Neyðarstig. Hættustig. Óvissustig. Þrjú orð sem heyrst hafa reglulega síðustu misseri í boði almannavarna, ekki síst vegna kórónuveirufaraldursins en einnig vegna náttúruvár af ýmsu tagi.
Síðastliðin tvö ár hefur neyðarstigi almannavarna fimm sinnum verið lýst yfir, fjórum sinnum vegna COVID-19 og einu sinni vegna eldgoss í Geldingadölum. Hættu- og óvissustigin eru auk þess fjölmörg og dæmi eru um að mismunandi stig hafi verið í gildi samtímis. Í dag er til að mynda í gildi neyðarstig vegna COVID-19 og óvissustig vegna landriss í Öskju.
„Fólk er þreytt, ég held að það sé óhætt að segja það, og þá verða minni viðbrögð yfirhöfuð. Þegar við erum undir miklu álagi og streitu förum við að bregðast minna við, bæði líffræðilegt og tilfinningalegt viðbragð verður minna.“
Tómas segir einnig að fólk sé almennt orðið vant ástandinu. Þegar neyðarástandi var fyrst lýst yfir í mars 2020 hafði það líklega meiri áhrif á daglegt líf fólks en það gerir nú. „Fólk hefur minni áhyggjur og óttast minna að þetta sé að fara að hafa bein áhrif á þeirra daglega líf,“ segir Tómas, sem líkir ástandinu við þegar reykskynjari eða brunakerfi fer í gang á hverjum degi. „Eftir nokkra daga hættir þú að hlaupa fram á gang sem er auðvitað ekki gott til lengri tíma ef að kviknar í.“
Óvissu-, hættu- eða neyðarstig í 22 mánuði
Óvissu-, hættu- eða neyðarstig vegna COVID-19 hefur verið í gildi í 22 mánuði og segir Tómas að við breytingu á milli stiga aukist óvissan, sem ýtir undir streitu sem getur ýtt undir kvíða eða depurð. „En ég held samt að mjög margir geri lítinn greinarmun á þessum stigum því fyrir mjög marga er þetta mjög óljóst hvað þetta þýðir fyrir okkur í okkar daglega lífi.“
Stigsmunurinn skiptir fyrst og fremst máli fyrir viðbragðsaðila. Þegar óvissustig er í gildi er atburðarás „hafin og ætla má að geti leitt til þess að öryggi fólks og/eða byggðar sé stefnt í hættu. Á þessu stigi hefst samráð milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar“. Hættustigi er lýst yfir ef hættumat leiðir í ljós að hætta fer vaxandi, til dæmis ef auka þarf viðbúnað og sóttvarnaráðstafanir vegna yfirvofandi farsóttar. Hæsta alvarleikastig almannavarna er neyðarstig og einkennist af „tafarlausum aðgerðum til lífsbjargandi aðstoðar“.
Af þessum lýsingum má greina að hvert stig hefur í raun óveruleg áhrif á daglegt líf fólks en stigunum fylgir ákveðin óvissa sem getur valdið óþægindum en Tómas segir að óvissan geti á sama tíma verið verndandi. „Við gerum ekki greinarmun á stigunum en auðvitað þegar þetta er stöðugt í fréttum og það er alltaf verið að lýsa yfir breytingum á reglum og hættustigum ýtir undir óvissu og óöryggi og hefur ekki góð áhrif til lengri tíma.“
Á sama tíma og neyðar-, hættu- eða óvissustig almannavarna hefur verið í gildi síðustu tvö ár hefur náttúruvá af ýmsu tagi, allt frá eldgosi til óveðurs, orðið til þess að almannavarnir hafa lýst yfir óvissu- eða hættustigi og einu sinni, þegar eldgos hófst í Geldingadölum í mars í fyrra, neyðarstigi. Það er því orðið eins konar óbreytt ástand landsmanna að búa við einhvers konar alvarleikastig.
„Með tímanum, því oftar sem því er lýst yfir, förum við að leiða það hjá okkur sem er kannski gott fyrir andlega líðan akkúrat á því augnabliki en ekki gott ef það krefst þess að við bregðumst við,“ segir Tómas.
Faraldurinn ýtti undir vandamál sem voru þegar til staðar
Á þeim tæpu tveimur árum sem liðin eru frá því að kórónuveirufaraldurinn lét á sér kræla hér á landi hefur þeim fjölgað sem leita til Kvíðameðferðarstöðvarinnar. Tómas segist fyrirfram hafa búist við því að heilsukvíði og kvíði gegn COVID yrði helsta viðfangsefni sálfræðinga en svo er ekki, faraldurinn hafi frekar ýtt undir vandamál sem voru þegar til staðar. Þannig hafi til dæmis þau sem glíma við áhyggjuvanda fundið fyrir meiri áhyggjum og þunglyndi og félagskvíði aukist.
„Það sem var undirliggjandi brýst fram en kvíði við COVID hefur ekki komið mikið inn á borð okkar ennþá, en það breytist kannski þegar ógnin er farin. Kvíði í grunninn er þegar við skynjum einhverja ógn og er mjög gott og hjálplegt viðbragð þegar það er ógn fyrir framan okkur og hjálpar okkur að bregðast við. Og núna er COVID fyrir framan okkur og það er að mörgu leyti mjög eðlilegt að það sé kvíði en svo kemur vandinn kannski meira í ljós þegar ástandið er liðið hjá. Ákveðinn hluti fólks mun sitja eftir með kvíðann, óöryggið og áhyggjurnar.“
„Finnum leiðir til að lifa fjölbreyttu og innihaldsríku lífi“
Sóttvarnareglur voru hertar í enn eitt skiptið fyrir helgi og hafa sjaldan verið jafn harðar og nú. Aðspurður hvernig er best að bregðast ástandinu, sem virðist engan enda ætla að taka, segir Tómas grunnskilaboðin alltaf vera þau sömu, að einblína á það sem við höfum stjórn á.
„Við höfum ekki stjórn á því hvenær þetta er búið eða hvaða aðgerðir eru í gangi hverju sinni. Við höfum stjórn á að sinna okkar persónulegu sóttvörnum og sjá til þess að við hættum ekki að lifa lífinu. Við finnum leiðir til að lifa fjölbreyttu og innihaldsríku lífi í stað þess að einangrast og detta í vanvirkni.“