Sigurður Ingi á flótta undan rasískum ummælum sex árum eftir að hann varð forsætisráðherra
Sigurður Ingi Jóhannsson er í vandræðum. Hann lét rasísk ummæli falla í síðustu viku, hefur beðist afsökunar á þeim en vill ekki ræða þau við fjölmiðla né þingheim. Kallað er eftir afsögn hans og stjórnarandstaðan segir hann hafa brotið siðareglur, jafnvel lög.
Í dag, 6. apríl, eru nákvæmlega sex ár síðan að greint var frá því að Sigurður Ingi Jóhannsson, þá varaformaður Framsóknarflokksins, yrði næsti forsætisráðherra þjóðarinnar. Fátt hafði bent til þeirrar atburðarásar nokkrum dögum áður.
Hinn 3. apríl 2016 var hins vegar sýndur sérstakur Kastljósþáttur þar sem greint var frá eignarhaldi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þá forsætisráðherra, á aflandsfélaginu Wintris. Í félaginu voru geymdar milljarðaeignir og opinberað var að Wintris væri kröfuhafi í bú bankanna. Síðar var greint frá því að Wintris hefði ekki greitt skatta í samræmi við íslensk lög og reglur.
Viðtal við Sigmund Davíð, sem hann gekk út úr, varð heimsfrétt. Daginn eftir þáttinn fóru fram fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar þar sem afsagna og nýrra kosninga var krafist. Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra 5. apríl 2016, ný ríkisstjórn mynduð og kosningum lofað þá um haustið.
Sigurður Ingi var ekki augljós kandídat sem leiðtogi í íslenskum stjórnmálum. Hann var fyrst kosinn á þing árið 2009, varð varaformaður Framsóknarflokksins árið 2013 og fyrst ráðherra þegar ríkisstjórn þess flokks og Sjálfstæðisflokks var mynduð eftir vorkosningar 2013, undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hann var, til að byrja með, bæði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra, en sleppti síðara ráðuneytinu til Sigrúnar Magnúsdóttir í lok árs 2014.
Skömmu eftir að Sigurður Ingi tók við völdum lét hann frá sér stóryrtar yfirlýsingar. Á meðal þeirra var sú að það væri mikilvægt að umhverfismál væru ekki andstæða atvinnumála og að hann ætlaði að skoða hvort umhverfisráðuneytið væri ekki einfaldlega óþarft. Hægt væri að færa málaflokka þess inn í önnur ráðuneyti. Katrín Jakobsdóttir, nú forsætisráðherra, sagði á þeim tíma að tillaga Sigurðar Inga væri „tímaskekkja“. Í nærmynd af Sigurði Inga sem birtist í DV í júní 2013, undir fyrirsögninni „Hann er gamaldags þurs“, var haft eftir ónafngreindum aðila úr heimi stjórnmálanna að hann væri að „byrja langverst allra ráðherranna í ríkisstjórninni. Hann er búinn að valda ríkisstjórninni miklu tjóni og hefur orðið þess valdandi að það er byrjuð að myndast andúð á ríkisstjórninni í grasrótarhreyfingum og alls ekki bara flokkspólitísk. Hann virðist ekki höndla þetta nýja hlutverk vel og segir ítrekað ranga hluti.“
Klúðurslegt kvótafrumvarp
Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs átti að gera breytingar á stjórn fiskveiða á kjörtímabilinu sem hófst árið 2013. Vinna átti með tillögu sáttanefndarinnar svokölluðu sem starfaði kjörtímabilið á undan, þar sem lagt var til að samningsbundin réttindi um nýtingu aflaheimilda taki við af varanlegri úthlutun.
Sigurði Inga gekk hins vegar brösuglega að koma frumvarpi um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu vegna ágreinings milli stjórnarflokkanna tveggja um hver ætti að fara með forræði yfir fiskveiðikvótanum.
Árið 2014 sagðist hann ætla að leggja fram frumvarp sem fæli í sér að gerðir yrðu nýtingasamningar til 23 ára við þáverandi handhafa aflaheimilda. Það frumvarp komst ekki í gegnum Sjálfstæðisflokkinn sem vildi ekki að ríkið eignaðist veiðiheimildirnar á endanum. Stjórnarandstöðunni á þeim tíma fannst að sama skapi útgerðunum vera gefin allt of langur tími.
