Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um veiðigjöld. Framlagning frumvarpsins átti sér skamman aðdraganda og það var afgreitt út úr ríkisstjórn í gær. Til stendur að það verði að lögum strax og búið verði að samþykkja frumvarpið.
Frumvarpinu er ætlað að bregðast við víxlverkun ákvæðis í lögum um veiðigjöld annars vegar og lögum um tekjuskatt hins vegar sem heimilar útgerðum að fyrna meðal annars skip og skipsbúnað um 50 prósent á ári vegna fjárfestinga á árunum 2021 og 2022. Ef lögunum verður ekki breytt mun þessi víxlverkun leiða til þess að minna samræmi yrði á milli raunverulegrar afkomu sjávarútvegs og innheimtra veiðigjalda. Með frumvarpinu verður Skattinum falið að dreifa fyrningum skipa umfram tiltekna upphæð á fimm ár. Það er gert með því að setja þak á fyrningar skipa og skipsbúnaðar sem geta komið til frádráttar við útreikning á reiknistofni veiðigjalds. Lagt er til í frumvarpinu að séu skattalegar fyrningar samtals hærri en 20 prósent af fyrningargrunni að viðbættum 200 milljónum króna skuli Skatturinn dreifa því sem umfram er á næstu fimm ár.
Veiðigjöld verða 9,5 milljarðar í stað sjö milljarða
Um mikla hagsmuni er að ræða fyrir ríkissjóð, að minnsta kosti á næsta ári. Verði frumvarp Svandísar samþykkt munu veiðigjöld sem útgerðir greiða í ríkissjóð hækka um 2,5 milljarða króna á næsta ári og verða 9,5 milljarðar króna alls. Verði ekkert að gert munu veiðigjöldin verða sjö milljarðar króna, sem er langt undir forsendum fjárlagafrumvarpsins, þar sem reiknað er með 8,3 milljörðum króna í veiðigjöld á árinu 2023.
Á móti munu veiðigjöld verða lægri árin þar á eftir, verði engar frekari breytingar gerðar á lögum um veiðigjald, þar sem fyrningar sem að óbreyttu kæmu að fullu til frádráttar rekstrarkostnaði einstakra fyrirtækja næstu eitt til tvö árin dreifast yfir á fleiri ár og verða í gangi í allt að fimm ár.
Svandís skipaði stóra samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu í maí á þessu ári. Undir henni starfa svo fjórir starfshópar auk þess sem sérstök verkefnastjórn er að störfum. Þessi hópur, sem telur um 50 manns, á að starfa út næsta ár og skila meðal annars af sér nýjum heildarlögum um stjórn fiskveiða eða nýjum lög um auðlindir hafsins, verkefnum á sviði orkuskipta, nýsköpunar, hafrannsókna og gagnsæi og kortlagning eignatengsla í sjávarútvegi. Einn starfshópurinn á að fjalla um ágreining um stjórn fiskveiða og möguleika til samfélagslegrar sáttar, samþjöppun veiðiheimilda, veiðigjöld og skattspor.
Því er mögulegt að lögum um veiðigjöld verði breytt áður en veiðigjöld fara að skerðast vegna frumvarpsins sem nú hefur verið lagt fram.
Frumvarp Bjarna lækkaði veiðigjöld um milljarða árið 2023
Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu kemur fram að það hafi átt sér stuttan aðdraganda og ekki hafi gefist mikill tími til samráðs. Í september hafi matvælaráðuneytið óskað eftir upplýsingum frá Skattinum um áætlað veiðigjald á árinu 2023, og einkum hvort bráðabirgðaákvæði tekjuskattslaga um heimildir til flýtifyrninga til að hvetja til fjárfestinga á tímum Covid-19 hefðu veruleg áhrif á veiðigjald til lækkunar. Umrætt bráðabirgðaákvæði varð að lögum í apríl í fyrra þegar frumvarp sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram var samþykkt. Tilgangur þess frumvarps var sagður vera að mæta neikvæðum efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins með því að hvetja til fjárfestinga einkaaðila í atvinnurekstrareignum með sérstaka áherslu á eignir sem teljast umhverfisvænar og stuðla að sjálfbærni í umhverfismálum.
Í greinargerð með frumvarpi Svandísar sem dreift var á þingi í morgun segir að komið hafi í ljósi að „aukafyrningar, bæði vegna bráðabirgðaákvæðisins og fyrningarheimildar vegna söluhagnaðar eigna, lækkuðu veiðigjald, að öðru óbreyttu, um 2,5–3 milljarða kr. á næsta ári og yrði til að mynda veiðigjald á uppsjávartegundirnar loðnu, síld, makríl og kolmunna afar lágt. Lækkunin yrði þó ekki varanleg, heldur tilfærsla í tíma.“
Við gerð frumvarpsins var haft samráð við fjármála- og efnahagsráðuneytið, Skattinn, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Landssamband smábátaeigenda (LS). Í greinargerðinni segir að aðilar hafi verið sammála um að skattalegar aukafyrningar hafi skapað meiri sveiflur í reiknistofni veiðigjalds á milli ára og að slíkar sveiflur, sem rekja má til fyrninga fárra skipa, séu óheppilegar.
Sjávarútvegur hagnaðist um 65 milljarða króna í fyrra
Methagnaður var í sjávarútvegi í fyrra, þegar geirinn hagnaðist um 65 milljörðum króna eftir skatta og gjöld. Alls jókst hagnaðurinn um 124 prósent milli ára.
Á sama tíma greiddu sjávarútvegsfyrirtækin 22,3 milljarða króna í öll opinber gjöld. Veiðigjöld, tekjuskatt og tryggingagjöld. Það þýðir að rúmlega fjórðungur af hagnaði fyrir greiðslu opinberra gjalda fór til hins opinbera en tæplega 75 prósent varð eftir hjá útgerðarfyrirtækjum.
Hagnaður geirans áður en hann greiddi veiðigjöld, tekjuskatt og tryggingagjald í ríkissjóð var samtals 752,3 milljarðar króna frá 2009 og út síðasta ár. Af þessum hagnaði sat tæplega 71 prósent eftir hjá útgerðum landsins en rétt um 29 prósent fór í opinber gjöld.
Frá árinu 2010 hafa þau greitt 143,2 milljarða króna til eigenda sinna í arðgreiðslur. Hagur sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur því vænkast um 575,2 milljarða króna frá hruni.
Lestu meira:
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
30. desember 2022Rammi sameinaður Ísfélaginu og til stendur að skrá nýju risaútgerðina á hlutabréfamarkað
-
29. desember 2022Baldvin Þorsteinsson eignast erlenda útgerð Samherja sem metin er á 55 milljarða króna
-
19. desember 2022Hagnaður sjávarútvegs þrefaldaðist milli ára en afkoma tæknifyrirtækja breyttist lítið
-
13. desember 2022Fallið frá því að hækka gjöld á sjókvíaeldi um mörg hundruð milljónir á ári
-
9. desember 2022Prentsmiðjan og skuldir Árvakurs við hana færðar úr útgáfufélagi Morgunblaðsins
-
6. desember 2022Samherji Holding segist ekki líða mútugreiðslur, fyrirgreiðslur og ávinning í skiptum fyrir óeðlileg áhrif
-
30. nóvember 2022Samherjasamstæðan átti eigið fé upp á tæpa 160 milljarða króna um síðustu áramót
-
28. nóvember 2022SFS styðja frumvarp Svandísar um að hækka veiðigjöld á næsta ári en lækka þau árin á eftir
-
23. nóvember 2022Svandís leggur fram frumvarp sem hækkar veiðigjöld um 2,5 milljarða á næsta ári