Það er pólitískt val að halda hugvitsiðnaði á Íslandi

Nox Medical hagnast á því að greina svefn. Og það er mjög arðbært. Fyrirtækið sér tugum vel menntaðra Íslendinga fyrir atvinnu og skilar miklum gjaldeyristekjum. Og þótt það vilji byggjast áfram upp hér þá er það ekki víst að fyrirtækið geti það.

Pétur Már Halldórsson og gínan Bob, með búnað frá Nox Medical tengdan við sig.
Pétur Már Halldórsson og gínan Bob, með búnað frá Nox Medical tengdan við sig.
Auglýsing

Er svefn arðvænlegur? Já, hann getur heldur betur verið það. Eða réttara sagt þá getur verið mjög arðvænlegt að greina hann til að bæta lífsgæði fólks. Það gerir íslenska hugvitsfyrirtækið Nox Medical. Eftir að hafa verið stofnað upp úr þróunardeild landflótta fyrirtækis fyrir tæpum áratug þá hefur það skilað hagnaði frá því að fyrsta vara þess var sett á markað. Veltan hefur tífaldast frá árinu 2011 og í fyrra nam fjárfesting í rannsóknum og þróun um 300 milljónum króna, eða um fimmtungi af veltu Nox Medical.

Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir samt sem áður að það blasi við að Ísland sé ekki samkeppnishæft eins og er þegar kemur að uppbyggingu fyrirtækja eins og Nox Medical. Hvatarnir og tækifærin séu einfaldlega meiri annars staðar. Það þurfi þó ekki að vera þannig. Ákvörðunin sé einfaldlega pólitísk og snúist um vilja. Hvernig atvinnulíf og samfélag viljum við byggja upp á Íslandi?

Sprottið upp úr Flögu

Nox Medical er sprottið uppúr öðru frægu íslensku fyrirtæki, Flögu.  Flaga var stofnuð árið 1993 út frá hugmynd Helga Kristbjarnarsonar, læknis á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi, sem hafði helgað sig svefnrannsóknum. Á þeim tíma voru allar svefnrannsóknir gerðar með síritum sem skrifuðu út pappírslengjur. Afrakstur einnar nætur var um 800 blaðsíður af pappír, sem rannsakendur þurftu svo að fletta í gegnum og merkja inn viðeigandi atvik og greiningar á svefni.

Helgi vildi hins vegar framkvæma þessar rannsóknir með tölvum. Hann safnaði hópi af verkfræðingum í kringum eldhúsborðið heima hjá sér og hófst handa.

Auglýsing

Flögu óx fiskur um hrygg og varð stórt fyrirtæki í sínum geira, og ekki síður á íslenskan mælikvarða. Þegar sem mest var, árið 2005, störfuðu um 130 manns hjá fyrirtækinu hér á landi. Blikur voru hins vegar á lofti á þeim tíma. Helgi hafði dregið sig út úr rekstrinum vegna veikinda nokkrum árum áður og nýr forstjóri var ráðinn innan úr íslenska bankakerfinu. Reksturinn hafði heldur ekki verið mjög ábatasamur og var fyrst og síðast knúinn áfram af nýju hlutafé frá bandaríska fyrirtækinu ResMed. Aðrir sem komu að fyrirtækinu sem hluthafar voru þá stærsti banki landsins Kaupþing, Bogi Pálsson kenndur við Toyota og Bakkavararbræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundsson. Flaga réðst á þessum tíma í skráningu á hlutabréfamarkað, fór í skuldsetta yfirtöku á keppinaut í Bandaríkjunum fyrir tugi milljóna dala og á árinu 2005 var kominn inn bandarískur forstjóri sem vildi fara í algjöra uppstokkun á rekstrinum. Honum þótti glórulaust að fyrirtæki eins og Flaga, sem væri leiðandi á sínu sviði í alþjóðlegum geira, væri rekið á úthjara veraldar, Íslandi.

