Inn á miðsvæði Manhattan í New York, á 53. stræti, er sköpunarkrafturinn beislaður í einu áhrifamesta listasafni samtímans, Nýlistasafninu í New York, MoMA (Museum of Modern Art). Á undanförnum fimm árum hafa orðið miklar breytingar á safninu sem hafa skilað sér í því að fjölgun gesta á ári hefur verið mikil. Árið 2009 heimsóttu rúmlega tvær milljónir manna safnið árlega en nú er fjöldinn kominn upp í 3,1 milljón, og eru meðlimir (members) um 120 þúsund. Til samanburðar heimsækja Ísland rúmlega milljónir erlendir ferðamenn á hverju ári. Safnið er rekið fyrir aðgangseyri, framlög úr styrktarsjóðum og opinberum sjóðum.
Safnið hefur fest sig enn betur í sessi sem eitt af kennileitum borgarinnar sem aldrei sefur og er á sama tíma afar mikilvægur hlekkur í ferðaþjónustu borgarinnar. Óhætt er að segja að hún sé stóriðja á Manhattan en um 50 milljónir ferðamanna heimsækja svæðið árlega, bæði erlendis frá og einnig frá öðrum stöðum í Bandaríkjunum.
Með sköpunina að vopni
Saga safnsins er stórmerkileg, en um leið lýsandi fyrir þá þungu menningarstrauma sem liggja um New York borg og eru hluti af sjálfsmynd hennar og krafti. Abby Aldrich Rockerfeller, eiginkona John D. Rockerfeller Jr., fékk hugmyndina að safninu á því herrans ári 1929, þegar Kreppan mikla skall á af miklum þunga yfir íbúa New York borgar. Hún kom safninu upp ásamt vinum sínum, Lillie P. Blis og Mary Quinn Sullivan. Það opnaði 7. nóvember 1929, í brábirgðahúsnæði á 57. stræti, níu dögum eftir hrunið á verðbréfamörkuðum sem var undanfari hrikalegrar niðursveiflu í efnahagsbúskap heimsins. Hinn 29. október er kallaður Svarti þriðjudagurinn en þá hrundi hlutabréfamarkaðurinn um 23 prósent, eftir mikinn uppgangstíma. Dagana á eftir fór svo botninn næstum alveg úr honum. Við tók tímabil atvinnuleysis og vonleysis og það á versta tíma; þegar veturinn var að skella á.
Listin blómstraði
Fyrstu árin voru safninu svolítið erfið. Ekki vegna þess að það kæmu ekki gestir, síður en svo. Það var fullt nær alla daga. En það þótti framsækið og sá stóri hópur sem stundaði listasöfnin í borginni og gallerýin á götuhornunum var ekki fyllilega sáttur við það sem boðið var upp á. „Taldist þetta allt saman vera list?“ spurðu gestir forviða. En það voru líka undantekningar og reyndust teikningar hollenska snillingsins Vincent Van Gogh, sem safnið fékk að láni til sýnis skömmu eftir að það opnaði, mikill happafengur fyrir safn í mótun. Van Gogh hafði orð á sér fyrir dulúð, dýpt og frumleika, eitthvað sem Abby hafði lagt upp með að fanga í safninu. Þannig varð safnið ekki aðeins vettvangur heimsklassa listamanna heldur um leið vettvangur heimspekilegra samræðna um listina, tilgang hennar og stefnu.
Mótast af kreppunni
Einn fyrsti starfsmaður safnsins, fyrir utan stofnendur þess, var Suichi Sunami, japansk ættaður ljósmyndari sem
Ein af frægum myndum Sunami af dansaranum Mörthu Graham, en þær opnuðu leiðina fyrir hann inn á hið nýstofnaða MoMA safn, árið 1930. Mynd: vefur MoMA.
