Velta með bréf í Íslandsbanka þurrkaðist upp á sama tíma og enginn átti að vita af yfirvofandi sölu
Bankasýsla ríkisins fullyrðir að ekkert hafi lekið út um að til stæði að selja stóran hlut í Íslandsbanka eftir að hún hafði veitt 26 fjárfestum innherjaupplýsingar um það. Ríkisendurskoðun taldi nauðsynlegt að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um hrun á veltu með bréf í Íslandsbanka síðustu fjóra viðskiptadaga áður en söluferlið var formlega sett af stað.
Velta með hlutabréf í Íslandsbanka var nánast engin síðustu tvo daganna áður en að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tilkynnti um það eftir lokun markaða þann 18. mars 2022 að ríkið myndi selja hlut í bankanum næst þegar markaðsaðstæður yrði hagstæðar. Daganna á undan, þann 15. og 16. mars, hafði verið nálægt fimm milljarða króna velta með bréf í bankanum daglega. Þrátt fyrir að velta með bréf Íslandsbanka hafi hrunið þessa daga í mars þá voru umtalsverð viðskipti með bréf í Arion banka, sem er svipaður að stærð og umfangi og Íslandsbanki.
Þann 21. mars, sem var mánudagur, var ákveðið að hefja markaðsþreifingar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka og láta nokkra aðila fá innherjaupplýsingar um söluna. Það var á ábyrgð og forræði Bankasýslu ríkisins að gera það. Hún hefur fullyrt að ekkert hafi lekið út um söluáformin fyrr en tilkynnt var um þau opinberlega eftir lokun markaða daginn eftir, þann 22. mars. Samt sem áður voru viðskipti með bréf í Íslandsbanka lítil sem engin daganna tvo eftir að Bankasýslan greindi völdum fjárfestum frá því að til stæði að selja ríkisbanka, á sama tíma og velta með bréf í Arion banka var áfram umtalsverð.
Þegar Ríkisendurskoðun áttaði sig á þessari stöðu, að velta með bréf í Íslandsbanka hefði dregist svona mikið saman sitthvoru megin við helgina áður en 22,5 prósent hlutur í Íslandsbanka var seldur til 207 fjárfesta í lokuðu útboði með tilboðsfyrirkomulagi, þá taldi stofnunin að hún þyrfti að vekja athygli Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands á þessu. Það gerði hún á fundi í ágúst síðastliðnum.
Frá þessu er greint í skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka sem birt var opinberlega í morgun, í kjölfar umfjöllunar Kjarnans og fleiri fjölmiðla um efni hennar.
Markaðsþreifingar hófust á mánudagsmorgun
Þegar eign er seld með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi er áhugi fjárfesta á þátttöku kannaður með svokölluðum markaðsþreifingum. Í þeim felst að tilteknir fjárfestar, jafnt innlendir sem erlendis, fá innherjaupplýsingar um mögulega sölu að því gefnu að þeir undirgangist ákveðin skilyrði. Á meðal þeirra skilyrða er að þeir eigi ekki í viðskiptum með hluti í félaginu á meðan að þreifingar standa yfir og að þeir gæti viðeigandi trúnaðar.
Markaðsþreifingar vegna sölunnar í Íslandsbanka hófust að morgni mánudagsins 21. mars, degi áður en hluturinn var seldur. Þá var var haldinn símafundur Bankasýslu ríkisins, fjármálaráðgjafa stofnunarinnar STJ Advisors, og umsjónaraðila söluferlisins, Citigroup Global Markets Europe AG, J.P. Morgan SE og Íslandsbanka., varðandi hugsanlega sölu á hlutum í Íslandsbanka. Tilgangur markaðsþreifinganna átti að vera að byggja upp magneftirspurn eftir hlutum. Í kjölfar fundarins átti Bankasýslan annan símafund með STJ Advisors sem samsinnti tillögum um að hefja þreifingarnar.
Þekking Bankasýslunnar takmörkuð
Stjórn Bankasýslu ríkisins fundaði kl. 11:00 sama dag og samþykkti að tilteknum innlendum og erlendum aðilum yrðu veittar innherjaupplýsingar um mögulega sölu að því gefnu að þeir undirgengust skilyrði um trúnað og viðskiptabann. Bankasýslan sendi fjármála- og efnahagsráðuneyti tölvupóst í kjölfarið þar sem greint var frá framvindu málsins.
Lestu allt um skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka:
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að markaðsþreifingar dagana 21. og 22. mars 2022 hafi verið á hendi umsjónaraðilanna þriggja, Citigroup, JP Morgan og Íslandsbanka. Bankasýslan hafði fram að því, samkvæmt skýrslunni, enga reynslu af markaðsþreifingum í tilboðsfyrirkomulagi og var þekking hennar á ferlinu takmörkuð. „Gögn málsins sýna að vikurnar fyrir sölu þurfti stofnunin að leita skýringa hjá fjármálaráðgjafa sínum sem vörðuðu ýmis grundvallaratriði sem fólgin eru í söluaðferðinni, þ.m.t. um markaðsþreifingar. Það er athyglisvert í ljósi þeirrar miklu áherslu sem stofnunin lagði á að söluaðferðinni yrði beitt þegar áform hennar voru fyrst kynnt í janúar 2022. Gögn sem Ríkisendurskoðun aflaði við úttekt þessa sýna að Bankasýslan var mjög háð utanaðkomandi ráðgjöf í söluferlinu öllu.“
Alls 26 fjárfestar fengu innherjaupplýsingar
Við gerð úttektar sinnar óskaði Ríkisendurskoðun eftir upplýsingum frá Bankasýslu ríkisins um þá fjárfesta sem leitað var til við markaðsþreifingar og hvernig þeir voru valdir, trúnaðaryfirlýsingar þeirra og samskipti við þá. „Athygli vakti að Bankasýslan þurfti að óska eftir umræddum upplýsingum frá umsjónaraðilum söluferlisins en bjó ekki yfir þeim sjálf. Alls var um að ræða 26 fjárfesta.“
Eftir að markaðsþreifingar hófust var sú hætta fyrir hendi að upplýsingar um áform Bankasýslunnar um að selja 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka myndu leka út á markað áður en endanleg ákvörðun um sölu væri tekin.