Á þessum tíma var íslenska krónan orðin mjög sterk og laun hérlendis almennt hærri en gerðist víða annars staðar í heiminum. Það varð því úr að stór hluti starfsemi Flögu var flutt til Kanada, þar sem voru til staðar skattaívilnanir fyrir nýsköpunarfyrirtæki sem vildu stunda rannsóknir og þróun á nýjum vörum. Á mjög skömmum tíma fækkaði störfum hjá Flögu á Íslandi úr um 100 niður í ekki neitt. Fyrirtækið var í reynd flutt úr landi.

Bankar sugu til sín verkfræðinga

Á þessum tíma, síðla árs 2005, sugu íslensku bankarnir til sín hæfileikafólk með allskyns sérhæfingu. Þeir voru sérstaklega sólgnir í verkfræðinga sem nýttust bönkunum meðal annars afar vel í gerð flókinna afleiðuviðskipta. Margir verkfræðinganna sem starfað höfðu hjá Flögu hefðu getað farið þessa leið og tvöfaldað launin sín.

Nox framleiddi til að byrja með vörur sem ætlaðar voru einvörðungu fyrir börn. MYND: Noxmedical.comSjö úr hópnum, undir forystu Sveinbjarnar Höskuldssonar, fyrrum þróunarstjóra Flögu, ákváðu að gera það ekki. Hópurinn setti þess í stað á fót fyrirtækið Nox Medical til að þróa næstu kynslóð þeirra vara sem notaðar höfðu verið til að greina svefn og svefntruflanir.

Nox Medical hóf starfsemi árið 2006. Fyrstu árin voru farin á sultarólinni. Frumkvöðlarnir sem að fyrirtækinu stóðu greiddu sér lítil sem engin laun og fjárfestarnir voru fyrst og síðast nánustu vandamenn. Þeir lögðu til 45 milljónir króna og Tækniþróunarsjóður veitti 30 milljónir króna í öndvegisstyrk. Þessi fjármögnun dugaði til að koma fyrirtækinu á legg. Og fjárfestingin hefur skilað sér margfalt til baka.

Duttu í lukkupottinn

Fyrsta vara Nox Medical, sem hét Nox-T3, kom á markað í byrjun árs 2009. Áður en það gerðist hafði fyrirtækið gert stóran dreifingarsamning við fyrirtæki sem heitir CareFusion. Það var á þeim tíma skráð á bandarískan hlutabréfamarkað og var nýverið selt fyrir tólf milljarða dala. Samningurinn gekk út á að CareFusion myndi dreifa öllum framleiðsluvörum Nox Medical á alla markaði. Samningurinn var því sannkallaður lukkupottur.

Og hann gerði það að verkum að Nox Medical skilaði rekstrarhagnaði fyrsta árið eftir að fyrsta varan var komin á markað. Velta fyrirtækisins var þá strax komin upp í á annað hundrað milljónir króna. Þannig hélst hún næstu þrjú árin og árleg arðsemi var á bilinu 15-20 prósent. Þótt Nox Medical væri ekki að stækka þá var reksturinn í afar góðu standi.

Innan fyrirtækisins var samt vilji til að sækja meira fram og þróa fleiri vörur. Eftir nokkurn tíma var það mat forsvarsmanna Nox Medical að CareFusion væri ekki að efna að öllu leyti sín samningsbundnu loforð. Úr varð að samningunum var sagt upp og Nox Medical samdi þess í stað við við ResMed, fyrrum samstarfsaðila Flögu, sem vildi fara að kaupa framsæknari svefnrannsóknarvörur en þær sem Flaga gat boðið upp á. Og hófst þá mikið og hratt stækkunarferli. Teymið var stækkað, vörum fjölgað og Nox Medical varð kjarnaframleiðandi á svefnrannsóknarvörum fyrir ResMed-dreifikerfið.

Þessi vöxtur var ekki fjármagnaður með stórtækum lántökum eða stórum hlutafjáraukningum. Hann var fjármagnaður með veltufé frá rekstrinum. Byggður upp á eigin reikning. Og Nox Medical fór frá því að vera sjö manna teymi með aðstöðu innan veggja Nýsköpunarmiðstöðvarinnar í Keldaholti árið 2006 í að vera fyrirtæki með tugi vel menntaðra og eftirsóknarverðra starfsmanna nokkrum árum síðar.