Á endanum var frumvarpið ekki lagt fram eftir að hafa verið í vinnslu í á annað ár.
„Talsvert flókið að eiga peninga á Íslandi“
Þegar komið var fram í mars 2016 var staða Sigurðar Inga í íslenskri pólitík nokkuð veik. Fylgi Framsóknarflokksins, sem hafði verið sigurvegari kosninganna 2013, hafði rúmlega helmingast og mældist um tólf prósent. Ríkisstjórnin var gríðarlega óvinsæl, einungis 35,9 prósent landsmanna treystu henni.
Í mjög óvinsælli ríkisstjórn var Sigurður Ingi einn óvinsælasti ráðherrann. Í könnun sem gerð var fyrir Fréttablaðið, Stöð 2 og Vísi í mars 2016 sögðust einungis þrjú prósent aðspurðra treysta honum.
Á þessum tíma var komið fram að eitthvað stórt myndi opinberast varðandi aflandseignir Íslendinga í þætti Kastljóss sem sýndur var 3. apríl 2016 og byggði á Panamaskjölunum. Nokkrum dögum áður en að hann var sýndur var tekið viðtal við Sigurð Inga. Þar varði hann aflandsfélagaeign ríkra Íslendinga og sagði að það væri „auðvitað talsvert flókið að eiga peninga á Íslandi“. Þegar hann var spurður að því hvort í lagi væri að eiga peninga á Tortóla svaraði hann því til að „einhvers staðar verða peningarnir að vera.“
Höskuldur kynnir óvart nýja ríkisstjórn
Opinberun Panamaskjalanna, stærstu mótmæli Íslandssögunnar og afsögn Sigmundar Davíðs sem forsætisráðherra settu fylgi Framsóknarflokksins niður í 6,9 prósent.
Það var því ekki við sérstaklega eftirsóknarverðar aðstæður sem Sigurður Ingi tók við leiðtogahlutverkinu í ríkisstjórn. Það var viðeigandi á endanum að hann fékk ekki einu sinni að tilkynna það sjálfur. Höskuldur Þórhallsson, þáverandi samflokksmaður Sigurðar Inga, gerði það óvart skömmu áður en Sigurður Ingi og Bjarni Benediktsson ætluðu að gera það, haldandi að þeir væru þegar búnir að ræða við fréttamenn. Fyrir vikið varð til nýyrðið Höskuldarviðvörun (íslenskum á enska hugtakinu spoiler alert) sem er notað til að vara fólk við að ljóstra eigi upp einhverju sem gerist t.d. í sjónvarpsþætti sem viðkomandi hefur ekki séð.
Sú breyting var einnig gerð á ríkisstjórninni á sama tíma að Lilja Alfreðsdóttir var gerð að utanþingsráðherra, og hófst þá formleg stjórnmálaþátttaka hennar.
Stjórn sem byrjaði í lífróðri
Enginn sem horfði á Sigurð Inga og Bjarna koma niður tröppurnar í Alþingishúsinu, og mæta herskara innlendra og erlendra blaðamanna, hefur upplifað að Sigurði Inga liði vel í nýja hlutverkinu. Hann var flóttalegur og gat illa svarað spurningum á meðan að Bjarni brást með reiði og árásargirni við þeim spurningum sem hann fékk. Ljóst var öllum sem á horfðu að nýja ríkisstjórnin myndi róa lífróður næstu daga.
Allt stefndi í djúpa stjórnmálakreppu og hið djúpa sár sem var á þjóðarsálinni eftir bankahrunið hafði rifnað upp á gátt á ný. En ríkisstjórnin náði að tóra þessa fyrstu daga. Og í júní, byrjaði Evrópumeistaramótið í knattspyrnu þar sem íslenska karlalandsliðið tók þátt í lokamóti í fyrsta sinn. Og vann að margra mati mótið án þess að vinna það í eiginlegri merkingu.
Frammistaða landsliðsins, og athyglin sem hún fékk, bjargaði ríkisstjórninni. Þjóðin einfaldlega kaus að gleyma henni stundarkorn. Það sást ágætlega þegar Sigurður Ingi flutti sína einu þjóðhátíðarræðu sem forsætisráðherra þann 17. júní þetta ár, víggirtur frá fólkinu sem hann átti að þjóna.