hafði getið sér gott orð fyrir myndir af dansaranum Mörthu Graham. Þetta átti eftir að reynast afdrifarík ráðning því Sunami varð fljótt hluti af safninu, ef svo má að orðið komast. Myndir hans þóttu snilldarlegar og hann hafði einstakt auga fyrir uppsetninga sýninga. En umfram allt var dugnaður hans og ástríða fyrir uppbyggingu safnsins það sem skipti mestu máli. Þó hann hefði ekki starfstitil sem listrænn stjórnandi, þá var hann mikilvægur hluti af hinum skapandi anda. Hann starfaði sem opinber ljósmyndari safnsins frá árunum 1930 til 1968, í tæplega fjörutíu ár, og markaði djúp spor í sögu þess. MoMA er á vissan hátt afrakstur Kreppunnar miklu og þeirra ráðstafana sem gripið var til með fordæmalausum aðgerðum hins opinbera, bæði New York borgar og ríkissjóðs Bandaríkjanna. Vegna bágs efnahagsástands ákváðu borgaryfirvöld að fara út í viðamikil uppbyggingarverkefni á innviðum og stóreflingu listastarfs sömuleiðis. Markmiðið var ekki aðeins að skapa atvinnu, með byggingu brúa, viðhaldsverkefna og lestarteina, svo eitthvað sé nefnt, heldur ekki síður að efla „andann“. Atvinnuleysi mældist 24,9 prósent árið 1932 og staðan var einna alvarlegust í New York þar sem fjölmargir voru án heimilis, atvinnu og vonar.
Kraftar að verki - Listamenn í lykilhlutverki
Í þessum aðstæðum varð til kraftur - sum part alveg óvart - sem MoMA greip á lofti, og raunar allt listalíf New York borgar sömuleiðis. Tvær áætlanir á vegum hins opinbera voru miklir áhrifavaldar í því að leysa úr læðingi hugmyndaflug listamanna og almennings. Hin svonefnda CCC-áætlun (Civilian Conservation Corps) og einnig áætlunin sem var hvað umdeildust á hinu pólitíska sviði; WPA-áætlunin (Works Progress Administration). Hin síðarnefnda var risavaxið framlag úr opinberum sjóðum til uppbyggingar á landsvísu. Samtals var 8,5 milljörðum Bandaríkjadala eytt í uppbyggingu samgöngumannvirkja, húsnæðis og annarra innviðaverkefna á átta ára tímabili, frá 1935 til 1943. Í New York borg voru hluti upphæðarinnar í að búa til föt fyrir almenning, enda fór nístandi kuldinn yfir vetrartímann illa með heimilislausar fjölskyldur. Og hluti upphæðarinnar í CCC-áætluninni fór í að fegra opin svæði borgarinnar, ekki síst stóra og smáa almenningsgarða. Þeir sem listræna hæfileika höfðu, á sviði hönnunar meðal annars, gengdu lykilhlutverki í þessari vinnu. Og eins og alltaf þar sem listrænir kraftar eru að verki, þá gegna samræður og samkomur lykilhlutverki í að móta sýn á verkefnin og svara spurningum sem vakna. Þar voru listasöfnin eins og suðupottur hugmynda, ekki síst MoMA. Sá ferskleiki sem safnið hefur ávallt lagt upp með að fanga á sér ekki síst rætur í þessum erfiðu tímum í sögu New York. Listin var bjargvættur borgarinnar, hafa sumir sagt, því án hennar hefði vonleysið rist dýpra og viðspyrnan úr hörmungum Kreppunnar miklu orðið kraftlaus.
Fortíð, nútíð og framtíð
MoMA hefur lengi verið vettvangur umdeildra sýninga, og er nærtækt að nefna sýningu um stórbrotinn feril Bjarkar Guðmundsdóttur í vor. Sitt sýnist hverjum þegar kemur að listinni, svo mikið er víst. Metnaður safnsins, sem hefur verið við 53. stræti frá árinu 1939, stendur til þess að ögra formum og ríkjandi hefðum, hverjar sem þær eru, og varpa fram spurningum um lífið og tilveruna. Þar eru fortíð, nútíð og framtíð undir. Safnið hefur ávallt verið „opið í báða enda“; fjallar um það sem telst til hámenningar en á sama tíma hafa tónlistarmenn og kvikmyndamyndgerðarmenn ekki síður tekist á við krafta safnsins og lagt sitt að mörkum. Eins og alltaf þegar safnastarf er annars vegar þá deilir fólk um hvort það sé á réttri leið og hvort verkin sem til sýnis eru á hverjum tíma eigi heima á safninu. Þetta á svo sannarlega við um MoMA.
This week: @Teishi performs in #MoMAGarden, @MoMAFilm celebrates #IngridBergman, & more. http://t.co/p33HJSpzFg pic.twitter.com/VTSqKUxTo3
— Museum of Modern Art (@MuseumModernArt) August 24, 2015
En dramatískur bagrunnur sögu þess - þar sem hörmungar mannlífsins hjálpuðu til við að móta fyrir hvað það stendur - ætti að segja manni það, að það verður seint líflaust. Það þarf eitthvað mikið til að slökkva listrænan lífsneista þess, eins og lifandi umræða á samfélagsmiðlum undir hashtag-inu #MoMA ber með sér.