Veltan tífaldaðist á skömmum tíma

Pétur Már Halldórsson er framkvæmdastjóri Nox Medical. Hann segir að skipta megi sögu fyrirtækisins upp í þrjú tímabil. Það fyrsta, árin 2007 til 2008 átti sér stað vöruþróun. Næstu þrjú hófst tekjuöflun með sölu á vörum og stöðugleika var náð. Frá árinu 2012 hefur átt sér stað „grimmur og brattur vaxtaferill,“ eins og og Pétur kallar hann. „Fyrirtækið hefur tífaldað veltu sína á þessu tímabili. Það velti um milljón evrum árið 2011 en velti í fyrra nærri tíu milljónum evra. Við erum orðin pínulítil stóriðja í samhengi hlutanna. Veltan í íslenskum krónum í fyrra er á bilinu 1.500 til 1.600 milljónir króna.. Við erum samt hvergi hætt. Við erum rétt að byrja. Það eru mikil vaxtatækifæri í þessum svefnbransa. Svefngreining á erindi víða.“

Pétur Már Halldórsson er framkvæmdastjóri Nox Medical.Hugmyndafræðin sem Pétur vinnur með er að þau þrjú atriði sem skipti mestu máli varðandi vellíðan séu hreyfing, næring og svefn. Ef eitt þessarra atriða er ekki í lagi, þá erum við ekki í lagi. Vitund um að þessir þrír þættir séu samhangandi er alltaf að aukast og í því felast tækifærin fyrir Nox Medical, sem er á meðal fremstu fyrirtækja í heimi í framleiðslu, rannsóknum og þróun á svefngreiningartækjum. Að sögn Péturs getur þessi vöxtur allur átt sér stað hér á Íslandi. Hann getur það, en til þess þarf umhverfi fyrirtækja á borð við Nox Medical að verða samkeppnishæfara við það sem gerist annars staðar í heiminum.

Ekki flókið reikningsdæmi

Hann vill byrja á því að telja til það sem vel er gert. Þar skiptir mestu að framlög til Tækniþróunarsjóðs hafa verið stórefld. Það skipti lykilmáli til þess að þeir sem hafi framsæknar hugmyndir um framsækin fyrirtæki fari yfir höfuð af stað. Síðan nefnir hann þá ákvörðun stjórnvalda á síðasta kjörtímabili að hefja endurgreiðslu til þeirra sem eyða í rannsóknir og þróun.

„Á upphafsmetrunum skipti þessi endurgreiðsla og styrkirnir frá Tækniþróunarsjóði öllu fyrir Nox Medical. Nú er löggjöfin þannig að það sem þú fjárfestir í rannsókn og þróun fyrir allt að 100 milljónir króna þá endurgreiðir ríkið allt að 20 prósent til baka. Í tilfelli Nox Medical erum við farin að fjárfesta fyrir 300 milljónir króna á ári.“

Fyrirtækið er því komið langt umfram endurgreiðsluhámarkið og engin endurgreiðsla fæst af tveimur þriðja hluta þess sem Nox Medical eyðir í að rannsaka og þróa nýjar vörur, og þar með stækka umfang reksturs síns. Pétur segir þetta eðlilega ekki vera hvetjandi til að eyða svona stórum hluta af veltu sinni, um fimmtungi, í rannsóknir og þróun sem skili engri skammtímaarðsemi. Ef Nox Medical væri staðsett til dæmis í Ástralíu, þar sem helsti samkeppnisaðili fyrirtækisins er með heimilisfesti, væri endurgreiðslan 45 prósent af öllu sem eytt væri í rannsóknir og þróun og hámarksgreiðslur eru bundnar við tekjur, ekki fasta upphæð.