Í svörum Bankasýslunnar við fyrirspurnum Ríkisendurskoðunar kom fram að af þeim sökum hafi einungis verið ráðist í þreifingar meðal stórra innlendra eftirlitsskylda aðila, sem voru sjö af stærstu lífeyrissjóðum landsins. „Hefðu þær náð til fleiri aðila hefði hætta á leka aukist en einnig var sú hætta fyrir hendi að seljanleiki hlutabréfa á markaði hefði raskast ef margir og stórir þátttakendur á markaði hefðu samþykkt að undirgangast skilyrði um að eiga ekki viðskipti með bréfin á meðan á ferlinu stóð.“
Fullyrt að ekkert hafi lekið en samt tilkynnt til FME
Bankasýsla ríkisins hefur fullyrt að engar upplýsingar um fyrirætlanir hennar hafi lekið út fyrir opinbera tilkynningu stofnunarinnar til Kauphallar Íslands um söluna, eftir lokun markaða þann 22. mars. Sá angi málsins sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og er ekki undir í úttekt Ríkisendurskoðunar.
Í skýrslunni kemur hins vegar fram að Ríkisendurskoðun hafi séð tilefni til að vekja athygli Fjármálaeftirlitsins á því í ágúst 2022 að velta með bréf Íslandsbanka dróst verulega saman í aðdraganda markaðsþreifinga samanborið við veltu með hlutabréf annars skráðs banka af svipaðri stærð, Arion banka. Fimmtudaginn 17. mars, föstudaginn 18. mars og mánudaginn 21. mars eru afar lítil viðskipti með bréf í Íslandsbanka, en umtalsverð með bréf í Arion banka. Á þessum tíma átti enginn að vita að salan á Íslandsbanka hvenær fyrirhuguð og tilkynning fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að ákveðið yrði, á einhverjum tímapunkti, að halda áfram að selja hluti í bankanum var ekki send út fyrr en eftir lokun markaða á föstudeginum.
Fjármálaeftirlitið er sem stendur að rannsaka ýmsa þætti sölunnar, sérstaklega viðskipti sem áttu sér stað í aðdraganda sölunnar, skort á viðskiptum með bréf í Íslandsbanka og atferli hluta þeirra söluráðgjafa sem ráðnir voru til að selja hluti í bankanum. Þar er einnig undir hvort sölunni hafi verið beint að öðrum en hæfum fjárfestum, en alls 207 fengu að kaupa fyrir samtals 52,65 milljarða króna í söluferlinu. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur einnig fram að hægt hafi verið að fá að minnsta kosti markaðsverð fyrir þann 22,5 prósent hlut sem var seldur, en ákveðið var að halda 4,1 prósent afslætti inni til að styggja ekki erlenda fjárfesta. Það er í andstöðu við lögbundin markmið við sölu eignarhluta í bönkum ríkisins og gerði það að verkum að kaupverðið var að minnsta kosti 2,25 milljörðum króna lægra en það gat verið. Þessi tilteknu vafaatriði sæta eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
Þá er eftirlitið með það á sinni könnu að rannsaka hugsanlega hagsmunaárekstra hjá umsjónaraðilum, söluráðgjöfum eða söluaðilum, en starfsmenn ýmissa innlendra ráðgjafa og söluaðila, eða aðilar þeim tengdir, keyptu sjálfir í útboðinu.
Ekkert hefur verið gert opinbert um stöðu rannsóknar Fjármálaeftirlitsins en allir fimm innlendu söluráðgjafarnir hafa fengið fyrirspurnir frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands vegna rannsóknar þess.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
3. desember 2022Var Ríkisendurskoðun að misskilja eða veitti Bankasýslan ráðherra ekki réttar upplýsingar?
-
1. desember 2022Íslandsbanki segir ekki hversu margir fengu flokkun sem hæfir fjárfestar á meðan að á útboðinu stóð
-
30. nóvember 2022„Það var mjög óheppilegt að náinn ættingi hafi verið í þessum kaupendahópi“
-
25. nóvember 2022Yfir 60 prósent treysta ekki stjórninni til að selja Íslandsbanka og vilja rannsóknarnefnd
-
24. nóvember 2022„Ríkisendurskoðun hafnar aðdróttunum ákveðinna fjölmiðla um annarleg sjónarmið“
-
21. nóvember 2022Spyr Bjarna hvort Fjármálaeftirlitið hafi lagaheimildir til að rannsaka Bjarna
-
21. nóvember 2022Ekki í fyrsta sinn sem ríkisbanki, Ríkisendurskoðun og Bankasýslan fara í hár saman
-
18. nóvember 2022Vill að Katrín mæti fyrir fjárlaganefnd og geri grein fyrir næstu skrefum í bankasölu
-
17. nóvember 2022Sögðu Sjálfstæðisflokkinn bara vilja ræða leka, ekki bankasöluna eða skýrsluna um hana