Sjálfstæðisflokkurinnn

Sjálfstæðisflokkurinn langstærsta aflið á sveitarstjórnarstiginu

Sjálfstæðisflokkurinn á 117 af þeim 405 fulltrúum sveitarstjórna sem þar sitja í kjölfar kosninga á milli tveggja eða fleiri lista í sveitarfélögum landsins. Í stærstu 22 sveitarfélögunum á flokkurinn hartnær 4 af hverjum 10 kjörnum fulltrúum.

Í þeim 22 sveit­ar­fé­lögum lands­ins þar sem íbúa­fjöld­inn er yfir 2.000 manns sitja alls 212 manns í sveit­ar­stjórn­um. Þar af eru rúm 39 pró­sent full­trúar Sjálf­stæð­is­flokks­ins, eða alls 83 kjörnir full­trúar í þessum stærstu sveit­ar­fé­lögum lands­ins. Það má því segja að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn sé umfram aðra flokka ráð­andi afl á sveit­ar­stjórn­ar­stig­inu.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn á svo 32 full­trúa af þessum 212 eða um 15 pró­sent af heild­inni og Sam­fylk­ingin 27 full­trúa, tæp 13 pró­sent af heild­inni. Utan þess­ara þriggja flokka á ekk­ert stjórn­mála­afl yfir tíu full­trúa í sveit­ar­stjórnum þeirra sveit­ar­fé­laga sem eru með yfir 2.000 íbúa.

Vinstri græn og Mið­flokk­ur­inn eiga níu full­trúa hvor flokk­ur, sjö manns sitja í sveit­ar­stjórn­unum fyrir hönd Við­reisnar og þá eru þrír Píratar í sveit­ar­stjórn­um, auk þess sem Flokkur fólks­ins og Sós­í­alista­flokk­ur­inn eiga sitt hvorn full­trú­ann í borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur.

Í stærstu 22 sveit­ar­fé­lög­unum eru svo 40 sveit­ar­stjórn­ar­menn sem þar sitja fyrir sam­vinnu­fram­boð tveggja eða fleiri stjórn­mála­afla, eða fram­boð sem eru með öllu óháð lands­málapóli­tík­inni.

Hlutfallsskipting 22 stærstu
Infogram

Í mörgum til­fellum er þar um að ræða sam­krull afla á vinstri kant­inum og inn að miðj­unni, með eða án stuðn­ings stjórn­mála­flokka, sem bjóða fram saman til þess að eiga ein­hvern mögu­leika á að kom­ast til áhrifa í sveit­ar­fé­lögum þar sem Sjálf­stæð­is­flokkur og/eða Fram­sókn­ar­flokkur hafa sögu­lega verið ráð­andi öfl.

Yfir fjórð­ungur sveit­ar­stjórn­ar­manna á land­inu öllu sjálf­stæð­is­menn

Þegar horft er á öll 53 sveit­ar­fé­lög lands­ins þar sem sveit­ar­stjórn­ar­menn sitja í dag eftir að hafa tekið þátt í hlut­bundnum kosn­ingum á milli tveggja eða fleiri fram­boðs­lista árið 2018 (eða árið 2020 í til­felli Múla­þings) má sjá Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn er í sér­flokki er kemur að fjölda kjör­inna full­trúa.

Flokk­ur­inn á alls 117 sveit­ar­stjórn­ar­full­trúa á lands­vísu, Fram­sókn 45 og Sam­fylk­ingin 29. Eng­inn hinna flokk­anna sem bjóða fram á lands­vísu eiga kjörna full­trúa í þeim sveit­ar­fé­lögum lands­ins þar sem íbúar eru færri en tvö þús­und tals­ins.

Þegar horft er á landið allt má þó sjá að lang­flestir full­trú­ar, eða 184 af þeim 405 ein­stak­lingum sem sitja fyrir hönd fram­boða í sveit­ar­stjórn­um, sitja þar fyrir lista sem ekki eru kenndir við einn eða annan stjórn­mála­flokk eða eru þá sam­sláttur margra stjórn­mála­afla eins og áður var nefnt.

Í tals­vert mörgum sveit­ar­fé­lögum sitja svo allir sveit­ar­stjórn­ar­full­trú­arnir fyrir fram­boð sem ekki bjóða fram á lands­vísu. Sú er nú raunin í alls 17 sveit­ar­fé­lög­um; Hval­fjarð­ar­sveit, Stykk­is­hólms­bæ, Súða­vík­ur­hreppi, Blöndu­ósi, Húna­vatns­hreppi, Skaga­strönd, Hörg­ársveit, Eyja­fjarð­ar­sveit, Þing­eyj­ar­sveit, Skútu­staða­hreppi, Langa­nes­byggð, Mýr­dals­hreppi, Ása­hreppi, Skeiða- og Gnúp­verja­hreppi, Blá­skóga­byggð, Gríms­nes- og Grafn­ings­hreppi og Flóa­hreppi.

Sveitarstjórnarmenn landið allt
Infogram

Á laug­ar­dag verður kosið til sveit­ar­stjórna í alls 62 sveit­ar­fé­lögum lands­ins af 64, en í tveimur sveit­ar­fé­lög­um, Skaga­strönd og Tjör­nes­hreppi, er sjálf­kjörið þar sem ein­ungis einn listi bauð fram til sveit­ar­stjórn­ar.

Óbundnar kosn­ing­ar, þar sem flestir eða allir kjör­gengir íbúar sveit­ar­fé­laga eru í kjöri, fara fram í 13 sveit­ar­fé­lögum en kosið verður á milli tveggja eða fleiri lista í 49 sveit­ar­fé­lög­um.

Fleiri sveit­ar­fé­lög á hvern haus en á Norð­ur­lönd­unum

Íslensk sveit­ar­fé­lög verða 64 eftir kom­andi kosn­ing­ar, sem áður seg­ir. Í upp­hafi árs voru íbúar á land­inu 378.248 tals­ins sem jafn­gildir því að um 5.900 manns séu um hvert sveit­ar­fé­lag lands­ins. Ein­ungis níu stærstu sveit­ar­fé­lög lands­ins eru þó með fleiri en 5.900 íbúa, en önnur eru minni.

Sveit­ar­fé­lög á hverja 100 þús­und íbúa á land­inu verða tæp­lega 17 á hverja 100 þús­und íbúa eftir kom­andi sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar, sem er tölu­vert langt umfram það sem gengur og ger­ist á hinum Norð­ur­lönd­un­um.

Sam­kvæmt tölum frá OECD voru 1,7 sveit­ar­fé­lög á hverja 100 þús­und íbúa í Dan­mörku árið 2018, 2,9 sveit­ar­fé­lög á 100 þús­und íbúa í Sví­þjóð, 8,1 í Nor­egi og 5,7 í Finn­landi.

Sam­kvæmt sveit­ar­stjórn­ar­lögum sem sam­þykkt voru á síð­asta kjör­tíma­bili skal sveit­ar­fé­lögum lands­ins fækka nokkuð á næstu árum, en eftir sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arnar árið 2026 verður lág­mark­s­í­búa­fjöldi í sveit­ar­fé­lagi orð­inn 1.000 íbú­ar.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar