Tíu staðreyndir um skoðun íslensku þjóðarinnar á sölu ríkisstjórnar á Íslandsbanka
Þann 22. mars seldi íslenska ríkið 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka í lokuðu útboði til 207 fjárfesta á 52,65 milljarða króna. Kannanir hafa verið gerðar um skoðun þjóðarinnar á bankasölu og aðrar sem sýna hverjar pólitískar afleiðingar þeirrar óánægju sem ríkir með hana eru.
1. Þorri Íslendinga fylgjandi því að ríkið eigi banka
Starfshópur sem vann Hvítbók um framtíðarsýn fjármálakerfisins, sem birt var í desember 2018, lét gera ýmsar kannanir fyrir sig við gerð hennar. Þar var meðal annars spurt um hvort fólk væri jákvætt gagnvart því að íslenska ríkið væri eigandi viðskiptabanka. Alls svöruðu 61,2 prósent því játandi, 13,5 prósent neitandi en 25,2 prósent sögðust ekki hafa sérstaka skoðun á því.
2. Hræðsla við spillingu, græðgi og slæm endalok
Í sömu könnun var fólk spurt hver væri helsta ástæða þess að það væri jákvætt gagnvart því að ríkið sé eigandi viðskiptabanka. Algengustu svörin voru þau að ríkið væri betri eigandi en einkaaðili, að slíku eignarhaldi fylgdi öryggi og traust, að arðurinn af fjármálastarfsemi myndi þá fara til þjóðarinnar og að minni líkur væru á spillingu, græðgi og slæmum endalokum. Í könnuninni kom einnig fram að flestir Íslendingar óskuðu þess að bankakerfi framtíðar yrði sanngjarnt og réttlátt, traust, með góða þjónustu, hagkvæmt, heiðarlegt, gagnsætt og fyrir almenning.
Svo sögðust einungis 16 prósent landsmanna treysta bankakerfinu, sem þó var á þeim tíma og er enn, að langstærstu leyti í eigu íslensku þjóðarinnar. Og 57 prósent sögðust alls ekki treysta því. Í könnun sem Gallup gerði í byrjun árs 2022 hafði hlutfall þeirra sem treysti bankakerfinu vaxið upp í 23 prósent, en það var samt á niðurleið á ný og það næst minnsta sem mældist gagnvart stofnun eða kerfi sem spurt var um.
3. Næstum níu af hverjum tíu telja að illa hafi verið staðið að sölunni
Í könnun sem Gallup birti í vikunni kom fram að 87,2 prósent landsmanna telja að staðið hafi verið illa að útboði og sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka í síðasta mánuði. Einungis 6,4 prósent telja að það hafi vel tekist til. Aðspurðir sem eru 60 ára eða eldri voru líklegastir til að þykja salan hafa heppnast vel, en ellefu prósent þeirra var á þeirri skoðun. Þegar horft er á menntun vour þeir sem eru með háskólapróf ólíklegastir til að vera ánægðir með hvernig tókst til, en einungis fjögur prósent þeirra eru á þeirri skoðun. Kjósendur allra annarra flokka en Sjálfstæðisflokks voru nær alfarið á því að útboðið og salan hefði verið klúður, eða 89 til 97 prósent þeirra. Hjá kjósendum flokks Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, var staðan önnur. Þar töldu 26 prósent að útboðið og salan á hlutnum í Íslandsbanka hefði verið vel heppnuð en 62 prósent að illa hefði tekist til.
4. Kjósendur allra annara flokka en Sjálfstæðisflokks vilja rannsóknarnefnd
Gallup spurði einnig að því hvort rannsóknarnefnd Alþingis ætti að gera úttekt á sölunni, líkt og þorri stjórnarandstöðunnar hefur lagt til. Niðurstaðan þar var sú að 73,6 prósent landsmanna telur að það eigi að skipa rannsóknarnefnd en 26,4 prósent telur nægjanlegt að Ríkisendurskoðun geri úttekt á sölunni, líkt og fjármála- og efnahagsráðherra hefur þegar falið henni að gera. Aftur skera kjósendur Sjálfstæðisflokksins sig úr þegar kemur að þessu, en 74 prósent þeirra er á því að úttekt Ríkisendurskoðunar nægi. Tæplega þriðjungur kjósenda hinna stjórnarflokkanna er á þeirri skoðun en um tveir þriðju á því að skipa þurfi rannsóknarnefnd. Ekki þarf að koma á óvart að kjósendur stjórnarandstöðuflokka eru nær allir á því að rannsóknarnefnd sé nauðsynleg.
