðum stað hvað varðar fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum 22 stærstu sveitarfélaganna og gengur inn í kjörtímabilið með 26 fulltrúa í þessum sveitarfélögum í stað 27 áður og hélt flokkurinn meðal annars sínu í sveitarfélögum á borð við Reykjanesbæ og Akranes, þar sem flokkurinn hefur verið í meirihlutasamstarfi.
Píratar geta vel við unað á mölinni
Píratar voru eini flokkurinn í meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur sem bætti við sig fylgi frá því árið 2018, þrátt fyrir að fylgisaukningin hafi verið minni en kannanir höfðu sýnt. Flokkurinn bætti við sig einum fulltrúa í borgarstjórn og virðist vera búinn að festa sig nokkuð þægilega í sessi í borgarmálunum og með ákveðinn kjósendahóp – sem mætir þó ekkert allt of vel á kjörstað miðað við hvers mikið fylgi flokksins er ofmetið í könnunum.
Í Kópavogi bætti flokkurinn lítillega við sig og hélt sínum bæjarfulltrúa, en þar með eru afrek Pírata á sveitarstjórnarstiginu nánast upp talin. Flokkurinn reyndi fyrir sér í nokkrum sveitarfélögum til viðbótar með slælegum árangri.
Á Ísafirði var fylgið innan við fimm prósent, á Akureyri rétt rúmlega þrjú prósent og í Reykjanesbæ um fjögur prósent, sem í öllum tilfellum var fjarri því að duga til að koma manni að sveitarstjórnarborðinu.
Sanna Reykjavík og fæði, klæði, húsnæði á Akureyri
Sósíalistaflokkurinn bauð einungis fram í Reykjavík og náði góðum árangri, fékk 7,7 prósent atkvæða í borginni og tvo menn kjörna. Flokkurinn bauð einungis fram í Reykjavíkurborg og er því ásamt Framsókn sennilega eini flokkurinn sem starfar einnig á landsvísu sem getur að öllu leyti glaðst yfir árangrinum sem náðist í kosningunum.
Flokkur fólksins var á svipuðum stað í Reykjavík og í kosningunum árið 2018 með rúmlega 4 prósent og virðist eiga sér ákveðið fastafylgi á meðal borgarbúa, en Kolbrún Baldursdóttir hefði eflaust þegið fleiri atkvæði.
Flokkurinn bauð einnig fram á Akureyri og vann þar góðan kosningasigur, fékk mann kjörinn inn í bæjarstjórn í fyrstu tilraun og 12,2 prósenta fylgi – meira en Samfylkingin. Litlu munaði að flokkurinn næði öðrum manni inn í bæjarstjórnina nyrðra og verður árangur flokksins þar að teljast ansi öflugur.
Nýkjörinn bæjarfulltrúi flokksins þar heitir Brynjólfur Ingvarsson og er vafalaust einn elsti nýliðinn sem tekur sæti í sveitarstjórn eftir þessar kosningar, en Brynólfur er 80 ára gamall.
Viðreisn fékk þungt högg í borginni
Viðreisn tapaði nokkru fylgi í Reykjavík og Pawel Bartoszek féll úr borgarstjórn, sem er högg fyrir flokkinn og dregur væntanlega verulega úr möguleikum hans á að hafa afgerandi áhrif á stefnumörkun í nýju meirihlutasamstarfi, ef hægt verður að púsla flokknum inn í slíkt.
Ef til vill hugsa einhverjir innan Viðreisnar með sér að það væri skynsamlegt að standa utan meirihlutasamstarfs á þessu kjörtímabili í ljósi útkomu kosninganna, en álitsgjafar hafa sumir velt því fram að fulltrúum Viðreisnar hafi reynst erfitt að skilgreina sig innan meirihlutasamstarfsins í skugganum af Degi borgarstjóra.
Viðreisn tapaði einnig einum bæjarfulltrúa í Kópavogi og framboðið Framtíðin á Seltjarnarnesi náði ekki Karli Pétri Jónssyni inn í bæjarstjórn, en hann sat fyrir Neslistann/Viðreisn á síðasta kjörtímabili. Viðreisn hélt fulltrúum sínum í Hafnarfirði og í Mosfellsbæ – auk þess að bjóða í fyrsta sinn fram sjálfstætt í Garðabæ eftir að hafa klofið sig frá Garðabæjarlistanum og ná einum fulltrúa inn með 13,3 prósent kosningu.
Stórsigur Miðflokksins í Grindavík
Kosninganóttin var þung fyrir Miðflokkinn á höfuðborgarsvæðinu og raunar víðar. Flokkurinn þurrkaðist út í Reykjavík, Hafnarfirði, Mosfellsbæ, Árborg og Reykjanesbæ, en í öllum þessum sveitarfélögum átti Miðflokkurinn einn fulltrúa á síðasta kjörtímabili.
Það var þó ljós í myrkrinu fyrir Miðflokkinn og það ljós er í Grindavík. Þar bauð fram listi undir merkjum Miðflokksins sem sópaði til sín 32,4 prósenta fylgi, felldi meirihlutann og er stærsti flokkurinn í bæjarstjórn með þrjá fulltrúa. Miðflokkurinn hélt svo sínum fulltrúum í Norðurþingi og Múlaþingi og er nú með sex sveitarstjórnarfulltrúa á landsvísu.
Lestu meira
-
21. desember 2022Kosningastjóri Samfylkingarinnar nýr aðstoðarmaður borgarstjóra
-
3. nóvember 2022Framsókn og Vinstri græn hafa tapað um átta prósentustigum af fylgi frá síðustu kosningum
-
31. ágúst 2022Vegglistaverk Libiu og Ólafs þótti óleyfilegur kosningaáróður í Hafnarfirði
-
20. ágúst 2022Laun 30 dýrustu bæjarstjóranna voru samtal 698 milljónir króna í fyrra
-
12. ágúst 2022Hildur varði 9,3 milljónum í prófkjörsslaginn og átti eina og hálfa milljón afgangs
-
11. ágúst 2022Hildur skilaði uppgjöri vegna prófkjörs í gær
-
6. júlí 2022Vigdís Hauksdóttir vill verða bæjarstjóri
-
18. júní 2022Flokkurinn sem útilokaði sjálfan sig
-
8. júní 2022Dagur ógnar
-
7. júní 2022Næstum fjórum af hverjum tíu kjósendum Framsóknar líst illa á samstarfið í borginni