Eftir rúmlega fimm ára tafir á afgreiðslu næsta áfanga rammaáætlunar, þess þriðja, er nokkurrar óþreyju farið að gæta hjá sveitarfélögum á Austurlandi ef marka má bókanir sem byggðaráð Múlaþings annars vegar og bæjarstjórn Fjarðabyggðar hins vegar gerðu á fundinum sínum í síðustu viku. Tveir virkjanakostir á Austurlandi eru í biðflokki tillögu að þriðja áfanga rammaáætlunar sem báðir voru lagðir fram af Orkustofnun sjálfri: Hraunavirkjun til Berufjarðar (126 MW) og Hraunavirkjun til Suðurdals í Fljótsdal (115 MW).
Það er hins vegar breytt útfærsla annarrar þeirra, Hamarsvirkjun, sem er nú, öllum þeim árum eftir að hinar tillögurnar voru fyrst lagðar fram, uppi á teikniborðinu hjá fyrirtækinu Arctic Hydro. Virkjunin yrði í Hamarsfirði í Djúpavogshreppi og uppsett afl hennar 60 MW. Að auki er áhugi á að reisa töluvert margar smærri virkjanir að afli á svæðinu.
Í bókun sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar í síðustu viku er lögð á það þung áhersla að unnið verði hratt að skilgreiningu og þróun nýrra kosta í raforkuframleiðslu. Þá verði ferli rammaáætlunar skýrt og hvaða orkukostir séu til nýtingar. „Mikilvægt er að hafa hraðar hendur til að tryggja næga orkuöflun og tefja ekki þau orkuskipti sem völ er á, þannig að hægt verði að mæta þörfum innlends iðnaðar, svo sem fiskimjölsverksmiðja, sem og íbúa landsins.“ Þá er það ekki síður mikilvægt gagnvart framleiðslu á rafeldsneyti, segir í bókunninni, sem sé mikilvægur þáttur í orkuskiptum og liður í aukinni verðmæta- og atvinnusköpun. „Bæjarstjórn Fjarðabyggðar skorar því á stjórnvöld og stofnanir ríkisins að leggjast á eitt til að skapa áðurnefndar aðstæður, gera þannig Íslandi kleift sem fyrst að ljúka orkuskiptum og um leið efla hag lands og þjóðar.“
Á fundi byggðarráðs hins nýja sveitarfélags Múlaþings lá þann 18. janúar fyrir erindi frá Þresti Jónssyni, sveitarstjórnarfulltrúa Miðflokksins, sem vill að sveitarfélagið beiti sér fyrir því að af framkvæmdum við Hamarsvirkjun verði sem fyrst enda að hans mati hagsmunir Múlaþings af því umtalsverðir. Á fundinum lagði Þröstur fram tillögu að bókun um málið þar sem sagði:
„Byggðaráð Múlaþings samþykkir að beina því til sveitarstjórnar að hún sendi ályktun til Umhverfisráðuneytisins þar sem því verði komið á framfæri að sveitarstjórn vilji að úr því verði skorið sem fyrst hvort fáist framkvæmdaleyfi til að reisa allt að 60MW virkjun í Hamarsdal, svo nefnda Hamarsvirkjun. Því verði beint til ráðuneytisins að hraða því ferli, sem mest má vera, að skorið verði úr um hvort Hamarsvirkjun komist í orkunýtingarflokk.“
Ekki var þessi bókun samþykkt en breytingatillaga um málið var það hins vegar. Í henni segir:
„Byggðaráð Múlaþings lýsir yfir áhyggjum sínum af þeirri flóknu stöðu sem uppi er varðandi ferli rammaáætlunar. Ferlinu var m.a. ætlað að greiða úr ágreiningi í samfélaginu um virkjanamál en stöðugar og óásættanlegar tafir hafa orðið til þess að mikil óvissa er uppi varðandi málaflokkinn. Í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í orkumálum er afar mikilvægt að ferlið allt verði tekið til gagngerrar endurskoðunar með það að markmiði að sem fyrst liggi fyrir hvaða virkjanakostir eru færir og hverjir ekki. Tækifæri í atvinnulífi í Múlaþingi og á Austurlandi öllu byggir á því að afhending orku sé trygg og framboð fullnægjandi. Byggðaráð leggur því áherslu á að sem fyrst verði úr því skorið hvaða virkjanakostir í sveitarfélaginu verða í nýtingarflokki og beinir því til sveitarstjórnar að sveitarstjóra verði falið að koma þeim áherslum á framfæri við umhverfisráðuneytið.“
Hamarsvirkjun er hins vegar ekki sem slík í tillögu að þriðja áfanga rammaáætlunar sem bráðlega á að leggja fyrir Alþingi í fjórða sinn á rúmlega fimm árum, af fjórða umhverfisráðherranum. Hún er hins vegar meðal þeirra virkjanakosta sem verkefnisstjórn fjórða áfanga áætlunarinnar fékk til umfjöllunar og meðal þeirra fáu kosta sem lagt var mat á. Niðurstaðan var sú að setja Hamarsvirkjun í biðflokk. Þess ber þó að geta að verkefnisstjórn fjórða áfanga vannst ekki tími vegna margvíslegra tafa, m.a. við afgreiðslu 3. áfanga og afhendingu gagna frá Orkustofnun, til að leggja fram lokatillögu heldur aðeins drög að tillögu. Enn er mikið kynningarferli fyrir höndum samkvæmt núgildandi lögum um rammaáætlun. Ríkisstjórnin stefnir hins vegar að gagngerri endurskoðun laganna.