5. Átta af hverjum tíu sjálfstæðismönnum telja að lög hafi ekki verið brotin
Í könnun Gallup var líka spurt hvort fólk telji að lög hefðu verið brotin við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Mikill meirihluti landsmanna, 68,3 prósent, telja að söluferlið hafi falið í sér lögbrot, en 31,7 prósent að svo sé ekki. Athygli vekur að 77 prósent kjósenda Vinstri grænna telja að lög hafi verið brotin og 67 prósent kjósenda Framsóknarflokksins. Þegar kemur að kjósendum þriðja stjórnarflokksins snýst staðan að venju við, en 77 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru sannfærðir um að engin lög hafi verið brotin.
6. Næstum níu af hverjum tíu telja að óeðlilegir viðskiptahættir hafi verið viðhafðir
Aðspurð hvort óeðlilegir viðskiptahættir hafi verið viðhafðir við söluna sögðu 88,4 prósent svarenda svo vera. Einungis 11,6 prósent töldu viðskiptahættina hafa verið eðlilega.
Nær allir kjósendur annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins (89 til 99 prósent) telja söluna hafa verið framkvæmda með óeðlilegum viðskiptaháttum, en 41 prósent stuðningsmanna flokks fjármála- og efnahagsráðherra telja að eðlilegum háttum hafi verið beitt.
7. Alls 83 prósent óánægð með söluna á Íslandsbanka
Áður hafði Prósent gerð könnun um söluna á Íslandsbanka fyrir Fréttablaðið, en niðurstöður hennar voru birtar 20. apríl. Þar kom fram að rúmlega átta af hverjum tíu landsmönnum, alls 83 prósent aðspurðra, segjast óánægð með fyrirkomulag á sölu. Einungis sjö prósent voru ánægð og þar af þrjú prósent mjög ánægð. Athygli vakti að nánast allir hópar samfélagsins virðast jafn óánægðir með söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Í Fréttablaðinu sagði að það sé nánast enginn marktækur munur er á afstöðu fólks er kemur að kyni, aldri, búsetu, tekjum eða menntun.
Þeir sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn voru þó marktækt ánægðari með söluna en kjósendur annarra flokka, samkvæmt könnun Prósents. Alls sögðust 30 prósent þeirra að þeir væru ánægðir með hana en 44 prósent sögðust óánægðir. Til samanburðar mældist óánægja með söluna að minnsta 78 prósent á meðal kjósenda allra annarra flokka í landinu. Hjá hinum stjórnarflokkunum, Vinstri grænum og Framsókn, var vart mælanleg ánægja með söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Einungis eitt prósent kjósenda Vinstri grænna, flokks Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, sögðust ánægð með söluna og fimm prósent kjósenda Framsóknar, flokks Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra.
8. Traust á leiðtoga stjórnarinnar hrunið og 71 prósent vantreysta Bjarna
Hvernig til tókst með söluna á Íslandsbanka hefur haft umtalsverðar pólitískar afleiðingar. Í könnun sem Maskína gerði um traust til ráðherra kom í ljós að traust á helstu ráðamenn þjóðarinnar hefur hríðfallið á skömmum tíma. Frá því í desember 2021 og fram í apríl 2022 hefur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tapað fjórðungi þess trausts sem hún mældist með fyrir nokkrum mánuðum og fjöldi þeirra sem vantreysta henni hefur næstum tvöfaldast.