Samherjar urðu andstæðingar
Hugmyndin var alltaf sú að Sigurður Ingi myndi halda stólnum heitum fyrir Sigmund Davíð þangað til að hægjast færi um. Hann neitaði því ítrekað að ætla að bjóða sig fram gegn hinum umdeilda formanni á flokksþingi sem til stóð að halda í aðdraganda kosninga haustið 2016. Það breyttist þó eftir miðstjórnarfund á Akureyri þann 10. september, þar sem Sigmundur Davíð flutti rúmlega klukkutíma langa ræðu studdur glærum með sterku myndmáli þar sem hann fór yfir stöðu stjórnmála, árangur sinn og það sem hann telur vera þaulskipulagða aðför að sér. Þátttakendur í þeirri meintu aðför eru stórir leikendur í alþjóðafjármálakerfinu og fjölmiðlar víða um heim.
Sigurður Ingi hélt líka þar ræðu þar sem hann greindi frá því að hann treysti sér ekki til að starfa áfram sem varaformaður flokksins eftir komandi flokksþing vegna samskiptaörðugleika í forystu Framsóknarflokksins.
Átta dögum fyrir flokksþingið tilkynnti Sigurður Ingi að hann myndi bjóða sig fram til formanns og vann á endanum með 370 atkvæðum gegn 329 atkvæðum Sigmundar Davíðs. Þessi atburður var upphafið að endalokum Sigmundar Davíðs í Framsókn, en ári síðar klauf hann sig fá og stofnaði Miðflokkinn.
Framsókn beið afhroð í kosningunum sem fylgdu á eftir og var pólitískt geislavirkur. Það vildi enginn flokkur annars en Sjálfstæðisflokkurinn mynda með honum ríkisstjórn vegna þess sem á undan hafði gengið.
Mýkri ásýnd og varð stjórntækur að nýju
Ári síðar var kosið aftur og nú var Sigurður Ingi búinn að mýkja ímynd flokksins nægjanlega. Eftir kosningarnar 2017 var mynduð fordæmalaus ríkisstjórn íhaldssamra flokka þvert yfir hið pólitíska litróf og Sigurður Ingi varð samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Ríkisstjórnin náði þeim árangri að vera sú fyrsta sem sat heilt kjörtímabil sem meirihlutastjórn frá árinu 2007 og eftir valdasetu sem einkenndist að stóru leyti af baráttu við kórónuveirufaraldur á flestum vígstöðvum þá héldu stjórnarflokkarnir velli, og bættu meira að segja sameiginlega við sig fylgi. Í könnun sem gerð var skömmu fyrir kosningar var Sigurður Ingi annar af tveimur leiðtogum stjórnmálaflokka sem fleiri landsmenn sögðust bera traust til en vantreysta. Hinn var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Afslöppuð og loðin kosningataktík Framsóknarflokksins, sem var rekin með yfirskriftinni „Er ekki bara best að kjósa Framsókn?“, sem lagði áherslu á þá öfga- og áreynslulausu málamiðlun að flokkurinn væri millivegur milli andstæðra fylkinga í samfélaginu, skotgekk. Framsókn bætti við sig fimm þingmönnum, fékk næstum 18 prósent atkvæða og varð næst stærsti flokkur landsins að nýju. Á sama tíma töpuðu hinir stjórnarflokkarnir báðir fylgi frá kosningunum á undan.
Eftir að ríkisstjórnin endurnýjaði samstarfið sitt fékk Framsókn einn ráðherra til og Sigurður Ingi gat farið fram á að búið yrði til ofurráðuneyti utan um sig, svokallað innviðaráðuneyti.
Sigurður Ingi var kominn langan veg frá því þegar hann stóð, sveittur og óöruggur, í tröppum Alþingishússins sem einn óvinsælasti stjórnmálamaður landsins að kynna ríkisstjórn sem Höskuldur Þórhallsson var þegar búinn að opinbera.
Besta mæling í átta ár
Fyrstu sex mánuðir þessa kjörtímabils hafa liðið nokkuð smurt fyrir Framsóknarflokkinn. Í mars birti Gallup könnun sem sýndi fylgi Framsóknarflokksins í 18,1 prósenti, því mesta sem flokkurinn hafði mælst með í átta ár.