„Hvar er þá skynsamlegt fyrir okkur að fara í uppbyggingu? Því miður er svarið ekkert flókið og reikningsdæmið ekki heldur, það er ekki á Íslandi. Við viljum vera hérna en það er mun skynsamara og hagkvæmara fyrir okkur að byggja þennan hluta starfseminnar, rannsóknir og þróun, upp í til dæmis Ástralíu.“

Það eru ekki bara fyrirtæki í svefngeiranum sem hafa margítrekað bent á þessa skertu samkeppnishæfni Íslands við að halda stórum hluta af starfsemi hugvitsfyrirtækja, sem skapa mörg vel launuð og skapandi störf, á Íslandi. Þetta er málflutningur sem hefur til að mynda oft heyrst varðandi Össur og CCP, tvö af flaggskipum íslensks hugvitsiðnaðar.

Takmörk fyrir því sem hægt er að gera hér

Pétur segir að langstærsti hluti starfsmanna Nox Medical séu verkfræðingar, um 90 prósent af þeim á fimmta tug starfsmanna sem vinna hjá fyrirtækinu. Þetta er rafmagnsverkfræðingar, hugbúnaðarverkfræðingar, heilbrigðisverkfræðingar. „Það er enginn sem stekkur hér inn fullmótaður á bandið,“ segir Pétur.

Nox Medical er því að skapa dýr og vel borguð sérfræðingastörf á Íslandi og selja vöru sem byggir á íslensku hugviti fyrir á annan milljarð króna á ári fyrir gjaldeyri. En Pétur segir að sá tími geti komið, og sé í raun ekki fjarri miðað við hvernig aðstæður eru, að það verði erfitt að manna fyrirtækið hérlendis. „Það eru takmörk fyrir því hvað við erum með mikið af fólki sem er með reynslu á þessu sviði. Sá pottur er eiginlega tómur. Við erum því að taka inn fólk þar sem fyrstu mánuðirnir og árin eru kennslufasi. Það er ekki spurning um að það eru margir úti í hium stóra heima sem væri fengur að fá.“

En samkeppnisstaða Íslands á þessu sviði fer versnandi, til dæmis með styrkingu krónunnar og vegna þeirra erfiðleika sem fylgja fjármagnshöftum. „Það þarf mikið til að rífa sig upp úr sínu umhverfi og flytja til Íslands til að vinna að verkefnum þegar þeim bjóðast önnur störf nær. Þá eru skattahvatar, eins og þekkjast t.d. í Danmörku og víðar, skynsamlegir. Hvatar þar sem sérfræðingar hagnast beint með skattaafsláttum í tiltekinn tíma gegn því að flytjast til ákveðinna landa. Þetta er ekki til staðar á Íslandi. Það er skerðing á hæfi okkar og getu til að laða hingað sérfræðinga.“

Pólitísk spurning

Það hefur í raun legið fyrir lengi að Ísland þarf að auka við útflutningsverðmæti sín til að geta staðið undir þriggja til fjögurra prósenta hagvexti á ári til lengri tíma, og með því haldið uppi þeim miklu lífsgæðum sem við búum við í dag í samanburði við önnur lönd. Ferðamannaiðnaðurinn er að skila stórum tölum inn í það framlag en hinar tvær stóru stoðirnar undir efnahagslífinu, sjávarútvegur og orkubúskapur, eru báðar takmarkaðar auðlindir sem erfitt er að kreista endalaust meira úr. 

Ragnheiður Elín Árnadóttir er iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Því blasir við að aukin þátttaka í því sem kallast almennt alþjóðageirinn – sala á vöru og þjónustu til annarra landa – verður að aukast. Breyta verður íslensku hugviti í vörur sem hægt er að selja. Og á margan hátt gengur þróun þessa geira vel. Íslenskir listamenn hafa til að mynda náð ótrúlegum árangri og endurgreiðslur til kvikmyndagerðar hérlendis hafa byggt upp geira sem veltir tíu milljörðum króna á ári. Össur, Marel, CCP og fleiri slík fyrirtæki eru öll enn með einhverja starfsemi á Íslandi. En hún er því miður alltaf að verða meira og meira til málamynda.