Traust á Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra hefur hrunið um næstum 40 prósent og fjöldi þeirra sem vantreysta honum hefur rúmlega tvöfaldast. Verst hefur þó Bjarni Benediktsson farið út úr aðstæðunum, en í könnun Maskínu kom fram að 71 prósent landsmanna vantreysta honum. Vantraustið á formann Sjálfstæðisflokksins hefur aukist um 27 prósentustig frá því í desember og hann hefur aldrei verið óvinsælli frá því að hann hóf stjórnmálaþátttöku.
9. Ríkisstjórnin kolfallin og allir vel undir kjörfylgi
Afleiðingarnar birtast líka í fylgi stjórnarflokkanna á landsvísu. Í könnun Prósents sem birt var í vikunni kom fram að ríkisstjórnin væri kolfallin, að þingmannafjöldi hennar myndi skreppa saman um tólf ef kosið yrði í dag og að samanlagt fylgi flokkanna þriggja sem að henni standa myndi ekki ná 40 prósent.
Mestu fylgi tapar Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra. Hann mælist með 17,9 prósent fylgi sem myndi skila tólf þingmönnum. Flokkurinn fékk 24,4 prósent atkvæða í kosningunum 2021 og tapar því 6,5 prósentustigum. Það er í fyrsta sinn sem Sjálfstæðisflokkurinn mælist með undir 18 prósent fylgi í stórri fylgiskönnun.
Hinir stjórnarflokkarnir tveir tapa líka miklu fylgi. Framsóknarflokkurinn hefur tapað 4,9 prósentustigum frá kosningunum í fyrrahaust og mælist með 12,4 prósent fylgi. Vinstri græn, flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, mælist með 9,6 prósent fylgi sem er þremur prósentustigum minna en þau fengu upp úr kjörkössunum í september 2021.
10. Áhrif bankasölunnar sýnileg í baráttunni um borgina
Þótt það hafi verið ríkisstjórnin sem seldi hlutinn í Íslandsbanka þá teygja áhrif óánægjunnar vegna sölunnar sig líka yfir í sveitarstjórnarmálin, en þar verður kosið eftir sléttar tvær vikur. Í nýjustu kosningaspá Kjarnans kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík sé að tapa fylgi hratt, en fylgi hans mælist nú 21,9 prósent. Það er 8,9 prósentustigum minna en flokkurinn fékk í kosningunum 2018. Framsóknarflokkurinn mælist með 12,6 prósent fylgi í höfuðborginni, sem er mikil bæting frá því sem hann fékk í borgarstjórnarkosningunum 2018 og svipað og flokkurinn fékk í Reykjavíkurkjördæmunum í þingkosningunum í fyrrahaust. Vinstri græn mælast með einungis 6,2 prósent fylgi, sem er betra en 2018 en langt frá því fylgi sem flokkurinn fékk í Reykjavík í síðustu kosningum til Alþingis. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna í höfuðborginni mælist nú 40,7 prósent, sem er nánast sama sameiginlega fylgi og þeir njóta á landsvísu.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
3. desember 2022Var Ríkisendurskoðun að misskilja eða veitti Bankasýslan ráðherra ekki réttar upplýsingar?
-
1. desember 2022Íslandsbanki segir ekki hversu margir fengu flokkun sem hæfir fjárfestar á meðan að á útboðinu stóð
-
30. nóvember 2022„Það var mjög óheppilegt að náinn ættingi hafi verið í þessum kaupendahópi“
-
25. nóvember 2022Yfir 60 prósent treysta ekki stjórninni til að selja Íslandsbanka og vilja rannsóknarnefnd
-
24. nóvember 2022„Ríkisendurskoðun hafnar aðdróttunum ákveðinna fjölmiðla um annarleg sjónarmið“
-
21. nóvember 2022Spyr Bjarna hvort Fjármálaeftirlitið hafi lagaheimildir til að rannsaka Bjarna
-
21. nóvember 2022Ekki í fyrsta sinn sem ríkisbanki, Ríkisendurskoðun og Bankasýslan fara í hár saman
-
18. nóvember 2022Vill að Katrín mæti fyrir fjárlaganefnd og geri grein fyrir næstu skrefum í bankasölu
-
17. nóvember 2022Sögðu Sjálfstæðisflokkinn bara vilja ræða leka, ekki bankasöluna eða skýrsluna um hana