Nýjasta könnun Gallup sýndi að fylgið hafði ekki haggast sem neinu nemur. Og framundan voru sveitarstjórnarkosningar þar sem Framsókn ætlaði að nýta meðbyrinn til að ná aftur sterkri stöðu í Reykjavík undir forystu Einars Þorsteinssonar, fyrrverandi fréttamanns. Mikil bjartsýni ríkti í herbúðum flokksins sem hefur, í gegnum tíðina, tekist betur en nokkrum öðrum að enduruppgötva sig þegar tilveru hans hefur beinlínis verið ógnað eftir röð pólitískra axarskafta sem leitt hafa til ein stafa fylgis í könnunum. Framsókn kemur alltaf aftur, í einhverjum nýjum búningi.
Svo hélt flokkurinn samkvæmi í tengslum við Búnaðarþing Íslands, og allt einu var hann búinn að grafa sér nýja holu.
Afdrifarík mótttaka
Hefð er fyrir því að sumir stjórnmálaflokkar haldi einhverskonar samkvæmi í kringum Búnaðarþing Bændasamtaka Íslands og bjóði forystumönnum þeirra, og öðrum. Þingið var sett síðastliðinn fimmtudag og í móttöku sem Framsóknarflokkurinn hélt fyrir fundarmenn um kvöldið urðu tvö atvik sem áttu eftir að draga dilk á eftir sér.
Í fyrsta lagi spurði Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, Gunnar Þorgeirsson, formann Bændasamtakanna: „Gunnar, hvað ert þú að gera hér?“. Þegar Gunnar gerði tilraun til að faðma Lilju stöðvaði hún þær aðfarir og í samtali við Vísi sagðist Gunnar hafa túlkað móttökurnar þannig að Lilja hefði verið að vísa honum á dyr. Lilja sagði í samtali við Morgunblaðið að hún hefði verið að grínast og sem kona í stjórnmálum hefði hún ekki mikinn áhuga á faðmlögum. Gunnar og Lilja hafa deilt á undanförnum árum vegna málefna Garðyrkjuskólans á Reykjum, sem Lilja færði undir Landbúnaðarháskólann í tíð sinni sem menntamálaráðherra.
Atvikið þótti heilt yfir óheppilegt, en ekki þess eðlis að það muni hafa, að minnsta kosti til skamms tíma, áhrif á stöðu Lilju sem ráðherra í ríkisstjórn. Og stjórnarandstaðan hefur látið það vera.
Hitt atvikið var verra, og verður ekki látið ótalið. Þegar Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, vildi fá forystufólk úr Framsóknarflokknum til að taka mynd með sér þar sem hún „plankaði“ á meðan að það hélt á henni á Sigurður Ingi að vísað til Vigdísar sem „hinnar svörtu“.
Algjört bull reyndist satt
Umfjöllun um uppákomuna birtist fyrst í Orðinu á götunni á Eyjunni, slúðurvettvangi sem heyrir undir DV þar sem skrifað er nafnlaust, á sunnudag klukkan 15:30. Klukkutíma og þremur mínútum síðar birtist frétt á vef DV þar sem Ingveldur Sæmundsdóttir, pólitískur aðstoðarmaður Sigurðar Inga til margra ára, þvertók fyrir að yfirmaður hennar hefði viðhaft rasísk ummæli. „Þetta er algjört bull,“ sagði Ingveldur. Hún hefði verið edrú og staðið við hlið Sigurðar Inga þegar til stóð að taka umrædda mynd með Vigdísi. Ingveldur sagði að Sigurði Inga hefði ekki litist vel á hugmyndina og sagt að hann vildi ekki halda á Sjálfstæðismanni.
Þessi viðbrögð reyndust ekki eldast vel þegar Vigdís gaf sjálf út yfirlýsingu á mánudag þar sem hún sagði að „afar særandi ummæli“ hefðu verið látin falla og að hún hefði heyrt þau, sem og fleira starfsfólk Bændasamtakanna. Hún sagði að hún hefði aldrei talið að hún þyrfti að setjast niður og skrifa yfirlýsingu af þessu tagi. „Aðstoðarmaður ráðherrans var ekki við hlið hans þegar ummælin voru látin falla, eins og hún hefur haldið fram en myndir úr þessari myndatöku sýna það án alls vafa. Það er særandi þegar reynt er að gera lítið úr upplifun minni og þegar beinlínis rangar skýringar eru notaðar við það. Ég stend með sjálfri mér þegar kemur að þessu, ég veit hvað ég heyrði, ég veit hvað var sagt. Ég neita að bera ábyrgð á þeim orðum sem ráðherrann viðhafði í minn garð. Duldir fordómar eru gríðarlegt samfélagsmein og grassera á öllum stigum samfélagsins. Þeir smætta verk einstaklinga og gjörðir niður í lit eða kyn.“
Aldrei hélt ég að ég þyrfti að setjast niður og skrifa svona yfirlýsingu. Ég hef aldrei látið húðlit, kynþátt, kynferði...
