Síminn, stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins, verður skráður á hlutabréfamarkað um miðjan októbermánuð. Í Aðdraganda þeirrrar skráningar mun Arion banki, sem stofnaður var eftir bankahrun með innstæðum Íslendinga og fékk m.a. það hlutverk að endurskipuleggja mikilvæg fyrirtæki eins og Símann, selja hluta af eign sinni í félaginu til áhugasamra.
Á síðustu vikum hafa hins vegar valdir aðilar, hópur fjárfesta, yfirstjórnendur Símans og vildarviðskiptavinir Arion banka, fengið að kaupa hluti í Símanum á verði sem flestir virðast sammála um að verði mun lægra en skráningargengi félaginu. Miðað við þær upplýsingar sem birtar voru um hlutafjárútboðið í Símanum í gær gæti virði þess hlutar sem nokkrir fjárfestar og stjórnendur Símans fengu að kaupa í ágúst síðastliðnum þegar verið búið að hækka um tæpan fjórðung þegar félagið verður skráð.
Risi á íslenskum fjarskiptamarkaði
Það er ekki langt síðan að Síminn lauk fjárhagslegri endurskipulagningu. Það gerðist í júní 2013 þegar eigendur óvertryggðra skulda félagsins, aðallega lífeyrissjóðir og Arion banki, breyttu skuldum sínum í hlutafé auk þess sem allar verðtryggðar skuldir Símans voru endurfjármagnaðar. Síminn var síðasta stóra fyrirtækið á Íslandi sem lent hafði í miklum erfiðleikum eftir hrunið vegna óhoflegrar skuldsetningar sem fór í gegnum endurskipulagningu.
Það er engu logið um það þegar sagt er að Síminn, sem byggir á merg gamla Landssímans, sé stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins. Viðskiptavinir félagsins eru 115 þúsund alls og þar af eru 88 prósent einstaklingar. Tæpur helmingur tekna Símans kemur frá þeim einstaklingum. Félagið er leiðandi á fjarskiptamarkaði (í síma- og netþjónustu) og, eftir samruna þess við SkjáEinn, er augljóst að það ætlar sér stóra hluti á fjölmiðlamarkaði líka. Þar liggur áherslan á því að bjóða neytendum upp á ólínulegt sjónvarp og efnisveitur þar sem greitt er fyrir eftir notkun. Þetta viðskiptamódel mun ógna tilveru línulegs áskriftasjónvarps þar sem dagskrá er stillt upp í tímaröð fyrir neytendur. Þá er Síminn einnig stærsti seljandi snjallsíma á landinu.
Siminn og Skipti, fyrrum móðurfélag fjarskiptafyrirtækisins, voru sameinuð fyrr á þessu ári. Hér sést Orri Hauksson, forstjóri Símans, taka niður Skipta-merkið af höfuðstöðvum samstæðunnar.
Og rekstur félagsins hefur gengið vel eftir að það var endurskipulagt í samstarfi við stærstu kröfuhafa þess. Eftir 50 milljarða króna tap á árunum 2008 til 2013 hagnaðist félagið um 3,3 milljarða króna í fyrra og um 1,3 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Eigið fé Símans er nú um 31,2 milljarðar króna, sem er umtalsvert hærra en markasvirði fyrirtækisins miðað við það gengi sem hlutir í honum hafa verið seldir á undanfarnar vikur.
Skráður á markað í október
Síminn verður skráður á markað í október og er gert ráð fyrir að fyrsti dagur viðskipta geti orðið 15. október. Í aðdraganda þeirrar skráningar ætlar Arion banki, stærsti eigandi Símans, að selja 18-21 prósent af hlut sínum í félaginu.
Útboðið fer þannig fram að um tvær tilboðsbækur verður að ræða. Í þeirri fyrri, tilboðsbók A, geti þeir skráð sig sem vilja kaupa hlut fyrir 100 þúsund krónur og upp að tíu milljónum króna. Þetta eru litlir fjárfestar. Þeim býðst að bjóða á bilinu 2,7 til 3,1 krónur á hlut. Takmarkaður hlutur er í boði og því gilda því vitanlega hæstu tilboð umfram önnur. Með örðum orðum ætti tilboð upp á 3,1 krónur á hlut að duga áhugasömum fjárfesti til að eignast hlut í Símanum í útboðinu. Í gegnum þessa tilboðsbók ætlar Arion banki að selja fimm prósent hlut í Símanum.
Seinni tilboðsbókin, tilboðsbók B, er fyrir þá sem ætla að kaupa fyrir meira en tíu milljónir króna. Í gegnum hana fer stóra útboðið fram, enda eru þar til sölu 13 til 16 prósent hlutur í Símanum.
Þeir sem taka þátt í þessari leið eru aðallega fagfjárfestar, meðal annars lífeyrissjóðir. Í þessari leið er ekkert hámark á því hvað viðkomandi fjárfestir getur skráð sig fyrir stórum hluta þess hlutafjár sem er til sölu, en ef umframeftirspurn verður, sem er oftast í íslenskum hlutafjárútboðum, meðal annars vegna einsleits fjárfestingaumhverfis hagkerfis í höftum, mun sú upphæð skerðast. Í þessari leið er einungis lágmarksverð, 2,7 krónur á hlut, en ekkert hámarksverð. Allar líkur eru taldar á því að verðið fari að lágmarki rétt yfir þrjár krónur á hlut.
Arion banki er ekki að selja allt hlutafé sitt í Símanum í útboðinu. Hann mun halda eftir 6,8 til 9,8 prósent hlut.
Stjórnendur og valdir fjárfestar fá að kaupa á lægra verði
Það vekur athygli að í ágúst siðastliðinum fékk félagið L1088 ehf. að kaupa fimm prósent hlut í Símanum á genginu 2,5 krónur á hlut. Sá hópur var settur saman af Orra Haukssyni, forstjóra Símans, og hann átti frumkvæði að því að leita til Arion banka til að koma viðskiptunum á. Að hópnum standa nokkrir erlendir fjárfestar með reynslu úr fjarskiptageiranum og Orri. Forstjórinn á alls 0,4 prósent hlut í Símanum sem hann fékk að kaupa á genginu 2,5 krónur á hlut. Orri greiddi rúmlega 100 milljónir króna fyrir hlutinn.
Höskuldur Ólafsson er bankastjóri Arion banka, stærsta eiganda Símans. Bankinn hefur selt hluti í Símanum til valins hóps fjárfesta á undanförnum vikum.
Aðrir í yfirstjórn Símans fengu líka að kaupa hluti í eigin nafni. Eign þeirra er þó öllu minni, en stjórnendurnir keypta alls fyrir um 1,8 milljón króna í eigin nafni. Forstjórinn Orri nýtti sér þennan rétt einnig. Eini meðlimur yfirstjórnar sem á viðbótarhlut utan þessarra kauprétta er Valgerður H. Skúladóttir, framkvæmdastjóri Sensa. Hún á hlut í gegnum eignarhaldsfélag sem er metinn á um 33 milljónir króna miðað við það gengi sem stjórnendur fengu að kaupa á.
Þessum kaupum fylgja ákveðnar söluhömlur. L1088 ehf, félag Orra og fjárfestanna, má ekki selja fyrr en í janúar 2017 og yfirstjórnendurnir mega ekki selja fyrr en 1. mars 2016. Vert er að taka fram að samkvæmt fyrirtækjaskrá er L1088 ehf. í eigu lögfræðistofunnar Lex og ekki er hægt að sjá hvernig eignarhlutur félagsins skiptist niður á raunverulega eigendur þess.
Kjarninn fjallaði ítarlega um þessi viðskipti í fréttaskýringu í ágúst síðastliðnum.
Hluti stjórnendanna sem fengu að kaupa hafa ekki starfað hjá Símanum lengi, og voru raunar ráðnir til starfa þar eftir að fjárhagslegri endurskipulagningu lauk. Orri var til að mynda ráðinn forstjóri í október 2013, eftir töluverða valdabaráttu í stjórn Símans, og Magnús Ragnarsson var ráðinn í sitt starf í apríl 2014. Áður hafði hann verið aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra.
Á hluthafafundi sem haldinn var hjá Símanum skömmu eftir að ákvörðunin um að selja ofangreindum hópi fimm prósent hlut var handsalað að öllum fastráðnum starfsmönnum myndi bjóðast að kaupa fyrir allt sex hundruð þúsund krónur á ári á genginu 2,5 krónur á hlut í þrjú ár. Þegar hafa 613 starfsmenn gert samninga um slík kaup fyrir samtals 1,1 milljarð króna. Nýtt hlutafé verður gefið út vegna kaupréttaráætlunar starfsmanna. Við það þynnist hlutur annarra hluthafa, sem að mestu eru íslenskir lífeyrissjóðir.
Bankinn selur völdum viðskiptavinum fyrir útboð
Síðari hluta septembermánaðar, nokkrum dögum áður en fyrirhugað hlutafjárútboð fer fram, fengu nokkrir valdir viðskiptavinir Arion banka að kaupa fimm prósent hlut í Símanum á genginu 2,8 krónur á hlut. Ekki hefur verið gefið upp hverjir fjárfestarnir eru. Þessi hópur má ekki selja hluti sína fyrr en 15. janúar 2016.
Flestir í viðskiptalífinu sem Kjarninn hefur rætt við eru sammála um að skráningargengi Símans á markað verði yfir þremur krónum á hlut. Ef miðað er við tilboðsbilið sem Arion banki setti á tilboðsbók A, og líklegt þykir að muni enda í efri mörkum þess, þá er markaðsvirði símans 26 til 30 milljarðar króna.
Orri Hauksson, forstjóri Símans.
Miðað við sama bil hafa þeir fjárfestar og stjórnendur Símans sem fengu að kaupa án auglýsingar fimm prósent hlut af Arion banka þegar aukið verðgildi þess hlutar um 8-24 prósent. Hundrað milljónirnar sem Orri Hauksson keypti fyrir eru þegar orðnar 108 til 124 milljóna króna virði, rúmum mánuði eftir kaupin.
