Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, var gestur Forystusætisins á RÚV fyrir helgi. Þar var hún spurð út í helstu tillögur flokksins í efnahagsmálum, sem snúast meðal annars um að lágmarksframfærsla verði 350 þúsund krónur skatta- og skerðingarlaus.
Þetta kosningaloforð á að fjármagna með því að „færa persónuafslátturinn frá þeim ríku til hinna efnaminni“.
Inga var spurð út í þessa aðgerð í þættinum og sagði að um ákveðið fallandi skattaafsláttarkerfi væri að ræða til að ríkissjóður gæti náð að færa til kostnað svo hægt yrði að ná 350 þúsund króna skatta- og skerðingarlausa markmiðinu. Það þyrfti því ekki að afla nýrra tekna til að ná markmiðinu heldur að færa til fjármuni innan ríkissjóðs.
Inga sagði að persónuafsláttur ætti að byrja að skerðast í ríflega 700 þúsund króna launum á mánuði og þegar fólk væri komið í efsta skattþrep, sem er af tekjum yfir 979.847 krónum á mánuði, þá myndi það ekki vera með neinn persónuafslátt. „Þetta er í rauninni 50-60 milljarðar sem við erum að færa til inni í skattkerfinu sjálfu sem að við teljum að séu mjög glaðir að fá að rétta þetta til fátækara fólks, fjölskyldna og barna sem eru hér standandi í biðröð að betla mat.“
Kostar 168,3 milljarða króna
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að því fyrr á þessu ári hvað það myndi kosta að hækka persónuafslátt svo að 350 þúsund króna mánaðartekjur væru skattfrjálsar.
Samkvæmt svari Bjarna þyrfti persónuafsláttur að vera 78 þúsund krónur á mánuði til þess að mánaðartekjur að 250 þúsund krónum yrðu skattfrjálsar. Slík hækkun myndi kosta ríkissjóð um 88 milljarða króna, sem samsvarar um 45 prósent af álagningu tekjuskatts á einstaklinga í fyrra.
Til þess að mánaðartekjur að 350 þúsund krónum, sem er nálægt lágmarkslaunum, verði skattfrjálsar þyrfti persónuafslátturinn hins vegar að vera 110 þúsund krónur á mánuði. Heildartekjutap ríkissjóðs af því er metið á 168,3 milljarða króna, en það samsvarar 85 prósentum af tekjuskattsstofninum.
Ef horft er til þess þess að einungis lægstu þrjár tíundir skattgreiðenda yrðu skattfrjálsar þá myndi það kosta um 40-50 milljarða króna. Samkvæmt svari Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, við fyrirspurn Ingu í apríl árið 2019, myndu tekjur ríkissjóðs skerðast um 16 milljarða króna ef skerðingar ef frítekjumark lífeyristekna yrði fært í 100 þúsund krónur. Ef það yrði afnumið að öllu myndi kostnaðurinn þó margfaldast.
Til að ná 55 milljarða króna tekjum út úr aðgerðinni þyrftu allir með tekjur frá 676.256 krónum á mánuði og upp að 979.847 þúsund krónum á mánuði að gefa eftir um 45 þúsund krónur á mánuði að jafnaði í persónuafslátt og allir sem eru með yfir seinni töluna gæfu eftir allan persónuafslátt sinn, 50.792 krónur á mánuði. Lægri tekjuhópurinn gæfi því eftir um 540 þúsund krónur á ári og sá hærri tæplega 610 þúsund krónur á ári.
Þessi lækkun myndi þýða 7-8 prósenta samdráttur í kaupmætti allra sem væru með tekjur yfir meðaltekjur.
Hér eru einungis bein áhrif metin af lækkun persónuafsláttar. Af henni gætu líka orðið neikvæð óbein áhrif þar sem fólk gæti dregið úr vinnuframlagi sínu í kjölfar hennar. Því gætum við verið að ofmeta tekjur ríkissjóðs af lækkuninni.
Niðurstaða Staðreyndavaktarinnar
Það kostar líklega um 50-60 milljarða króna að lágmarksframfærsla upp á 350 þúsund krónur verði skatta- og skerðingarlaus, ef miðað er við að skerðingarleysið feli í sér að skerðingar ef frítekjumark lífeyristekna yrði fært í 100 þúsund krónur. Ef skerðingarmörkin yrðu hærri myndi sú upphæð þó hækka mikið.
Inga Sæland var því á réttri leið í Forystusætinu fyrir helgi þegar hún sagði að fallandi persónuafsláttarkerfið sem flokkurinn talar fyrir geti fjármagnað þessa aðgerð og að hægt væri að ná því markmiði með tilfærslu á fjármunum sem þegar renna í ríkissjóð.