Mynd: Bára Huld Beck

Sjálfstæðisflokkurinn dalar en Vinstri græn og Píratar bæta við sig

Það hvort Flokkur fólksins nái inn á þing mun ráða miklu um hvort hægt verði að mynda ríkisstjórn eftir þeim formerkjum sem flestir flokkarnir eru að máta sig við. Sitjandi ríkisstjórn rétt hangir á einum þingmanni ef Flokkur fólksins er úti, en er fallin ef flokkur Ingu Sæland nær inn á þing.

Fylgi við fjögurra flokka miðju-vinstri stjórn Vinstri grænna, Samfylkingar, Framsóknarflokks og Pírata mælist nú nánast nákvæmlega það sama og það fylgi sem sitjandi ríkisstjórn mælist með. Fyrri valkosturinn mælist með 47,7 prósent en flokkarnir sem standa að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mælast með 47,9 prósent fylgi. Hið svokallaða Reykjavíkurmódel, sem samanstendur af Samfylkingu, Pírötum, Viðreisn og Vinstri grænna mælist svo með 46 prósent fylgi. Þetta er niðurstaða nýjustu kosningaspár Kjarnans og Baldurs Héðinssonar.

Enn er staða mála sú að það hvort ríkisstjórnin haldi, með minnsta mögulega meirihluta (32 þingmenn gegn 31), ræðst á því hvort Flokkur fólksins nær inn manni eða ekki. Nái flokkur Ingu Sæland yfir fimm prósent þröskuldinn til að fá úthlutað jöfnunarmönnum þá er ekki lengur þingmeirihluti hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir. Sömu sögu er að segja um mögulega fjögurra flokka stjórn frá miðju til vinstri. 

Þegar horft er til þess að síðasta ríkisstjórn sem lagði af stað með 32 manna meirihluta – ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sem mynduð var í byrjun árs 2017 – náði einungis að sitja að völdum í nokkra mánuði og að Vinstri græn hafa aldrei farið í gegnum stjórnarsamstarf án þess að missa þingmenn yfir til annarra flokka, þá verða ofangreind mynstur að teljast tæpur valkostur miðað við núverandi fylgistölur.

Niðurstöður kosningaspárinnar 9. september 2021

Hinn nýi veruleiki sem blasir við í íslenskum stjórnmálum er í ætt við það sem er á hinum Norðurlöndunum. Hér gæti þurft að mynda fjögurra flokka stjórn með aðkomu Sjálfstæðisflokks, fimm flokka stjórn frá miðju til vinstri eða minnihlutastjórn sem nýtur stuðnings eins eða tveggja flokka sem stæðu utan stjórnar. 

Þeir sem eru að dala

Sjálfstæðisflokkurinn missir 0,7 prósentustig frá því fyrir helgi og mælist nú með 23,6 prósent fylgi. Það er við lægri mörk þess sem flokkurinn hefur mælst með undanfarna mánuði. Þótt breytingarnar séu ekki miklar getur hvert prósentustig til og frá skipt afgerandi máli þegar kemur að stjórnarmyndun, enda staðan í íslenskum stjórnmálum mjög viðkvæm sem stendur. 

Miðflokkurinn fer í fyrsta sinn undir sex prósent og mælist nú með 5,7 prósent fylgi. Það 0,8 prósentustigum minna en flokkurinn mældist með í lok síðustu viku. Það þarf að leita aftur til daganna eftir að Klausturmálið svokallaða kom upp til að finna jafn lágar mælingar á fylgi flokks Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Raunveruleg hætta er á því að flokkurinn nái ekki inn á þing.  

Auglýsing

Framsóknarflokkurinn dalar lítillega og mælist með 11,3 prósent fylgi. Hann er samt sem áður eini stjórnarflokkurinn sem enn mælist yfir kjörfylgi. Sögulega er það ekki beysin árangur hjá flokknum, og myndi skila honum næst verstu niðurstöðu hans frá stofnun fyrir rúmum 100 árum, en í fjöldaflokkakerfinu sem nú er staðreynd íslenskra stjórnmála má hann ágætlega við una. 