Hamarsvirkjun er í hópi að minnsta kosti átta virkjana sem fyrirhugaðar eru á vatnasviði Hraunasvæðisins á Austurlandi. Flestar hugmyndirnar gera ráð fyrir innan við 10 MW virkjunum og því þurfa þær ekki að fara í matsferli rammaáætlunar. Þrjár þeirra eru á vegum Arctic Hydro, félags sem er í 40 prósent eigu Benedikts Einarssonar.
Hamarsá á upptök sín í smávötnum og tjörnum á Hraunum og er Hamarsvatn, norður af Þrándarjökli, stærst. Yrði Hamarsvirkjun að veruleika yrði vatni miðlað á tveimur stöðum, annars vegar í Hamarsvatni og svo í inntakslóni í Vesturbót. Við Hamarsvatn yrði gerð þriggja kílómetra löng stífla, mest 15 metra há. Vatninu yrði miðlað í inntakslónið neðar í farvegi árinnar. Þar yrði reist önnur stífla, tæplega kílómetri á lengd. Hún yrði mest fimmtíu metrar á hæð.
Skert og stýrt rennsli í fossum
Frá inntakslóni yrði vatni veitt um aðrennslisgöng að Ytri-Þrándará. Gert er ráð fyrir að veita ánni Morsa og Ytri-Þrándará inn í aðrennslisgöngin og einnig er gert ráð fyrir því að veita efsta hluta af Leirdalsá í Ytri-Þrándará með veituskurði. Stöðvarhús er samkvæmt áformunum fyrirhugað inni í Afréttarfjalli, um 2,3 kílómetra frá Hamarsá.
Samkvæmt skýrslu Arctic Hydro um hugmyndina er talið að helstu umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar yrðu á fossa sem njóta sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum. „Í Hamarsá eru margir fossar og verður stýrt rennsli á fossum frá Hamarsvatni að inntakslóni og skert rennsli í fossum frá inntakslóni að frárennslisgöngum. Einnig verður skert rennsli í fossum í Morsa, Ytri-Þrándará og Leirdalsá.“
Fyrirheit í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar
Virkjanahugmyndir á Hraunasvæðinu eru langt í frá nýjar af nálinni. Þær voru fyrirhugaðar sem hluti af risavaxinni Hrauna- og Jökulsárveitu við upphaf aldarinnar. Sú veita tók m.a. til Kárahnjúka, Eyjabakka og vatnsfalla á Hraunasvæðinu.
„Í aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar og aðliggjandi Hraunaveitna voru gefin fyrirheit um að það þyrfti ekki framar að virkja meir fyrir austan. Nú, aðeins 15 árum síðar, er hins vegar hafið nýtt virkjanaáhlaup á restina af ósnortnum víðernum á hálendi Austurlands og nú undir fölsuðum formerkjum „smávirkjana“ 9,9 MW,“ sagði í bréfi frá Náttúruverndarsamtökum Austurlands og Landvernd sem sent til forsætis-, fjármála- og umhverfisráðherra fyrir tæpum tveimur árum.
Kjarninn hefur undanfarið fjallað um tillögu að þriðja áfanga rammaáætlunar í ljósi þess að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er að finna loforð um að lokið verði við afgreiðslu hans. Því er hins vegar bætt við, í sömu setningu, að kostum í biðflokki verði fjölgað. Frekari útskýringar hafa stjórnvöld ekki gefið á hvað standi til og spurningum Kjarnans til umhverfisráðherra hefur enn ekki verið svarað.
Vegna óvissunnar hafa vaknað spurningar um hvernig afgreiðsla tillögunnar verði. Að fjölga kostum í biðflokki getur aðeins þýtt tvennt: Að kostir verði færðir úr annað hvort verndarflokki eða nýtingarflokki í þann flokk. Nema að hvort tveggja sé. Hægt er að hreyfa við flokkuninni svo lengi sem Orkustofnun hefur ekki gefið út virkjanaleyfi fyrir kosti í nýtingarflokki eða svæði í verndarflokki hafi verið friðlýst.