Samkvæmt tölum sem Sameinuðu þjóðirnar gáfu út fyrir helgi hafa milljón manns yfirgefið Úkraínu síðan innrás Rússa hófst fyrir rúmlega viku síðan og hefur Evrópusambandið skuldbundið sig til þess að taka við öllum þeim sem þaðan flýja. Talið er að allt að fjórar milljónir muni yfirgefa heimalandið.
Flóttafólk frá Úkraínu flykkist nú yfir landamærin til nágrannaríkja sinna á borð við Pólland, Slóvakíu, Ungverjaland og Moldóvu, auk þess sem nokkur fjöldi hefur brugðið á það ráð að halda til Rússlands og örfáir til Hvíta-Rússlands.
Fjöldi úkraínsks flóttafólks sem leitað hefur til ákveðinna nágrannaríkja samkvæmt SÞ:
Pólland 505,582
Ungverjaland 139,686
Moldóva 97,827
Slóvakía 72,200
Rúmenía 51,261
Rússland 47,800
Hvíta-Rússland 357
Þá er talið að um 90.000 flóttamenn hafi þegar lagt leið sína þaðan til annarra ríkja í Evrópu.
Þrátt fyrir að flóttafólkinu sé ekki skilt að hafa með sér pappíra er mælst er til þess að, hafi það tök á, það hafi með sér vegabréf eða önnur skilríki og fæðingarvottorð barna sem með þeim ferðast, auk heilbrigðisvottorða. Til þess að fá stöðu flóttafólks verður það að hafa úkraínskan ríkisborgararétt eða lögheimili í Úkraínu. Talsvert hefur verið gagnrýnt hvernig komið hefur verið fram við erlenda ríkisborgara í Úkraínu síðan innrás Rússa hófst, en innflytjendum, sérstaklega innflytjendum frá Afríku, hefur verið meinaður aðgangur að almenningssamgöngum sem flytja borgara í burtu frá átakasvæðum, auk þess sem þeir hafa lent í vandræðum þegar þeir reyna að komast yfir landamærin til annarra ríkja.
Í Póllandi, sem og öðrum nágrannaríkjum Úkraínu, getur flóttafólk svo haft aðsetur í sérstökum móttökustöðvum hafi það ekki ættingja eða vini til að leita húsaskjóls hjá. Þar fá þeir mat og heilbrigðisþjónustu. Í Ungverjalandi og Rúmeníu fær flóttafólkið fjárhagsaðstoð til matarinnkaupa, auk þess sem börn á flótta frá Úkraínu komast í skóla á svæðinu. Í Tékklandi fær flóttafólk frá Úkraínu sérstaka vegabréfsáritun sem gefur þeim landvistarleyfi.
Pólland og Slóvakía hafa þegar biðlað til Evrópusambandsins um aðstoð vegna þess fjölda flóttafólks sem þangað streymir. Þýskaland og Grikkland hafa þegar brugðist við með því að senda tjöld, teppi og grímur til Slóvakíu, auk þess sem Frakkland hefur sent lyf og annan heilbrigðisbúnað til Póllands.
Fjöldavernd
Evrópusambandið undirbýr nú reglugerð sem mun gefa öllum Úkraínumönnum sem flýja Úkraínu sérstaka fjöldavernd þar sem þeir fá réttindi til að búa og starfa innan aðildarríkjanna 27 í allt að þrjú ár. Þá hljóti þeir jafnframt réttindi til framfærslustyrkja, húsnæðisaðstoðar, heilbrigðisþjónustu og menntunar barna. Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra Íslands, ætlar að fylgja í fótspor Evrópusambandsins með því að virkja 44. grein útlendingalaga, sem heimilar fjöldavernd flóttamanna frá tilteknum svæðum, að því er fram kom í samtali hans við mbl.is í vikunni.
Þá ætla Bandaríkin einnig að veita flóttafólki frá Úkraínu samskonar vernd til 18 mánaða.