Þeir sem bæta við sig

Vinstri græn bæta mestu við sig milli kosningaspáa, 1,1 prósentustigi, og fylgi flokksins mælist nú 12,8 prósent. Það gerir flokkinn að næst stærsta flokki landsins og styrkir stöðu hans í að vera lykilinn að myndun ríkisstjórnar annað hvort frá miðju til vinstri eða yfir miðjuna til hægri með hinum íhaldsflokkunum sem Vinstri græn sitja með í ríkisstjórn sem stendur. 

Píratar bæta líka við sig einu prósentustigi frá því í síðustu kosningaspá og mælast nú með 11,4 prósent fylgi. Flokkurinn hafði verið að lækka í nokkrum spám í röð og forsvarsmenn hans því örugglega fegnir að einhver viðsnúningur sé hafin. Að sama skapi hljóta það að vera vonbrigði að fylgið sé rétt yfir ellefu prósentum þegar flokkurinn var að kitla 13 prósent fylgi fyrir rúmum mánuði síðan. 

Þróun fylgis framboða í kosningaspánni
Kosningaspáin er unnin í aðdraganda kosninga til Alþingis 2021.
B C D F M P S V Aðrir

Samfylkingin hressist líka aðeins milli spáa og mælist nú með tólf prósent fylgi. Hún er því við kjörfylgi sitt frá 2017 og hefur ekki mælst svona há í kosningaspánni síðan í lok júlí. Sveiflur á fylgi flokksins frá þeim tíma hafa þó ekki verið miklar og hann þarf að bæta við sig á lokasprettinum ætli hann sér það stoðhlutverk í myndun næstu ríkisstjórnar sem forvígismenn Samfylkingarinnar telja að flokkurinn eigi að fá. 

Þeir sem standa í stað

Hin mikla sókn Sósíalistaflokks Íslands, þess flokks sem hefur tekið til sín langmest af nýju fylgi, virðist vera að reka sig upp í einhverskonar þak, að minnsta kosti tímabundið. Flokkurinn hefur nú mælst með um átta prósent fylgi í nokkrum kosningaspám í röð eftir að hafa vaxið um þrjú prósentustig frá því í byrjun júlí. 

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og félagar í Pírötum eiga raunhæfa möguleika á að setjast ríkisstjórn í fyrsta sinn.
Mynd: RÚV/Skjáskot

Viðreisn er líka nokkuð stöðug í kringum tíu prósent fylgi og hefur nú mælst með fylgi rétt sunnan megin við þá tölu í öllum kosningaspám sem keyrðar hafa verið frá byrjun ágústmánaðar að einni undanskilinni. Fylgi nú er 9,8 prósent.

Flokkur fólksins er sömuleiðis að sýna merkilegan stöðugleika í fylgi rétt undir fimm prósent markinu og mælist með 4,8 prósent fylgi, sem er meðaltalsfylgi síðustu tveggja spáa á undan. Nokkuð ljóst er að slíkt fylgi myndi nær örugglega tryggja flokknum að minnsta kosti einn kjördæmakjörinn þingmann og afar lítið þarf til svo að flokkurinn næði inn jöfnunarþingmanni og þingflokkurinn teldi fyrir vikið að minnsta kosti þrjá. 

Auglýsing

Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni eru eftirfarandi:

  • Þjóðarpúls Gallup 16. ágúst-29. ágúst (vægi 17,9 prósent)
  • Skoðanakönnun MMR í samstarfi við Morgunblaðið 24 – 3. september (vægi 19,2 prósent)
  • Skoðanakönnun Maskínu í samstarfi við Fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis 31. ágúst – 6. september (31,4 prósent)
  • Skoðanakönnun Prósent í samstarfi við Fréttablaðið 2 – 7. september (31,5 prósent)

Hvað er kosn­inga­spá­in?

Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.

Auglýsing

Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.

Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.

Kosn­­inga­­spálíkan Bald­­urs Héð­ins­­sonar miðar að því að setja upp­­lýs­ing­­arnar sem skoð­ana­kann­­anir veita í sam­hengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­inga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar