Sjálfstæðisflokkurinn langstærsta aflið á sveitarstjórnarstiginu
Sjálfstæðisflokkurinn á 117 af þeim 405 fulltrúum sveitarstjórna sem þar sitja í kjölfar kosninga á milli tveggja eða fleiri lista í sveitarfélögum landsins. Í stærstu 22 sveitarfélögunum á flokkurinn hartnær 4 af hverjum 10 kjörnum fulltrúum.
Í þeim 22 sveitarfélögum landsins þar sem íbúafjöldinn er yfir 2.000 manns sitja alls 212 manns í sveitarstjórnum. Þar af eru rúm 39 prósent fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, eða alls 83 kjörnir fulltrúar í þessum stærstu sveitarfélögum landsins. Það má því segja að Sjálfstæðisflokkurinn sé umfram aðra flokka ráðandi afl á sveitarstjórnarstiginu.
Framsóknarflokkurinn á svo 32 fulltrúa af þessum 212 eða um 15 prósent af heildinni og Samfylkingin 27 fulltrúa, tæp 13 prósent af heildinni. Utan þessara þriggja flokka á ekkert stjórnmálaafl yfir tíu fulltrúa í sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga sem eru með yfir 2.000 íbúa.
Vinstri græn og Miðflokkurinn eiga níu fulltrúa hvor flokkur, sjö manns sitja í sveitarstjórnunum fyrir hönd Viðreisnar og þá eru þrír Píratar í sveitarstjórnum, auk þess sem Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn eiga sitt hvorn fulltrúann í borgarstjórn Reykjavíkur.
Í stærstu 22 sveitarfélögunum eru svo 40 sveitarstjórnarmenn sem þar sitja fyrir samvinnuframboð tveggja eða fleiri stjórnmálaafla, eða framboð sem eru með öllu óháð landsmálapólitíkinni.
Í mörgum tilfellum er þar um að ræða samkrull afla á vinstri kantinum og inn að miðjunni, með eða án stuðnings stjórnmálaflokka, sem bjóða fram saman til þess að eiga einhvern möguleika á að komast til áhrifa í sveitarfélögum þar sem Sjálfstæðisflokkur og/eða Framsóknarflokkur hafa sögulega verið ráðandi öfl.
Yfir fjórðungur sveitarstjórnarmanna á landinu öllu sjálfstæðismenn
Þegar horft er á öll 53 sveitarfélög landsins þar sem sveitarstjórnarmenn sitja í dag eftir að hafa tekið þátt í hlutbundnum kosningum á milli tveggja eða fleiri framboðslista árið 2018 (eða árið 2020 í tilfelli Múlaþings) má sjá Sjálfstæðisflokkurinn er í sérflokki er kemur að fjölda kjörinna fulltrúa.
Flokkurinn á alls 117 sveitarstjórnarfulltrúa á landsvísu, Framsókn 45 og Samfylkingin 29. Enginn hinna flokkanna sem bjóða fram á landsvísu eiga kjörna fulltrúa í þeim sveitarfélögum landsins þar sem íbúar eru færri en tvö þúsund talsins.
Þegar horft er á landið allt má þó sjá að langflestir fulltrúar, eða 184 af þeim 405 einstaklingum sem sitja fyrir hönd framboða í sveitarstjórnum, sitja þar fyrir lista sem ekki eru kenndir við einn eða annan stjórnmálaflokk eða eru þá samsláttur margra stjórnmálaafla eins og áður var nefnt.
Í talsvert mörgum sveitarfélögum sitja svo allir sveitarstjórnarfulltrúarnir fyrir framboð sem ekki bjóða fram á landsvísu. Sú er nú raunin í alls 17 sveitarfélögum; Hvalfjarðarsveit, Stykkishólmsbæ, Súðavíkurhreppi, Blönduósi, Húnavatnshreppi, Skagaströnd, Hörgársveit, Eyjafjarðarsveit, Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppi, Langanesbyggð, Mýrdalshreppi, Ásahreppi, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppi og Flóahreppi.
Á laugardag verður kosið til sveitarstjórna í alls 62 sveitarfélögum landsins af 64, en í tveimur sveitarfélögum, Skagaströnd og Tjörneshreppi, er sjálfkjörið þar sem einungis einn listi bauð fram til sveitarstjórnar.
Óbundnar kosningar, þar sem flestir eða allir kjörgengir íbúar sveitarfélaga eru í kjöri, fara fram í 13 sveitarfélögum en kosið verður á milli tveggja eða fleiri lista í 49 sveitarfélögum.
Fleiri sveitarfélög á hvern haus en á Norðurlöndunum
Íslensk sveitarfélög verða 64 eftir komandi kosningar, sem áður segir. Í upphafi árs voru íbúar á landinu 378.248 talsins sem jafngildir því að um 5.900 manns séu um hvert sveitarfélag landsins. Einungis níu stærstu sveitarfélög landsins eru þó með fleiri en 5.900 íbúa, en önnur eru minni.
Sveitarfélög á hverja 100 þúsund íbúa á landinu verða tæplega 17 á hverja 100 þúsund íbúa eftir komandi sveitarstjórnarkosningar, sem er töluvert langt umfram það sem gengur og gerist á hinum Norðurlöndunum.
Samkvæmt tölum frá OECD voru 1,7 sveitarfélög á hverja 100 þúsund íbúa í Danmörku árið 2018, 2,9 sveitarfélög á 100 þúsund íbúa í Svíþjóð, 8,1 í Noregi og 5,7 í Finnlandi.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum sem samþykkt voru á síðasta kjörtímabili skal sveitarfélögum landsins fækka nokkuð á næstu árum, en eftir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2026 verður lágmarksíbúafjöldi í sveitarfélagi orðinn 1.000 íbúar.
Lestu meira
-
21. desember 2022Kosningastjóri Samfylkingarinnar nýr aðstoðarmaður borgarstjóra
-
3. nóvember 2022Framsókn og Vinstri græn hafa tapað um átta prósentustigum af fylgi frá síðustu kosningum
-
31. ágúst 2022Vegglistaverk Libiu og Ólafs þótti óleyfilegur kosningaáróður í Hafnarfirði
-
20. ágúst 2022Laun 30 dýrustu bæjarstjóranna voru samtal 698 milljónir króna í fyrra
-
12. ágúst 2022Hildur varði 9,3 milljónum í prófkjörsslaginn og átti eina og hálfa milljón afgangs
-
11. ágúst 2022Hildur skilaði uppgjöri vegna prófkjörs í gær
-
6. júlí 2022Vigdís Hauksdóttir vill verða bæjarstjóri
-
18. júní 2022Flokkurinn sem útilokaði sjálfan sig
-
8. júní 2022Dagur ógnar
-
7. júní 2022Næstum fjórum af hverjum tíu kjósendum Framsóknar líst illa á samstarfið í borginni