Posted by Vigdís Häsler on Monday, April 4, 2022
„Óviðurkvæmileg orð“
Sigurður Ingi og aðstoðarmenn hans höfðu ekki svarað fjölmiðlafólki allan sunnudag og mánudag. Eftir yfirlýsingu Vigdísar brást hann þó við og birti stöðuuppfærslu á Facebook, fjórum dögum eftir að ummælin voru látin falla og sólahring eftir að fjölmiðlar fjölluðu fyrst um þau. Þar sagðist hann hafa tamið sér að koma jafnt fram við alla. „En mér verður á eins og öðrum. Það þykir mér miður. Í kvöldverðarboði Framsóknar fyrir fulltrúa á Búnaðarþingi síðastliðið fimmtudagskvöld, lét ég óviðurkvæmileg orð falla í garð framkvæmdastjóra Bændasamtakanna. Á þeim orðum biðst ég innilegrar afsökunar. Í lífinu er maður alltaf að læra á sjálfan sig. Sárt er þó að sá lærdómur bitni á tilfinningum annarra.“
Ég er alinn upp við það og það er mín lífsskoðun að allir séu jafnir. Þess vegna hef ég tamið mér að koma jafnt fram við...
Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Monday, April 4, 2022
Ingveldur, aðstoðarkona hans sem hafði sagt að atvikið sem Sigurður Ingi baðst afsökunar á hefði aldrei átt sér stað, svaraði fyrirspurn RÚV á þann veg að hún hefði svarað DV að hún hefði verið að „segja frá því sem ég heyrði og varð vitni að og var það ekki borið undir ráðherra.“
Hafi Sigurður Ingi haldið að þessi afsökunarbeiðni myndi lægja öldurnar, líkt og Evrópumótið í knattspyrnu gerði fyrir sex árum síðan, þá misreiknaði hann stöðuna illilega.
Stjórnarandstaðan lét forsætisráðherra svara fyrir ummælin í þinginu á mánudag, sem hún gerði en sýnilega án mikillar ánægju. Þar var Katrín meðal annars spurð hvort hún myndi fara fram á afsögn Sigurðar Inga, en svaraði þeirri spurningu ekki beint. Þá var á það bent að ummæli formanns Framsóknarflokksins væru í andstöðu við siðareglur þingmanna og ráðherra og áreitni í skilningi laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Því féllu þau undir bann við mismunun samkvæmt lögum.
Ungliðahreyfingar stjórnarandstöðuflokka kölluðu eftir afsögn Sigurðar Inga. Ungliðahreyfing Framsóknarflokksins, sem stundum hefur látið sig pólitísk hneykslismál varða, líkt og hún gerði í desember 2020 þegar Bjarni Benediktsson var gripinn í samkvæmi í Ásmundarsal á meðan að þjóðin sætti samkomutakmörkunum, hefur hins vegar ekki gert það. Að minnsta kosti enn.
— SUF (@ungframsokn) December 27, 2020
Það getur gerst að „við skítum stundum upp á bak“
Brynja Dan Gunnarsdóttir, varaþingmaður Framsóknarflokksins sem er ættleidd frá Srí Lanka, mætti í Morgunútvarp Rásar 2 í gærmorgun til að ræða ummæli Sigurðar Inga. Hún sagði hann hafa hringt í sig til að ræða málið þar sem hann sagðist „fullur iðrunar og svekktastur út í sjálfan sig.“ Sjálft hefði hún ekki orðið fyrir fordómum í starfi sínu fyrir Framsókn, allir væru mannlegir og það gæti gerst að „við skítum stundum upp á bak.“ Þá skipti máli hvernig fólk hreinsi upp eftir sig og bæti sitt ráð.
Ríkisstjórnarfundur fór fram í gær. Eftir hann sátu fréttamenn ýmissa miðla fyrir ráðherrunum og á dagskrá var einungis eitt mál: ummæli Sigurðar Inga.
Ásmundur Einar Daðason, samflokksmaður hans, sagði við mbl.is Sigurður Ingi hefði „svarað fyrir þetta með sinni yfirlýsingu og því sem þar er og ég tek undir það sem í henni er. Hann sér eftir þessu og sýnir þarna ákveðna mannlega hlið og við gerum öll mistök. Maður sem ekki gerir mistök hann hættir að vera maður. Það er bara mannlegt og við höfum rætt þetta og ég ber fullt traust til hans.“
Erfitt mál í Sjálfstæðisflokknum
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagðist ekki hafa rætt málið við Sigurð Inga en að hún hafi orðið döpur þegar hún las stöðuuppfærslu Vigdísar um málið. Ekki hafi verið til umræðu innan Vinstri grænna að slíta stjórnarsamstarfinu ef Sigurður Ingi myndi ekki segja af sér. Í Fréttablaðinu í morgun sagði hún að þegar ráðherrar fylgja ekki siðareglum ráðherra þurfi „hann að meta stöðu sína, enda ábyrgð á störfum og háttsemi hjá honum sjálfum.“
Málið er erfitt fyrir ráðamenn í Sjálfstæðisflokknum, þar sem þeir þekkja Vigdísi persónulega. Hún var meðal annars aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar þegar hann var ráðherra á árinu 2017 og var starfsmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins um tíma á síðasta kjörtímabili. Brynjar Níelsson sagði ummælin hafa verið „klúðursleg“, Þórdís Kolbrún Reykdal Gylfadóttir utanríkisráðherra sagði að Sigurður Ingi þyrfti að gera upp við sig hvort afsökunarbeiðni hans dygði til og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sagði ummælin vera „alvarleg“.
Bjarni Benediktsson sagði ummælin „dæma sig sjálf og þetta er bara mjög óheppilegt atvik“. Hann bætti við að það væri alfarið ákvörðun Sigurðar Inga hvort hann myndi segja af sér. Ég ætla ekki að fara að leggja neitt á mig til að hjálpa til við það.“ Ummælin hafa vakið athygli, meðal annars vegna þess að Sigurður Ingi tók upp hanskann fyrir Bjarna þegar kröfur voru um afsögn hans fyrir að fara í samkvæmi í Ásmundarsal í desember 2020 á sama tíma og harðar samkomutakmarkanir voru í gildi. Hann sagði við RÚV á annan í jólum það ár að málið hefði ekki áhrif á stjórnarsamstarfið og kallaði ekki á afsögn Bjarna.
Samandregið þá er uppi sú staða að enginn ráðherra samstarfsflokka Framsóknar hafa tekið beint upp hanskann fyrir hann og sagt að hann þurfi ekki að segja af sér.
Vildi ekki svara spurningum en fann ekki bílinn
Sigurður Ingi sjálfur neitaði að svara spurningum fréttamanna fyrir utan ráðherrabústaðinn og vísaði í yfirlýsingu sína frá því á mánudag. Þess í stað fór hann undan í flæmingi, neitaði að svara hvort hann myndi axla ábyrgð með einhverjum hætti en lenti í vandræðum, fann ekki ráðherrabílinn sinn og framlengdi með því afar vandræðalegar aðstæður. Hann mætti svo í beina útsendingu í kvöldfréttum RÚV, neitaði að endurtaka hvað hann hefði sagt, sagðist upplifa traust innan þings og sæi ekki tilefni til að segja af sér.
Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna óskuðu eftir því á þingi í gær að fá að ræða rasísk ummæli Sigurðar Inga og nokkuð skýrt að þeir munu krefja innviðaráðherrann skýrra svara á þeim vettvangi fyrr eða síðar.
Á meðan að Sigurður Ingi þegir þurfa aðrir ráðherrar, þingmenn og flokksmenn Framsóknar að svara fyrir hvort flokkurinn sé rasískur eða ekki.
Næstu dagar munu ráða því hvort nýjasta endurreisn Framsóknar, sem hófst fyrir nákvæmlega sex árum þegar Sigurður Ingi varð forsætisráðherra, og hefur skilað flokknum á fórnar slóðir í fylgi á meðal þjóðarinnar, sé nú búin að ná hápunkti sínum. Og framundan sé dýfa.
Fyrir liggur, hið minnsta, að rasísk ummæli hans um litarhaft framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands hefur laskað Sigurð Inga Jóhannsson og Framsókn, að minnsta kosti um stundarsakir.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars