Það má flokkast undir það að bera í bakkafullan lækinn að skrifa enn einn pistilinn um Sigmund Davíð Gunnlaugsson og fáheyrðan dómgreindarbrest hans. Að gera það ekki væri hins vegar að taka þátt í því leikriti sem hann og heilaþvegnir stuðningsmenn hans hafa sett á svið; nefnilega að reyna að drepa umræðuna og bíða eftir að allt róist og ástandið verði eðlilegt. Þar er reyndar átt við skilgreiningu Sigmundar Davíðs á því sem eðlilegt er, að hann sitji í sínum fílabeinsturni og skammi fólk fyrir að hafa skoðun á sér sem honum er ekki þóknanleg og fréttamenn fyrir að spyrja sig spurninga. Þannig er eðlilegur dagur hjá forsætisráðherra íslensku þjóðarinnar.
Eitt af því sorglega við þetta mál er að það ætti í raun ekki að koma neinum á óvart. Framsóknarmönnum hefur oft og tíðum reynst erfitt að aðskilja sig persónulega frá viðfangsefnunum. Kannski horfði Sigmundur Davíð til eins forvera síns í embætti, Halldórs Ásgrímssonar, sem var sjávarútvegsráðherra þegar framsali aflaheimilda var komið á, en um leið hluti af sjávarútvegsfyrirtæki sem græddi á öllu saman. Eða varaformannsins fyrrum, Finns Ingólfssonar, sem hætti ungur í stjórnmálum til að njóta ávaxtanna af þeim góðu verkum sem flokkur hans hafði unnið, en hann er nú einn ríkasti maður landsins. Eða kannski horfði hann bara til föður síns, sem hætti á þingi eftir eitt kjörtímabil til að græða skrilljónir á fyrrum ríkisfyritæki. Kannski birtist uppreisn Sigmundar gegn föður sínum í því að hann átti skrilljónir áður en hann fór á þing.
Það eru hins vegar nógir til að benda á alla vinklana á þessu arfavitlausa máli sem snúa að því hvílíkt rugl þetta er hjá Sigmundi Davíð. Við skulum frekar skoða pólitíkina í málinu.
Ef að Bjarni Benediktsson væri klókur mundi hann nýta tækifærið núna og slíta stjórnarsamstarfinu. Mýmörg eru tilefnin og hann þarf ekki einu sinni að horfa til milljónanna í útlandinu. Það hvernig Sigmundur Davíð hefur ítrekað brugðið fæti fyrir málefni Landspítalans er til dæmis nægt tilefni. Væri ég pr-maður Bjarna mundi ég ráðleggja honum það.
Nú ef hann vill slá sig til smá riddara í þessu máli þá getur hann vísað til augljóss trúnaðarbrests sem í því felst að Sigmundur Davíð sagði honum í engu frá þeim persónulegu hagsmunum sem hann átti undir í málinu. Það eitt og sér ætti að duga stjórnmálamanni með bein í nefinu til að þakka pent fyrir samstarfið.
Og hvað tekur þá við? Jú, Bjarni gæti rætt við stjórnarandstöðuflokkana sem vilja ansi margt vinna til að losna við Sigmund Davíð úr forsætisráðuneytinu, enda þjóðþrifamál. Þeir tækju málaleitan Bjarna um stuðning við minnihlutastjórn áreiðanlega nokkuð vel. Slíkt fyrirkomulag mundi henta stjórnarandstöðunni nokkuð vel, ekki síst Samfylkingunni sem er í molum, frómt frá sagt. Það að hafa komið Framsókn frá völdum mundi gagnast Samfylkingunni og stjórnarandstöðunni nokkuð vel.
Bjarni þarf hins vegar að vera nógu hugmyndaríkur og áræðinn stjórnmálamaður til að henda slíka hugmynd á lofti. Líklegast mun hann standa þétt með Framsóknarflokknum og verja ríkisstjórnina vantrausti. Hann mun þannig taka slaginn fyrir Sigmund Davíð, sem þarf ekki að óhreinka hendur sínar heldur getur setið í stjórnarráðshúsinu, þurrkað hendur sínar með pentudúk sem hann fann undir gólffjölunum og reynt að rifja það upp hvar hann var á týndu árunum sínum, frá 2005 til 2009, sem hann hefur verið margsaga um. Hvaða útgáfa hans af þeim tíma sé næst raunveruleikanum og hann eigi að halda sig við. Bjarni mun taka slaginn fyrir hann og verja vitleysuna. Kannski hann geti líka tekið viðtal við sjálfan sig um ósanngirni umræðunnar.
Því ef Bjarni gerir þetta ekki þá á hann ekki von á góðu og þar er ekki verið að vísa til stjórnarandstöðunnar, sem mun gera sitt til að gera honum pólitíska lífið leitt. Nei, þar er vísað til samstarfsflokksins, Framsóknar og Sigmundar Davíð.
Ef Bjarni tekur núna slaginn fyrir Sigmund þá mun Sjálfstæðisflokkurinn þurfa að sitja undir linnulausum árásum Framsóknarflokksins fram að kosningum. Það verður Sjálfstæðisflokknum að kenna að ekki er búið að afnema verðtrygginguna, að það er ekki búið að gjörbylta húsnæðiskerfinu, að peningar hafa ekki fengist í félagslega kerfið og raunar allt sem Eygló hefur sett fram.
Því Framsóknarflokkurinn mun róa lífróður fram að kosningum. Síðast komst hann til valda með því að lofa því að gefa fólki peninga. Fyrir næstu kosningar mun hann lofa því að gefa fólki peninga og hús með, samhliða því sem hann mun berja á samstarfsflokknum fyrir að drepa öll hans góðu mál. Bara ef Framsókn fengi að ráða, þá drypi nú smjör af hverju strái í görðum okkar allra við einbýlishúsin sem Framsókn hefði gefið okkur öllum.
Sé Bjarni í vafa þá ætti að nægja honum að horfa til málflutnings Framsóknarmanna nú um mundir. Þeir hljóma eins og sannfærðir stuðningsmenn Vísindakirkjunnar sem úthrópa alla sem hafa rangar skoðanir á þeim og hamast við að þurrka rykkornin af jakkaboðungi foringjans. Fólk sem talar svona er annað hvort heilaþvegið, eða að tala sér þvert um hug og þarf að grípa til gífuryrðanna til að verja eitthvað sem það ekki sjálft trúir.
Svo, kæri Bjarni, boltinn er hjá þér. Sýndu nú smá djörfung og dug, hringdu í Kötu, Árna Pál, Helga Hrafn og Óttar frænda og komdu Sigmundi Davíð frá. Þér mun líða miklu betur í minnihlutastjórninni þegar þú þarft ekki að eyða tímanum í ótta við bommertur frá honum. Taktu á meðvirkninni, það eru til samtök til þess. Og ekki halda að Sigmundur Davíð sjái ekki sólina fyrir þér og sé heill í sambandinu. Svo ég tali hollívúddsku, sem þér ætti að vera töm: He’s just not that into you.