Eyrir Invest, stærsti eigandi Marel, hefur fengið 175 milljónir evra, um 25,2 milljarða króna, að láni frá tveimur erlendum fjárfestingarsjóðum JNE Partners LLP og The Baupost Group.
Lánin eru til fjögurra ára. Í lok þess tíma fá sjóðirnir rétt til að eignast 8,1 prósent hlut í Marel, verðmætasta skráða fyrirtækisins á íslenskum hlutabréfamarkaði. frá Eyri Invest. Um er að ræða þriðjung af eignarhlut Eyris Invest í Marel en markaðsvirði hans við lokun markaða í gær var um 31 milljarður króna.
Bréf í Marel hafa lækkað gríðarlega það sem af er ári, eða um 41 prósent. Markaðsvirði félagsins var 663,5 milljarðar króna um síðustu áramót en er nú 382,4 milljarðar króna. Það þýðir að 281,1 milljarðar króna af virði Marel hafa þurrkast út það sem af er ári.
HNE Partners er þegar hluthafi í Marel og Baupost Group hefur umtalsverða reynslu af því að sýsla á Íslandi. Sjóðurinn, sem var stofnaður og er stýrt af Seth Klarman, er sá sjóður sem hagnaðist einna mesta allra á falli íslensku bankanna.
Nýtt sambankalán og minni hagnaður
Í gærkvöldi var einnig tilkynnt um að Marel hafi undirritað samning um nýtt sambankalán til þriggja ára upp á 300 milljónir Bandaríkjadala, um 43,8 milljarða króna. Lánið er frá sömu bönkum og komu að 700 milljón evra, 100,8 milljarða króna, sambankalánalínu til félagsins í febrúar 2020,, þ.e. ABN AMRO, BNP Paribas, Danske Bank, HSBC, ING, Rabobank, og UniCredit.
Allt þetta gerðist samhliða því að Marel birti uppgjör sitt fyrir fyrstu níu mánuði ársins þar sem fram kom að hagnaður félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins var 40,2 milljónir evra, um 5,8 milljarðar króna. Það er næstum 40 prósent minni hagnaður en á sama tímabili í fyrra. Hagnaður á þriðja ársfjórðungi var 60 prósent minni en á sama ársfjórðungi í fyrra. Tekjur Marel hafa hins vegar aukist mikið, eða um tæp 23 prósent milli ára, og voru tæplega 176 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins.
Þegar Marel birti hálfsársuppgjör sitt fyrr á árinu sendi félagið frá sér afkomuviðvörun þar sem rekstrarniðurstaða annars ársfjórðungs var undir væntingum, að uppistöðu vegna „áframhaldandi áskorana tengdum aðfangakeðju og hárrar verðbólgu sem leiddi til hægari tekjuvaxtar en vænt var.“ Daginn eftir að afkomuviðvörunin var send út lækkuðu hlutabréf í Marel um tæp ellefu prósent.
Í tilkynningu til Kauphallar kom fram að Marel myndi grípa til aðgerða til að bæta rekstrarafkomu sína þegar í stað. „Til að lækka kostnað hefur sú erfiða ákvörðun verið tekin að fækka starfsmönnum félagsins um fimm prósent á heimsvísu.“
Eyrir Invest hagnaðist um rúmlega 23 milljarða króna á árinu 2021 ef miðað er við gengi evru í dag. Eigið fé félagsins var 127,1 milljarður króna um síðustu áramót. Það hafði þá aukist um 76,5 milljarða króna síðan í lok árs 2018.
Langverðmætasta eign Eyris er 24,7 prósent eignarhlutur í Marel, en Eyrir hefur verið stærsti hluthafinn í Marel frá 2005. Hluturinn í Marel var metinn á 156,1 milljarð króna um síðustu áramót, sem var um 94 prósent af öllum eignum Eyris Invest. Hlutabréf í Marel, sem er langstærsta félagið í íslensku Kauphöllinni ásamt því að vera líka skráð á markað í Amsterdam, hafa lækkað umtalsvert það sem af er árinu 2022, eða um 41,5 prósent. Þau hafa hins vegar hækkað um 10,7 prósent á síðastliðnum mánuði. Allt hefur þetta bein áhrif á eigið fé Eyri Invest sem þessum lækkunum nemur.
Eyrir Invest á auk þess 46,5 prósent hlut í Eyri sprotum sem fjárfestir í vaxtarfyrtirtækjum, allt hlutafé í Eyri Ventures og 23,4 prósent hlut í sprotasjóðnum Eyri vexti sem settur var á fót í fyrra. Þá á félagið Eyrir Venture Management sem annast rekstur sjóðanna; Eyrir sprotar, Eyrir vöxtur og Eyrir Ventures auk félagsins Grænt metanól ehf. sem er 100 prósent í eigu Eyris Invest.
Feðgarnir stærstu eigendurnir
Stærstu eigendur Eyris Invest eru feðgarnir Þórður Magnússon og Árni Oddur Þórðarson, sem einnig er forstjóri Marel. Þórður á 20,6 prósent hlut í Eyri en Árni Oddur 17,9 prósent. Samanlagður hlutur þeirra, miðað við upplausnarvirði samkvæmt bókfærðu eigin fé félagsins, var því 49 milljarða króna virði um síðustu áramót.
Í tilkynningu frá Eyri Invest vegna samningsins við erlendu fjárfestingarsjóðina segir að samningurinn styrki efnahag Eyris og auðveldi umtalsverðar endurgreiðslur bankaskulda. Þá styðji hann við uppbyggingu og vöxt næstu ára í samræmi við áætlanir félagsins. Þar er haft eftir Þórði Magnússyni, stjórnarformanni Eyris Invest og eins stærsta einstaka hluthafans í félaginu, að staða Marel sé mjög sterk, þrátt fyrir þá þróun í heimshagkerfinu sem átti hafi sér stað. „Með innkomu JNE Partners og The Baupost Group er Eyrir nú enn betur í stakk búið til að styðja frekar við Marel sem kjölfestufjárfestir. Samkvæmt þeirri framtíðarsýn sem stjórnendur Marel hafa dregið upp opinberlega má búast við verulegum vexti og virðisaukningu Marel á næstu árum sem og í öðrum eignum í eignasafni Eyris.“
Almenningur á óbeinan hlut í Marel í gengum Landsbankann
Á meðal annarra stórra eigenda er Landsbankinn, sem á 14,1 prósent hlut í Eyri Invest, og þar af leiðandi um 3,5 prósent óbeinan hlut í Marel í gegnum það eignarhald. Eigandi Landsbankans er íslenska ríkið.
Sá hlutur var um 23,6 milljarða króna virði í lok júni í fyrra, eftir mikla hækkunarhrinu sem átti sér stað samhliða því að kórónuveirufaraldurinn skall á. Alls hækkuðu hlutabréf í Marel um 93,2 prósent frá því í mars 2020 og til ágústloka 2021. Þau næstum tvöfölduðust. Og virði þeirra bréfa sem Landsbankinn heldur á í félaginu jókst um sama hlutfall.
Hlutur Landsbankans í Marel er nú metinn á 13,4 milljarða króna. Hann hafði lækkað um rúmlega tíu milljarða króna á rúmu ári. Þar er því komin stærsta ástæðan fyrir því að hagnaður Landsbankans var jafn mikið úr takti við hagnað hinna stóru bankanna tveggja á fyrstu níu mánuðum ársins.
Aðrir sem eiga yfir tíu prósent hlut í Eyri Invest eru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (A- og B-deild) með 14,1 prósent hlut og Lífeyrissjóður verzlunarmanna sem á 11,2 prósent hlut.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi