Kínverska tenniskonan Peng Shuai birti ítarlega færslu á samfélagsmiðlinum Weibo, sem svipar til Facebook og Instagram, 2. nóvember þar sem hún lýsir því hvernig Zhang Gaoli þvingaði hana til kynmaka árið 2018. Peng er með um 600 þúsund fylgjendur á Weibo og vakti færslan gríðarlega athygli þó svo að hún hafi horfið örfáuum mínútum eftir birtingu. Peng, sem er 35 ára, vakti heimsathygli árið 2014 þegar hún vann Opna franska meistaramótið í tvíliðaleik. Síðan þá hefur hún unnið fjölda titla á hinum ýmsu stórmótum.
„Ég hataði sjálfa mig“
Peng lýsir því að hún hafi borið tilfinningar til hans og eyddu þau tíma saman við og við frá 2018 þar til Peng ákvað að stíga fram í byrjun nóvember og greina frá nauðguninni. „Ég hataði sjálfa mig, hataði tilveru mína í þessum heimi og að þurfa að upplifa þennan hrylling. Þú sagðir mér að þú elskaðir mig, elskaðir mig heitt, og að þú vonaðir að í næsta lífi myndum við hittast sem 18 og 20 ára,“ skrifar Peng, en 40 ára aldursmunur er á henni og varaforsetanum fyrrverandi.
Færslunni var eytt nokkrum mínútum eftir að Shuai birti hana en skjáskot af færslunni hafa dreifst víða. Degi síðar var nánast ekkert hægt að finna um Peng Shuai á internetinu í Kína, en það sem meira var, Peng Shuai virtist einnig hafa horfið úr raunheimum.
Tennisstjörnur krefjast svara
Engin viðbrögð bárust frá kínverskum yfirvöldum en eftir því sem alþjóðlegur þrýstingur jókst gáfu Samtök kvenna í tennis, WTA, út yfirlýsingu þar sem þess er krafist að ásökun Peng á hendur Zang verði rannsökuð með réttlátum og gagnsæjum hætti. Tennisstjörnur hvaðanæva að kröfðust einnig svara og aðgerða. Billie Jean King, helsta tennisstjarna Bandaríkjanna á 7. og 8. áratugnum, var með þeim fyrstu sem birti færslu á Twitter þar sem hún segist vona að Shuai sé örugg og að ásakanirnar verði rannsakaðar. Fleiri tennisstjörnur tjáðu sig í kjölfarið og lýsa þau öll áfallinu sem fréttir af hvarfi Peng eru. Þeirra á meðal er Naomi Osaka, fremsta tenniskona Japans, sem hefur meðal annars nýtt Twitter til að tjá sig um andleg málefni. „Ritskoðun er aldrei í lagi. Ég vona að Peng Shuai og fjölskylda hennar séu örugg og líði vel.“
. #WhereIsPengShuai pic.twitter.com/51qcyDtzLq
— NaomiOsaka大坂なおみ (@naomiosaka) November 16, 2021
Fremsti tennisspilari heims í dag í karlaflokki, Novak Djokovic, tjáði sig um málið á blaðamannafundi í vikunni. „Í hreinskilni sagt er það áfall að hún sé horfin. Þetta er einhver sem ég hef séð í keppnum á undanförnum árum,“ sagði Djokoviz.
Yfirvöld í Kína hafa verið innt eftir viðbrögðum við hvert tækifæri. Zhao Lijan, talsmaður utanríkisráðuneytis Kína, sagðist ekki hafa heyrt af málinu aðspurður á blaðamannafundi. „Svar mitt er einfalt. Þetta er ekki utanríkismál og ég hef ekkert heyrt um þetta,“ bætti hann við.
„Hæ allir þetta er Peng Shuai“
Á miðvikudaginn, 17. nóvember, birti ríkisfjölmiðillinn CGTN tölvupóst sem Peng á að hafa sent frá sér. Þar segir að hún sé örugg og að ásakanirnar sem birtust á Weibo séu ekki sannar. Trúverðugleiki tölvupóstsins, það er að hann komi í raun og veru frá Peng, hefur stórlega verið dreginn í efa. Ávarp Shuai í upphafi, „Hæ allir þetta er Peng Shuai“ þykir gefa til kynna að ekki sé allt með felldu. Í póstinum segir Peng að hún sé örugg og hafi bara verið heima að hvíla sig.
Chinese tennis star Peng Shuai has sent an email to Steve Simon, the WTA Chairman & CEO, CGTN has learned. The email reads: pic.twitter.com/uLi6Zd2jDI
— CGTN (@CGTNOfficial) November 17, 2021
Steve Simon, framkvæmdastjóri Samtaka kvenna í tennis, segist áhyggjufullur og óttast um öryggi Shuai og að hann eigi erfitt með að trúa að tölvupósturinn sé í raun og veru frá henni. „Peng Shuai sýndi ótrúlegt hugrekki þegar hún ásakaði fyrrverandi háttsettan embættismann um kynferðisbrot. Samtök kvenna í tennis og heimurinn allur þarf raunverulega sönnun um öryggi hennar,“ segir Simon í yfirlýsingu sem hann birti fljótlega eftir að tölvupósturinn var birtur í kínverskum fjölmiðlum. Þar segir einnig að hann hafi ítrekað reynt að hafa samband við hana eftir ýmsum leiðum en án árangurs. „Raddir kvenna verða að fá að heyrast,“ sagði Simon jafnframt.