Það hefur einnig vakið furðu margra á fjármálamarkaði að Arion banki ákveði að selja völdum, ónefndum, viðskiptavinum sínum annan fimm prósent hlut á verði sem að öllum líkindum verður lægra en útboðsgengi á hlutum í Símanum. Það er að minnsta kosti búist við umframeftirspurn eftir hlutum, líkt og í langflestum hlutafjárútboðum sem fram hafa farið á Íslandi eftir hrun. Ef skráningargengi Símans verður við efri mörk þess bils sem er á tilboðsbók A munu þessir handvöldu viðskiptavinir Arion banka þegar vera búnir að hækka virði eignar sinnar í Símanum um tæp ellefu prósent.
Umdeildar aðferðir Arion banka
Arion banki hefur oft verið harðlega gagnrýndur á undanförnum árum fyrir það hvernig hann hefur staðið að því að losa um eignir sem færðar voru honum í vöggugjöf þegar bankinn var stofnaður af stjórnvöldum með handafli eftir hrun (verðbréfaeign Arion banka um mitt þetta ár var 111 milljarðar króna). Sú gagnrýni er tvíþætt: annars vegar að valdir fjárfestar fái að kaupa hluti í þeim eignum, oft á lægra verði en aðrir, án þess að þær séu auglýstar, og hins vegar að bankinn hangi allt of lengi á eignum í óskyldum rekstri.
Bónus er stærsta matvöruverslunarkeðja landsins. Alls eru 29 Bónusverslanir reknar um allt land. Hagar eiga Bónus að fullu. Salan á hlut í Högum áður en útboð fór fram hefur verið gagnrýnd töluvert á undanförnum árum. Þeir sem keyptu högnuðust ævintýralega á viðskiptunum.
Sala hans á hlut í smásölurisanum Högum til valins hóps fjárfesta á lágu verði í aðdraganda skráningu þess félags á markað hefur oft verið nefnd ein bestu viðskipti eftirhrunsáranna, fyrir þá sem fengu að kaupa. Þeir högnuðust enda um nokkra milljarða króna án þess að taka neina áhættu í viðskiptunum. Féð sem lagt var fram var tekið að láni. Þá hefur tregða bankans við að selja hluti sína í HB Granda, eina skráða sjávarútvegsfélagsins, einnig verið nokkuð gagnrýnd.
Arion banki hefur á móti sagt að undirliggjandi sé að hámarka virði þeirra eigna sem hann er að losa um. Sú aðferðarfræði sem bankinn beiti hafi skilað góðum árangri að því markmiði. Varðandi sölu til valinna fjárfesta ,til dæmis í Símanum, segir bankinn að um áhugaverða aðila hafi verið að ræða sem hann teldi að myndu styrkja félagið.
Umhverfi íslenskra banka ekki venjulegt umhverfi
Þessar skýringar væru góðar og gildar í venjulegu umhverfi þar sem bankar í einkaeigu væru að losa um eignir. Það kæmi í raun engum við á hvaða verði þeir seldu þær eignir. Hluthafar þeirra myndu sjá til þess að veita þeim nægjanlegt aðhald til að skila sér sem mestum arði.
En Ísland eftirhrunsáranna er ekkert venjulegt umhverfi. Í október 2008 voru búnir til þrír nýir bankar, meðal annars Arion banki. Stjórnvöld færðu innstæður þjóðarinnar og innlendar eignir með handafli inn í þessa banka. Þeir fengu síðan það hlutverk að endurskipuleggja íslenskt viðskiptalíf, en um 70 prósent þess átti í miklum erfiðleikum vegna skuldsetningar eftir bankahrun. Bankarnir þrír fengu því þau fyrirtæki sem þau hafa síðan endurskipulagt fjárhagslega, oft með miklum myndabrag, afhent frá stjórnvöldum.
Til viðbótar voru bankarnir fjármagnaðir með annars vegar innlánum Íslendinga og hins vegar lánsfé frá ríkinu. Enn þann dag í dag hefur þeim öllum gengið hálf brösulega að ná sér í aðra fjármögnun en íslenskar innstæður, sem er ekki óeðlilegt í ljósi þess að hér hafa verið fjármagnshöft frá 2008 og allt íslenska bankakerfið fór á hausinn þá afdrifaríku haustmánuði. Í tilfelli Arion banka er til dæmis 58 prósent af öllum skuldum bankans innstæður viðskiptavina hans. Á þessum innstæðum hvílir síðan ríkisábyrgð, þar til yfirlýsing íslenskra stjórnvalda um slíka sem gefin var út í október 2008 verður formlega dregin til baka.
Vegna þessa, og þar til að bankarnir verða seldir til einkaaðila, endurgreiði skuldir sínar við hið opinbera og fjármagni sig með öðrum hætti en sparifé landsmanna þá hefur verið ríkari krafa á að þeir gæti jöfnuðar, gagnsæis og heiðarleika í sínum viðskiptum.
Til dæmis þegar þeir selja fyrirtæki sem hrunið færði þeim.