Allir virðast taka undir þörfina á að bæta starfsumhverfi slíkra fyrirtækja hérlendis í orði en ekki á borði. Að mikilvægt sé að halda sem stærstum hluta af starfsemi þeirra á Íslandi í stað þess að rannsóknar- og þróunarhlutinn byggist upp í öðrum löndum þar sem hvatarnir eru mun fleiri. En ef allir vita þetta, af hverju er þá ekkert gert?

Pétur segir þetta mjög einfaldlega vera pólitíska spurningu. „Þetta byrjar og endar þar. Ég held að þetta sé tvíþætt. Að einhverju leyti er þetta skortur á því að menn setjist niður og reikni dæmið til enda. Á þeim endanum hefur gætt misskilnings á því að endurgreiðsla á rannsóknum og þróun sé styrkjakerfi. Þetta sé sértæk leið til að styrkja ákveðin atvinnuveg og menn hafa frekar viljað setja í gang almennar leiðir í skattakerfinu, en ekki sértækar aðgerðir sem gagnast fáum. En á sama tíma séu menn ekki að skoða hvert verkefni fyrir sig og hverja aðgerð fyrir sig.“

Þetta segir hann einfaldlega vera misskilning sem auðvelt sé að leiðrétta ef dæmin séu reiknuð til enda. „Ef ég stofna fyrirtæki og eyði í það 200 milljónum krónum á fyrsta árinu þá skila um 100 milljónir króna sér aftur til ríkisins í formi skatttekna og tryggingagjalds. Ef helmingur þeirrar upphæðar var eyrnarmerktur rannsóknum og þróun fengi ég 20 prósent endurgreitt, eða 20 milljónir króna. Ríkið hefur því nettó hagnast um 80 milljónir króna vegna þess að ég tók ákvörðun um að byggja upp fyrirtækið hérlendis. Það væri verið að endurgreiða brot af peningum sem eru í dag ekki að skila sér til ríkissjóðs. Þetta er svokallað „win-win“.“

Á sama tíma og hugvitsiðnaðurinn glímir við skerta samkeppnishæfni tíðkast enn að veita þeim stóriðjufyrirtækjum sem horfa til þess að byggja upp verksmiðjur á Íslandi sértæka fjárfestingasamninga sem fela í sér allskyns skattaívilnanir og aðra hvata. Pétri finnst mjög gremjulegt að horfa upp á gerð slíkra samninga á sama tíma og hugvitsiðnaðinum er ekki sýndur nokkur skilningur hjá stjórnvöldum. „Það er eiginlega óskiljanlegt hvernig menn sjá hagsmunum sínum betur borgið þar en að halda þessum öflugu íslensku fyrirtækjum sem stunda umfangsmiklar rannsóknir og þróun hérlendis. Það eru svo óhemjustór tækifæri til að efla þessa starfsemi á Íslandi. Það verða samstundis til mikil jaðaráhrif innan háskólanna og þeir eflast. Þá eykst geta okkar til að fá ungt og hæfileikaríkt fólk aftur til landsins. Þá eykst framleiðni efnahagskerfisins auk þess sem fjölbreytt atvinnulíf felur í sér margskonar samfélagsleg verðmæti sem eru ekki mæld í peningum.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ríkisstjórnina ræða málin í þaula og hafa verið í meginatriðum samstíga um aðgerðir í faraldrinum hingað til.
Stjórnmálin falli ekki í þá freistni að gera sóttvarnir að „pólitísku bitbeini“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir samstöðu í ríkisstjórn um þær hertu aðgerðir sem tóku gildi í dag. Hún segist vilja forðast að sóttvarnir verði að pólitísku bitbeini fyrir kosningar og telur að það muni reyna á stjórnmálin á næstu vikum.
Kjarninn 25. júlí 2021
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ferðamenn við Skógafoss.
Lágur smitfjöldi talinn mikilvægur fyrir heilsu og hagsmuni ferðaþjónustu
Ótti við að lenda á rauðum listum sóttvarnayfirvalda í Evrópu og Bandaríkjunum var tekinn inn í heildarhagsmunamat ríkisstjórnarinnar varðandi nýjar sóttvarnaráðstafanir innanlands. Á morgun verður mannlífið heft á ný vegna veirunnar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira úr sama flokkiViðtal
None