Á föstudaginn sagðist Simon vera reiðubúinn að slíta öllum viðskiptatengslum við Kína finnist Peng ekki brátt og krefst hann Zhang sæti rannsókn vegna ásakananna.. „Við erum algjörlega tilbúin að hætta öllum viðskiptum og taka afleiðingunum sem fylgja,“ sagði Simon. Slit á viðskiptatengslum fela meðal annars í sér að engar tenniskonur sem tilheyra samtökunum munu taka þátt á mótum í Kína og WTA mun ekki halda nein mót þar í landi. „Af því að þetta snýst vissulega um meira en viðskiptin. Konur eiga að njóta virðingar, ekki ritskoðunar,“ sagði Simon.
Fleiri tenniskonur hafa stigið fram undir myllumerkinu #WhereIsPengShuai og krefjast réttlætis og upplýsinga um öryggi Peng. „Ég vona að hún sé örugg og finnist sem fyrst. Rannsókn verður að fara fram og við megum ekki vera þögul,“ sagðiSerena Williams í færslu á Twitter.
Trúverðugleiki myndskeiða á veitingastað og tennismóti barna dreginn í efa
I am devastated and shocked to hear about the news of my peer, Peng Shuai. I hope she is safe and found as soon as possible. This must be investigated and we must not stay silent. Sending love to her and her family during this incredibly difficult time. #whereispengshuai pic.twitter.com/GZG3zLTSC6
— Serena Williams (@serenawilliams) November 18, 2021
Í gær birti Hu Xijin, ritstjóri Global Times, ríkisrekins fjölmiðils, tvö myndskeið þar sem Peng bregður fyrir, annars vegar á veitingastað og hins vegar á úrslitum Fila-barnamótsins í tennis. Trúverðugleiki myndskeiðanna hefur verið dreginn í efa, ekki síst þar sem á öðru þeirra er mikið gert úr hvaða dagur sé. Simon, framkvæmdastjóri kvenna í tennis, segist í enn einni yfirlýsingu vera glaður að sjá Peng á myndskeiðunum en það sé enn óljóst hvort hún sé í raun frjáls ferða sinna. „Ég hef verið skýr varðandi hvað þarf að gerast og samband okkar við Kína er á krossgötum,“ segir í yfirlýsingu Simon.
I acquired two video clips, which show Peng Shuai was having dinner with her coach and friends in a restaurant. The video content clearly shows they are shot on Saturday Beijing time. pic.twitter.com/HxuwB5TfBk
— Hu Xijin 胡锡进 (@HuXijin_GT) November 20, 2021
Peng Shuai showed up at the opening ceremony of a teenager tennis match final in Beijing on Sunday morning. Global Times photo reporter Cui Meng captured her at scene. pic.twitter.com/7wlBcTMgGy
— Hu Xijin 胡锡进 (@HuXijin_GT) November 21, 2021
Viðbrögð stjórnvalda í takt við þöggun á #metoo
Viðbrögð, eða viðbragðsleysi öllu heldur, kínverskra yfirvalda koma ekki gríðarlega á óvart en hafa valdið gríðarlegri reiði. Þöggun stjórnvalda eru í takt við viðbrögð við #metoo-byltingunni sem kínversk yfirvöld hafa ítrekað reynt að kveða niður þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir kvenna til að stíga fram og greina frá kynferðisofbeldi og kynferðislegri áreitni. Peng er fyrsta konan sem ásakar háttsettan stjórnmálamann um kynferðisofbeldi en ekki sú fyrsta sem setur fram ásakanir á hendur þjóðþekktum einstaklingi.
Árið 2018 steig hin 28 ára gamla Zhou Xiaoxuan fram og ásakaði Zhu Jun, vinsælan sjónvarpsmann hjá kínverska ríkissjónvarpinu, um kynferðisbrot, en hún var 21 árs þegar brotin áttu sér stað. Hún greindi frá brotum sjónvarpsmannsins í þrjú þúsund orða færslu á Weibo og er frásögn hennar talin marka upphaf #metoo-bylgjunnar í Kína. Xianzi, eins og hún er betur þekkt á samfélagsmiðlum, kærði Zhu en eftir að hafa velkst um í kerfinu í þrjú ár var málið fellt niður í september, meðal annars þar sem ásakanir Xianzi hafi ekki fullnægt kröfum um sönnunarbyrði.
Ef Peng Shuai kom ekki nálægt tölvupóstinum, eins og flest virðist benda til, hvar í veröldinni er hún þá?
„Hvarf af þessu tagi er aldrei góðs viti í Kína,“ segir Isabel Hilton, sérfræðingur í málefnum Kína og gestaprófessor við LAB China Institute, sem telur áhyggjur af skyndilegu brotthvarfi Shuai réttlætanlegar. Á meðan engar raunverulegar fregnir berast af samastað Peng Shuai eða líðan hennar er ljóst að áhyggjurnar munu ekki hverfa.